fimmtudagur, 31. mars 2011

VINUR Í RAUN


Að vera vinur í raun er ekki klisja, heldur er vinátta eitt það dýrmætasta sem einstaklingur getur öðlast; sönn vinátta annars eða annarra fylgir manni í gegnum allt lífið og gæðir það meiri dýpt og tilgangi.

Það er ekki hægt að kaupa sanna vináttu, sama hversu mikið fé er í boði – það vita allir sem hafa kynnst sannri vináttu.

Og vináttan er dýrmætust þegar erfiðleikar steðja að, hvort sem um ræðir á barnsaldri, unglingsaldri eða á fullorðinsárum. Og þá skiptir ekki máli hver vandinn er; sannur vinur yfirgefur ekki vin sinn í raun – svoleiðis gera sannir vinir bara alls ekki.

Erfiðleikarnir sem ég minntist á eru prófsteinn sannrar, raunverulegrar vináttu. Þegar eitthvað bjátar á kemur í ljós hver er sannur vinur í raun og hver ekki – það hef ég í það minnsta reynt og margir aðrir sem ég þekki vel. Sumir átta sig nefnilega ekki á því að það er mikill munur á sannri vináttu og kunningsskap, sem er alls ekkert slæmur, en einfaldlega langt frá því að vera alvöruvinátta. Hins vegar getur kunningsskapur snúist upp í sanna vináttu, sem betur fer. Og vinátta getur líka, því miður, eyðilagst af ýmsum völdum.

En ég segi hiklaust: Aldrei að afskrifa vin þinn. Vinir rífast og slást, talast ekki við í langan tíma og hugsa oft hvor öðrum þegjandi þörfina. Svo líður tíminn og þoka gleymskunnar færist yfir og afmáir deilumálin sem voru í raun aldrei neitt neitt. Svo næst þegar vinirnir sem voru að rífast hittast eftir langan tíma er eins og ekkert hafi ískorist og tíminn staðið kyrr; andartakið verður nútíð, framtíð og fortíð í einni svipan.

Vinátta er djúp og kemst aldrei í tísku og fer heldur aldrei úr tísku. Vinátta er.

Vinir hvorki velja hvor annan né yfirgefa hvor annan; djúp vinátta er tengsl sem verða ekki rofin, og gera lífið skemmtilegra, eins og við hér á Séð og Heyrt kappkostum að gera nú sem aldrei fyrr.

Svanur Már Snorrason

(Leiðari Séð og Heyrt, 44. tbl., 28. október 2010)

miðvikudagur, 23. mars 2011

ER BOB DYLAN EINHVERFUR?


Las viðtal við leikstjórann Friðrik Þór Friðriksson, sem slegið hefur í gegn á nýjan leik hérlendis sem erlendis með kvikmyndinni Mömmu Gógó og heimildarmyndinni Sólskinsdrengnum, þar sem umfjöllunarefnið er einhverfa.

Í áðurnefndu viðtali vill Friðrik Þór meina að mesti skákmaður allra tíma, ásamt Garry Kasparov, Bobby Fischer, hafi verið einhverfur. Hann nefndi einnig tónlistarmanninn Bob Dylan; að ýmislegt í fari hans bendi til einhverfu.

Hvað ætli hefði gerst hefðu þessir tveir risar á sínu sviði fengið greiningu og meðferð á ungaaldri? Hvernig persónuleikar hefðu þeir orðið? Gaman að velta því fyrir sér.

Ekki misskilja mig, framfarir í læknavísindum eru hið besta mál, en það er mitt mat að við eigum að fara varlega í greiningum á ungum börnum og leyfa persónuleikum þeirra að þróast og þroskast þótt þeir séu kannski aðeins öðruvísi eða sérstakari en þeir sem normin best fylla. Við eigum að hugsa málið vandlega áður en börn eru sett á lyf.

Það er ánægjulegt að fylgjast með sögunni af drengnum í heimildarmynd Friðriks Þórs – hvernig hann tekur framförum, og frábært að þeir sem eru virkilega mjög einhverfir, en eru ekki einungis með einkenni einhverfu, fái þá hjálp sem þeir eiga skilið og auðgar líf þeirra.

En ekki hefði ég viljað að Bob Dylan hefði verið öðruvísi en hann er. Þá væru kannski lög eins og Stuck Inside of Mobile with the Memphis Blues Again, Jokerman og Lay Lady Lay ekki til. Og þó að ég ætli frænda mínum, Kjartani Sveinssyni, og félögum hans í Sigur Rós ekki einhverfu, er þó margt galnara en að þeir séu með snert af henni; í það minnsta er eitthvað öðruvísi við þá hljómsveit en nokkra aðra í alheimi, sem hefur gert það að verkum að þeir hafa búið til alla þá dásamlegu tóna sem þeir hafa gert. Og þannig, eins og Bobby Fischer og Bob Dylan, gert með sköpun sinni lífið skemmtilegra.

Svanur Már Snorrason

(Leiðari Séð og Heyrt, 43. tbl., 21. október 2010)

sunnudagur, 20. mars 2011

BRÉF TIL LEIKARA


Fyrir ellefu árum var ég á leið heim til mín eftir ljúfan kvöldverð á veitingastað í miðbænum með konu minni sem þá var ófrísk að okkar fyrsta barni.

Þetta var vetrarkvöld, dimmt og kalt úti, snjókoma, rok og hálka.

Allt í einu stöðvast bíllinn okkar við umferðarljós á Hverfisgötunni og hann vill alls ekki fara í gang á nýjan leik, enda orðinn lúinn eftir langa ferð.

Út úr bílnum fyrir aftan okkur stekkur maður - ljúfmennskan uppmáluð og býður fram aðstoð sína; hjálpar mér að ýta sofandi bílnum upp á gangstéttina og spyr hvort við séum með síma, annars geti hann lánað okkur sinn. Þessi maður er landsfrægur leikari og er þarna eflaust að koma beint af sýningu í leikhúsinu neðar í götunni.

Ég segi honum að við séum bæði með síma og þakka honum kærlega fyrir aðstoðina, hún sé vel þegin.

Ég og konan mín hinkrum stutta stund í bílnum áður en leigubíllinn sem við hringjum á kemur og sækir okkur. Tölum um hvað fólk sé misjafnlega hjálpsamt og hvað maður sé alltaf þakklátur fyrir veitta aðstoð í erfiðum aðstæðum. Að fleiri mættu nú vera eins og þessi ljúfi leikari.

Mörgum árum síðar lágu leiðir mínar og þessa leikara saman en þá á allt annan hátt, á allt öðrum forsendum. Hann enn þá leikari en ég í hlutverki blaðamanns. Flest sem tengdist því máli var umdeilt, svo ekki sé meira sagt.

Þá gleymdi ég að þakka honum fyrir hjálpina ellefu árum áður, mundi það ekki fyrr en nú.

Allir geta gert mistök; lífið er fullt af þeim. Það er ekkert að því að viðurkenna þau og biðjast afsökunar; ég veit það nú.

Og oft má satt kyrrt liggja.

Svanur Már Snorrason

(Leiðari Séð og Heyrt, 42. tbl., 14. október 2010)

föstudagur, 18. mars 2011

KRAFTUR ALMENNINGS


Það var mögnuð tilfinning að ganga um Austurvöll á mánudagskvöldið, þegar Jóhanna Sigurðardóttir flutti stefnuræðu sína, og skynja og bókstaflega sjá þunga undiröldu almennings í landinu brjótast upp á yfirborðið í annað sinn á tæpum tveimur árum.

Í Búsáhaldabyltingunni var markmiðið að koma ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá, og það tókst á skömmum tíma.

Við tóku Vinstri-grænir og höfðu með sér Samfylkinguna og sú ríkisstjórn hefur haft eitt og hálft ár til að taka rækilega til hendinni. Mótmælin á mánudagskvöldið segja með áþreifanlegum hætti að sú tiltekt hafi ekki tekist sem skyldi, og reyndar langt frá því, og almenningur vill breytingar; núverandi stjórn burt og að öll áhersla verði lögð á að hjálpa almenningi en ekki bönkunum og öðrum lánastofnunum.

Og er það líka eðlileg krafa – hin svokallaða skjaldborg sem slá átti um heimilin er hvergi sjáanleg og hefur aldrei verið sjáanleg. Frekar mætti tala um verndun lánastofnana, jafnvel friðun. Og það er einfaldlega eitthvað mikið rangt við það.

Þegar núverandi ríkisstjórn fer frá og ný tekur við völdum verða vonandi sömu leikendurnir og voru á stóra sviðinu á Alþingi fyrir hrun á bak og burt. Fólk með spillingarstimpil úr viðskiptalífinu á ekki að koma nálægt stjórn landsins frekar en þeir sem voru í ríkisstjórn fyrir hrun. Það er eðlileg og skýlaus krafa og í takt við það sem maður skynjaði í mótmælunum á Austurvelli þetta fallega mánudagskvöld.

Þegar fólkið í landinu rís upp getur engin ríkisstjórn haldið því niðri. Kraftur almennings er töfrum líkastur, loksins þegar hann spyrnir við fótum og þá fara stjórnmálamennirnir fyrst að hlusta og gera lífið aðeins betra og skemmtilegra, eins og við á Séð og Heyrt leggjum svo mikla áherslu á.

Svanur Már Snorrason

(Leiðari Séð og Heyrt, 41. tbl., 7. október 2010)

mánudagur, 14. mars 2011

Maðurinn á bak við byltinguna: Samuel Phelps og byltingin á Íslandi 1809

Inngangur
Í þessari ritgerð er ætlunin að skoða nokkra þætti byltingar Jörundar hundadagakonungs sem hann og liðsmenn hans gerðu hér á landi sumarið 1809, aðdraganda hennar og aðstæður í Evrópu á þessum tíma sem urðu þess valdandi að Jörundur náði völdum um sinn. Ekki verður fjallað beint um byltinguna eða framkvæmd hennar, heldur skoðaður aðallega þáttur Samuels Phelps sápukaupmanns. Hann virðist hafa átt meiri þátt í byltingunni en flestir gera sér grein fyrir. Þótt oft hefði ég heyrt um Jörund talað og atburðina hér á landi í kringum hann þá hafði ég aldrei heyrt minnst á Samuel Phelps hvað þá heldur að hann hefði átt stóran þátt í atburðunum. En eftir lestur heimilda kom í ljós að Samuel Phelps var í raun aðalmaðurinn á bak við allt bramboltið. Að vísu var það í gegnum Jörund sem Phelps og hans fyrirtæki fréttu af miklum tólgarbirgðum á Íslandi, og tók hann þá ákvörðun um að leggja í verslunarferð til Íslands, og það var hann sem bar hitann og þungann af því ævintýri sem hún olli. Þótt byltingin sé kennd við Jörund voru það hagsmunir Phelps og fyrirtækis hans sem komu henni af stað. Út frá þessum upplýsingum er ætlunin að skoða þátt hans nánar, þá verður einnig sagt aðeins frá þeim ástæðum sem urðu þess valdandi að Jörundur kom inn í málið, og lítillega greint frá afdrifum þeirra Phelps.

Ástandið í Evrópu
Á síðasta fjórðungi 18. aldar og allt til ársins 1814, þegar styrjöldum Napóleons lauk, má kalla að í Evrópu hafi geisað stríð. Upphafið að þessum átökum má rekja til þátttöku Frakka, árið 1778, til stuðnings frelsisbaráttu Bandaríkjanna, en sú barátta var háð við Englendinga og lauk með ósigri þeirra.
Í þessum styrjöldum voru það einkum Englendingar og Frakkar sem bárust á banaspjót, en þó var það svo að áður en hildarleiknum lauk, má segja að flestar ef ekki allar álfunnar hafi á einn eða annan hátt tekið þátt í þessum styrjöldum. Þar sem þessi átök Breta og Frakka snerust mikið um verslun og siglingar komu þau óhjákvæmilega illa við kaunin á mörgum þjóðum, en að sjálfsögðu verst við eyþjóðir eins og Íslendinga sem byggðu mikinn hluta afkomu sinnar á verslun við meginlandið, einkum þó við Dani. Danir reyndu eins og þeir gátu að halda sér utan við ófriðinn, enda reyndist það svo af ýmsum ástæðum að stríðsreksturinn hafði örvandi áhrif á verslun þeirra þjóða sem tókst að halda sér hlutlausum. 1)
Af ýmsum ástæðum, er hér verða ekki raktar, reyndist Dönum ógjörningur að halda hlutleysi sínu í átökum þessara stóru og voldugu þjóða og árið 1807 gengu þeir til liðs við Frakka. Þar sem Bretar voru mikið sjóveldi gátu þeir haldið uppi öflugu hafnbanni gagnvart Frökkum og bandamönnum þeirra.
Hafnbannið gerði það að verkum að Danir gátu hvorki haft mikið stjórnmálalegt samband við skattlöndin sín þrjú í Atlantshafi, Ísland, Grænland og Færeyjar, hvað þá heldur haldið uppi verslun við þau svo nokkru næmi. 2)

Íslensk kaupför hertekin
Þar sem samgöngur milli landa voru strjálar og erfiðar á þessum tímum þá bárust fregnir um stríðsatburði ekki til Íslands fyrr en löngu eftir að atburðirnir áttu sér stað. Um haustið 1807 sigldu kaupmenn héðan til Danmerkur, eins og venja var, grunlausir um ófriðinn milli Dana og Englendinga. 3) Afleiðingin varð sú að Englendingar hertóku átján kaupskip frá Íslandi, en það var um það bil tæpur helmingur þeirra skipa sem sigldu til Íslands árið 1807. 4)
Meðal þessarra skipa var, De to söstre, sem var í eigu Bjarna riddara Sívertsen. Skipið var fært til hafnar í Leith í Skotlandi. Með í för á því skipi var Magnús Stephensen háyfirdómari, en Englendingar leyfðu honum að halda för sinni áfram til Kaupmannahafnar. Þegar Magnús kom þangað skrifaði hann bréf til Sir Josephs Banks og bað hann um að koma Íslendingum til aðstoðar því að hungursneyð væri yfirvofandi ef landið fengi engan aðflutning. Jafnframt bað hann Banks um að hlutast til um að skipin yrðu sem fyrst leyst úr haldi og að Ísland yrði undanþegið hafnbanninu. 5) Sir Joseph Banks var á þessum tíma einn af nafnkenndustu mönnum bresku krúnunnar og átti meðal annars sæti í verslunarstjórnarráði Breta. Aukinheldur var hann mikill vinur Íslendinga og var vinátta hans í garð lands og þjóðar afleiðing af ferð hans til Íslands árið 1772. Í þeirri ferð urðu þeir miklir vinir hann og Ólafur Stephensen, faðir Magnúsar, og hélst sú vinátta meðan báðir lifðu. 6)
Banks tók bón Magnúsar mjög vel og það var fyrir milligöngu hans sem nokkrir Íslandskaupmenn, sem verið höfðu um borð í herteknu kaupskipunum, fengu leyfi til að fara til London og flytja mál sitt fyrir bresku ríkisstjórninni og beiðast þess að fá skip sín laus úr haldi.
Þessi málaumleitan bar tilætlaðan árangur og skipunum var sleppt í júní 1808, þó með því skilyrði að eigendur þeirra keyptu bresk leyfisbréf er heimiluðu þeim kaupsiglingar milli Danmerkur og Íslands með viðkomu í breskum höfnum. Þrátt fyrir þetta varð sú reyndin að ekkert kaupskip sigldi til Íslands sumarið 1808 og aðeins eitt um haustið. Segir þetta meira en mörg orð um þá erfiðleika sem fólust í því að halda uppi verslun við Ísland á þessum tíma. 7)

Jörundur og Phelps koma til sögunnar
Það var svo í byrjun vetrar 1808-9 að Bjarni Sívertsen hitti í London danskan mann að nafni Jörgen Jörgensen, seinna betur þekktan sem Jörund hundadagakonung. Hafði Jörgensen verið skipstjóri á dönsku víkingaskipi (Privateer), sem Bretar höfðu hertekið og því var hann, þegar þeir hittust, breskur stríðsfangi, en fékk að ganga laus gegn drengskaparheiti um að yfirgefa ekki England. Bjarni sagði Jörgensen frá því að mikið feitmeti væri til á Íslandi sem landsmenn væru fúsir að selja í skiptum fyrir annan varning og virðast þessi tíðindi jafa vakið eftirtekt og áhuga hans, enda varð þessi tólgarfrétt kveikjan að Íslandsferð Jörgensen og upphaf þeirra frægu atburða sem í kjölfarið sigldu.
Tólgarbirgðir Íslendinga á þessum tíma urðu sem sé upphafið að byltingunni og næsta skrefið í rás atburðanna var það að Jörgen hitti fyrir tilviljun James Savignac, sem var starfsmaður hjá sápufyrirtækinu Phelps, Troward og Bracebridge, en þessu fyrirtæki vantaði einmitt sárlega feiti til sápuframleiðslu. Jörgensen sagði Savignac frá miklum feitmetisbirgðum Íslendinga og að þar myndi vera gott tækifæri til verslunar því að landsmenn liðu fyrir mikinn vöruskort sem væri afleiðing af stríðsrekstrinum. 8) Verður nú afleiðing tólgarfréttarinnar sú að fyrirtækið ákveður að reyna að fá leyfi fyrir verslunarleiðangri til Íslands með tólgarkaup í huga. Einn eigenda sápufyrirtækisins, Samuel Phelps, leitaði stuðnings verslunarmálaráðuneytisins við þessa hugmynd og ennfremur ræddi hann málið við Sir Joseph Banks og falaðist eftir stuðningi hans, en Banks var meðlimur í trúnaðaráði konungs og að auki mikill áhugamaður og sérfræðingur um málefni Íslands, eins og áður er fram komið. Stuðningur þessi var auðfenginn því Bretum var mikið í mun að finna nýja markaði vegna hafnbanns Napóleons.

Bretar samþykkja verslun
Það var svo þann 29. nóvember 1808 sem leyfisbréf trúnaðaráðsins var afhent fyrirtækinu Phelps, Troward og Bracebridge. Í bréfinu er þeim félögum leyft að sigla einu skipi til Íslands í þeim tilgangi að versla við landsmenn. Jörgensen var ráðinn fararstjóri fyrir tilstuðlan Banks og Savignac var með í för sem verslunarfulltrúi Phelps. 9) Þeir Banks og Jörgensen höfðu kynnst árið 1806 vegna sameiginlegs áhuga á Suðurhafseyjum enda höfðu þeir báðir komið þangað. 10)
Skip Phelps hét Clarence og komu þeir félagar Jörundur og Savignac á því til Hafnarfjarðar þann 10. janúar 1809. Koma skipsins var nýlunda á þessum árstíma, 11) en þó fremur vegna hins að verslun við ensk skip braut í bága við úrskurð sem kveðinn var upp með tilskipun frá 13. júní 1787. Í úrskurði þessum sem innleiddi fríverslunina segir meðal annars þetta: ,,Alls engin bein verslun má fara fram milli Íslands og útlanda,” það er að segja annarra en Danmerkur. 12)
Íslensk stjórnvöld voru því ekki á þeim buxunum að versla við Savignac og félaga, en þó tókst þeim að knýja fram verslunarsamning sem undirritaður var þann 19. janúar. Verslunin gekk þó ekki sérlega vel, aðallega vegna þess að kauptíðin hófst ekki fyrr en í júní, en þó leist þeim félögum vel á verslunarmöguleikana. Var því ákveðið að Jörgensen skyldi snúa aftur til Englands til að skýra frá gangi mála, en Savignac skyldi verða eftir á Íslandi til að gæta varningsins. 13) Þegar Jörgensen var búinn að skýra ytra frá aðstæðum og málavöxtum á Íslandi ákvað fyrirtæki Phelps að sækja um leyfi til að senda tvö önnur skip til Íslands næsta sumar til verslunar og var það auðsótt mál. – Og svo vel leist þeim á málið að sjálfur Samuel Phelps ákvað að veita leiðangrinum forystu
Rétt áður en skip þeirra lögðu úr höfn, eða þann 11. júní, kom herskipið Rover undir stjórn Francis John Nott til Hafnarfjarðar. Savignac hafði þegar í stað samband við Nott og rakti fyrir honum raunir sínar. Trampe greifi stiftamtmaður var nýlega kominn til Íslands eftir tveggja ára dvöl í Danmörku. Það fyrsta sem hann gerði eftir komuna hingað var að ógilda samninginn frá 19. janúar og hengja upp tilkynningu þar sem öll verslun við Englendinga er bönnuð og hver sem brjóti það boðorð skuli gjalda með lífi sínu. Þegar hér var komið hafði Trampe fest kaup á skipinu Orion í þeim tilgangi að græða á verslun við Landann og af þeirri ástæðu kærði hann sig lítið um samkeppni frá Bretum. Savignac bað Nott um hjálp breska herskipsins og á það félst Nott, enda hafði hann um það fyrirmæli að vernda Íslandsverslunina. Var nú Trampe neyddur til, í krafti hervalds, að undirrita nýjan kaupsamning sem fól í sér frjálsa verslun milli Íslands og Bretlands. Samningurinn var undirritaður 16. júní og að því loknu sigldi Nott á braut.

Phelps fremur valdarán
Skip Phelps Margaret and Ann og Flora fóru af stað frá Englandi í byrjun júní. Phelps hafði útvegað fyrrnefnda skipinu víkingaleyfi, 14) sem þýddi að það mætti berjast við óvinaskip og ætti rétt á launum ef það sigraði. 15)
Þann 21. júní kom Margaret and Ann til Reykjavíkur og þá var ennþá uppi tilkynning Trampes um verslunarbann við Breta að viðlagðri dauðarefsingu, en samningurinn sem hann hafði gert við Nott var hvergi sjáanlegur.
Liðu nú fjórir dagar og enn var auglýsingin um samninginn óbirt og ekkert benti til þess að það myndi gerast. Kauptíðin var hafin, en enginn þorði að versla við Phelps og félaga, enda voru menn að sjálfsögðu hræddir við danska yfirvaldið. Af þessu hlutu Phelps og félagar að álykta að Trampe ætlaði sér alls ekki að standa við samninginn. Málið sneri því þannig við þeim Phelps og félögum að Íslendingar þyrðu ekki að versla við þá og þar að auki lá farmur Clarence óhreyfður í vöruhúsi í Reykjavík, en Flora rétt ókomin til landsins með fullan farm. Mátti nú Phelps ekki til þess hugsa að snúa heim tómhentur, enda skiljanlegt eins og í pottinn var búið. Í þessu örlagaríka máli stóðu öll spjót á honum: það er hann sem stendu fyrir leiðangrinum, það er hann sem er hæstráðandi og það er hann sem hefur lagt mest undir varðandi þessa verslun. Nú var Nott sjóliðsforingi fjarstaddur og miðað við aðstæður, samkvæmt öllu ofantöldu, var ekki um annað að velja en að knýja Trampe á einhvern hátt til að leyfa frjálsa verslun.
Þótt Trampe hefði gert samninginn nauðugur gat það ekki talist annað en samningsbrot, frá sjónarmiði Phelps, að hann sat á samningnum og birti hann ekki almenningi. Í þessari kreppu sá Phelps sitt óvænna og því lét hann til skarar skríða 25. Júní 1809. Þann dag fóru kaupmennirnir, ásamt nokkrum sjómönnum, vopnaðir sverðum, til heimilis Trampe og handtóku hann og leiddu í allra augsýn til skips. Íslendingar hreyfðu hvorki legg né lið honum til varnar. Því næst voru þau boð látin út ganga að verslun Íslendinga væri frjáls samkvæmt samningi Notts og Trampe.
Þetta bar tilætlaðan árangur því að eftir þessa atburði gekk verslunin eins og í sögu.
Af framansögðu er ljóst að Phelps var maðurinn á bak við valdaránið, en hann vissi að breskum þegnum var ekki heimilt að setja á stofn stjórn í erlendu ríki án samþykkis breskra yfirvalda. Kom það því í hlut Jörgensens, sem ekki var breskur þegn, að fara með stjórn landsins og það var hann meira en fús til að gera. 16) En þrátt fyrir að Phelps telji sig vera í rétti með þessar gerðir sínar er hann það samt sem áður ekki að fullu því að samningurinn við Phelps var gerður í krafti hervalds og Trampe gat ekki annað en undirritað hann þótt það væri honum þvert um geð. Phelps var hér vissulega á mjög gráu svæði, hann studdi lögbrot og var hernaðarlegur bakhjarl Jörgensens, sem hafði brotið skilyrði sín sem stríðsfangi, en eins og áður hefur komið fram gekk hann laus gegn því drengskaparheiti að yfirgefa ekki England.
Bylting hafði verið gerð og Jörgensen tók við völdunum, en það var í raun sápukaupmaðurinn Samúel Phelps sem var maðurinn á bak við ævintyrið. Skortur á feitmeti og tólg var upphafið að þessu öllu, en ekki fyrirfram skipulagt ráðabrugg Jörgens Jörgensens, eins og flestir Íslendingar hafa haldið hingað til.

Jones kemur til Reykjavíkur
En Adam var ekki lengi í paradís, því þann 14. ágúst kom breska herskipið Talbot, undir stjórn Alexanders Jones, til Reykjavíkur og hafði tekið við hlutverki Rover að vernda Íslandsverslunina. Jones leist ekki alls kostar á stöðu mála, og taldi að þeir Phelps hefðu með aðgerðum sínum ekki einasta brotið bresk lög heldur einnig alþjóðalög. Taldi hann öruggt að breska stjórnin myndi ekki fallast á valdarán sápukaupmannsins og því tók hann þá ákvörðun að binda endi á það. Í kjölfarið var þeim bræðrum, Magnúsi, háyfirdómara í Landsyfirréttinum, og Stefáni Stephensen, amtmanni í Vesturamtinu, falin stjórn Íslands til bráðabirgða, en þeir bræður gengu Trampe næst að völdum og virðingu. 17)
Þann 25. ágúst héldu embættismenn í Reykjavík Jones góða veislu. Sama kvöld héldu þeir Phelps og Jörgensen á brott áleiðis til Bretlands, og var Trampe í för með þeim sem stríðsfangi. Það bar til tíðinda að eldur kom upp í skipi Phelps, Margaret and Ann, skammt undan Reykjanesi, en Jörgensen, sem var á Orion, skipi Trampe, tókst með miklu snarræði og hugdirfsku að bjarga öllum mönnum á hinu brennandi skipi og þurftu þeir að snúa aftur til Reykjavíkur. 18) Þegar þangað var komið bauð Phelps Trampe frelsi en hann vildi ekki þiggja það, því hann vildi ólmur komast til Bretlands og kæra byltinguna og láta málið koma fyrir bresku ríkisstjórnina. Tók hann sér far með breska herskipinu Talbot en Jörgensen og Phelps sigldu með Orion. Þeir komu til Englands seinni hluta septembermánaðar.

Afdrif Phelps og Jörundar
Um miðjan október var Jörgensen handtekinn og varpað í fangelsi; ástæðan fyrir handtökunni var sögð sú að hann hefði brotið drengskaparheit sitt er hann yfirgaf England og fór til Íslands. Þetta var að vísu alveg réttmætt, en Jörgensen stóð alltaf í þeirri trú að sú fangavist sem hann í kjölfarið mátti þola væri fyrst og síðast vegna hlutdeildar hans í valdaráninu. Það var enginn annar en Trampe sem vakti athygli fangaskrifstofunnar á þessu broti Jörgensens. 19)
Jörgensen var ekki nema ellefu mánuði í fangelsi vegna þessa, en varð þó að halda til í bænum Reading næstu tíu mánuðina þar á eftir. Hann var bæði sár og reiður yfir málsmeðferðinni og þess vegna ákvað hann að segja frá byltingunni eins og hún kom honum fyrir sjónir. Skrifaði hann sögu byltingarinnar þrisvar sinnum og hélt því fram að hann hefði aðeins ætlað að láta gott af sér leiða, því að markmið hans og þeirra félaga hefði alltaf verið það að frelsa Íslendinga undan harðræði Dana. Hann sendi Banks eintak af sögu sinni, en honum þótti útgáfa ekki ráðleg, fannst margt í bókinni jaðra við meiðyrði. Hefur því samtímalýsing sögu byltingarinnar í útgáfu Jörgensens sjálfs aldrei birts á prenti og er það miður.
Æviferill Jörgensens var óvenjulegur og litríkur og hann er í vitund þeirra sem telja sig eitthvað til hans þekkja ævintýra- og þjóðsagnapersóna. Á Íslandi hefur hann verið þekktur og umtalaður og notið mikilla vinsælda, enda kom hann Dönum í koll þótt sjálfur væri hann danskur. Fljótlega eftir þessa atburði gerðist hann njósnari fyrir breska utanríkisráðuneytið og ferðaðist víða um sem slíkur. Sjálfum sér var hann slæmur því að hann varð bæði spilafíkill og áfengissjúkur og steypti sér í miklar skuldir og lenti þess vegna oft í fangelsi. Árið 1825 var hann sendur sem fangi til eyjarinnar Tasmaníu sem er undan suðurströnd Ástralíu; þar lifði hann fjölbreyttu lífi, meðal annars sem blaðamaður, landkönnuður og lögregluþjónn. Hann lést árið 1841 eftir viðburðarríkari ævi en flestir geta vænst. 20)
Phelps, líkt og Jörundur, fór illa út úr þessu íslenska ævintýri og tapaði stórfé og olli því mestu brunaóhappið. Hann stóð í tvennum málaferlum haustið og veturinn 1809. Hin fyrri voru vegna hertöku ,Orions, skips Trampe, en hin seinni voru við tryggingarfélag vegna bruna Margaret and Ann. Phelps tapaði báðum þessum málum. Trampe var dæmt skip sitt á ný, en áætlað tap sem Phelps varð fyrir vegna skipsbrunans var að mati hans sjálfs nálægt 45000 pundum. 21)
Phelps hafði þó enn áhuga á Íslandsverslun þrátt fyrir allt sem á undan var gengið. Vorið 1810 sótti hann um verslunarleyfi við Íslendinga og vildi jafnframt fá skipaðan ræðismann á Íslandi til að gæta hagsmuna breskra þegna. Með tilliti til þess var ekki skynsamlegt að eiga í málaferlum við Trampe eða verðandi viðskiptavini á Íslandi. En þar sem Phelps hafði orð á sér fyrir að vera heiðarlegur og góður maður sáu stjórnvöld ekki ástæðu til að halda málsókn gegn honum til streitu ef hann gæti náð sáttum við Trampe og Íslendinga. Það var svo þetta sama vor að skip Phelps, Elbe, sigldi til Íslands með verslunarstjórann Micahael Edwin Fell innanborðs. Honum var falið það hlutverk að endurgreiða allt sem tekið hafði verið sumarið áður, en vörur í verslunum og birgðaskemmum danskra kaupmanna höfðu þeir félagar gert upptækar. Að auki þurfti að greiða bótakröfur sem komnar voru frá íslenskum mönnum og var það ýmislegt sem þeir kröfðust.
Að þessu afstöðnu tilkynnti Magnús Stephensen dönskum yfirvöldum að Phelps hefði greitt kaupmönnum á Íslandi allt það sem þeir höfðu krafist. 22)
Phelps sendi þrjú skip til Íslands árið 1810, en aðeins eitt skip árið eftir, en ekkert árið 1812. Árið 1813 gerðist John Parke ræðismaður Breta, en hann var umboðsmaður sápufyrirtækisins og gerði upp verslunina hér. Var þar með lokið verslunarsögu hins dugmikla og ágæta manns, Samuels Phelps á Íslandi . Um ævi hans eftir þetta er ekki mikið vitað, en íslenskar heimildir segjsa hann hafa orðið gjaldþrota, en engin opinber staðfesting hefur þó fengist um það. Hann hafði gengist undir alvarlega skurðaðgerð sumarið 1810 og um haustið freistaði hann þess aftur að fá bætur vegna skipsbrunans, en þau urðu málalok að hann fékk þær engar. 23)
Íslandsævintýri Phelps varð honum ekki ferð til fjár og heldur ekki til frægðar því að Jörgensen fékk alla frægðina og athyglina bæði lífs og liðinn, að minnsta kosti að því er Íslendinga snertir. Sagan getur stundum virst ósanngjörn og tilviljanir og viðhorf geta ráðið því hvort eitthvað geymist eða gleymist. Hér var Phelps í aðalhlutverki atburðanna, þótt ekki hafi hann fengið samið um sig leikrit eins og Jörgensen, sem sennilega hefði aldrei komið til Íslands ef Samuel Phelps hefði ekki komið til sögunnar.

Niðurstöður
Bylting Jörundar hundadagakonungs er atburður sem flestir Íslendingar kannast við úr sögu þjóðarinnar, enda er hún eina byltingin sem gerð hefur verið hér á landi. Þótt atburðir þessir árið 1809 hafi verið stórpólitískir og jafnvel hafi litlu munað að Ísland yrði hrifsað undan dönsku krúnunni og orðið eign bresku krúnunnar þá virðist aðdragandi þeirra og saga vera tilviljunum háð frá upphafi til enda. Engar áætlanir voru gerðar um valdarán þótt það væri framið. Valdaránið var einungis viðbrögð metnaðarfullra og kappsamra manna sem ekki vildu una því að verða reknir á brott með skip full af vörum sem landsmenn þörfnuðust sárlega. Hefðu hin dönsku yfirvöld og danskir kaupmenn á Íslandi tekið þeim Jörundi og Phelps og liðsmönnum þeirra af velvild og skilningi þá hefðu þessir atburðir aldrei orðið . Á þessum tíma gátu Danir ekki fullnægt þörfum Íslendinga fyrir verslun vegna stríðsástandsins í Evrópu og greifinn og stiftamtmaðurinn Trampe virðist hafa látið sig litlu varða um hag og velferð landsmanna, en hugsað þeim mun meira um eigin hag og völd sem virðast hafa verið honum eitt og allt.
Niðurstöður þessarar greinar leiða í ljós miklu fremur tilviljanir en meðvituð og skipuleg pólitísk framrás atburðanna. Það var tilviljun að Bjarni Sívertsen hittir Jörgensen og hið sama réði því að Jörgensen hitti James Savignac samstarfsmann í fyrirtæki Phelps og ekki var það síður heppilegt að Sir Joseph Banks hafði farið til Íslands og orðið hrifinn af landinu.
En þótt Jörgensen hafi hlotið mestu frægðina og nafngiftina hundadagakóngur þá var það fyrir tilverknað og hagsmuni sápukaupmannsins Samuels Phelps að þessi frægi verslunarleiðangur fór til Íslands og það var hann sem stóð á bak við hið örlagaríka valdarán. Þegar þeim þætti er náð er að Jörgensen komið því að í honum er meiri ævintýramaður en í hinum ábyrgðarfulla Samuel Phelps því að hugur hans og metnaður snerist fyrst og fremst um verslunina og afkomu þess fyrirtækis sem hann bar ábyrgð á heima á Englandi.

Tilvísanaskrá:

1)Þorkell Jóhannesson: Saga Íslendinga VII 28
2)Anna Agnarsdóttir: Ráðagerðir um innlimun Íslands í Bretaveldi á árunum 1785 – 1815, 5
3)Anna Agnarsdóttir: Ráðagerðir…., 21
4)Anna Agnarsdóttir: Eftirmál byltingarinnar 1809. Viðbrögð breskra stjórnvalda, 68
5)Anna Agnarsdóttir: Ráðagerðir…., 21 – 22
6)Þorkell Jóhannesson: Saga Ísl…., 294
7)Anna Agnarsdóttir: Eftirmál…, 68
8)Anna Agnarsdóttir: Eftirmál…, 68
9)Anna Agnarsdóttir: Ráðagerðir…., 30 – 31
10) Anna Agnarsdóttir: Ráðagerðir…., 28
11) Þorkell Jóhannesson: Saga Ísl…, 302
12) Helgi P. Briem: Sjálfstæði Íslands 1809, 87
13) Anna Agnarsdóttir: Ráðagerðir…., 31
14) Anna Agnarsdóttir: Eftirmál…., 69
15) Rhys Davies: Jörundur Hundadagakonungur,
ævintýri hans og æviraunir, 68
16) Anna Agnarsdóttir: Ráðagerðir…., 36 – 37
17) Anna Agnarsdóttir: Eftirmál…., 71
18) Þorkell Jóhannesson: Saga Ísl…., 323
19) Anna Agnarsdóttir: Eftirmál…., 71 - 72
20) Anna Agnarsdóttir: Eftirmál…., 91
21) Anna Agnarsdóttir: Eftirmál…., 86
22) Anna Agnarsdóttir: Eftirmál…., 88 – 89
23) Anna Agnarsdóttir: Eftirmál…., 91 - 92

Heimildaskrá:

Anna Agnarsdóttir: Eftirmál byltingarinnar 1809, viðbrögð breskra stjórnvalda. Saga 27, tímarit sögufélags, 1979. Sögufélag, Reykjavík 1979

Anna Agnarsdóttir: Ráðagerðir um innlimun Íslands í Bretaveldi á árunum 1785-1815. Saga 17, tímarit sögufélags, 1989. Sögufélag, Reykjavíkur 1989

Helgi P. Briem: Sjálfstæði Íslands 1809. Reykjavík, Hið Íslenska Þjóðvinafélag, Ísafoldsprentsmiðja, 1936

Rhys Davies: Jörundur Hundadagakonungur, ævintýri hans og æviraunir. Bókfellssútgáfan h.f., Reykjavík, 1943

Þorkell Jóhannesson: Saga Íslendinga, sjöunda bindi, tímabilið 1770-1830, Menntamálaráð og þjóðvinafélag, Reykjavík – M C M L.

Svanur Már Snorrason
(Þessa ritgerð skrifaði ég á haustönn 1994 þegar ég lagði stund á sagnfræði, skamma stund, man ekki hvað áfanginn hét, en ég fékk mjög gott fyrir ritgerðina).

mánudagur, 7. mars 2011

Saga frá/af Röggu (send til mín - takk fyrir Ragga, þú ert skemmtileg) ...



Ragnheiður M. Kristjónsdóttir(38)er megamamma:

FÆDDI KÖTT!

Mjá!

Fiðrildasafnarinn og þverflautleikarinn Ragnheiður hefur marga fjöruna sopið. Þrjátíu og fimm ára hafði hún eignast fjögur börn með fimm mönnum, ferðast til allra heimsálfa og á sjálfan aðfangadag eignaðist hún fimmta afkvæmið; persneskan kött.

STOLT MÓÐIR:
Ragnheiður með nýjasta afkvæminu sem hlotið hefur nafnið Ananas.

FLOTT FJÖLSKYLDA:
Börnin hennar Ragnheiðar eru hæstánægð með bróður sinn – sér í lagi þau yngstu.

Kraftaverk! „Á dauða mínum átti ég von en ekki þessu,“ segir Ragnheiður ringluð en hún fæddi lifandi kött á sjálfan aðfangadag. Ekki er vitað til að nokkur önnur kona hafi leikið þetta eftir og því var Ragnheiður að vonum undrandi þegar hún fæddi fjögurra marka fjörugan kött af persnesku kyni.

„Börnin mín höfðu samt mest gaman af þessu – þau hafa lengi óskað eftir ketti á heimilið,“ segir Ragnheiður sposk og tekur upp prjónana, en hún vill ekki að yngsta afkvæminu, honum Ananas litla, verði kalt í vetrarhörkunum .

Aðspurð segist Ragnheiður ekki vita hver faðirinn er en hún mun eigi að síður fara fram á meðlagsgreiðslur.

TEXTI: BJÖRN BLÖNDAL
MYNDIR: OSCAR TAPIOKA