föstudagur, 30. júlí 2010

Persónuleikadýpt

það hefur farið þannig fyrir fjölda fólks að þú vilt ekkert af því vita

hækkar bara í græjunum og pælir bara í hlutum sem skipta máli

hamast á þrekhjólinu svo enginn heyri að þú sért ekki að hugsa neitt

horfir á sjálfan þig í speglinum og líður vel í nokkur andartök

svo tekur tómleikinn við

veist að nú er allt í lagi

fimmtudagur, 29. júlí 2010

ÆTTLEIDDUR AF KRÓKÓDÍLUM!


Snæbjörn Hector Hernandez (53):

ÆTTLEIDDUR AF KRÓKÓDÍLUM!

ENGINN LARFUR:
Snæbjörn saknar krókódílanna. Gengur um og lætur tilviljanir ráða lífsför. Myndin er teiknuð eftir minni.

Barátta! "Ég fæddist í frumskógi einhversstaðar á Amazon-svæðinu en var rænt af krókódílafjölskyldu þegar ég var aðeins átján ára gamall," segir Snæbjörn Hector þegar hann rifjar upp æsku sína, og upprunann.

"Foreldrum mínum kynntist ég því lítið, og hafði reyndar átt erfitt með að mynda náin tengsl við þau. Og ég vil meina að krókódílafjölskyldan hafi skynjað okkar litlu tengsl og þess vegna gripið í taumana. Ég verð þeim alltaf þakklátur fyrir það."

Hann segir það þó hafa verið erfitt að alast upp á meðal krókódíla því hann hafi aldrei lært að synda. "Það bara tókst ekki hjá mér."

Hann varð því að yfirgefa fjölskyldu sína, krókódílafjölskylduna, eftir sex vikna veru." Ég sakna þeirra alveg óskaplega, en lífið lætur ekki að sér hæða, og maður verður bara að sætta sig við örlög sín.

Ég hvarf á braut og hef síðan gengið mína leið; þú ert fyrsti maðurinn sem ég hef hitt síðan gangan hófst. Hitti reyndar eina konu fyrir langalöngu síðan, en hún var mér ekki að skapi. Ég ætla að halda áfram lífsgöngunni og láta einfaldlega tilviljunina ráða för minni," segir þessi sérstaki maður, Snæbjörn Hector Hernandez, um leið og hann hverfur inn í þokuna, hægt og hljótt.

TEXTI: BASTIAN SCHWEINSTEIGER
MYND: TROPICAL CANDY SHOES

fimmtudagur, 22. júlí 2010

Séð og Heyrt Móment 25


FEITIR RASSAR!

„Hvað er að þér, vertu ekki að spila þetta lag núna,“ sagði einn starfsmaðurinn í íþróttahúsinu þegar kvennalið Hauka var nýbúið að tryggja sér enn einn titilinn í handbolta fyrir nokkrum árum síðan.

Ég var þá að skrifa um íþróttir í DV og lagið sem kynnir Haukastelpna hafði sett á fóninn með það að markmiði að auka stemninguna á þessari gleðistundu var Fat Bottomed Girls með Queen.

Spilun lagsins fór ekki vel í áðurnefndan starfsmann sem túlkaði ekki bara fyrir sjálfan sig heldur alla aðra í húsinu að með spilun lagsins á þessum tímapunkti væri verið að gera grín að feitum rössum Haukastelpna.

En rassar þeirra voru hins vegar ekki feitir, heldur stinnir, mjúkir, mjóir, þéttir, sveittir og flottir. Þó líklega fáir að pæla í því á stundu sem þessari.

Kynnirinn sem hafði ekki ætlað að styggja neinn skipti um lag áður en Queen-slagarinn hafði klárast en ég man ekkert hvað hann setti á í staðinn; grunar að það hafi verið We Are the Champions með sömu hljómsveit – eða jafnvel eitthvað klisjukenndara.

Ég var búinn að gleyma þessu sérkennilega atviki en það rifjaðist upp fyrir mér þegar einhverjir fóru að kvarta yfir áfengisauglýsingum í HM-þætti hjá Þorsteini Joð og gera því skóna að börnin færu nú að sturta í sig af miklum móð. Börnin mín sáu þetta en báðu pabba gamla ekki um einn kaldan.

Alda forræðishyggju skellur nú á okkur sem aldrei fyrr – enginn má hafa skoðanir og öll umræða um jafnrétti er fyrir löngu orðin að draumórum um misrétti og yfirráð.

Má ég þá frekar biðja um feita rassa.

(Séð og Heyrt, 30. tbl. 2010)

I´ve been through the desert ...

föstudagur, 16. júlí 2010

FLUGVÉLAMATURINN LÆKNAÐI MIG AF HRÁSALATSHATRINU!


Arnar Ófeigur Dietrich (68):

FLUGVÉLAMATURINN LÆKNAÐI MIG AF HRÁSALATSHATRINU!

Arnar Ófeigur hefur frá æsku óttast snigla og hrásalat, en segir að framundan sé nýtt líf án hræðslu. Þökk sé flugvélamat.

MYNDARLEGUR:
Arnar Ófeigur hefur alltaf verið bæði góður námsmaður, og þá sérstaklega í félags- og heimilisfræði, og mjög myndarlegur. Til dæmis sat hann fyrir í líbanska Vogue árið 1967 íklæddur fötum frá Coco Chanel. Nam fræði sín í háskólanum í Tromsö.

Hræðsla yfirbuguð! "Þessi hryllilegi ótti kom þannig til, þegar ég var fimm ára gamall, að afi minn, Hermundur Týsson, lokaði mig inni á baðherbergi í þrjár klukkustundir, vegna þess að ég hafði svolgrað í mig rakkreminu hans, sem ég hélt vera rjóma."
Hvernig leið þér?
"Hræðilega. Þetta var ógeðslegt á bragðið og fór illa í mig líkamlega. Vistin á baðherberginu fór líka mjög illa með mig líkamlega og andlega. Þarna var fullt af sniglum og hrásalati, en þetta hafði afi flutt inn í stórum stíl frá Evrópu, og geymt inni á klósettinu, sem var nánast dauðhreinsað og með ítölskum flísum."
Og Arnar Ófeigur át. "Án afláts, enda get ég ekki verið lengi án vatns og matar, mesta lagi kortér."
Í mörg ár kvaldi þessi reynsla Arnar Ófeig. "Ég leitaði lausnar í ýmsu - nenni ekki einu sinni að nefna dæmi. En árið 1991 ferðaðist ég í fyrsta sinn með flugvél. Það breytti öllu. Flugvélamaturinn losaði mig á einu augabragði við allan fortíðarvandann, og síðan þá hef ég ekkert annað lagt mér til munns, og drekk 7 Up með. Flugfélagið Cargolux verið mér innan handar og verð ég þeim ævinlega þakklátur fyrir það," segir Arnar Ófeigur að lokum.

TEXTI: BASTIAN SCHWEINSTEIGER
MYND: ALFREÐ ÖND

laugardagur, 10. júlí 2010

TE ER MIKLU BETRA EN KAFFI!


Sigríður Schöth Lárusdóttir (49):

TE ER MIKLU BETRA EN KAFFI!

Koffein!

Sigríður, sem á albanska foreldra, hefur haldið mótmælafundi þar sem hún heldur því fram statt og stöugt að te sé betra en kaffi, og mótmælir fullyrðingum um annað.

MEÐ SITT Á HREINU:
Sigríður Schöth ólst upp í Loðmundarfirði en flutti til Hólmavíkur á unglingsárum. Nú býr hún í 101. Hér með tveimur vinkonum sínum, Birnu og Tínu, sem elska líka te og hata kaffi.

Nammite! "Ég veit að að te er betra en kaffi, þið hin verðið að fara að sætta ykkur við það," segir Sigríður Schöth ákveðin á svip og henni liggur hátt rómur.
"Þessir bjánar sem drekka og dásama kaffi alla daga ættu bara að skammast sín, það ætti í raun bara að fangelsa þetta fólk."
Er þetta ekki of langt gengið hjá þér, fólk hefur rétt á sínum skoðunum, búum við ekki við lýðræði og þarafleiðandi skoðanafrelsi?
"Nei, og jú, auðvitað, en það skiptir ekki máli í þessu samhengi. Ég er alveg klár á þessu, þið þurfið ekkert að efast um mín orð," segir hún og sannfæringarkrafturinn er mikill og það er roði í kinnum hennar.
"Te hefur mun betri áhrif á þarmana og geðheilsuna og svo var sýnt fram á það í sænskri rannsókn að karlar sem drekka mikið te eru frábærir elskhugar en þeir karlar sem drekka mikið kaffi ná honum varla upp, jafnvel þótt þeir hafi brutt heilan lager af Viagra-töflum."
Má ég sjá þessa rannsókn?
"Þú þarft ekkert að sjá hana. Trúðu mér bara, heldurðu að ég sé að ljúga? Af hverju ætti ég að gera það?"
Ókei, en hvað gerir te svona betra en kaffi?
"Það er liturinn, sjáðu til. Liturinn er málið, hugsaðu málið," segir Sigríður og stormar út úr fundarherberginu þar sem viðtalið var tekið. Ég hef ekki séð hana síðan.

TEXTI: BASTIAN SCHWEINSTEIGER
MYND: GEIRI Á GOLDFINGER

föstudagur, 9. júlí 2010

MEÐ GÚRKUR OG PAUL SIMON Á HEILANUM!


Albert Jakob Schmidt (37):

MEÐ GÚRKUR OG PAUL SIMON Á HEILANUM!

Art hver?

Albert Jakob segir ekkert betra en að snæða agúrkur og hlusta á Paul Simon, en hann vill ekkert af Art Garfunkel vita.

SNAR OG SNÖGGUR:
Albert Jakob hlustar bara á vinylplötur og segir að stafræn tækni sé ekki gerð fyrir hið mannlega eyra.

Gúrka! "Það jafnast einfaldlega ekkert á við það að koma heim í holuna sína með fullan poka af agúrkum og setja Paul Simon á fóninn - það er það besta í heimi," segir Albert Jakob sem á þýskan föður og móður frá Hvammstanga. Hann hefur þó aldrei getað sætt sig við Art Garfunkel.
"Nei, maður, Art er dauður, Art er dauður. Hann hef ég aldrei fílað, alltof væmin fyrir minn smekk. Ég hlusta eingöngu á lög sem Paul Simon hefur bæði samið og sungið."
En hvert er hans uppáhaldslag með Paul Simon?
"Þetta er nú eins og að velja á milli barnanna sinni, þó ég eigi reyndar engin börn og hafi ekki fengið drátt síðan í starfsmannaferð ÍSAL í Þórsmörk sumarið 1992. En ég verð samt að nefna 50 Ways to Leave Your Lover, sem er á plötunni Still Crazy After All These Years. Slip out the back Jack, just throw off the key Lee and get yourself free - þú veist, þú kannast við þetta?" spyr Albert Jakob blaðamann sem getur ekki annað en svarað játandi.
En hvað er með þessa agúrkuást?
"þetta hefur auðvitað ekkert með ást að gera, en samt, ég vil bara ekkert annað en agúrkur, og ég þarf ekkert annað, so why bother?"

TEXTI: BASTIAN SCHWEINSTEIGER
MYND: BJÖRN BLÖNDAL

miðvikudagur, 7. júlí 2010

Séð og Heyrt Móment 24

LJÓÐ Á ÍSLENSKU!

ég bíð á bjargbrúninni

þú talar í símann en heyrir ekki neitt

ég illa klæddur en í góðum skóm

þú heldur fast um símtólið

hrædd um að það fari frá þér

ég vil að bjargbrúnin bíði eftir mér

veit ekki hvort hún gerir það því við vorum bara rétt að kynnast

hún veit ekki hvaða mann ég hef að geyma

en stefnumótið gekk vel enda hversdagsleikinn víðsfjarri

þú vilt stóra afmælisköku skreytta með Playmobil og sígarettustubbum

ég vil drekka bjór og horfa á myndbönd með Depeche Mode og David Bowie

ef þú reddar Playmobil og sígarettustubbum skal ég redda bjór, Bowie og Depeche Mode

samkomulagið innsiglað með kossi

sætt

jafnvel sætara en brúðkaup og skilnaður

(Séð og Heyrt, 27. tbl. 2010)

ER KOMMA Í LJÓÐI?

fimmtudagur, 1. júlí 2010