þriðjudagur, 17. apríl 2007

KR og aftur KR í kvöld og titillinn er þeirra

Enn að jafna mig eftir rosalegan leik KR og Njarðvík í lokaúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta. KR vann eftir framlengdan leik, jöfnuðu metin þegar þrír fjórðu úr sekúndu voru eftir af venjulegum leiktíma eftir að Njarðvík hafði haft yfirhöndina nánast allan leikinn.

Framlengingin var síðan nánast eign KR þótt þeir gerðu sér reyndar alltof erfitt fyrir í allt að því unninni stöðu. Njarðvíkingar fengu tækifæri á að jafna en neyddust til að taka erfitt skot í blálokin sem misfórst og allt varð vitlaust í DHL-Höllinni. Verðskuldaður sigur KR staðreynd (segi ég því ég hélt með þeim!) en tæpur var hann. Íslandsmeistaratitillinn því í herbúðum KR næsta árið og er þetta í fyrsta sinn sem félagið hampar honum síðan árið 2000.

Þessi úrslitakeppni öll í körfunni þetta tímabilið er búin að vera frábær - bæði hjá strákunum og stelpunum og greinilegt að körfuboltinn er með vindinn í seglin þessi misserin og vonandi heldur þessi uppsveifla áfram á næsta tímabili.

Ég og KR!


En af hverju ég og KR? Gaflari (Hafnfirðingur fyrir þá sem ekki vita hvað Gaflari er!) í húð og hár, stuðningsmaður FH, eina félagsins sem ég hef æft með og keppt fyrir.
Jú, fyrrum mágur minn er einn besti körfuboltamður okkar Íslendinga fyrr og síðar, Jón Sigurðsson, og hann lék lengstum með KR á sínum ferli. Hóf ferilinn vissulega hjá Ármenningum og varð með þeim Íslands- og bikarmeistari árið 1976 og bikarmeistari árið áður. Ég leit upp til Jóns (og geri það enn) og fékk sem smá polli að fara á leiki, fyrst með Ármann en síðan KR en Jón skipti yfir í KR eftir tímabilið 1977 - en þá hvarf nánast allt Ármannsliðið á braut og hefur körfuboltadeild þess félags aldrei borið sitt barr eftir það.

Á næstu árum unnust glæstir sigrar hjá KR, Íslandsmeistarar 1978, Íslands- og bikarmeistarar 1979, og Jón var klárlega besti körfuboltamaður landsins og var reyndar búinn að vera það um alllangt skeið. Ég var á einhverjum þessa leikja, mjög líklega öðrum hvorum úrslitaleiknum árin 1978, gegn Njarðvík, og 1979, gegn Val. Kannski báðum. Þannig var það nú þegar maður er fimm, sex, sjö eða átta ára og fór á körfubolta- eða handboltaleik, að þá var margt annað í íþróttahúsinu en sjálfur leikurinn sem í gangi var sem heillaði, jafnvel þótt titill væri undir. Börnum finnst yfirleitt ekki gaman að sitja kyrr nema í stuttan tíma.

Hins vegar man ég vel eftir bikarúrslitaleiknum árið 1984, en þá vann KR mjög öruggan og sanngjarnan sigur á sterkum Valsmönnum, sem voru fyrirfram álitnir sigurstranglegri. Annað kom á daginn.

Árið eftir sá ég Hauka taka sinn fyrsta stóra titil með naumun sigri á KR í hreint frábærum leik. Jón hætti og við tóku ungu strákarnir hans, en kappinn tók við þjálfun KR og skilaði það sér í leikmönnum eins og Páli Kolbeinssyni, Birgi Mikaelssyni, Guðna Guðnasyni, Matthíasi Einarssyni og fleirum. Birgir og Páll voru í bikarliði KR árið 1984.

Uppbyggingin tók smá tíma en þessir strákar skiluðu einum Íslandsmeistaratitli, árið 1990 og það sama ár varð liðið líka deildarmeistari. Árið eftir kom bikarinn í hús. Ég man vel eftir lokaeinvíginu á móti Keflavík árið 1990: KR - Keflavík 3:0. Ekki leiðinlegt og virkilega sanngjarnt enda KR-liðið frábært.

Bikarúslitaleikurinn árið 1991 var einnig frábær þar sem KR-ingar keyrðu hreinlega yfir Keflvíkinga í byrjun og voru nú Keflvíkingar ekki beint með hæga leikmenn innanborðs á þessum tíma.

Á þessum tímapunkti hélt maður að KR yrði aftur stórveldi í körfunni hérna heima - tæki titla reglulega og færi í þennan pakka sem svo einkennandi hefur verið fyrir Njarðvíkinga. En það tókst ekki og framundan voru nokkur frekar mögur ár, oft var KR með fínan mannskap, vissulega, en neistann vantaði.

Það var svo á miðju tímabilinu 1997-8 að Jón nokkur Sigurðsson var fenginn til að leysa Hrannar Hólm af sem þjálfara KR, sem sat þá í fallsæti, og hafði ekkert gengið. Jón reif mannskapinn upp á rassgatinu og hver sigurinn á fætur öðrum leit dagsins ljós. Að lokum endaði liðið mjög nálægt toppi deildarinnar og gerði sér svo lítið fyrir og fór alla leið í lokaúrslitin og mætti þar Njarðvík. En þar endaði ævintýrið, í bili. Njarðvík vann alla þrjá leikina og voru þeir með innanborðs einn þann svaðalegasta erlenda leikmann sem hér hefur spilað - Petey Sessoms.

En tveimur árum síðar varð KR meistari, eftir sigur á Grindavík, 3:1. Þá hélt maður aftur að gullöld væri komin til að vera í einhvern tíma en svo reyndist ekki. Ágætur árangur náðist á tveimur næstu tímabilum en enginn titill. Síðan hafa verið frekar mikil vonbrigði með KR í körfunni.

Þangað til núna að allt gekk upp, allir sprungu út, ekkert var ómögulegt, allt var hægt, baráttan varð áhugamál, stemning trúarbrögð og góður andi og sigurvilji það sem þetta allt gekk út á. Þannig verða menn Íslandsmeistarar og þannig urðu KR-ingar Íslandsmeistarar í kvöld. Til hamingju KR - þetta var verðskuldað. Svo er bara að fylgja þessu eftir og bæta þeim ellefta við næsta vor.

Að lokum er ekki annað hægt en að minnast á stemninguna í DHL-Höllinni - hún var rosaleg, einu orði sagt. Ungir strákar hafa myndað gífurlega öfluga stuðningsmannasveit sem söng og trallaði allan leikinn, hvort sem illa eða vel gekk; það lagði enginn árar í bát og þessi stuðningur skilaði leikmönnum KR án alls vafa mjög miklu þegar í sjálfan leikinn var komið. Hitasvækjan var mikil og ég hef aðeins fundið fyrir slíkum hita og stemningu í gamla íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði í þá gömlu góðu. Þá var húsið svo troðfullt að það hálfa hefði verið miklu meira en nóg. Hitinn svo mikill að gufusjóða hefði mátt ýsu með kartöflum og grænmeti - en svitafýlan kom hins vegar í veg fyrir að matarlystin væri mikil. Þetta var á þeim árum þegar handboltalið FH var að rúlla upp ein hverjum liðum, landa titlum og fara langt í Evrópukeppnum - en það er önnur saga.

Engin ummæli: