föstudagur, 28. desember 2007

(Ó)(Í)MYND


Í amstri hversdagsleikans kallarðu mig lækni. Í spegilmynd raunveruleikans er ég í þínum huga hatursmaður.

Hvort er betra á bragðið, appelsínumarmelaði eða aprikósumarmelaði?

Skerðu smjérið ekki við nögl, skerðu lífið ekki við nögl, skerðu vanlíðanina og væntingarnar í garð annarra við nögl. Klipptu neglurnar, skerðu af þér fingurna, biddu bestu vinkonu þína eða besta vin þinn um að höggva af þér hendurnar.

Ekki leita þér hjálpar – ekki banka á dyr nágrannans í þeirri von um að komast inn í líf hans þótt þú vitir mætavel að þar myndu aðeins mæta þér önnur og öðruvísi vandamál sem þú réðir líklega ekkert betur við. Það væri jafnvel verra.

Hringdu bara kollekt út í heim, á flottasta barinn í New York og sjáðu hvort þeir þar vilji ekki bara taka við þér og sýna þér í eitt skipti fyrir öll að það borgar sig ekki og er fyrir neðan þína sjálfsvirðingu að vilja vera einhver annar en þú ert.

fimmtudagur, 27. desember 2007

Jólasnjórinn


Hæ jólasnjór. Hæ kuldi. Eruð þið ekki sprækir báðir? Jú.

mánudagur, 24. desember 2007

Pælingar 20 - Gleðileg jól öllsömul

Ljósið í myrkrinu

Hvert er inntak jólanna? Varla verslunaræði. Ekki er það stress á hæsta stigi. Og ég trúi því ekki að þau gangi út á það að uppfylla nautnir í mat og drykk.

Fæðing frelsarans á ekki að vera tengd sterkum böndum við allt ofantalið. Það finnst mér í það minnsta ekki. Það er ekkert að því að gera vel við sig og sína um jólin og njóta þess að vera í fríi. En eftir að hafa heyrt jólalög í meira en mánuð, séð og heyrt jólaauglýsingar í næstum tvo mánuði, ásamt því að finna hvernig stressið í samfélaginu eykst með hverjum deginum sem líður, og nær hámarki á Þorláksmessu, er ég ekki viss um að fólk almennt sé á sama máli og ég. Eða hvað?

Viljum við virkilega svona? Viljum við stress og vitleysu? Vona ekki.

Jólin á Íslandi hafa lengi verið kölluð hátíð kaupmanna og þau eru það sannarlega – því miður. Ekki vil ég kaupmönnum neitt illt en öllu má nú ofgera. Það vantar allt hóf í tengslum við jólin hjá alltof mörgum íbúum þessa ágæta lands.

Vil að jólin séu mínimalísk hátíð þar sem notaleg samvera við fólk sem manni þykir vænt um og elskar er aðalatriðið. Ég er ekkert að tala um að flytja aftur í moldarkofana og gefa kerti og spil sem jólagjafir, eða láta börnin fara að leika sér með legg og skel og búa til byssur úr sviðakjömmum.

Draga frekar andann djúpt – slaka á og hætta að taka þátt í einhverju heimskulegu neyslukapphlaupi sem ekkert skilur eftir sig nema tómleika og tóma buddu. Allt óhóf skilur eftir sig sviðna jörð – hver svo sem neyslan er. Það er staðreynd.

Við Íslendingar þurfum að hugsa okkar gang hvað jólin varðar. Inntak þeirra – kærleikurinn í tengslum við fæðingu frelsarans – er mörgum týnt og það er miður. En inntakið er ekki glatað. Og eintakið, Íslendingurinn, er heldur ekki glatað. Við munum sjá ljósið áður en langt um líður.

Gleðileg jól.

Víkurfréttir, 20. desember 2007

sunnudagur, 23. desember 2007

Valur og Jólasveinninn á Selfossi


Um daginn gerðum við Elísa Rún, Valur Áki og Rúna amma, okkur ferð á Selfoss. Var þar að vanda vel tekið á móti okkur af þeim Jóni bróður, Öldu, Nökkva og Völu. Jón eldaði líka að venju frábæran mat. Áður en við borðuðum fylgdumst við með því þegar jólasveinarnir komu til byggða. Valur Áki hitti einn sveininn og var bara ánægður með það. Pabbi hans líka. Gleðileg jól.

miðvikudagur, 19. desember 2007

Pælingar 19

Veðurljós

Fjölmiðlar hafa undanfarið fjallað um Veðurstofu Íslands og kemur það ekki á óvart. Íslendingar eru veðursjúkt fólk og margir byrja öll samtöl á einhverju veðurtengdu. Svo er veðrið álíka óútreiknanlegt og þjóðarsálin. En í áðurnefndri fjölmiðlaumfjöllun hefur veðrið ekki komið við sögu.

Nei, þar var verið að fjalla um meint einelti sem á að hafa átt sér stað lengi innan veggja veðurstofunnar og flæmt frá marga veðurfræðinga. Þá var ekki alls fyrir löngu í einu slúðurblaðanna fjallað um svokallað veðurstofubarn; barn getið af tveimur veðurfræðingum, starfandi á Veðurstofu Íslands, fólki í sambúð en ekki með hvort öðru.

Nú er ég búinn að fá í huga minn aðra mynd en ég hafði áður um starfsmenn og andann á Veðurstofu Íslands.

Myndin var nokkurn veginn svona: Rólegt og vel menntað fólk með óvenjumikinn áhuga á veðri. Fólk þetta er ekki efnilegt í módelstörf og sjaldan er fjallað um það í slúðurblöðunum og enn sjaldnar fengið í viðtal í glanstímaritum. Ekki mjög töff fólk, heimspekilega þenkjandi og gjarnan með kaffifant við hönd. Lítt meðvitað um tískuna og ég hef það ávallt grunað um að vera nokkuð andfúlt – með svitablett undir höndum – þunga hárlykt (fyrir utan þá sköllóttu) og netta táfýlu.

Þessi mynd var í huga mér, svona er ég bara. En myndin hefur breyst - orðin svona:

Alvarleikinn allsráðandi, enginn hólpinn – allir með hnút í maganum og kvíðinn er daglegt brauð. Líkt og hjá málaliðum í Kongó eða almennum borgurum í Bagdad. Enginn veit hvað hver dagur mun bera í skauti sér. Kraumandi tilfinningar; illska, góðmennska, og ástríðan ríður ekki við einteyming; allir með öllum og allir á móti öllum. Og úr þessum graut koma veðurfréttirnar til okkar.

Veðurstofa Íslands er tekin við sem hið ótamda og illa keisaraveldi sem Svarthöfði ríkti eitt sinn yfir. Veðurstofa Íslands er staðurinn þar sem hlutirnir gerast. Suðupottur mannlegra tilfinninga; þeirra góðu og þeirra vondu.

Veðurstofa Íslands er hið nýja Leiðarljós.

Víkurfréttir, 10. ágúst 2007

mánudagur, 17. desember 2007

() ()


Nágrannar mínir búa í djúpsteikingarpotti. Heilinn á mér er úr frauðplasti.
En þetta vissuð þið.
Ps: Fögur er hlíðin.

föstudagur, 14. desember 2007

ELLA


Ég vildi ég væri... Rosebud

Fulla fíflið stakk svo af, hvað hann heitir, hvað um það, ó, ég vildi ég væri...

...Budweiser í Þórsmörk, sumarið 1992... Fullt af áli... ÍSAL-ferð... Hollywood er opið í kvöld...

. .

...

____

sunnudagur, 2. desember 2007

Sem tilraun


Lífið sem tilraun er lífið sem tilraun og á að vera lífið sem tilraun og ekkert annað en lífið sem tilraun. Þessi tilraun má helst ekki takast, niðurstaða má ekki fást.. Lausnin eða uppgötvunin er engin önnur en áframhald á tilrauninni og allir taka þátt, allir leggja sitt af mörkum, skiptir engu hvað það er né hversu stórt eða lítið það er... Tilraunin er dæmd til að takast og mistakast og það er það sem hún gengur út á og það er það sem við göngum út á og við viljum gjarnan leggja út á hálan ís....
Lífið sem tilraun er lífið _____________________________________________

Desember/Jólember