mánudagur, 30. apríl 2007

Minningar & músík III

Laugardaginn 22. október, 2005 - Menningarblað/Lesbók


Ískrossinn sjaldséði
Poppklassík Eftir Svan Má Snorrason sms@utopia.is


Fyrir mörgum árum, þegar ég var ungur drengur með mikla tónlistardellu (sem er ekkert í rénum), fékk ég að hirða nokkrar gamlar íslenskar plötur sem henda átti. Geisladiskarnir voru þá komnir langt með að útrýma hljómplötunum þótt það hafi sem betur fer aldrei alveg gerst. Tvær af þessum plötum vöktu mestan áhuga minn, Speglun með hljómsveitinni Eik og svo platan Icecross, samnefnd hljómsveitinni. Umslögin á þessum plötum fannst mér ferlega flott og þá sérstaklega Icecross og dæmi nú hver fyrir sig á myndinni af plötuumslaginu við þessa grein.

En skoðum aðeins uppruna og endi Icecross en um hljómsveitina segir í bókinni Rokksaga Íslands eftir Gest Guðmundsson sem kom út árið 1990:

"Þessi fyrri útgáfa [hljómsveitarinnar] Rifsberja leystist upp um áramótin 1971 til 1972 þegar þeir Axel Einarsson úr Tilveru og Ómar Óskarsson úr Pops tældu Ásgeir Óskarsson til að stofna með sér hljómsveitina Icecross. Icecross spilaði einungis frumsamda tónlist þeirra Axels og Ómars og var umvafin drungalegri dulspeki, en engu að síður eftirsótt á dansleikjum. Metnaður þeirra þremenninga var mikill og þeir héldu til Danmerkur í leit að heimsfrægð. Þeir fengu að vísu að spila á hinum virta stað Revolution en það varð bið á heimsfrægðinni og á meðan höfðu þeir vart í sig og á. Við þetta mótlæti leystist hópurinn upp, en náði þó áður að hljóðrita stóra plötu samnefnda hljómsveitinni og er hún athyglisverður vitnisburður um þá þyngslalegu blindgötu sem framsækin tónlist var að hafna í um þær mundir." (133-4).

Þessi eina plata Icecross hefur fengið á sig goðsagnakenndan blæ þótt fæstir hafi heyrt mikið af sjálfri tónlistinni. Staðreyndin er sú að fá eintök komust í umferð og hefur platan lengi verið ófáanleg og plötusafnarar sitja um upprunalegt eintak og fæst víst ágætt verð fyrir.

Það er hins vegar gaman að hlusta á þessa plötu og heyra hvað menn voru að pæla á þessum tíma. Hljómsveitir eins og Icecross, Eik og Náttúra voru í þungum pælingum og á stundum sýrukenndum og hér er ekki á ferð eitthvert íslenskt sveitaballaléttmeti. Drungi er einkennandi fyrir plötu Icecross og umslagið eitt og sér gefur það greinilega til kynna. Nafn sumra laga á plötunni gefa einnig til kynna drunga og myrkur, nöfn eins og Scared, Nightmare og A Sad Mans Story. Textarnir eru torræðir en alveg þess virði að fara í gegnum.

Hljóðfæraleikurinn er pottþéttur og það var gott að þessi plata leit dagsins ljós en á þessum tíma var það ekki einfalt mál fyrir hljómsveitir, hversu góðar sem þær voru, að fá og ná að taka upp plötu, eins og raunin er í dag. Það kostaði óhemjupening ef vel átti að vera enda þurfti að fara til útlanda og ég held að flestir ungir tónlistarmenn í dag átti sig ekki á því hvað þeir hafa það gott miðað við þessa karla í gamla daga sem lögðu allt sitt í þetta og sultu jafnvel heilu hungri í útlöndum við upptökur sem síðan skiluðu litlu í kassann. En sem betur fer þraukuðu nokkrir og þar á meðal liðsmenn Icecross og þeirra eina plata er góður minnisvarði um þunga íslenska rokktónlist í byrjun áttunda áratugarins.

1 ummæli:

Svanur Már Snorrason sagði...

Það er auðvitað alveg glatað að hafa svona litla mynd af plötuumslaginu en þó betra en ekkert. Fann ekki stærri mynd.