mánudagur, 21. desember 2015

Símtal



Salman Sykurköttur gekk hratt yfir götuna því hann var hræddur við bíla og reiðhjól, sérstaklega gul og brún reiðhjól. 

Eftir að hann kom heim til sín ákvað hann að hringja í þriðja besta vin sinn, Kristmund Kattahrædda, og bjóða honum í heimsókn, enda var mánudagur og á mánudögum var Salman Sykurköttur yfirleitt einmana. 

Eiginkona Kristmundar Kattahrædda, Hrafntinna Hersir, svaraði í símann og sagði mann sinn ekki vera heima, hann hefði skroppið út í búð að kaupa kartöflur og handbolta, og væri væntanlegur eftir um það bil klukkustund.  

Salman Sykurköttur bað Hrafntinnu Hersi að koma áleiðis skilaboðum til Kristmundar Kattahrædda sem hún sagðist gera með ánægju.


fimmtudagur, 10. desember 2015

miðvikudagur, 18. nóvember 2015

þriðjudagur, 20. október 2015

Stórtap gegn Spánverjum: Leikur íslenska handboltalandsliðsins hrundi á síðasta korterinu þar sem Spánverjar skoruðu 12 mörk gegn aðeins fjórum mörkum.

 Íslenska liðið hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum og á enn eftir að vinna leik á stórmóti á árinu

Íslendingar riðu ekki feitum hesti frá viðureign sinni við Spánverja í gær á Ólympíuleikunum í Aþenu.

Algjört hrun á lokakaflanum orsakaði átta marka tap eftir jafnræði lengstum þar sem Spánverjar höfðu reyndar ávallt nokkuð frumkvæði. Þar með hefur íslenska liðið tapað báðum leikjum sínum og það verður að segjast eins og er að hlutirnir líta ekki vel út og breytinga er þörf. Það er reyndar langt síðan að þörfin fyrir breytingar á landsliðinu fór að gera vart við sig en menn hafa bara leyst það með því að skella skollaeyrum við.

Allar afsakanirnar tilbúnar Eftir tapið í fyrsta leik gegn heimsmeisturum Króata var viðkvæðið aðallega það að Króatarnir væru svo góðir og það væri í raun ósköp eðlilegt að tapa fyrir þeim. Nú, svo er búið að hamra mikið á því hversu sterkur riðillinn er, nánast frá þeim degi sem dregið var í hann, þannig að allar afsakanirnar fyrir öllum töpunum voru tilbúnar fyrir löngu og nú verða þær notaðar óspart.

En að leiknum sjálfum. Spánverjar byrjuðu mun betur í leiknum og það tók okkar menn dágóðan tíma að komast í gírinn. Okkur tókst að jafna 4-4 og 10- 10 en það gekk ekkert að stíga skrefið til fulls og ná undirtökunum. Liðið fékk vissulega tækifæri til þess en þau voru illa nýtt. Staðan var 12-13 í hálfleik og þrátt fyrir slakan leik þá vorum við í það minnsta enn inni í leiknum því Spánverjarnir voru ekki heldur að gera neina rósir.

Síðari hálfleikur fór af stað á svipuðum nótum og sá fyrri og þeir spænsku voru fljótir að ná þriggja marka forskoti, 13-16. Það var þá sem íslenska liðið náði loks að sýna eitthvað af viti - þrjú mörk í röð hjá strákunum litu dagsins ljós og allt virtist vera að smella saman. Liðið fékk síðan tækifæri til að komast yfir en nýtti það ekki en þrátt fyrir það bjuggust fáir við því sem gerðist í kjölfarið.

Íslenska liðið fékk tvö góð tækifæri til að komast yfir í stöðunni 19-19 þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum en klúðruðu því. Eftir það rak hver hörmungin aðra og leikur liðsins gjörsamlega hrundi og spænska liðið hreinlega valtaði yfir það íslenska - niðurlægði það. Það var hræðilegt að fylgjast með hruni íslenska liðsins þennan seinni hluta síðari hálfleiksins þar sem það skoraði aðeins fjögur mörk gegn tólf. Bjargar- og úrræðalaust

Að sjá hversu bjargar- og úrræðalaust íslenska liðið var á þessum kafla undirstrikar hressilega, enn og aftur, að tími Guðmundar Guðmundssonar sem þjálfara þessa liðs, er liðinn. Sú staðreynd var reyndar flestum, ef ekki öllum, ljós, eftir hryllinginn á EM í Slóveníu í byrjun árs en samt skyldi förinni inn í svartnættið haldið áfram.

Gamla brýnið, Guðmundur Hrafnkelsson, var besti maður íslenska liðsins. Ólafur Stefánsson gerði hvað hann gat en var að venju tekinn afar föstum tökum. Einar Örn Jónsson sýndi gamalkunna takta en aðrir náðu ekki að sýna sitt rétta andlit.

Vonandi verður allt önnur og miklu betri frammistaða á boðstólum þegar við mætum Suður-Kóreumönnum í næsta leik. Þá verður örugglega við ramman reip að draga því Suður-Kórea gerði sér lítið fyrir og lagði Rússa að velli og væntanlega dugir ekkert annað en stórleikur af hálfu íslenska liðsins til að sigur eigi að nást gegn þeim. Íslenska liðið hefur nú leikið fimm leiki í stórmótum á árinu (3 á Evrópumótinu í Slóveníu og 2 á Ólympíuleikunum í Aþenu) og á enn eftir að fagna sigri.

ÞRIÐJUDAGUR 17. ágúst 2004

 sms@frettabladid.is

fimmtudagur, 15. október 2015

sunnudagur, 11. október 2015

Guðmundur á að segja af sér

Sigurður Bjarnason á að baki 163 landsleiki í handbolta og lék um árabil sem atvinnumaður í Þýskalandi, í sterkustu deild í heimi. Sigurður er maður sem hefur skoðun á hlutunum og hann er ekki sáttur við ástand mála hjá íslenska landsliðinu. Vill sjá breytingar og það helst í gær. Hann er harður á því að tími Guðmundar Þórðar Guðmundssonar í sæti landsliðsþjálfara sé liðinn. 

"Mér finnst að Guðmundur eigi að segja af sér - alveg klárlega. Tvö misheppnuð mót í röð þýða bara afsögn. Hann verður að gjöra svo vel að taka ábyrgð á þessu, það er enginn annar sem getur það eða á að gera það." Sigurður segir að ekki sé hægt að kenna miklum breytingum um slælegt gengi íslenska liðsins í tveimur síðustu stórmótum. "Hópurinn frá því á EM 2002 í Svíþjóð, þar sem fjórða sætið náðist, hefur ekki breyst mikið. Það eru einhverjir fjórir eða fimm nýir leikmenn, þannig að ekki er hægt að kenna miklum breytingum um þetta mikla fall liðsins. Það er einfaldlega eitthvað meira en lítið að þarna. Ég var sjálfur í hópnum í Svíþjóð og á HM í Portúgal, ári seinna, þar sem við náðum sjöunda sætinu, og þekki því nokkuð vel til liðsins," segir Sigurður í léttum tón en bætir við í talsvert þyngri tón: "Staðreyndir málsins eru einfaldar; Guðmundur hefði átt að víkja strax eftir EM í Slóveníu í byrjun þessa árs - menn eiga ekki að halda í eitthvað sem er greinilega ekki að ganga upp. Þetta er alveg borðleggjandi - það er löngu kominn tími á breytingar." 


Sigurður nefnir val Guðmundar á landsliðshópnum sem dæmi máli sínu til sönnunar.


"Þetta val Guðmundar er mér algjörlega óskiljanlegt - að útiloka efnilegustu leikmennina. Sjálfur byrjaði ég að spila með landsliðinu 18 ára gamall og byrjaði strax að setja mark mitt á það - fór strax að standa mig. Þetta er bara spurning um hvernig þjálfarinn undirbýr þig og hvetur. Ég skil því hreinlega ekki af hverju Guðmundur notar ekki meira leikmenn eins og Ásgeir Örn Hallgrímsson, og auðvitað Arnór Atlason, Loga Geirsson og aðra yngri leikmenn. Ég hefði svo gjarnan viljað sjá Arnór Atlason með í hópnum núna og reyndar líka í keppninni þar á undan."


Þá er spurt, hvenær eru leikmenn tilbúnir fyrir landsliðið? Sigurður er með svarið við því. 


"Það eina sem þarf að gera er að segja mönnum að þeir séu tilbúnir - henda þeim óhikað út í djúpu laugina. Þetta hefur alls staðar tíðkast í gegnum tíðina og við Íslendingar eigum fjölmörg dæmi um þetta. Ég nefndi áðan sjálfan mig, svo getum við nefnt Héðin Gilsson, sem var mjög ungur farinn að vera lykilmaður í landsliðinu, einnig þeir Patrekur Jóhannesson, Ólafur Stefánsson, Dagur Sigurðsson og ég get haldið lengi áfram að nefna nöfn. Einhvern tímann þurfa menn að fá tækifærið. Ásgeir Örn og Arnór eru klárlega báðir tilbúnir og hafa verið í nokkurn tíma og það sama má segja um Loga og fleiri unga leikmenn. Það að koma með afsakanir eins og Guðmundur hefur verið með á lofti um að menn séu ekki orðnir fullmótaðir er meira en lítið vafasamt. Leikmenn mótast af því að taka þátt í landsleikjum og fá að njóta sín þar eitthvað," segir Sigurður með nokkrum þunga og bætir við: 


"Leikmenn eru í mótun allan sinn feril og ég verð að viðurkenna að ég hef varla heyrt lélegri afsakanir en þær sem Guðmundur hefur notað að undanförnu í fjölmiðlum. Ég veit ekki hvers konar komplexa maðurinn hefur, í fyrsta lagi eru allir mannlegir, það gera allir mistök og það að sjá aldrei mistök hjá sjálfum sér kann ekki góðri lukku að stýra. Ef maður viðurkennir aldrei að hafa gert mistök, hvort sem um er að ræða einkalífið eða atvinnuna, og reynir bara að breiða yfir þau, þá verðurðu aldrei betri. Þú munt ekki bæta þig og kemst þar af leiðandi ekki lengra. Þetta er kennt í almennri sálfræði. Það er ekki endalaust hægt að skella skuldinni á aðra, það er eitthvað sem maður gerði þegar maður var ungur og óþroskaður. Að geta ekki staðið upp og tekið afleiðingum og tekið ábyrgð er engin stjórnun og sá sem er þannig er enginn stjórnandi. Ég segi einfaldlega, Guðmundur er útbrunninn í þessu starfi og þarf kannski bara eitthvað nýtt verkefni og verður í það minnsta að endurskoða þessar afsakanir sínar. Hann er allt of fastur í því að hann sé að gera allt rétt og allir í kringum hann að gera vitlaust."


En hvað hefur gerst síðan á EM 2002? Af hverju náðist svona góður árangur þá? 


"Menn verða að gera sér grein fyrir því að þegar Guðmundur tekur við var búin að vera rosaleg lægð. Skýringin á þeirri lægð var að miklu leyti fólgin í meiðslum leikmanna, en Guðmundur fær liðið hins vegar í toppástandi. Það var enginn meiddur á þessum tíma og það útskýrir þann góða árangur sem náðist þá. Það gátu allir æft allan undirbúningstímann, allir verið með á fullu á EM 2002.Núna er hins vegar meiddum mönnum haldið í hópnum og það er engum greiði gerður með því. Ég er núna búinn að starfa á landinu í eitt ár og búinn að sjá til þessara ungu stráka, og þótt vissulega þurfi menn að bæta sig er málið það að þetta eru ungir strákar sem eiga eftir að vaxa rosalega og eru þegar flestir komnir í atvinnumennsku. Við megum ekki gleyma því, allir þessir ungu og efnilegu menn eru komnir í atvinnumennsku án þess að hafa náð því að spila einhverjar mínútur að ráði í landsliðinu. Þetta er dálítið skrýtið, svo ekki sé meira sagt. Sem dæmi nefni ég að það eru alltaf teknir með þrír miðjumenn og þrír línumenn og einn af þeim alltaf uppi í stúku! Til hvers að taka Kristján Andrésson með og nota hann svo ekki neitt? Það græðir enginn á því. Hvað á þetta að þýða, af hverju tók hann ekki bara Ladda með sér? Þá væri kannski húmorinn í lagi hjá liðinu! Við skulum gera okkur grein fyrir því að þessir umræddu ungu leikmenn sem oft er talað um, Arnór, Logi Geirsson, Einar Hólmgeirsson og fleiri, þetta eru ekki neinir unglingsguttar, þetta eru hraustir karlmenn. Þá vantar bara einhvern landsliðsþjálfara með þor, sem segir, heyrðu, þú gerir bara hlutina. Þannig kom ég inn 18 ára gamall hjá Bogdan Kowalczyk og um leið og manni var hleypt inn á var maður einfaldlega tilbúinn í slaginn - maður hræddist ekki einn einasta mann. Atavin fór út af í leik gegn Sovétríkjunum og Yakimovich kom inn á, ég var bara feginn," segir Sigurður og hlær dátt og bætir við: "Þannig er hugsunarhátturinn hjá ungum leikmönnum og þannig á hann að vera."


Guðmundur landsliðsþjálfari hefur talað um það í fjölmiðlum að undanförnu að það taki langan tíma að búa til og móta gott lið. Hvað segir Sigurður um það? 


"Landsliðsþjálfari á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af krafti og úthaldi leikmanna, þetta er spurning um samhæfingu, finna réttu varnar- og sóknartaktíkina, en aðalatriðið hjá landsliðsþjálfara er að mótívera leikmenn þannig að þeir mæti dýrvitlausir í leiki, með sjálfstraustið í botni, finnandi fyrir því að þeim sé treyst. Þá vaða menn bara í verkin og þannig á það að vera og ekkert öðruvísi. Það eru félagsliðin sem sjá um það að móta leikmenn og landsliðsþjálfari á ekki að þurfa langan tíma til að móta lið, menn eiga að vera, og eru, tilbúnir. Ég segi bara afdráttarlaust, annað hvort á Guðmundur að segja af sér eða það á að reka hann og ég held að það séu flestir sammála því sem á annað borð hafa einhverja skoðun á þessu. Það er mikið í húfi og menn verða stundum að víkja þegar miklir hagsmunir eru í húfi. Það á við núna - menn verða að fara að líta í eigin barm."Sigurður segir að nokkrir góðir menn komi til greina í landsliðsþjálfarastöðuna, þegar og ef Guðmundur lætur af störfum. 


"Því miður er sá hæfasti ekki á lausu, og þá er ég að sjálfsögðu að tala um Alfreð Gíslason. Af þeim sem eru á lausu finnst mér Atli Hilmarsson helst koma til greina og þá er Geir Sveinsson einnig álitlegur kostur. Auðvitað kemur síðan til greina að fá útlending en mér finnst það ekki besti kosturinn í stöðunni núna," sagði Sigurður Bjarnason.


sms@dv.is.


Viðtal tekið í september 2004.

x

mánudagur, 14. september 2015

sunnudagur, 23. ágúst 2015

föstudagur, 21. ágúst 2015

föstudagur, 31. júlí 2015

sunnudagur, 21. júní 2015

laugardagur, 13. júní 2015

Flettingar I

Það var bankað. Síðan dinglað, og svo farið. Horft til baka rétt áður en bílhurðin var opnuð. Keyrt hægt af stað. Holóttur vegur og í lofti greinilega væntanlegur suddi. Óvelkominn.

laugardagur, 2. maí 2015

„Á meðan aðrir voru í sleik var ég að handmjólka kýr“

Hafnfirski rithöfundurinn Bryndís Björgvinsdóttir hefur slegið í gegn með bókum sínum.


Bryndís ólst upp í Hafnarfirði og segir bæinn vera sér afar hugleikinn, svo mikið að sumum finnist nóg um. Bók hennar, Hafnafirðingabrandarinn, kom út fyrir síðustu jól og hlaut Bryndís Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir hana sem og Fjöruverðlaunin. Gaflari settist niður með Bryndísi og ræddi við hana um eitt og annað.

Segðu okkur aðeins frá uppvexti þínum.

„Ég ólst upp á Vesturvangi í norðurbæ Hafnarfjarðar, og er yngst sex systkina. Og mamma og pabbi búa þar enn, sem mér finnst alveg frábært. Ég var síðan send í sveit að Næfurholti við Heklu í fimm sumur, frá tíu ára aldri, sem gerði það að verkum að á meðan aðrir voru í unglingavinnunni eða í sleik var ég að handmjólka kýr eða strokka smjör. Ég var í Engidalsskóla og síðan í Víðistaðaskóla. Mér fannst mjög gaman í Víðistaðaskóla þrátt fyrir að ég hafi nú verið talsverður „lúði“, eins og það er oft orðað; en ætli mér hafi ekki bara fundist svona spennandi að fá að hanga með öðrum unglingum eftir sumrin með beljunum í sveitinni – þótt mér þyki nú vænt um þær líka.“



Þú varst kornung eða aðeins fimmtán ára gömul þegar fyrsta bókin leit dagsins ljós – Orðabelgur Ormars ofurmennis – sem þú skrifaðir ásamt Auði Magndísi. Voru skrifin alltaf eitthvað sem þú hafðir í þér og vissir að einhverju leyti að þú myndir leggja fyrir þig?

„Ég hugsaði aldrei lengra en svo, að mér þætti gaman að lesa og skrifa texta – sérstaklega ef hann var fyndinn. Mér fannst reyndar líka mjög gaman í sögu, líffræði, myndmennt og var þá einnig í leikfélögum. Ég held að það sé hálfgerð tilviljun að ég hafi ratað inn á þessa braut frekar en ýmsar aðrar.“

Tvær af bókunum þínum hafa verið verðlaunaðar – Hafnfirðingabrandarinn og svo bókin Flugan sem stöðvaði stríðið, sem hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2011. Er það ekki hvetjandi og jákvætt, eða finnurðu fyrir pressu frá lesendum og útgefendum vegna verðlaunanna sem bækur þínar hafa hlotið?

„Það er mjög skemmtilegt og gleðilegt að hafa fengið þessi verðlaun. Ég finn samt lítið fyrir pressu. Það eru svo margir sem hafa fengið verðlaun fyrir allskonar og síðan hefur ekkert til þeirra spurst. Til dæmis fékk ég einu sinni verðlaun fyrir hestaíþróttir en í dag fer ég helst ekki nálægt hestum – ekki einu sinni í Húsdýragarðinum. Mér finnst skemmtilegast að fólk hafi gaman af þessum bókum og hlakka til að takast á við önnur verkefni sem sum verða kannski sambærileg en önnur ólík.“



Hvað með viðtökur almennt gagnvart Hafnfirðingabrandaranum – eru þær öðruvísi hjá Hafnfirðingum en öllum hinum?

„Gunnar Helgason leikari, sem býr einmitt í Hafnarfirði, sagði á barnabókaráðstefnu um daginn að Hafnfirðingabrandarinn ætti að vera skyldulesning í Hafnarfirði. Ég verð að viðurkenna að Hafnfirðingarnir í kringum mig taka kannski dýpst í árinni – aðrir hafa verið aðeins rólegri. Síðan eru margir sem muna aðeins eftir afa mínum eða frænda mínum sem sagan er innblásin af og finnst þess vegna bókin vera áhugaverð. Eins og Ingvar Viktorsson. Hann vill að ég komi og segi frá bókinni á Lionsfundi. Ég held að enginn annar Lionsklúbbur en einmitt þessi í Hafnarfirði myndi vilja hitta mig. Á móti kemur var ég að reyna að selja bókina í Jólaþorpinu í Hafnarfirði síðustu jól og mér fannst svolítið margir verða fyrir vonbrigðum þegar ég útskýrði fyrir þeim að hér væri ekki brandarablað með Hafnarfjarðarbröndurum á ferðinni heldur skáldsaga – en titillinn er auðvitað svolítið villandi. Ég fékk aðeins á tilfinninguna að fólk væri spenntari fyrir fjögurhundruð blaðsíðna brandarablaði en skáldsögu sem gerist í Hafnarfirði. En svo voru auðvitað nokkrir þarna inn á milli sem voru áhugasamari og keyptu bókina.“

Ertu byrjuð að vinna að næstu bók eða bókum?

„Ég er svona að leggja línurnar þessa dagana, en veit ekki hvað verður úr.“
Bryndís nam sagn- og þjóðfræði við Háskóla Íslands og the University of California, Berkeley, og lauk BA-prófi í sagnfræði árið 2006 og MA-námi í þjóðfræði þremur árum síðar. Hvernig skyldi henni ganga að samræma ritstörf og aðra vinnu?

„Það gengur alveg þokkalega. Ég er í vinnu við Listaháskóla Íslands og þar ríkir sem betur fer mikill skilningur á að starfsmenn séu einnig að sinna eigin listsköpun meðfram vinnu.“



Að lokum – er Hafnarfjörður þér hugleikinn? Hvað er gott við Hafnarfjörð og við það að vera Hafnfirðingur?

„Hafnarfjörður er mér það hugleikinn að fólk í kringum mig er nánast búið að fá nóg. Ég má ekki stíga upp í bíl og þá er ég óvart farin að keyra til Hafnarfjarðar – en ég er búsett núna í Reykjavík. Ef einhver í vinnunni spyr á hvaða veitingastað hann á að fara á, eða gera um helgina, er eins og ég verði andsetin og mæli ég þá bara með stöðum í Hafnarfirði – með Tilverunni eða heimsókn í Hellisgerði, Súfistann eða Pallett kaffikompaní. Um daginn sagði ítalskur arkitekt sem vinnur með mér að Hafnarfjörður væri fallegasti bærinn á landinu. En það þarf auðvitað ekkert að segja mér neitt um það. Það var mjög gott að alast upp í Hafnarfirði og mér fannst vel stutt við bæði íþróttir og listir þegar ég var unglingur – en á tíunda áratugnum komu mörg bílskúrsbönd frá bænum og félagsmiðstöðvar og leikfélög voru virk. Ég veit ekki hvernig það er í dag, en þegar rétt er haldið á spöðunum þykir mér ljóst að Hafnarfjörður hefur svo margt til brunns að bera.“

Texti: Svanur Már Snorrason.
Myndir: Úr einkasafni.

Birtist í Gaflara í apríl 2015

fimmtudagur, 23. apríl 2015

laugardagur, 4. apríl 2015

Útilokar ekki endurkomu í stjórnmálin

Fyrrum bæjarstjóri okkar Hafnfirðinga, Guðmundur Árni Stefánsson, er kominn heim eftir níu ára dvöl í útlöndum sem sendiherra. Hann segir stjórnmálin eins og góðkynja vírus sem þú losnir aldrei við, og útilokar ekki að snúa aftur á þann vettvang. Gaflari hitti Guðmund Árna og lagði fyrir hann nokkrar spurningar.


Ertu alkominn heim og kom aldrei annað til greina en að flytja aftur í Hafnarfjörð?


Já, ég er kominn heim í hýra Hafnarfjörðinn eftir níu ára útiveru. Það er góð tilfinning, en vissulega tekur tíma að aðlagast á nýjan leik, þótt ég hafi auðvitað fylgst vel með gangi máli og verið í góðu og þéttu sambandi við fólkið mitt og vini á Íslandi í gegnum árin. Ég starfa nú sem svokallaður heimasendiherra í utanríkisráðuneytinu og er með ýmis mál á mínum borðum, svo sem málefni Eystrasaltsráðsins, sem er vettvangur  ellefu ríkja í norðanverðri Evrópu. Það kom auðvitað aldrei annað til greina en að flytja aftur í Hafnarfjörðinn, enda hef ég átt íbúð á Völlunum öll árin mín í útlöndum, sem börnin mín hafa nýtt og við hjónin, þegar við höfum skotist heim í frí. Alkominn heim? Það veit enginn ævina sína fyrr en öll er. Er ekki hver vegur að heiman vegurinn heim?


Ef þú lítur til baka og metur dvöl þína erlendis sem sendiherra – hvað stendur hæst upp úr og var þetta ekki töluvert öðruvísi en að starfa sem stjórnmálamaður?


Þetta voru skemmtileg og lærdómsrík ár. Ég var í tæp sex ár sendiherra í Svíþjóð og síðan önnur rúm þrjú í Bandaríkjunum. Gott og gefandi á báðum stöðum. Auk þess hafði ég mörg önnur lönd undir mínu umdæmi, svo sem Sýrland, Albaníu og Kýpur út frá Stokkhólmi, og lönd á borð við Mexíkó, Argentínu, Chile og Brasilíu á árum mínum í Washington. Það er ýmislegt líkt með störfum sendiherra og stjórnmálamanns.  Mikil og náin samskipti við fólk, og þú þarft að sýna frumkvæði í störfum þínum og vera með marga bolta á lofti samtímis. Ég hef stundum líkt störfum sendiherra í annasömu sendiráði við starf bæjarstjóra; verkefnin eru afar ólík að gerð og stærð, og að morgni vinnudags veistu ekki hvað kemur uppá yfir daginn umfram það sem á dagskránni er. Og þér er ekkert óviðkomandi þegar kemur að hagsmunum Íslands sem sendiherra eða viðkomandi bæjarfélags, þegar þú ert bæjarstjóri. En auðvitað er er sendiherra embættismaður og fylgi stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem situr hverju sinni. Það hafa setið fimm ríkisstjórnir  og sex utanríkisráðherrar, þessi ár mín sem sendiherra og ég hef ekki átt í neinum vanda með að vinna eftir stefnu þeirra allra. En það er gefandi og þakklátt að fá tækifæri til að vera andlit þjóðarinnar úti í heimi og vinna að hagsmunum hennar. Ísland er gott vörumerki og fólk erlendis forvitið og jákvætt í garð okkar, og ég hef verið svo gæfusamur að eignast fjölmarga nýja vini,  bæði Íslendinga erlendis og fólk frá fjölmörgum þjóðlöndum. Ég hef stundum sagt að hinn mikli fjöldi Íslendinga sem býr og starfar erlendis, séu ekki síður sendiherrar þjóðar sinnar, en við hinir formlegu sendiherrar.


Hvað er á döfinni hjá þér í nánustu framtíð? Gætirðu hugsað þér að snúa aftur í stjórnmálin – hefur verið pressað á þig að gera það?


Í rúm tuttugu ár voru stjórnmálin mitt aðalstarf – fyrst afar ánægjuleg ár sem bæjarfulltrúi og bæjarstjóri og síðan sem ráðherra um skeið, og svo þingmaður um árabil. Stærstan hluta þingmannsáranna var ég í stjórnarandstöðu og það reynir á, því það er erfitt að koma hugðarefnum og stefnumálum áfram verandi í stjórnarandstöðu. En allt var þetta indælt stríð. Þetta var ágætur skammtur þessi langi tími í pólitíkinni. Hins vegar neita ég því ekki að pólitíkin stendur ávallt nálægt hjarta mínu. Og ég fylgist náið með gangi mála í bæjarpólitíkinni í Hafnarfirðinum og ekki síður gangi landsmálanna. Ég hef stundum sagt að stjórnmálaáhugi og stjórnmálaþátttaka sé eins og góðkynja vírus sem þú berð með þér alla ævi. Hann getur legið í láginni um stund og svo blossar hann upp án þess að neitt verði við ráðið. Þessi vírus blossar upp hjá mér annað slagið. Ég hef hins vegar engin plön um að fara á fullt í pólitíkina aftur alveg á næstunni, enda þótt ýmsir hafi nefnt þann möguleika við mig – í gríni og alvöru. En maður skyldi aldrei segja aldrei.


Að lokum – hvernig líst þér á stöðu bæjarmála og landsmála?


Þegar stórt er spurt, þá verður fátt um svör. Margt er á réttri leið á báðum vígstöðvum, öðru miðar hægar og sumt er ekki nógu gott. Ég verð í raun og veru að segja pass við þessari spurningu að öðru leyti – enda er ég bara grámyglulegur embættismaður í utanríkisráðuneytinu. Hins vegar vil ég undirstrika að stjórnmálamenn – hvar í flokki sem þeir standa – eru allir að gera sitt besta. En stjórnmál eru ekki fyrir fáa útvalda – þau eru hreyfiafl hlutanna; það eru allir beint og óbeint þolendur og gerendur vegna ákvarðanna sem teknar eru á hinum pólitíska vettvangi. Og þess vegna hvet ég alla, ekki síst yngri kynslóðina, að láta til sín taka á þeim vettvangi. Það er áhyggjuefni, þegar stjórnmálin eru töluð niður. Vitaskuld eiga stjórnmálamenn að hafa öflugt aðhald og þola gagnrýni og skoðanaskipti, en við eigum ekki að gefa út skotveiðileyfi á fólk bara vegna þess að það er kjörið til pólitískra starfa. Því viðhorfi þarf að breyta í íslensku samfélagi. Þingmenn og bæjarfulltrúar voru kjörnir af fólkinu og eru í raun þverskurður samfélagsins. Hvorki betri né verri en við öll hin.

Texti: Svanur Már Snorrason
Myndir: Úr einkasafni
Gaflari, mars 2015

mánudagur, 30. mars 2015

Þjónninn

Hún var með græn augu, þjónninn á veitingastaðnum.

Kjóllinn hennar svo fallega gulur og ég í gömlum strigaskóm.

Eftir að hafa komið með matseðilinn til mín horfði hún lengi út um gluggann á veitingahúsinu sem sneri til suðurs án þess að segja orð.

Ég horfði á hana. Fannst eins og hún væri að safna upplýsingum með augnaráði sínu, eða að eyða gömlum minningum.

Hún horfði svo á mig og sagðist verða að hætta að hugsa um fortíðina og einbeita sér að núinu.

Mig langaði að spyrja hana hvar hún hefði fengið þennan kjól en strigaskórnir fengu mig af því.
Ég sagði við hana að það væri óþarfi að hætta einhverju og hvað þá að fara að einbeita sér að einhverju. Nema henni fyndist hún knúin til þess.

Hún sagði svo ekki vera og spurði síðan hvort ég vildi panta, en ég fékk ekki færi á að svara, því maður á næsta borði kallaði á hana og hún fór til að sinna honum og skildi mig eftir.

Við sáumst ekki aftur fyrr en löngu síðar.

sunnudagur, 22. mars 2015

John Taylor

í fjöllunum þínum 
fann ég Duran Duran plakatið
sem ég var búinn að leita að lengi
áhrifin yndisleg
eins og skuggi manns sem varpar sér út úr skugganum
og viðurkennir að John Taylor var ekki bara fallegur

heldur líka góður bassaleikari

miðvikudagur, 11. febrúar 2015