þriðjudagur, 29. september 2009

Séð og Heyrt Móment 8


SAGA ÚR SAMBANDI!

„Þú ert ekki neitt ef þú hugsar bara um sjálfan þig.“

Honum rann kalt vatn milli skinns og hörunds við þessi orð. Hún vissi hvernig best væri að komast að honum – hafði á honum tak, en nýtti það sjaldan. Það fannst honum best.

„Ég veit, ég veit,“ sagði hann um leið og hann reimaði á sig skóna. Var á leið út í sjoppu að kaupa sígarettur, Camel, filterslausar.

„Er til gos?,“ spurði hún en beið ekki eftir svari: „Kauptu líka nóakropp, lakkrísrör, og bland í poka – hlaup og salt, ekki brjóstsykur.“

„Eitthvað fleira sem frúin vill?“ spurði hann og hæðnistónninn leyndi sér ekki í röddinni.

„Heilsu, hamingju og nýtt líf,“ svaraði hún að bragði, beiskjan og grimmdin ekki langt undan.

„Get ekki boðið svo vel,“ hreytti hann út úr sér og til að bæta á þunga andrúmsloftsins kveikti hann sér í síðustu sígarettunni og gekk þungum skrefum inn í stofuna á skítugum strigaskónum og spurði: „Ertu með pening?“

Það fauk í hana, hann vissi hvernig ætti að pirra hana; hún reyndi að láta það ekki sjást, lítið fyrir að bera tilfinningar sínar á torg og enn minna fyrir að láta koma sér úr jafnvægi. Lét nægja að horfa á hann með ísköldu augnaráði og sagði: „Nei, þú eyddir öllu sem ég átti í hóruna þarna í vinnunni, eða varstu búinn að gleyma því?“

Svellkaldur blés hann reyknum í átt að henni og nuddaði skítugum skónum í teppið og svaraði: „Nei, en þú veist að þú ert ekki neitt ef þú hugsar bara um sjálfa þig.“

Séð og Heyrt (38. tbl. - 2009)


föstudagur, 18. september 2009

fimmtudagur, 17. september 2009

miðvikudagur, 2. september 2009

Séð og Heyrt Móment 7


ÖSKRUM OKKUR Á EM!

Veit hvernig karlalandslið Íslands kemst á EM og HM í fótbolta. Stelpurnar eru komnar á EM og því skömm fyrir strákana að búa við það.

Hef reynslu í þessum efnum; verið leikmaður, þjálfari, dómari, línuvörður og íþróttafréttamaður; allt með glans.

Málið er einfalt - burt með flækjur og gerum okkur grein fyrir því að við getum ekkert í fótbolta.
Það þýðir ekkert að reyna að spila flottan fótbolta. Eigum að vera fyrirsjáanlegir. Nota leikkerfið 9-1. Allir í vörn nema einn; fara óhræddir í tæklingar og gefa ekkert eftir. Horfa hýru auga til skyndisókna. Munum fá eitt og eitt færi.

Síðan eigum við að öskra hvor á annan og andstæðinginn - allan tímann - líka fyrir og eftir leiki; berjast eins og annað Tyrkjarán væri í uppsiglingu.
Þjálfarinn á líka að öskra allan tímann og hann á alls ekki að vera fínt klæddur eða kurteis. Og hann verður að vera órakaður.
Til að þetta gangi þurfum við að hætta að spila á Laugardalsvelli en þar er stemningin svipuð og í líkhúsi, jafnvel þótt uppselt sé. Kaplakrikinn er málið - völlur með mikilli nálægð áhorfenda.
Við eigum þrjá þjálfara sem uppfylla þessi skilyrði - Ólaf Þórðarson, Willum Þór Þórsson og Þorvald Örlygsson. Fúllyndir menn sem þola ekki gagnrýni og kunna að spila úr aðstæðum.

Ólafur hefur kennt Fylkismönnum að berjast, Þorvaldur gert Fram að þokkalegu liði og Willum kom Haukum upp um tvær deildir á tveimur árum!
Þessir menn geta allt í fótbolta, þótt þeir hafi í raun aldrei getað neitt. Nema að átta sig á aðstæðum og gera sér grein fyrir eigin takmörkunum. Og það er málið.
Séð og Heyrt (35. tbl. - 2009)