þriðjudagur, 10. apríl 2007

Minningar & músík I


Er að "veiða" gamlar greinar sem ég hef skrifað fyrir Morgunblaðið og hér fyrir neðan er ein. Fyrir utan íþróttirnar voru það nokkrar greinar sem ég skrifaði fyrir Lesbók blaðsins; mest Poppklassík. En líka pistlar sem birtust mjög aftarlega í blaðinu (ekki í Lesbók) undir heitinu Ljósvaki - stuttir og gaman að skrifa þá sem og Poppklassíkina. En hér er sem sagt ein Poppklassík.


Laugardaginn 20. ágúst, 2005 - Menningarblað/Lesbók
Poppklassík Svanur Már Snorrason svanur@mbl.is (löngu hætt að vera virkt netfang!). En flott.

Ástarsaga flutt af Lloyd Cole

Ljúf og falleg lög, lipurlega samin og melódísk, sem fjalla um ástina - þetta er ekkert nýtt. Eða hvað? Jú, ef textarnir eru eitthvað meira en væmin vella sem allir hafa heyrt ótal sinnum. Ef þeir eru ekki endurtekning á frösum sem fólk hefur heyrt aftur og aftur og eru löngu búnir að tapa upprunalegri merkingu sinni. Og sú er raunin á Love Story, sem Lloyd Cole gaf út árið 1995.

Þeir sem þekkja til Lloyd Cole og ferils hans, bæði með hljómsveitinni the Commotions og svo á sólóferli sínum, vita að textagerð hans er ekki einföld eða yfirborðskennd. Nema þá þegar hann gerir það vísvitandi eins og raunin er um suma texta hans og þá sérstaklega á plötum the Commotions. Þegar hann snýr út úr frösunum og notar þá meðvitað til að gefa textunum aukið vægi.

Með the Commotions komu út plöturnar Rattlesnakes, 1984, Easy Pieces, ári seinna og svo Mainstream, árið 1988. Hljómsveitin lagði upp laupana árið 1989 og Lloyd Cole hóf sólóferil. Hann hefur aldrei náð viðlíka vinsældum á eigin vegum eins og með the Commotions en á miðjum níunda áratugnum voru þeir oft nefndir í sömu andrá og The Smiths, þótt ekki sé tónlist sveitanna neitt sérlega lík. Báðar hljómsveitir töldust þó til "gáfumannapopps", hugtaks sem var nokkuð í umræðunni á þeim tíma sem hljómsveitir eins og Wham, Culture Club og fleiri froður vermdu efstu sæti vinsældarlistanna. Það er þó nokkuð erfitt að setja The Smiths í einhvern ákveðinn flokk, kannski bara í flokk frábærra hljómsveita, það ætti að nægja! The Smiths voru reyndar nokkuð hressari en Lloyd Cole and the Commotions.

En til hljómsveita annarra sem töldust leika "gáfumannapopp", voru til dæmis Deacon Blue og Prefab Sprout og að mínu mati er plata þeirra síðarnefndu, Steve McQueen, höfuðsmíði "gáfumannatónlistarinnar" - hreinræktað meistaraverk, sem þeir reyndar náðu svo aldrei að fylgja eftir eins og svo algengt er með hljómsveitir og tónlistarmenn sem ná því að senda frá sér meistaraverk.
Það sem helst var einkennandi fyrir þessa tónlist var það að tónsmíðar voru frekar ljúfar og vel samdar og textarnir oft torræðnir og margræðnir - hlaðnir gáfum!

Á Love Story með Lloyd Cole er að finna ótrúlega vel samdar og oft mjög fallegar tónsmíðar sem afar þægilegt og hreinlega ljúft er að hlusta á. Rómantíkin í lagsmíðunum svífur yfir vötnum og ef maður kynni ekki ensku myndi maður halda að hér væri á ferð plata uppfull af innilegri og fallegri ást sem ekkert gæti eyðilagt.

En annað kemur á daginn þegar rýnt er í texta þessara fallegu laga. Lloyd Cole er ekkert væminn gaur - hann er miklu frekar maður andstæðna sem finnst gaman að gera hefðbundna hluti og óhefðbundna í sama laginu - hefðbundið lag og óhefðbundinn texti. Love Story - Ástarsaga - en í þessari sögu er ekki að finna góða og hamingjuríka byrjun né miðju - hvað þá endi! Drykkja og örvænting er oftar en ekki hlutskipti Cole og annarra þeirra sem sungið er um í lögunum og sjálfskaparvíti auðvitað nátengt þessum þáttum. Á einum stað á plötunni, í laginu "Happy for You", syngur Cole, "If you love him, you should leave me". Svo er þarna að finna lag sem heitir "Trigger Happy" - kannski ekki beint það sem búist er við að finna á plötu sem heitir Love Story.

Þessi plata hlaut ekki mikla almenna athygli og lög hennar tröllriðu ekki vinsældarlistum, sem er synd og skömm. Hér er á ferð róandi og falleg tónlist með stuðandi ástartextum - flutt af frábærum tónlistarmanni. Það er alveg hægt að hlusta á plötuna kúrandi uppí sófa með kærustunni í afslappandi andrúmslofti hversdagsleikans, ef textunum er ekki gefinn of mikill gaumur. Það er líka hægt að gefa textunum gaum, breyta andrúmsloftinu og sökkva sér ofan í grimma ástarsögu sagða af Lloyd Cole.

2 ummæli:

Unknown sagði...

Þessi dómur sannar að það er vitleysa hjá blöðunum að tala um 150-200 orða hámörk í tónlistardómum. fáránlegt. gott skrif, takk

Nafnlaus sagði...

Já, maður á ekki að hlusta á sjálfskipaða "sérfræðinga" sem allt þykjast vita um lengdir í dálksentimetrum eða mínútulengdir í útvarpi eða sjónvarpi. Með því er verið að gera lítið úr lesanda/áhorfanda/áheyranda. Kv, Svanur