fimmtudagur, 5. apríl 2007
Ljósmyndabókin
Á þeim tíma er ég bjó í Húsableikjufirði, á seinna tímabili dökkbláu setlaganna, kynntist ég Ólafi Örverpi, kallaður þetta vegna þess hversu ört hann verpti. Hann var hagyrðingur mikill, góður reiðmaður, snjall skrúfumeistari en þótti sínkur á fé. Hann var kvæntur Gerðþrúði Mygludóttur, en Adam Sverrisson var fyrrum eiginmaður hennar, en um það má víst ekki tala. Gerðþrúður var röggsöm og ekki er beinlínis hægt að segja að hún hafi hatað sopann. Undir áhrifum var hún býsna blíðlynd, bæði til karla og kvenna. Ólafur skeytti lítt um drykkju og daður kvinnu sinnar, fannst hún öllu skárri full. Honum þótti ákaflega gaman að þeyta rjóma og gaf hann kindum sínum ávallt þrjá fjórðu hluta af rjómanum er hann þeytti. Rjómaþeytingin var eini munaðurinn sem Ólafur veitti sér. Þótti þetta áhugamál hans heldur sérkennilegt og höfðu sveitungar hans á orði að... ja, ég veit ekki alveg hvað þeir höfðu á orði. Er ég flutti í burtu, fimm þúsund árum eftir að Gerðþrúður var selbitin, kvaddi ég alla með vísu um afburðagáfað fiðurfé. Var þessari kveðju minni af flestum vel tekið, en þó var Jónmundur í Garði ekki alls kostar ánægður, tók kveðjunni fálega en sleppti því þó að kalla mig fífl.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli