föstudagur, 20. apríl 2007

Old Habits Die Hard


Búinn að vera með þetta lag á heilanum í allan dag. Gat þó ekki hlustað á það fyrr en að afloknum vinnudegi því ég var ekkert á tónlistardeildinni í dag. Fyrir þá sem ekki vita er þetta lag að finna í kvikmyndinni Alfie, með Jude Law í aðalhlutverki. Myndin er endurgerð, upprunalega útgáfan er frá 1966, með Michael Caine í aðalhlutverki, en ég held að honum bregði fyrir í aukahlutverki í endurgerðinni (hef hvoruga myndina séð). Lagið er eftir Mick Jagger og Dave Stewart (ex Eurythmichs) og auðvitað syngur Jaggerinn þetta af stakri prýði. En það er auðvitað mikið til í því að menn hætti ekki svo snöggt að gera það sem þeir eru vanir - og er það bara ekki eðlilegt? Í innsta eðli flestra er að finna mótþróa gegn stjórn (að einhver reyni að stjórna þér eða stjórni þér) og breytingum (ég er bara eins og ég er - sættu þig við það eða láttu mig vera!). En ótrúlega margir vilja einmitt stjórna öðrum og breyta þeim um leið. Ekki fyrir mig, takk. En þó maður vilji ekki láta stjórna sér eða breyta þýðir það ekkert endilega að maður vilji sjálfur stjórna öðrum og/eða breyta. Hvernig væri bara að sætta sig við hvernig aðrir eru, láta þá, með öðrum orðum, í friði án þess þó eitthvað að útiloka þá eða fara í burtu. Fólk er fífl og fólk er frábært og fólk er allt og ekki neitt. Turn on/turn off - þú veist ekkert um það. Ekki ég heldur. En það má komast að því. Með góðu - ekki illu. Hvernig líður afskiptasömu fólki? Nei, ég vil ekki vita það. Vil ekki vita hvernig alvöru vanlíðan er. Stundum þarf að bíta í vörina, steinhalda kjafti og láta hugann reika eitthvað allt annað - langt í burtu frá þeim stað sem líkami þinn er þá stundina. Búa til heim eða heima í huganum og láta hann eða þá takast á við það sem þú vilt ekki sjálfur takast á við þá stundina. Alls ekki svo vitlaust. Nema þú sért algjörlega ósammála og þá hefurðu alveg rétt fyrir þér. Best að láta Keith Richards eiga lokaorðin að þessu sinni: "Þegar pabbi lá fyrir dauðanum sagði hann við mig: "Við hættum aldrei að þroskast..." Þetta var það síðasta sem hann sagði og svo veitti ég honum nábjargirnar. Hann talaði alltaf um það að unga fólkið héldi að þeir gömlu væru með þetta allt á hreinu, en eldra fólkið veit sem er að það veit ekki neitt. Enginn hættir að þroskast, enda væri þá ekkert vit í að taka sér þessa ferð á hendur." (Úr bókinni Steinarnir tala, útgefandi Sögur útgáfa, 2005).

Engin ummæli: