fimmtudagur, 12. apríl 2007

Minningar & músík II

Ultravox-aðdáendur sameinist!

Laugardaginn 17. september, 2005 - Menningarblað/Lesbók

Hljómsveit sem ekki má gleymast

Poppklassík eftir Svan Má Snorrason svanur@mbl.is (æi bara)

Árið 1982 gaf breska hljómsveitin Ultravox út breiðskífuna Quartet og það var ekki ófrægari maður en George Martin sem var við stjórnvölinn í stúdíóinu. Það þarf ekki að kynna George Martin, upptökustjóra hinna einu sönnu Bítla, en Ultravox þarfnast ef til vill einhverrar kynningar áður en haldið er í umfjöllun um Quartet.

Ultravox var stofnuð árið 1973, hét reyndar Tiger Lily fyrstu þrjú árin, en svo var nafninu breytt. Upphaflegir meðlimir hljómsveitarinnar voru þeir Dennis Leigh söngvari, sem stuttu seinna breytti nafni sínu í John Foxx, Steve Shears gítarleikari, Billy Currie hljómsborðs- og fiðluleikari, Chris Cross bassaleikari og trommuleikarinn Warren Cann. Árið 1977 fékk hljómsveitin plötusamning og fram til ársins 1979 gaf hún út þrjár breiðskífur. Sú fyrsta var samnefnd hljómsveitinni og kom út í ársbyrjun 1977, Ha!-Ha!-Ha! kom út síðar á árinu og Systems of Romance kom út árið 1978. Þær fengu ekki ýkja mikla athygli og John Foxx yfirgaf sveitina árið 1979. Á þessum þremur breiðskífum var hljómsveitin mest undir áhrifum frá David Bowie og Roxy Music. Stuttu eftir brotthvarf Foxx gekk söngvarinn, lagasmiðurinn og gítarleikarinn Midge Ure í hljómsveitina og þá fóru hlutirnir að gerast fyrir alvöru - nýrómantíkin tók við en þó í bland við það sem áður var.

Árið 1980 kom breiðskífan Vienna út og hlaut hún mikla athygli og góða dóma gagnrýnenda. Ári eftir kom út breiðskífan Rage In Eden og naut þónokkurra vinsælda. 1982 kom svo Quartet út, 1984 Lament og 1986 U-Vox, en eftir það má segja að hljómsveitin hafi ekki borið sitt barr. Midge Ure yfirgaf sveitina stuttu seinna og hugði að eigin sólóferli. Ultravox var reyndar ekki lögð niður því Billy Currie hélt úti hljómsveit með þessu nafni eftir miklar deilur um það sem enduðu fyrir dómstólum. Árið 1993 kom breiðskífan Revelation út og þremur árum síðar Ingenuity, sem var svanasöngurinn.

Þá að plötunni sem hér er til umfjöllunar - Quartet. Hún var vinsælasta plata Ultravox og sú eina sem seldist eitthvað að ráði í Bandaríkjunum. Quartet er stútfull af frábærum lögum og í raun er hér um að ræða hálfgerða "best of"-plötu, því þarna er að finna mörg af vinsælustu lögum sveitarinnar. Ef skilgreina á þessa plötu þá er hægt að segja að hér sé á ferð afar grípandi elektrónískt popp með frábærum gítar-, bassa- og trommuleik. Allt fellur saman og með aðstoð George Martin er hljómurinn frábær og útsetningarnar sömuleiðis. Allt ber að sama brunni; frábær lagasmíði, ágætir textar, hljóðfæraleikur sem er síður en svo dauðhreinsaður því mikill kraftur er einkennandi og ekkert niðursuðuhljóð sem svo oft einkenndi hljómsveitir á þessum tíma sem notuðust mikið við hljóðgervla. Þarna var líka toppnum náð og það sem á eftir fylgdi stóðst engan veginn samanburð við Quartet, þótt vissulega sé góða spretti að finna á Lament.

Eftir komu Midge Ure var Ultravox mjög meðvituð um vægi tónlistarmyndbanda og yfirleitt voru þau góð og vel gerð. Sérstaklega ber að nefna myndbandið við lagið Vienna, sem á sínum tíma var brautryðjendaverk - ótrúlega vandað og vel sviðsett, leikmynd og búningar eins og í dýrustu kvikmynd, leikstjórn og myndræn framsetning í hæsta gæðaflokki og svo var það tekið á 35 mm filmu.

Ultravox er hljómsveit sem ekki má gleymast því hún hafði svo margt til brunns að bera og hafði mikil áhrif, bæði á samtímann og svo þá sem fylgdu á eftir; poppklassík eins og hún gerist best.

Engin ummæli: