þriðjudagur, 26. febrúar 2013

Án titils I

Listaverk eftir HSÆ - til sýnis hér

þriðjudagur, 12. febrúar 2013

Brakandi gólfið

Á sviðinu er baunadós (bakaðar baunir frá Heinz), tveir olíubrúsar, ónotaðir - óopnaðir - Havoline 15w40, gaskútur, ótengdur og búið að skera á slönguna. Tveir prestar ljósklæddir með bláa hempu, sem snúa baki í áhorfendur (sem þetta kvöldið eru sautján talsins, by the way). Það er mikil fiskilykt af prestunum. Inná sviðið gengur kona í síðum svörtum og ermalausum kjól og það er sterk hangikjötslykt af henni. Hún kallar hástöfum á barnið sitt, sem er ellefu ára gömul stúlka.

Kona með sterka hangikjötslykt: Álfrún mín, Álfrún mín, hvar ertu elsku barn?

Hún fær ekkert svar, og byrjar að gráta hástöfum í um það bil þrjátíu sekúndur, en hættir svo og yfirgefur sviðið án þess að segja neitt.

Prestarnir snúa sér að áhorfendum og stara út í salinn í dágóða stund án þess að segja svo mikið sem eitt orð eða sýna neitt látbragð - standa bara og stara, hempuklæddir mennirnir.

Inná sviðið kemur Álfrún hlaupandi, móð og másandi, klædd í ljósbrúnar flauelsbuxur með útvíðum skálmum og flíspeysu, dökkgrænni, lítur í kringum sig, lítur í allar áttir, en sér svo allt í einu, eins og fyrir tilviljun, prestana tvo. Og ávarpar þá.

Álfrún: Hjálpið mér, þið hljótið að vera hjálpsamir menn - hjálpið mér, það er ókunnug kona búinn að elta mig í meira en klukkutíma og heldur að ég sé dóttir hennar.


Prestarnir líta á hvorn annan og eru kindarlegir á svipinn, en gjóa svo augunum í áttina til Álfrúnar, en halda síðan áfram að stara út í salinn, svipbrigðalausir.

Álfrún gengur í kringum þá, þefar af þeim og grettir sig vegna fiskilyktarinnar sem stafar frá þeim. Hún sleikir báða vanga prestanna en fær engin viðbrögð. Hún klípur í rassa þeirra og þreifar á kynfærum þeirra, en viðbrögðin láta á sér standa. Að lokum rekur hún þeim báðum kraftmikinn kinnhest og hlær tryllingslega. Sest svo niður í smá fjarlægð frá prestunum og um varir hennar leikur ísmeygilegt glott, en af og til kemur mikill hræðslusvipur á andlit hennar.

Maður sem segist vera, og kynnir sig sem slíkur, vofa Dags Sigurðarsonar ljóðskálds kemur inná sviðið og fer með ljóð Dags, Íslenska mellan (ljóðið verður kannski síðar sett hér inn).

Álfrún hlustar á vofu Dags fara með ljóðið, og síðan gengur hún að vofunni og faðmar hana.

Álfrún: Takk fyrir, þetta er yndislegur texti, svo fallegur, svo sannur, svo mikið sagt þarna sem ekki má segja. Ég þrái það sem ekki má segja, en allir banna mér að segja það sem býr í huga mínum, því allir sem þekkja mig vita að þar inni er svo mikið af hlutum eða gjörðum sem ekki má segja frá.

Vofa Dags Sigurðarsonar: Ég hef aldrei heyrt neinn segja svona um þetta ljóð mitt, en takk samt. Það er ofsalega góð lykt af þér. Annað en af þessum prestum, eða konunni sem ég mætti áðan, hún angaði eins og hangikjötslæri, og það þykir mér ekki góður kvenmannsilmur.

Álfrún: Það hefur verið konan sem heldur að ég sé dóttir hennar.

Vofa Dags Sigurðarsonar: Ef hún er ekki mamma þín þá skaltu drífa þig héðan sem fyrst, því ég sá í augum hennar að hún kæmi hingað aftur. Ef hún er hins vegar mamma þín, og þú því ekki að segja mér satt, sem er bara allt í lagi, skaltu segja henni að annaðhvort fáir þú að tjá þig eða að þú yfirgefir hana. Þakka þér fyrir að faðma mig, það er langt síðan ég hef verið faðmaður af konu.

Áður en Álfrún nær að svara slítur vofa Dags Sigurðarsonar sig lausan afar snögglega og hleypur út í sal, út úr salnum eftir smá leit að útgangi. Álfrún horfir undrandi á eftir honum, en brosir svo fallega.

Álfrún: Mikið var góð karlmannslykt af honum, en það var samt eins og hann væri ekki lengur karlmaður, en samt meiri karlmaður en ég hef kynnst á minni ævi.

I want to hold your hand


föstudagur, 1. febrúar 2013

beck og ég

one by one I´ll knock you out