föstudagur, 12. febrúar 2010

Séð og Heyrt Móment 15


SJÚK ÁST

Síminn hafði hringt látlaust og truflað viðbjóðslegt andrúmsloftið í íbúðinni.

„Ætlarðu ekki að svara í helvítis símann, ógeðið þitt?“ öskraði konan þar sem hún lá í skítugu rúminu, blindfull.

Frammi í stofu sat maðurinn hennar, í aðeins betra ástandi.

„Haltu helvítis kjafti,“ öskraði hann á móti. „Ég er að reyna að horfa á leikinn, láttu mig í friði.“

Hann blandaði sér einn sterkan, gin í greip, kveikti sér í rettu og hallaði sér aftur í hálfónýtum hægindastólnum sem var alsettur brunagötum. Eftir að hann var búinn að hvolfa í sig drykknum og drepa í rettunni gekk hann hægum skrefum í átt að háværum símanum, sem engin grið gaf og grýtti honum í vegginn.

„Eyðilagðirðu símann,“ öskraði hún og beið ekki svars. „Þú ert geðveikur.“

Hann gekk inn í svefnherbergið með brot úr símanum í hendinni og henti í átt að henni.

„Hérna, hringdu í mömmu þína. Djöfull ertu ógeðsleg, eitrar út frá þér, mér er skapi næst að drepa þig. En þú ert ekki einu sinni þess virði.“

Hún horfði sljóum augum á hann, sýndi engin viðbrögð, enda heyrt þetta áður.

„Áður en þú verður of erfiður skaltu skreppa út, það þarf að fylla á.“

Við orð hennar hrökk hann við, var næstum búinn að gleyma sér.

„Það var eins gott að þú drullaðir þessu út úr þér.“

Hún brosti og strauk fingrunum í gegnum fitugt hárið og sagði hásum rómi.

„Ef það væri ekki fyrir mig, hefði getað farið illa fyrir þér.“

(Séð og Heyrt, 6. tbl. 2010)

Verkið mitt