föstudagur, 31. desember 2010

Frá árinu 1998


Kápan stóð mér alltaf til boða. En ég vildi ekki þessa kápu, ég fyrirleit hana. Í mínum huga stóð hún fyrir allt það slæma í ættinni, hræsni, hroka, snobb og fyrirlitningu á litla manninum.

Það hverfur mér seint úr minni þegar Sævar frændi sagði við föður minn að nú væri kominn tími til að njóta ávaxtanna, nú væru mögru dagarnir að baki, allt hefði breyst til batnaðar og þeirra skynsömu áætlanir varðandi verksmiðjuna hefðu allar gengið upp. Mér varð á að spyrja um hvað þeir væru að tala en fékk þau svör ein að ég kæmist að því með tíð og tíma, þolinmæðin yrði um sinn að vera minn fylgifiskur.
Á mínum mörgu siglingum með skemmtiferðaskipum um Karíbahafið kynntist ég mörgu athyglisverðu fólki. Flestum er ég fyrir löngu búinn að gleyma, en einum hjónum sem komu alla leið frá Nýja-Sjálandi gleymi ég aldrei á meðan ég lifi. Það var eitthvað við þessi hjón sem ég get ekki almennilega áttað mig á sem dró mig að þeim eins og býflugu að hunangi. Ég kynntist þeim ágætlega og þau virtust frekar hissa og jafnvel upp með sér að ungur piltur alla leið ofan af Íslandi hefði áhuga á að kynnast þeim. Við nánari kynni komst ég að því að þau voru á flótta undan leyniþjónustu nasista vegna tengsla þeirra við Wallenberg og félaga. Ég reyndi að umgangast þau sem mest og hafði mikinn áhuga á að heyra álit þeirra og skoðanir á þeirri hörmung sem styrjöldin var orðin að og mér lék hugur á að vita hvort þau vissu eitthvað um þátt Íslands í henni. Þau brostu góðlátlega að þessum spurningum mínum og svöruðu sem svo að Ísland væri nú engin miðja alheimsins þótt lambakjötið þaðan væri gott.

“Þennan hníf verður þú að passa eins og sjáaldur augna þinna” sagði Alexander gamli þegar hann var að gefa upp öndina í fangaklefanum í Kaíró sem ég hafði mátt hírast í í þrjú löng ár. Ég var að því kominn að gefast upp þegar hann léði mér hnífinn, ég fann það strax að það var eitthvað magnað við þennan hníf, eitthvað óútskýranlegt.

Brot úr bókinni: “Eyjólfur Adam – með storminn í bakið”, sem kemur út um jólin.

miðvikudagur, 29. desember 2010

Viðhorf til aldurs í íþróttum: Hvenær á að hætta?

Friðrik Ragnarsson
Heimir Guðjónsson
Guðmundur Karlsson


Er einhver tími öðrum fremur á ferli íþróttamanna sem hentar þeim betur en annar til að draga sig í hlé frá íþrótt sinni? Er hægt að alhæfa eitthvað um að menn séu á toppnum í íþróttum sínum á einhverjum aldursskeiðum? Sumir tala um að það sé virðingarvert að hætta á ,,toppnum.” En hvað þá með ánægjuna og félagsskapinn og jafnvel að einhverju leyti efnahaginn, sér í lagi ef menn eru enn virkilega samkeppnishæfir? Er ekki ákveðið miskunnarleysi í því viðhorfi gagnvart mönnum sem eru komnir á ,,aldur”; að þeir eigi að víkja fyrir þeim sem yngri eru svo að þeir fái notið sín og sæki sér reynslu. Er ekki eðlileg samkeppni einfaldlega alltaf besti kosturinn hvort sem um ræðir atvinnulíf eða íþróttir? Þessar vangaveltur voru lagðar fyrir þá Guðmund Karlsson, þjálfara frjálsíþróttalandsliðsins og fyrrverandi handboltaþjálfara, Heimi Guðjónsson, knattspyrnumann úr FH og Friðrik Ragnarsson þjálfara Njarðvíkur í körfubolta.

Guðmundur Karlsson:

,,Ég er þeirrar skoðunar að aldur beri að skoða út frá annarsvegar dagatali og hinsvegar líkamsástandi. Með þessu á ég við að það getur staðið á dagatali að viðkomandi íþróttamaður sé 37 ára gamall en líkamsástand hans er hugsanlega á við 25 ára gamlan mann. Að sjálfsögðu er munur á milli íþróttagreina varðandi ,,toppaldur" en ef ég nefni handbolta og frjálsar íþróttir þá tel ég þennan aldur liggja á bilinu 28-35 ára. Hins vegar er auðvitað er erfitt að meta hvenær toppnum er náð, en ef íþróttamaðurinn sjálfur er árangurslega saddur er best fyrir hann að hætta, annars ekki, en ákvörðunin á að vera íþróttamannsins fyrst og fremst og ekki annarra."
Guðmundur telur umræðu um aldur oft vera fyrst og fremst fjölmiðlavandamál. ,,Það er strax farið að tala um íþróttamenn sem gamla um og eftir 28 ára aldur sem er auðvitað bara bull og mín þjálfaraskoðun er á öndverðum meiði við fjölmiðlaumfjöllunina í dag. Með aldrinum kemur aukin keppnisreynsla og hún gerir á úrslitastundu meira en vega upp á móti hugsanlegum snerpumissi.
Það er getan ein sem telur og hún er nokkuð auðmælanleg, til dæmis í frjálsum íþróttum. Í boltagreinunum er reynslan gríðarlega mikilvæg og stór hluti afkastagetunnar. Það er ekkert mál að skora í stöðunni 3-3, en það reynir á í stöðunni 19-19, þakið að fara af húsinu og allt að verða vitlaust." Guðmundur segir að auðvitað sé keppnisharka og reynsla mjög mikilvæg í öllum greinum íþrótta og að þetta séu atriði sem þurfi að þroska. ,,Íþróttamaðurinn "lærir" að gera ákveðna hluti á ákveðnum tíma og vissan um að geta afkastað eykur sjálfstraust hans og um leið getu. Þetta ferli tekur tíma og það er eilítið misjafnt hvenær íþróttamaður nær sínum toppi. Þjálfarinn þarf hér að hafa yfirsýnina og ekki láta utanaðkomandi pressu fjölmiðla eða misvitra stjórnarmenn hafa áhrif á ákvarðanatöku.
Varðandi efnahagsþáttinn segir Guðmundur að hann hafi breyst á undanförnum árum en auðvitað verði hér hver íþróttamaður að svara fyrir sig. ,,Hér á Íslandi eru þetta óverulegir fjármunir eins og staðan er í dag og tel ég að peningahvatinn hljóti að vera aftarlega á merinni."

Heimir Guðjónsson:

,,Í dag er það einfaldlega svo að menn hætta ekki nema ungir og frískir strákar rúlli þeim upp á æfingum. Á meðan það gerist ekki er engin ástæða til að hætta, nema að áhuginn sé ekki lengur fyrir hendi,” segir Heimir. Öll umræða um ,,toppaldur” hefur breyst að hans mati: ,,Auðvitað er ekki hægt að alhæfa að menn séu á toppnum á vissum aldri eins og oft áður var talað um. Helsta ástæðan fyrir því er líklega sú að allar aðstæður til þjálfunar hafa batnað og einnig hefur þjálfunaraðferðum fleytt mikið fram eins og sést í flestum íþróttagreinum. Íþróttafólk er að ná góðum árangri þrátt fyrir að vera komið yfir þrítugt og vel það.”
Heimir segir að umræðan um að hætta á toppnum haldist yfirleitt í hendur við markmið. ,,Auðvitað er virðingarvert að hætta á toppnum ef maður hefur náð einhverju marki sem maður hefur sett sér. Hins vegar skiptir félagsskapurinn einnig miklu máli og spilar stóra rullu; eftir því sem mórallinn er betri því skemmtilegra er þetta. Bullið sem hefur átt sér stað í búningsklefum leikmanna í gegnum tíðina gæti verið gott efni í skáldsögu! Eina miskunnarleysið sem er í gangi gangvart mönnum sem eru komnir á ,,aldur“ er þegar yngri leikmenn tala um að hafa átt stefnumót við miklu eldri konur en svo kemur í ljós að gamla konan er aðeins 26 ára!
,,Aldur tengist reynslu,” segir Heimir og heldur áfram: ,,það er staðreynd að góð blanda gerir gott lið og yngri leikmenn geta lært af þeim eldri. Það myndi því aldrei ganga að skipta út heilu liði eldri leikmanna fyrir þá yngri því þeir þurfa að fá reynslu og aðlögun og þar geta þeir eldri hjálpað til. Að sjálfsögðu er gott að hafa ,,survival of the fittest” í öllum íþróttum, sérstaklega vegna þess að ég er ennþá fljótastur í FH!
Um efnahagshliðina á boltanum hafði Heimir einfaldlega þetta að segja: ,,Pening!? Um hvað ertu að tala?

Friðrik Ragnarsson:

,,Hvenær menn eru á toppnum á sínum íþróttaferli ferli er mjög einstaklingsbundið,” segir Friðrik og bætir við. ,,Mér finnst sjálfum að frá 27-28 ára aldri til 32-33 hafi menn öðlast mikla þekkingu á leiknum sem nýtist þeim og þeirra liði inná vellinum, jafnvel þó að hraði og stökkkraftur séu ekki í hámarki á þessum árum. Slíkt bæta eldri leikmenn upp með reynslu og klókindum.” Friðrik segir að ýmsar ástæður séu fyrir því að menn endist lengur í sportinu en áður. Markvissari æfingar, lyftingar og betri skóbúnaðar eru þættir sem spila stóra rullu. Þá hafi læknavísindunum fleygt fram svo auðveldara er að meðhöndla meiðsli sem áður var ekki hægt. ,,Mér finnst sjálfum ekkert að því þó að menn séu að langt fram eftir aldri haldi þeir viðunandi getu. Þó finnst mér sorglegt að sjá stjörnuleikmenn klára síðustu árin sem meðaljónar og synd að minningin um góða leikmenn fölni. Hins vegar, ef eldri leikmenn eru klárlega betri en þeir yngri eiga þeir að sjálfsögðu að ganga fyrir. Þó má ekki gleyma því að koma efnilegu leikmönnunum að, gefa þeim tækifæri, ellegar er hætt við að þú missir þá til annarra liða, og þá myndast ekki eðlilegt bil þegar þeir eldri stíga til hliðar. Annars virðist mér eins og leikmenn í dag geti haldið sér lengur á toppnum. Það gæti spilað inní að það er liðin tíð að menn stoppi í einhverja mánuði þegar keppnistímabili lýkur og komi í lélegu atgervi til næsta undirbúningstímabils. Topp leikmenn halda sér alltaf við og það er mjög greinilegt á þeim sem endast lengst að þeir hugsa æ betur um líkama sinn eftir því sem þeir eldast.” Friðrik nefnir að lokum að varðandi allt tal um pressu á "eldri leikmenn" að hætta , þá finnist honum það ansi þreytt þegar íþróttafréttamenn spyrji leikmenn ár eftir ár hvort þeir séu nú ekki að fara að hætta. ,,Þessa ákvörðun verður íþróttamaðurinn að fá að taka án utanaðkomandi pressu þegar honum finnst nóg komið.”

-SMS

(Greinin birtist í DV, mánudaginn 5. maí árið 2003)

laugardagur, 25. desember 2010

Fálkinn Valur


Inngangur

Valur Gunnarsson er kvikmyndagagnrýnandi sem er mér að skapi. Ég er ekki alltaf sammála honum en engu að síður er hann mér að skapi. Hann hefur skrifað í DV svona nokkurn veginn frá því að það blað gekk í endurnýjun lífdaga eftir gjaldþrot Frjálsrar fjölmiðlunar, haustið 2003. Valur sagði svo upp störfum í mars á þessu ári. Skrif hans vöktu iðulega athygli enda Valur beinskeyttur penni mjög og heimspekilega þenkjandi. Skrif hans voru oft óhefðbundin og pælingar hans settu gjarnan svip sinn á kvikmyndagagnrýnina. Skoðum hér dæmi um óhefðbundin skrif Vals um kvikmynd Mel Gibsons, Passion of Christ, sem birtust í DV, 20 mars í fyrra:

Er þá málið að hann var sonur Guðs? En erum við ekki öll börn Guðs? Hvernig getur skapari alls átt einkason? Var hann kannski Guð sjálfur? Hvers virði er þá að pínast í nokkra tíma vitandi að ekki bara maður sjálfur, heldur einnig allt mannkyn, á eilíft líf í vændum? Einn af veikustu punktum kristinnar trúar hefur ávallt verið hinn þrískipti en samt eilífi og ódeilanlegi Guð...
Í lok myndarinnar, þegar Jesús gefur upp öndina, sést Satan öskra af angist. Jesús þurfti jú að drepast til að allt skyldi vera fullkomnað. En hvað ef Jesús, Rómverjarnir og æðstuprestarnir hefðu klappað hvorum öðrum á bakið og ákveðið bara að vera vinir? Hefði Satan þá unnið? Allar þessar spurningar veltust um í höfði mér eftir að ég horfði á myndina, og komst svo að þeirri niðurstöðu að það er ekki heil brú í kristinni trú.


Þá er Valur flinkur með pennann og á auðvelt með að fá menn til að brosa út í annað, jafnvel bæði munnvikin, og reyndar fá lesendur til að skellihlæja með hárbeittri kaldhæðninni eða bara hreinlega grimmdinni einni að vopni. Honum tekst oft að taka myndir “af lífi” með þeim hætti að þú rekur upp skellihlátur. Auðvitað eru síðan margir sem hneykslast á slíkum skrifum og finnst kvikmyndagagnrýni ekki vera rétti vettvangurinn fyrir gagnrýnanda að láta ljós sitt skína – hann eigi fyrst og síðast að segja frá myndinni og hvernig honum fannst hún og færa fyrir því rök. Gott og vel – við eigum slíka gagnrýnendur – góða kvikmyndagagnrýnendur sem starfa til að mynda á Morgunblaðinu og reyndar fleiri miðlum. En að mínu mati er pláss fyrir að minnsta kosti einn gagnrýnanda eins og Val Gunnarsson í okkar fjölmiðlaflóru.

Kvikmyndaleikstjórinn Friðrik Þór Friðriksson er ekki hrifinn af skrifum Vals Gunnarssonar um kvikmyndir og var ekkert að fara í launkofa með það í viðtali við tímaritið Mannlíf í janúar á þessu ári. Skoðum hvað Friðrik hafði þar að segja um kvikmyndagagnrýni:

Friðrik Þór gefur lítið fyrir íslenska kvikmyndagagnrýnendur sem hann segir að hafi oftar en ekki gefið myndum hans slæma dóma. Hann segir gagnrýni hér iðulega vera reista á vanþekkingu og þörf til að gera neikvæða hluti að aðalatriði í stað þess að horfa til þess sem vel er gert.
“Eins og ég hef stundum sagt áður þá eru flestir fífl sem fást við gagnrýni hér heima. Undantekningin er einna helst Heiða Jóhannsdóttir, gagnrýnandi Moggans og Ólafur Torfason en andstæða við hann er fálki eins og Valur Gunnarsson, gagnrýnandi DV. Á greinum hans má glöggt sjá hve ofboðsleg vanþekking hans er. Hann hefur stundum verið að vitna til kvikmyndasögunnar og þá kemur þekkingarleysið glöggt fram. Hann hélt því til dæmis fram að mynd Viktors Sjöström um Fjalla-Eyvind hefði verið tekin á Íslandi. Þetta er fyrsta kvikmyndin sem tekin var utandyra. Þeir sem kunna einhver skil á sögunni vita að hún var gerð í Svíþjóð. Þetta er dæmi um bullið og maður hættir að lesa dóma svona manna. Það er svo ólíkt því sem hann er að gera í ritstjórn Grapevine sem er einhvern veginn miklu gáfulegra og aðdáunarvert. Ábyrgð á svona skrifum hlýtur að vera ritstjórnarleg. Ég skrifaði hér á árum áður kvikmyndagagnrýni í DV og er sannfærður um að ég hefði verið rekinn ef slíkt þekkingarleysi hefði komið í ljós. Ég skrifaði reyndar bara um myndir sem mér líkaði vel og reyndi að hjálpa áhorfendum við að fara inn í erfiðar myndir og lagði áherslu á að vera jákvæður og opna fólki nýjar víddir eins og reyndar er tilgangurinn með alþjóðlegri kvikmyndagerð.”


Þessi orð Friðriks gerðu mig um leið enn forvitnari en áður um Val Gunnarsson og kvikmyndagagnrýni hans. Mér lék forvitni á að ræða málin við Val og hafði því samband við hann og fékk hann til að svara nokkrum spurningum um kvikmyndagagnrýni.
Þar sem hann dvaldi í Finnlandi þegar ég loks náði í hann var tölvupósturinn fyrir valinu sem samræðugrundvöllur – ódýr en spurningarnar og svörin vonandi ekki. Hér er því ekki um ræða svokallað mannlífsviðtal, hugtak sem skaut upp kollinum með glanstímaritunum; það er að segja að færa viðtal í ákveðinn búning sem að mínu mati snýst fyrst og fremst um höfund textans en ekki viðmælandann og hvað hann hefur að segja miðað við hvaða spurningar þú hefur sjálfur fram að færa. Mín skoðun.

Samræðan

Svanur: Til að byrja með, segðu mér aðeins af sjálfum þér, menntun og slíkt, og hvernig það kom til að þú fórst að skrifa gagnrýni um bíómyndir fyrir DV?
 
Valur: “Ég lærði sagnfræði við Háskóla Íslands og var tvisvar skiptinemi í Finnlandi. Þar voru ýmsir skemmtilegir kúrsar svo sem um írskar bíómyndir og kvikmyndir voru notaðar sem dæmi í Rússlandssögu. Ég skrifaði svo B.A. ritgerð um bandarískar kvikmyndir og stjórnmál í Víetnamstríðinu. Að því loknu fór ég í nám í ritlist til Belfast. Bíómyndir voru mikið notaðar þar sem dæmi, og skyldunámsbækurnar voru tvær, Um skáldskaparlistina eftir Aristóteles og A Whore's Profession eftir handritshöfundinn og leikstjórann David Mamet. Þess má einnig geta að ég vann um stund á videóleigunni á Sólvallagötu. Ég var að vinna á DV eftir að það byrjaði aftur, og var að skrifa um menningarmál. Það var enginn þar að sinna kvikmyndum sérstaklega, þannig að ég tók það að mér. Ég var svo útnefndur kvikmyndagagnrýnandi eftir að ég fór að sjá Kaldaljós og gaf henni tvær stjörnur, en það virtist vera nýmæli að íslenskur gagnrýnandi gæfi íslenskri stórmynd ekki meira en í meðallagi góða dóma.”

Svanur: Hverjir eru þínir uppáhaldskvikmyndagerðarmenn og leikarar og af hverju?
 
Valur: “Það er merkilegt að ég hef mjög ákveðna uppáhalds tónlistarmenn sem ég dýrka og dái og hlusta kannski oft á fátt annað en er ekki jafn upptekinn af neinum einum kvikmyndagerðarmanni. Kannski er það vegna þess að svo gríðarlega margir koma að gerð kvikmynda og því sjaldnar að leikstjórinn einn, hvað þá stakur leikari, skipti sköpum. En ég hef sérstakt dálæti á bandarískri kvikmyndagerð á 8. áratugnum, og þar er Martin Scorsese fremstur í flokki jafningja með myndir eins og Taxi Driver og Mean Streets. Einnig gerði hann Last Temptation of Christ, sem hefur líklega haft talsverð áhrif á trúmál mín. Mér fannst Robert De Niro vera besti leikarinn, en hann hefur verið statt og stöðugt að vinna gegn þeirri skoðun minni undanfarinn áratug. Á hinn bóginn sýnir Al Pacino í hinni nýlegu Merchant of Venice að hann getur enn ýmislegt. En það má ekki gleyma því að sá sem hefur hvað mest með gæði mynda að gera er handritshöfundurinn. Paul Schrader hefur skrifað handritið að sumum af bestu myndum Scorsese. Og Charlie Kaufman er ábyrgur fyrir sumum af bestu myndum undanfarinna ára.”   
 
Svanur: En segðu mér, hvað þarf góður gagnrýnandi að hafa til brunns að bera?
 
Valur: “Hann þarf að vera afar einstrengingslegur. Og helst ekki lesa dóma annarra. Það getur verið erfitt að hrósa mynd sem allir aðrir hata, eða gagnýna mynd harkalega sem að aðrir gagnrýnendur lofa. Stundum læðist að manni sá grunur að maður sé í slíkum tilfellum einfaldlega ekki að skilja eitthvað. En maður er jú þrátt fyrir allt alltaf að fjalla um myndir út frá eigin sjónarhól, ekki út frá því hvað öðrum finnst.
Hitt er einnig mikilvægt að skrifa skiljanlegan og helst skemmtilegan texta. Það er afar slæmt þegar gagnrýnendur halda að þeir séu fyrst og fremst að skrifa fyrir aðra gagnrýnendur. Enda eru fæstar bíómyndir gerðar fyrst og fremst fyrir gagnrýnendur. Kvikmyndin er á heildina litið frekar aðgengilegt listform, og gagnrýnin þarf að vera það líka.”
 
Svanur: Að þínu mati, hvað einkennir íslenska kvikmyndagagnrýnendur og eru þeir að einhverju leyti ólíkir bókmenntagagnrýnendum, tónlistargagnrýnendum o.sv.frv.?

Valur: “Það sem háir öllum íslenskum gagnrýnendum er smæðin. Það er næstum því öruggt að maður hitti þann sem verið er að fjalla um fyrr eða síðar, og jafnvel geti þurft að starfa með honum. Þannig er erfiðara að vera gagnrýnandi í litlu samfélagi en stóru. Það sem er svo verst fyrir kvikmyndagagnrýnendur er hversu fáar íslenskar kvikmyndir eru gerðar miðað við til dæmis plötur og bækur, og hversu margir koma að hverri mynd. Því er talsverður þrýstingur á að "vera góður".”

Svanur: Gagnrýni í íslenskum fjölmiðlum á erlendar myndir – er hún markaðstengd, má ekki styggja þá sem reka bíóin, verður þetta helst að vera í jákvæðum kynningarstíl a la Séð & heyrt?
 
Valur: “Vafalaust myndu kvikmyndahúsin helst kjósa að hafa alla umfjöllun í Séð & heyrt stíl. En það er erfitt fyrir þau að ráða því. Sérstaklega þar sem íslenskir kvikmyndagagnrýnendur reyna oft að bæta upp þá silkihanskameðferð sem íslenskar myndir fá með því að vera harðir við erlendar myndir. Það er mjög erfitt fyrir kvikmyndahúsaeigendur að hafa áhrif á gagnrýnendur hjá stóru blöðunum þremur þar sem þeir geta varla lokað neinn úti og lokað á gagnrýni og orðið þannig af umfjöllun. En kvikmyndahúsaeigendur afhenda bíópassa til gagnrýnanda og ráða þannig hvaða miðla þau viðurkenna. Til dæmis neituðu þau að láta Grapevine fá passa og höfðu áður sagt að þau vildu "umfjöllun, ekki gagnrýni." Hvort að nærvera mín, sem hef jú talsvert orð á mér fyrir neikvæðni, kom að sök, veit ég ekki. “   
 
Svanur: Gagnrýni á íslenskar kvikmyndir – afar viðkvæmt efni – er það ekki? Er ekki oft talað um að íslenskar bíómyndir fái yfirleitt alltaf 3 stjörnur – sama hvernig þær eru? Þetta er lítill heimur hér á Íslandi – allir þekkja alla – er reynt að hafa áhrif á fjölmiðla til þess að gefa ekki slæma umsögn svo aðsóknin verði mögulega ekki slæm?
 
Valur: “Það hefur jú viðgengist lengi að gefa íslenskum myndum forgjöf. Friðrik Þór Friðriksson viðurkennir þetta í viðtali sínu í Mannlíf þar sem hann segir að þegar hann var gagnrýnandi hafi hann ávallt haft það í huga að menn hafi verið að veðsetja húsin sín.
En íslensk kvikmyndagerð er löngu búin að slíta barnsskónum og ef hún fær alltaf forgjöf er í raun búið að gengisfella alla gagnrýni. Þannig tekur fólk lítið mark á gagnrýni á íslenskar bíómyndir og vonlaust er fyrir gagnrýnendur að hampa þeim myndum sem í raun eiga það skilið þegar öllum er hampað jafnt. Gagnrýnendur eru þannig búnir að afsala sér þeim áhrifamætti að hvetja fólk til að sjá góðar bíómyndir.”

Svanur: Í kjölfar ummæla Friðriks Þórs Friðrikssonar um sjálfan þig í tímaritinu Mannlíf sagðir þú upp störfum á DV. Hvers vegna gerðirðu það, tókstu ummælin svona nærri þér? Ekki ætlarðu að segja mér að þú sért svona hörundssár maður – maður myndi halda annað sé mið tekið að kraftmiklum og oft óvægnum skrifum þínum?

Valur: “Ég er ekki svona hörundssár. Ástæðan er önnur. Ég hafði þá þegar staðið í deilum við aðra íslenska kvikmyndagerðarmenn, þar sem sumir tóku mjög illa í að ég hafi verið að gagnrýna Friðrik Þór. En í raun var ég ekki að gagnrýna hann heldur mynd hans Niceland. Þetta virtist fara framhjá mörgum. En ástæðan var fyrst og fremst sú að ég var og er að reyna að koma mér á framfæri sem rithöfundur. Gagnrýnin var aukabúgrein og áhugamál. Hinn fullkomni gagnrýnandi ætti ekki að hafa ætlanir um að sjálfur hasla sér völl á listasviðinu, sérstaklega ekki á litlu landi eins og Íslandi, því slíkt gæti alltaf litað skoðanir hans. Eftir þau viðbrögð sem ég fékk við dómnum um Niceland var ég hræddur um að verða varkárari í framtíðinni, sem hefði gert mig vanhæfan sem gagnrýnanda. Ég var þá að fara að vinna að bók og fannst hvorki rétt né viturt að halda áfram að skrifa gagnrýni þangað til hún kæmi út. Það væri pínu eins og þegar saksóknari lendir í fangelsi.”  
 
Svanur: Stíll þinn sem gagnrýnandi er að mínu mati afar sérstakur. Þú kemst skemmtilega að orði, vekur upp undrun og oft hlátur eða hneykslan. Ertu meðvitaður um stíl þinn, gerir þú viljandi í því að reyna að vekja athygli, stuða fólk jafnvel. Ég tek sem dæmi að þú gafst óskarsverðlaunamyndinni Lost in Translation, í leikstjórn Sofiu Coppola, hauskúpu á meðan flestir aðrir fjölmiðlar lofuðu myndina í hástert. Hvað viltu segja lesendum fyrst og fremst þegar þú skrifar kvikmyndagagnrýni?
 
Valur: “Hvort það eigi eða eigi ekki að sjá mynd og þá hvers vegna/hvers vegna ekki. Bestu dómarnir eru þannig skrifaðir að það geti verið gaman að lesa þá án þess að hafa séð myndina eða ætlað sér að sjá hana, og það hafði ég að leiðarljósi. Lost in Translation fannst mér leiðinleg mynd. En allt sem ég segi reyni ég að segja eins skýrt og ég get, annað meikar ekki sens.

Svanur: Hvað er næst á döfinni hjá Val Gunnarssyni?
 
Valur: “Akkúrat núna er ég að fara á fyllerí, enda kvöldið fyrir Vappú, mestu fylleríshátíð Finnlands. Á þriðjudag (3. maí) held ég áleiðis frá Helsinki til Lapplands og svo til Múrmansk. Allt er þetta gert í þágu listarinnar þar sem ég er að skrifa bók. Tja, nema kannski fylleríið.”

Svanur Már Snorrason
Háskóli Íslands - almenn bókmenntafræði
05.00.65 - Gagnrýni og ritdómar
Kennarar: Ástráður Eysteinsson og Auður Aðalsteinsdóttir
Vor 2005

fimmtudagur, 9. desember 2010

sunnudagur, 28. nóvember 2010

Niðurlægingarskeið David Bowie – ekki svo niðurlægjandi!


David Bowie á farsælan og litríkan tónlistarferil að baki sem enn sér ekki fyrir endann á. Hér verður aðeins stiklað á stóru á ferli þessa breska listamanns, en mest fjallað um níunda áratuginn sem oft hefur verið nefndur niðurlægingarskeið í æviferli hans. Segja má að styrkur hans sem tónlistarmanns endurspeglist hvað best og mest á þessu æviskeiði því að jafnvel þá sendir hann frá sér lög sem teljast gott innlegg í tónlistarlífið og lifa ágætu lífi enn í dag þótt þau séu talsvert frá hans best verkum.
Staðan hjá David Bowie í dag er góð þótt hún sé nokkuð ólík þeim sem hann hefur áður verið í. Netpælingar hans, myndlistarsköpun og svo sala á hlutabréfum í sjálfum sér hafa vakið athygli og þá hefur hann sannað sig sem ágætur leikari, bæði í kvikmyndum og á leiksviði. Því er orðið listamaður, eða jafnvel fjöllistamaður, notað til jafns um hann eins og tónlistarmaður. Þó er hann og verður fyrst og fremst tónlistarmaður og þannig verður hans líklega alltaf minnst.

Bowieuppsveifla
Síðustu tvær afurðir David Bowie, Heathen, sem kom út í fyrra og Reality, sem er nýkominn út, hafa báðar yfirleitt hlotið mjög góða dóma og selst talsvert betur en önnur síðustu verk kappans svo sem, 1. Outside sem kom út árið 1995, Earthling, 1997 og Hours, 1999. Allar fengu þessar plötur ágæta dóma en tónlistin var þó ekki sérlega vinsældarvæn, helst þó á Earthling þar sem Bowie daðrar við drum´n bass. Tónlist hans hefur þyngst með árunum og metnaðurinn hefur breyst. Bowie þarf ekki að sanna sig og hann er ekki á höttunum eftir frekari landvinningum; hann gerir einfaldlega tónlist eins og hann vill gera og þóknast hvorki einum né neinum. Áðurnefndar Heathen og Reality sem og afar vel heppnaðar og hreinlega glæsilegar endurútgáfur hans á plötunum The Rise And Fall of Ziggi Stardust And The Spiders From Mars og Aladdin Sane, í tilefni af 30 ára útkomuafmæli þeirra, hefur örvað áhuga manna á David Bowie og tónlist hans. Það er því búin að vera Bowieuppsveifla í gangi undanfarin misseri og ekki er að sjá að karlinum sé farið að fatast flugið, þótt ekki hafi ferill hans allur verið samfelld sigurganga.

Áttundi áratugurinn
Bowie hefur oft verið nefndur Kamelljónið vegna hæfileika síns til að skipta um ham og tileinka sér hinar og þessar tónlistarstefnur, án þess þó að listrænn metnaður glataðist og oftar en ekki hefur honum tekist að vera á undan öðrum og því verið sá sem rutt hefur brautina, ef svo mætti að orði komast. Margir halda því fram að hátindi ferils síns hafi Bowie náð á áttunda áratugnum en þá komu út breiðskífurnar Space Oddity, The Man Who Sold The World, Hunky Dory, Ziggy Stardust, Aladdin Sane, Pin – Ups, Diamond Dogs, Young Americans, Station To Station, Low, Heroes, Lodger, auk tveggja hljómleikaplatna, David Live og Stage, auk fjölda annarra samvinnuverkefna, til dæmis með Iggy Pop. Þarna er að finna ótrúlegan fjölda af frábærum lögum og það eru líklega aðeins Bítlarnir sem geta státað af öðru eins á svo stuttum tíma. Þessi áratugur í lífi hans var tími mikillar tónlistarlegar frjósemi en einnig óhóflegrar eiturlyfjanotkunar. Hvort það geti tengst á einn eða annan hátt skal ósagt látið, en eftir að Bowie fór í meðferð kom langt skeið þar sem sköpunarkrafturinn fór dvínandi. Reyndar viðurkenndi kappinn það seinna að eiturlyfin hafi áfram verið fylgifiskur hans þangað til nýlega eins og verður vikið að á eftir, en í mun minni mæli þó en áður, enda varð hann fyrir miklum áföllum á líkama og sál og geðheilsa hans var ekki alltaf upp á marga fiska. Yfirlýsingar Bowies um meinta tvíkynhneigð sína, daður við nazisma og í raun algjör athyglissýki og allar þær blóðsugur sem fylgja frægðinni í allri sinni mynd hafa eflaust hjálpað til við að nánast þurrausa kappann. Sköpunin og velgengnin á áttunda áratugnum er með hreinum ólíkindum, hlaut ekki að koma að einhverri niðursveiflu, hver svo sem ástæðan eða ástæðurnar væru?

Byrjunin góð - svo niðursveiflan
Níundi áratugurinn hófst þó með glæsilegum hætti hjá Bowie, en í september 1980 kom út platan Scary Monsters (and Supercreeps) og hafi listrænn metnaður hans sem og kraftmikill og tilraunakenndur frumleikinn í bland við nánast fullkomnar melódíur einhverntímann risið upp í hæstu hæðir þá var það á þessum verki. Þetta var síðasta verkið sem Tony Visconti stjórnaði upptökum á, en hann hafði verið samstarfsmaður Bowie meirihluta áttunda áratugarins, en leiðir þeirra skildu, því miður, eftir Scary Monsters og náðu ekki saman aftur fyrr en á nýútkominni Heathen. Bowie fylgdi Scary Monsters ekki sérstaklega eftir, en kaus þess í stað að leika John Merrick í sviðsuppfærslu á Fílamanninum í Chicago og New York og þótti gera því hlutverki góð skil. Bowie var í raun lítið í sviðsljósinu næsta hálfa þriðja árið eftir útkomu Scary Monsters og er talið líklegt, meðal annars, að morðið á John Lennon hafi spilað þar veigamikinn þátt, en þeir voru góðir vinir sem aðstoðuðu af og til hvorn annan í tónlistinni.
Margir samverkandi þættir ullu því að sköpunargáfa Bowie dvínaði, en eiturlyfjanotkunin áðurnefnda er líklega helsta orsökin. Eins og áður var nefnt hætti hann ekki alveg að dópa fyrr en komið var fram á níunda áratuginn og seinna sagði hann í viðtali að drykkja sín hefði aukist mjög mikið eftir að hann hætti við dópið. Nýverið gaf Bowie út þá yfirlýsingu að hann hefði endanlega sagt skilið við áfengi og eiturlyf, léti þó eftir sér einn og einn kaffibolla!

Let´s dance og vinsældirnar
Nile Rodgers stjórnaði upptökum á Let´s dance, sem kom út 14. apríl árið 1983. Hann kom á síðustu stundu í stað áðurnefnds Tony Visconti, sem Bowie setti út í kuldann því hann taldi að Visconti talaði of mikið um son sinn, Joe, (hann hét áður Zowie, en lét breyta nafni sínu snarlega um leið og hann mátti) við fjölmiðla. Hvort þetta hafi verið ástæðan eða ekki telja margir músíkspekúlantar þessi umskipti hafa verið byrjunin á áðurnefndu niðurlægingarskeiði, en að sjálfsögðu, eins og áður var nefnt, í bland við marga samverkandi þætti sem ekki er auðvelt að útskýra á einfaldan hátt. En hvað er þetta niðurlægingarskeið Bowie? Eitt er víst að Let´s Dance er langsöluhæsta plata hans og tónleikaferðin sem farin var í kjölfar hennar, Serious Moonlight, er sú stærsta og vinsælasta sem hann hefur farið í. Þá fóru smáskífur plötunnar á topp vinsældalistanna eða nálægt honum og almennt séð var Bowie orðinn ein allra stærsta stjarnan í tónlistarheiminum og 16. júlí 1983 átti hann tíu plötur á topp eitt hundrað plötulistanum í Bretlandi. Auðvitað var Bowie löngu orðinn stórstjarna þegar hér er komið við sögu, en nú var hann meira í ætt við hefðbundnari stjörnur sem sigla milli skers og báru. En þarna sannast hið fornkveðna, að ekki er allt fengið með frægðinni, sérstaklega þegar innihaldið er mun rýrara en umbúðirnar og þrátt fyrir að Bowie hafi alltaf lagt mikla áherslu á ytra útlit verka sinna var innihaldið alltaf í það minnsta jafnoki þess og oftast mikið meira. Let´s Dance er vissulega ekki ónýt plata og á henni er að finna nokkur mjög góð lög en öll umgjörðin er þess eðlis að nánast er eins og hjá hefðbundinni stórri poppstjörnu, en ekki hjá manni sem þekktur var fyrir hið óvænta, djarfa og frumlega í tónlist, manni sem ruddi brautina fram á við.

Tonight og Never Let Me Down – andleysi og áhugaleysi
Bowie hefur látið hafa eftir sér í viðtölum um þetta mesta vinsældatímabil hans að hann hefði verið fullur af tómleika og fundist að hann hefði ekki verið að gera merkilega hluti þótt vinsældirnar og plötusalan segðu annað; hann var ósáttur við sköpun sína. Segja má að þessi tómleiki og þetta andleysi hans þá, miðað við verk hans á áttunda áratugnum, haldi áfram og marki tvær næstu sólóplötur hans: Tonight, sem kom út árið 1984 og Never Let Me Down, sem kom út þremur árum síðar. Þetta eru almennt talin slökustu verk hans, mörkuð litlum áhuga, sköpunarkrafti og frumleika; aðdáendur hans komust fljótt að því og salan á þessum plötum var ekki svipur hjá sjón miðað við Let´s dance.
Á árunum 1983-1986 vinnur Bowie meðfram að nokkrum frekar veigalitlum verkefnum og líklega óhætt að segja að þessi ár frá því að Let´s Dance kom út og þangað til Never Let Me Down kemur út séu niðurlægingarskeið David Bowie.

Tin Machine
Þó má taka inn í þetta niðurlægingarskeið hljómsveitina Tin Machine sem Bowie setti á stofn ásamt trommuleikaranum Hunt Sales, bróður hans, Tony Sales bassaleikara svo og gítarleikaranum Reeves Gabrels. Sú hljómsveit gaf út þrjár breiðskífur en aðeins ein af þeim, sú fyrsta frá árinu 1989 og samnefnd hljómsveitinni, seldist í yfir milljón eintökum.. Plata númer tvö, Tin Machine II (1991) gekk illa og þriðja platan, sem var tónleikaplata og bar nafnið Tin Machine Live: Oy Vey, Baby (1992), varð alger lágpunktur hvað varðar almennan áhuga á Bowie og tónlist honum tengdum, því hún seldist nánast ekki neitt. Þó er athyglisvert að hlýða á Tin Machine því að sú hljómsveit markar upphaf endaloka niðurlægingarskeiðsins þótt kappinn hafi ekki enn alveg náð áttum og ekki komið sköpunargleðinni í lag fyrr en nokkru síðar. Þarna var þó að finna kraftmikla og groddalega rokktónlist með beittum pólitískum textum og þótt áhugi almennings hafi verið harla lítill þá skein í gegn að Bowie var að komast á lappirnar og ná fótfestu á ný, - og hér var ekki verið að þóknast einum né neinum. Hér verður þó ekki rætt um lögin þeirra í Tin Machine heldur einungis skoðuð sólólög Bowies.

Lok niðurlægingarskeiðsins
Því er stundum haldið fram að niðurlægingarskeiði Bowie ljúki endanlega með plötunni Black Tie White Noise sem út kom árið 1993 og þótt sú skífa sé ekkert í líkingu við hans bestu verk þá hljómar platan nútímalega og er nokkuð heilsteypt, enda maðurinn nýgenginn í hjónaband með hinni gullfallegu sómölsku fyrirsætu, Iman. Það væri hægt að velta sér upp úr því fram og til baka hvaða þættir hafi ráðið mestu um það að David Bowie glataði frumkvæði sínu og ferskleika, hugmyndauðgi sinni og sköpunarkrafti í bland við mikla djörfung og markaðsvitund. En hinu er ekki að neita að hann gerði það. Hvernig svo sem menn skilgreina þetta, hvenær það byrjaði og hvenær því lauk og svo framvegis, þá er það einfaldlega svo að hann gerði ekki bara lélega tónlist á þessu tímabili. Frá honum komu lög á árunum 1983-7 sem fyllt geta einn geisladisk og sýna að jafnvel á niðurbrotaskeiði sínu stendur hann flestum öðrum tónlistarmönnum og hljómsveitum þess tíma fyllilega á sporði og það eru fáir ef nokkrir sem gætu boðið upp á annað eins lagaval á lágpunkti ferils síns eins og David Bowie gerir. Gjöriði svo vel og njótið, David Bowie á niðurlægingarskeiði sínu – það besta frá því versta!

Modern Love (Let´s dance). Geysilega grípandi og kraftmikið popplag með nokkuð sterkum texta um sambandið milli guðs og manns. Náði öðru sætinu á breska vinsældarlistanum en fór hæst í fjórtánda sæti þess bandaríska.

China Girl (Let´s dance). Þetta sömdu Bowie og Iggy Pop saman og frumútgáfuna er að finna á plötu Iggy Pop, “The Idiot album” frá árinu 1977. Þessi útgáfa er allt öðru vísi og lagið er grípandi, þótt texti lagsins sé í raun frekar dimmur og forvitnilegur:
I wander into town/Just like some sacred cow/visions of swastikas in my head/Plans for everyone/It´s in the white of my eyes. Lagið náði öðru sætinu í Bretlandi og því tíunda í Bandaríkjunum.

Let´s dance (Let´s dance). Topplag plötunnar, fór á toppinn bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum og varð gríðarlega vinsælt um allan heim og söluhæsta smáskífa kappans fyrr og síðar. Einfalt, skothelt og dansvænt.

Cat People (Putting out fire) (Let´s dance).
Lagið samdi Bowie með Giorgio Moroder fyrir kvikmyndina “Cat People” þar sem Malcolm McDowell og Nastassja Kinski fóru með aðalhlutverkin. Útgáfan sem er að finna á Let´s dance er ólík þeirri upprunalegu, sem náði 26.sætinu á breska vinsældarlistanum, því að búið er að klippa út þátt Moroders í undirspilinu og bæta við öðru, og er það síst til bóta. En lagið er gott og rödd Bowies hljómar einkar flott.

Criminal World (Let´s dance). Lag upphaflega flutt af The Metros. Virkilega flott útgáfa – frábær bassalína – eitt af þeim betri á plötunni.

Dancing in the street. Upphaflega flutt af Martha Reeves and The Vandellas. Gefið út í tengslum við Live-Aid tónleikana sem haldnir voru á sama tíma, sumarið 1985, í London og Philadelphiu. Það hefði gjarnan mátt velja betra lag en þó var það þess virði að heyra í David Bowie og Mick Jagger saman. Lagið fór beint á toppinn í Bretlandi.

Loving the Alien (Tonight). Virkilega gott lag þar sem kjarkur og þor fara saman og þá er myndbandið ansi hreint skemmtilegt og hálf klikkað. Lagið náði 19. sætinu í Bretlandi en hefði átt miklu meira skilið.

Tonight (Tonight). Annað lag eftir Bowie og Iggy Pop, upphaflega frá árinu 1977, en hér er það Tina Turner sem aðstoðar Bowie en frekar lítið fer þó fyrir kraftmikilli rödd hennar. Lagið er grípandi og í ágætum Reaggie-stíl en náði engum vinsældum, sem kom mönnum á óvart á þessum tíma.

Blue Jean (Tonight). Grípandi og langkraftmesta lag plötunnar og minnir að nokkru leyti á Ziggy-tímabilið. Náði 6. sætinu á vinsældalistanum í Bretlandi.

This is not America. Úr kvikmyndinni The Falcon And The Snowman frá 1984 þar sem Sean Penn og Timothy Hutton fóru með aðalhlutverkin. Gítarleikarinn Pat Metheny og hljómsveit hans sáu um undirleikinn og lagið er lagleg melódía með döprum undirtón sem speglar afdrif aðalpersóna kvikmyndarinnar ágætlega. Náði 14. sætinu í Bretlandi snemma árs 1985 og varð ein söluhæsta smáskífa Bowies í Þýskalandi. Var aukalag á Tonight þegar sú skífa var enduútgefinn árið 1995.

Absolute Beginners (Er að finna á sömu endurútgáfu og This is not America.) Úr samnefndri kvikmynd eftir Julien Temple frá árinu 1986. Hér er Bowie mættur í fínu formi og með hreint frábært lag enda rétt missti það að fyrsta sætinu í Bretlandi. Saxafónsleikurinn í laginu er sérstaklega flottur, gerist varla betri, algjör lungnasprengja, en um hann sá Don Weller.

When The Wind Blows (Aukalag á endurútgáfunni á Never Let Me Down frá 1995). Samið fyrir samnefnda teiknimynd Raymonds Briggs frá árinu 1986. Þetta er gott dæmi um það áhugaleysi sem var á tónlist Bowies á þessum tíma því lagið komst einungis í 44. sætið á breska vinsældalistanum þrátt fyrir að vera eitt hans besta lag í langan tíma.

Time will crawl (Never Let Me Down). Besta lag þessarar plötu, grípandi popp og þá er textinn skemmtilegur en lagið náði ekki nema 33. sætinu í Bretlandi.

Glass Spider (Never Let Me Down). Leiftur frá áttunda áratugnum og freudískur texti um samband móður og barns; glæður hjá kappanum.

Texti: Svanur Már Snorrason

(Grein þessi birtist talsvert stytt í Lesbók Morgunblaðsins þann 30. júlí árið 2005. Hér er greinin óstytt)

föstudagur, 5. nóvember 2010

Club Tropicana


Langar að blogga en get það ekki, en auðvitað get ég það líkt og skúffuskáldið getur gefið út skáldsögu eða smásagnasafn eða ljóðabók. En samt er eitthvað sem stoppar mig en það er ekki Þórður Kakali - hann tel ég mestan stjórnanda eða leiðtoga sem við Íslendingar höfum átt, og enginn nema Jón Gnarr sem gæti átt möguleika í hann. Hins vegar vildi Jón komast til valda en Þórður ekki, en það þarf ekki að segja allt. Best er auðvitað að fá til valda fólk sem raunverulega vill ekki komast til valda, samanber Þórð. En Jón Gnarr vildi komast til valda og lái ég honum það ekki - ástandið var að mörgu leyti verra en á Sturlungaöld - um það sá Sjálfstæðisflokkurinn með dyggri aðstoð Framsóknarflokksins. Hryllingur. En framundan eru betri tímar með Jón Gnarr. Svo kemur eitthvað svipað afl og Besti flokkurinn í kosningunum þegar Jóhanna fer frá völdum. Það er pottþétt.

sunnudagur, 17. október 2010

þriðjudagur, 14. september 2010

miðvikudagur, 8. september 2010

þriðjudagur, 7. september 2010

föstudagur, 3. september 2010

Séð og Heyrt Móment 26


SO NICE!


Á sjóðheitum sumardegi sit ég úti á svölum og baða mig í sólinni og les viðtal eftir sjálfan mig.

Innan úr stofunni berast fallegir og tregafullir tónar. Tomasz Stanko Quintet spilar So
Nice og um mig fer sæluhrollur.

Stuttu síðar sé ég mig tilneyddan vegna þorsta að standa upp og fá mér að drekka.
Þamba vatnið en hugsa hversu betur það færi stemningunni að fá sér gin og tónik.

Sest niður aftur, en þá er lagið á enda. Fer því aftur inn í stofu og spila það á ný.

Framkalla minningar sem ég kannast ekkert við og sakna þeirra sem ég man ekki eftir.

Það breytist ýmislegt.

Tregafullur blásturinn í laginu og heitri golunni fær mig til að halla höfðinu
skáhallt upp að hvítum veggnum á svölunum, loka augunum og leyfa hitanum að gera upp
gamlar sakir.

Fáir skýjahnoðrar sjáanlegir en ég veifa þeim glaðlega og velti því fyrir mér
hvernig það væri að fljúga um á skýi. Pæli í því hversu mörg hestöfl skýin
eru og hvort þau séu beinskipt eða sjálfskipt.

Hugsanirnar eru rofnar af háværu mótorhjóli sem geysist alltof hratt út götuna og
tekst síðan á loft við enda hennar og þá hlær ökumaðurinn hátt og glaðlega
líkt og hann hafi verið að losna úr fjötrum.

Ég hristi hausinn, læt braka í hálsinum og spyr sjálfan mig hvort eitthvað geti
verið áþreifanlegra en þessi stund.

So Nice.

Séð og Heyrt, 34 tbl. 2010

laugardagur, 28. ágúst 2010

s


á morgun læt ég mig dreyma um ríkidæmi en þangað til læt ég mér nægja að dreyma um frið

fimmtudagur, 19. ágúst 2010

LAGÐI UPP Í ÆVINTÝRAFÖR!


Húsgagnaeigandinn Flísa-Gummi (28):

LAGÐI UPP Í ÆVINTÝRAFÖR!

Í lófa lagið!

Flísa-Gumma hafði frá barnæsku dreymt um að gerast ferðalangur. Nýverið lét hann drauminn rætast.

GAMAN:
"Þetta var skemmtilegt ferðalag."

Upplifun! "Ég var búinn að ganga lengi með þann draum í maganum að gerast ferðalangur, og þegar ég var að verða tuttugu og átta ára gamall ákvað ég að gefa sjálfum mér ferðalag í afmælisgjöf," segir Flísa-Gummi sem hafði fram að því aldrei komið út fyrir heimabæ sinn, Hjálmstorg.

"Það segir í raun allt sem segja þarf," segir Flísa-Gummi og fær sér væna slummu af íslensku neftóbaki og rekur hressilega við:

"Þetta er bara smá sunnanvindur, þú lætur þér ekkert bregða við hann."

En hvert skyldi Flísa-Gummi hafa farið?

"Fyrst, á fimmtudeginum, fór ég til höfuðborgarinnar, í sollinn þar. Svo lá leið til Danmerkur, Kaupmannahafnar, sem er bara risastór sollur. En þaðan lá leið til Potsdam í Þýskalandi, en þar skoðaði ég stríðsminjasafn, og það var alveg frábært. Ég var svo kominn heim í heiðardalinn á mánudagskvöldið - úrvinda af þreytu en hlaðinn reynslu og afar ánægður með upplifunina af mínu fyrsta alvöru ferðalagi."

TEXTI: BS
MYND: JUSTIN

þriðjudagur, 3. ágúst 2010

ÉG ER KALLAÐUR HERRA RUGLAÐUR!


Gunnar Tító Larsen (49):

ÉG ER KALLAÐUR HERRA RUGLAÐUR!

Gunnar heldur úti vinsælli bloggsíðu þar sem stendur ekki steinn yfir steini. Segir sig náskyldan Tító.

LYKLABORÐ OG SNJÓR:
"Elska þetta bæði."

Snar! "Ég er ekki frá Júgóslavíu," segir Gunnar og brosir og teygir sig í lakkrískonfektið sem blaðamaður færði honum að gjöf.

Eftir að hafa japlað góða stund á tveimur marsipanstykkjum biður hann um vatnsglas:

"Áttu kólesteról?" spyr hann um leið og vatnið er komið á borðið.

"Nei, annars, slepptu því bara. Stefnan er að gefa út skáldsögu um jólin og með hverju eintaki á að fylgja frír eplakassi."

Gunnar vill lítið ræða um innihald skáldsögunnar en segir nafnið ekkert leyndarmál.

"Hún mun heita Handáburður."

En af hverju mun fylgja eplakassi?

"Af því bara. En þó hefur mér alltaf fundist lyktin af eplum góð og lögun þeirra minnir mig á Empire State bygginguna. Og annað sem ég er hrifinn af, flauel og vísnatónlist - saman. Að vera flauelsklæddur og hlusta á vísnatónlist, helst norræna, er draumi líkast."

Gunnar frussar á blaðamann og hlær eins og vitfirringur.

"Ég raka mig alltaf á mánudögum og versla bara í Samkaup. Tralalalala."

TEXTI: MANUEL NORIEGA
MYND: LÍTILL JÚGÓSLAVI

föstudagur, 30. júlí 2010

Persónuleikadýpt

það hefur farið þannig fyrir fjölda fólks að þú vilt ekkert af því vita

hækkar bara í græjunum og pælir bara í hlutum sem skipta máli

hamast á þrekhjólinu svo enginn heyri að þú sért ekki að hugsa neitt

horfir á sjálfan þig í speglinum og líður vel í nokkur andartök

svo tekur tómleikinn við

veist að nú er allt í lagi

fimmtudagur, 29. júlí 2010

ÆTTLEIDDUR AF KRÓKÓDÍLUM!


Snæbjörn Hector Hernandez (53):

ÆTTLEIDDUR AF KRÓKÓDÍLUM!

ENGINN LARFUR:
Snæbjörn saknar krókódílanna. Gengur um og lætur tilviljanir ráða lífsför. Myndin er teiknuð eftir minni.

Barátta! "Ég fæddist í frumskógi einhversstaðar á Amazon-svæðinu en var rænt af krókódílafjölskyldu þegar ég var aðeins átján ára gamall," segir Snæbjörn Hector þegar hann rifjar upp æsku sína, og upprunann.

"Foreldrum mínum kynntist ég því lítið, og hafði reyndar átt erfitt með að mynda náin tengsl við þau. Og ég vil meina að krókódílafjölskyldan hafi skynjað okkar litlu tengsl og þess vegna gripið í taumana. Ég verð þeim alltaf þakklátur fyrir það."

Hann segir það þó hafa verið erfitt að alast upp á meðal krókódíla því hann hafi aldrei lært að synda. "Það bara tókst ekki hjá mér."

Hann varð því að yfirgefa fjölskyldu sína, krókódílafjölskylduna, eftir sex vikna veru." Ég sakna þeirra alveg óskaplega, en lífið lætur ekki að sér hæða, og maður verður bara að sætta sig við örlög sín.

Ég hvarf á braut og hef síðan gengið mína leið; þú ert fyrsti maðurinn sem ég hef hitt síðan gangan hófst. Hitti reyndar eina konu fyrir langalöngu síðan, en hún var mér ekki að skapi. Ég ætla að halda áfram lífsgöngunni og láta einfaldlega tilviljunina ráða för minni," segir þessi sérstaki maður, Snæbjörn Hector Hernandez, um leið og hann hverfur inn í þokuna, hægt og hljótt.

TEXTI: BASTIAN SCHWEINSTEIGER
MYND: TROPICAL CANDY SHOES

fimmtudagur, 22. júlí 2010

Séð og Heyrt Móment 25


FEITIR RASSAR!

„Hvað er að þér, vertu ekki að spila þetta lag núna,“ sagði einn starfsmaðurinn í íþróttahúsinu þegar kvennalið Hauka var nýbúið að tryggja sér enn einn titilinn í handbolta fyrir nokkrum árum síðan.

Ég var þá að skrifa um íþróttir í DV og lagið sem kynnir Haukastelpna hafði sett á fóninn með það að markmiði að auka stemninguna á þessari gleðistundu var Fat Bottomed Girls með Queen.

Spilun lagsins fór ekki vel í áðurnefndan starfsmann sem túlkaði ekki bara fyrir sjálfan sig heldur alla aðra í húsinu að með spilun lagsins á þessum tímapunkti væri verið að gera grín að feitum rössum Haukastelpna.

En rassar þeirra voru hins vegar ekki feitir, heldur stinnir, mjúkir, mjóir, þéttir, sveittir og flottir. Þó líklega fáir að pæla í því á stundu sem þessari.

Kynnirinn sem hafði ekki ætlað að styggja neinn skipti um lag áður en Queen-slagarinn hafði klárast en ég man ekkert hvað hann setti á í staðinn; grunar að það hafi verið We Are the Champions með sömu hljómsveit – eða jafnvel eitthvað klisjukenndara.

Ég var búinn að gleyma þessu sérkennilega atviki en það rifjaðist upp fyrir mér þegar einhverjir fóru að kvarta yfir áfengisauglýsingum í HM-þætti hjá Þorsteini Joð og gera því skóna að börnin færu nú að sturta í sig af miklum móð. Börnin mín sáu þetta en báðu pabba gamla ekki um einn kaldan.

Alda forræðishyggju skellur nú á okkur sem aldrei fyrr – enginn má hafa skoðanir og öll umræða um jafnrétti er fyrir löngu orðin að draumórum um misrétti og yfirráð.

Má ég þá frekar biðja um feita rassa.

(Séð og Heyrt, 30. tbl. 2010)

I´ve been through the desert ...

föstudagur, 16. júlí 2010

FLUGVÉLAMATURINN LÆKNAÐI MIG AF HRÁSALATSHATRINU!


Arnar Ófeigur Dietrich (68):

FLUGVÉLAMATURINN LÆKNAÐI MIG AF HRÁSALATSHATRINU!

Arnar Ófeigur hefur frá æsku óttast snigla og hrásalat, en segir að framundan sé nýtt líf án hræðslu. Þökk sé flugvélamat.

MYNDARLEGUR:
Arnar Ófeigur hefur alltaf verið bæði góður námsmaður, og þá sérstaklega í félags- og heimilisfræði, og mjög myndarlegur. Til dæmis sat hann fyrir í líbanska Vogue árið 1967 íklæddur fötum frá Coco Chanel. Nam fræði sín í háskólanum í Tromsö.

Hræðsla yfirbuguð! "Þessi hryllilegi ótti kom þannig til, þegar ég var fimm ára gamall, að afi minn, Hermundur Týsson, lokaði mig inni á baðherbergi í þrjár klukkustundir, vegna þess að ég hafði svolgrað í mig rakkreminu hans, sem ég hélt vera rjóma."
Hvernig leið þér?
"Hræðilega. Þetta var ógeðslegt á bragðið og fór illa í mig líkamlega. Vistin á baðherberginu fór líka mjög illa með mig líkamlega og andlega. Þarna var fullt af sniglum og hrásalati, en þetta hafði afi flutt inn í stórum stíl frá Evrópu, og geymt inni á klósettinu, sem var nánast dauðhreinsað og með ítölskum flísum."
Og Arnar Ófeigur át. "Án afláts, enda get ég ekki verið lengi án vatns og matar, mesta lagi kortér."
Í mörg ár kvaldi þessi reynsla Arnar Ófeig. "Ég leitaði lausnar í ýmsu - nenni ekki einu sinni að nefna dæmi. En árið 1991 ferðaðist ég í fyrsta sinn með flugvél. Það breytti öllu. Flugvélamaturinn losaði mig á einu augabragði við allan fortíðarvandann, og síðan þá hef ég ekkert annað lagt mér til munns, og drekk 7 Up með. Flugfélagið Cargolux verið mér innan handar og verð ég þeim ævinlega þakklátur fyrir það," segir Arnar Ófeigur að lokum.

TEXTI: BASTIAN SCHWEINSTEIGER
MYND: ALFREÐ ÖND

laugardagur, 10. júlí 2010

TE ER MIKLU BETRA EN KAFFI!


Sigríður Schöth Lárusdóttir (49):

TE ER MIKLU BETRA EN KAFFI!

Koffein!

Sigríður, sem á albanska foreldra, hefur haldið mótmælafundi þar sem hún heldur því fram statt og stöugt að te sé betra en kaffi, og mótmælir fullyrðingum um annað.

MEÐ SITT Á HREINU:
Sigríður Schöth ólst upp í Loðmundarfirði en flutti til Hólmavíkur á unglingsárum. Nú býr hún í 101. Hér með tveimur vinkonum sínum, Birnu og Tínu, sem elska líka te og hata kaffi.

Nammite! "Ég veit að að te er betra en kaffi, þið hin verðið að fara að sætta ykkur við það," segir Sigríður Schöth ákveðin á svip og henni liggur hátt rómur.
"Þessir bjánar sem drekka og dásama kaffi alla daga ættu bara að skammast sín, það ætti í raun bara að fangelsa þetta fólk."
Er þetta ekki of langt gengið hjá þér, fólk hefur rétt á sínum skoðunum, búum við ekki við lýðræði og þarafleiðandi skoðanafrelsi?
"Nei, og jú, auðvitað, en það skiptir ekki máli í þessu samhengi. Ég er alveg klár á þessu, þið þurfið ekkert að efast um mín orð," segir hún og sannfæringarkrafturinn er mikill og það er roði í kinnum hennar.
"Te hefur mun betri áhrif á þarmana og geðheilsuna og svo var sýnt fram á það í sænskri rannsókn að karlar sem drekka mikið te eru frábærir elskhugar en þeir karlar sem drekka mikið kaffi ná honum varla upp, jafnvel þótt þeir hafi brutt heilan lager af Viagra-töflum."
Má ég sjá þessa rannsókn?
"Þú þarft ekkert að sjá hana. Trúðu mér bara, heldurðu að ég sé að ljúga? Af hverju ætti ég að gera það?"
Ókei, en hvað gerir te svona betra en kaffi?
"Það er liturinn, sjáðu til. Liturinn er málið, hugsaðu málið," segir Sigríður og stormar út úr fundarherberginu þar sem viðtalið var tekið. Ég hef ekki séð hana síðan.

TEXTI: BASTIAN SCHWEINSTEIGER
MYND: GEIRI Á GOLDFINGER

föstudagur, 9. júlí 2010

MEÐ GÚRKUR OG PAUL SIMON Á HEILANUM!


Albert Jakob Schmidt (37):

MEÐ GÚRKUR OG PAUL SIMON Á HEILANUM!

Art hver?

Albert Jakob segir ekkert betra en að snæða agúrkur og hlusta á Paul Simon, en hann vill ekkert af Art Garfunkel vita.

SNAR OG SNÖGGUR:
Albert Jakob hlustar bara á vinylplötur og segir að stafræn tækni sé ekki gerð fyrir hið mannlega eyra.

Gúrka! "Það jafnast einfaldlega ekkert á við það að koma heim í holuna sína með fullan poka af agúrkum og setja Paul Simon á fóninn - það er það besta í heimi," segir Albert Jakob sem á þýskan föður og móður frá Hvammstanga. Hann hefur þó aldrei getað sætt sig við Art Garfunkel.
"Nei, maður, Art er dauður, Art er dauður. Hann hef ég aldrei fílað, alltof væmin fyrir minn smekk. Ég hlusta eingöngu á lög sem Paul Simon hefur bæði samið og sungið."
En hvert er hans uppáhaldslag með Paul Simon?
"Þetta er nú eins og að velja á milli barnanna sinni, þó ég eigi reyndar engin börn og hafi ekki fengið drátt síðan í starfsmannaferð ÍSAL í Þórsmörk sumarið 1992. En ég verð samt að nefna 50 Ways to Leave Your Lover, sem er á plötunni Still Crazy After All These Years. Slip out the back Jack, just throw off the key Lee and get yourself free - þú veist, þú kannast við þetta?" spyr Albert Jakob blaðamann sem getur ekki annað en svarað játandi.
En hvað er með þessa agúrkuást?
"þetta hefur auðvitað ekkert með ást að gera, en samt, ég vil bara ekkert annað en agúrkur, og ég þarf ekkert annað, so why bother?"

TEXTI: BASTIAN SCHWEINSTEIGER
MYND: BJÖRN BLÖNDAL

miðvikudagur, 7. júlí 2010

Séð og Heyrt Móment 24

LJÓÐ Á ÍSLENSKU!

ég bíð á bjargbrúninni

þú talar í símann en heyrir ekki neitt

ég illa klæddur en í góðum skóm

þú heldur fast um símtólið

hrædd um að það fari frá þér

ég vil að bjargbrúnin bíði eftir mér

veit ekki hvort hún gerir það því við vorum bara rétt að kynnast

hún veit ekki hvaða mann ég hef að geyma

en stefnumótið gekk vel enda hversdagsleikinn víðsfjarri

þú vilt stóra afmælisköku skreytta með Playmobil og sígarettustubbum

ég vil drekka bjór og horfa á myndbönd með Depeche Mode og David Bowie

ef þú reddar Playmobil og sígarettustubbum skal ég redda bjór, Bowie og Depeche Mode

samkomulagið innsiglað með kossi

sætt

jafnvel sætara en brúðkaup og skilnaður

(Séð og Heyrt, 27. tbl. 2010)

ER KOMMA Í LJÓÐI?

fimmtudagur, 1. júlí 2010

sunnudagur, 20. júní 2010

Séð og Heyrt Móment 22


NÝVÖKNUÐ OG ÓMÁLUÐ

„Ég geri ráð fyrir að þú viljir það sama?,” spurði hún sinni silkimjúku röddu og saup síðan á rándýru kampavíninu sem hann pantaði upp á hótelherbergið.

„Ég vil það sama og í fyrra og það sama og fyrir fjórum árum. Vil það sem ég fæ ekki.”

Hún horfði á hann, falleg, vel tilhöfð og lyktin af henni dásamleg: „Þú ert skrýtinn án þess að vera skrýtinn.“

Hann með sitt þriggja daga skegg, í bol og gallabuxum, hefði eins getað verið körfuboltaþjálfari frekar en auðugur framkvæmdastjóri úr
nikótíngeiranum.

„Og ég er giftur en verð að hitta þig einu sinni á ári – finnst þér það óeðlilegt, ógeðslegt?“

Hún horfði á hann með blöndu af hrifningu, aðdáun og glettni. „Það er ekkert ógeðfellt eða óeðlilegt við þig. Eigum við að byrja?“

Hann tæmdi úr viskíglasinu, var kominn ofan í hálfa Jameson, drap í franskri sígarettunni, þeirri sautjándu þann daginn. „Já, byrjum,“ sagði hann og eftirvæntingin í þægilegri en pínu rámri flauelsröddu hans leyndi sér ekki.

Hún settist við spegilinn á stóru baðherberginu og tók við að hreinsa framan úr sér alla málningu.

„Þú verður fallegri og fallegri með hverri mínútu.”

Að verkinu afloknu bað hún hann að yfirgefa baðherbergið og fór svo í heita sturtu. Kom síðan fram með blautt hárið íklædd silkislopp.

Hann starði á hana, frá sér numinn af fegurð hennar. „Með því að taka af þér málninguna og skola af þér ilmvatnið hefurðu endurfæðst sem fullkomin vera. Konur eru fallegastar ómálaðar og nývaknaðar. Ég hlakka til að sofna og vakna við hlið þér.“

„Þú ert skrýtinn án þess að vera skrýtinn. Og þú borgar.“

(Séð og Heyrt, 22. tbl. 2010)

laugardagur, 19. júní 2010

miðvikudagur, 16. júní 2010

That Look You Give That Guy


Eels - ekki missa af þeim ... það er ekki þess virði ...

Þarna er eitthvað - gefið Eels sjens - sjáið ekki eftir því ...

Nú ef þið fílið þetta ekki þá eruði líklega ekki í lagi og svo hrikalega í lagi

http://www.youtube.com/watch?v=NQwsiIlIfH8

Njótið ... en ég mæli líka með lagi sem heitir In The Yard, Behind The Church ...

Frábært lag.

Góðar stundir þangað til næst,

-sms

föstudagur, 11. júní 2010

OFMETNASTA FÓTBOLTALANDSLIÐ HEIMS


Hollendingar spila fallegan fótbolta en þeir vinna aldrei neitt. Er það ekki?

Því hefur lengi verið haldið fram að Hollendingar spili skemmtilegan fótbolta, og
fáir hafa um það deilt. Landslið þeirra er yfirleitt á lista alþjóða
knattspyrnusambandsins yfir tíu bestu landslið heims. Þrátt fyrir það geta
Hollendingar aðeins státað af einum Evrópumeistaratitli og þá hafa þeir orðið
heimsmeistarar í fótbolta jafnoft og við Íslendingar.

"Það er okkur jafnmikilvægt að spila fallegan fótbolta og að bera sigur úr
býtum í leikjum," hafa margir hollenskir knattspyrnumenn og þjálfarar sagt í gegnum
tíðina, og þá sérstaklega þegar nýbúið er að slá hollenska landsliðið út úr
keppni á HM eða EM.

Harðir stuðningsmenn landsliðsins hafa einnig tekið undir slík
orð og það hefur komið fyrir oftar en einu sinni í leikjum í undakeppnum HM og EM
að púað hefur verið á hollenska landsliðið þrátt fyrir sigur. Þá hafa þeir
þjálfarar sem reynt hafa að breyta léttleikandi stíl liðsins átt undir högg að
sækja þótt árangurinn hafi verið góður. Hollendingar vilja láta líta á sig sem
stórþjóð í fótbolta og sé árangur stærstu liða landsins í gegnum tíðina
skoðaður, þá sérstaklega félögin Ajax og PSV Eindhooven, jafnvel Feyenoord, má segja að Hollendingar séu stórþjóð. Þeir hafa framleitt nánast á
færibandi mjög góða leikmenn sem gert hafa það gott í öllum helstu toppdeildum
Evrópu, en hvorki sú staðreynd né frábær árangur hollensku félagsliðanna í
Evrópukeppnunum hefur dugað til hjá hollenska landsliðinu; nema árið 1988 þegar
liðið bar sigur úr býtum á EM í Vestur-Þýskalndi.

Í því liði voru reyndar stórbrotnir leikmenn sem kölluðu ekki allt ömmu sína - til dæmis Marco Van Basten, Ruud Gullit og Frank Rijkard. Þó ber að hafa í huga að á þessum tíma var EM í fótbolta mun minni keppni en hún er í dag. Árangur Hollands á HM er í raun sorglega lélegur: Aðeins tvisvar hefur liðinu tekist að komast í úrslitaleikinn - 1974 gegn Vestur-Þjóðverjum og fjórum árum síðar gegn Argentínu. Báðir leikir töpuðust.

Samt er það svo að gargað er á torgum úti fyrir hverja einustu heimsmeistarakeppni
sem Hollendingar ná inná að nú sé loks komið að þeim að sigra. En yfirleitt er
árangurinn afar svipaður - í HM og EM. Holland spilar voða flottan fótbolta og
rúllar upp undanriðlinum og eru taldir ægilega sigurstranglegir og er hrósað fyrir
skemmtilegan fótbolta.

Svo eru þeir yfirleitt slegnir strax eða fljótlega út af einhverri alvöru fótboltaþjóð sem vill fyrst og fremst hampa sigri en einblína ekki á að líta vel út.

Allt tal Hollendinga um "Total Fotball" (hugtak skapað af hollenska þjálfaranum Rinus Michels) er algert kjaftæði því það lið sem getur státað af því að spila "Total Football" hampar heimsmeistaratitlinum.

Það hafa Hollendingar aldrei gert og vandséð að þeir nái því markmiði í sumar nema þeir komi niður á jörðina og spili eins og alvöru menn út heila keppni.

Þeir ættu að horfa meira til Þjóðverja og Ítala.

mánudagur, 17. maí 2010

Inn/Brot


Drengurinn gekk hratt í átt að brotinni rúðunni. Hrasaði áður en hann komst að henni. Stóð upp, þjáður - það mátti lesa af svip hans. Blótaði aðeins en bað Guð strax afsökunar á því.

Þessi hrösun hans minnti hann um margt á atburð sem gerðist þegar hann var átta ára gamall, fjórum árum áður. Þá hafði drengurinn sankað að sér allskyns hlutum héðan og þaðan úr hverfinu sem hann bjó þá í, og ætlaði að halda tombólu. Gefa svo ávinninginn til bágstaddra barna í Afríku.

Hann hafði lagt mikið á sig við söfnunina; gekk hús úr húsi og var allt að því óþreytandi. Í það minnsta fannst föður hans hann eyða of miklum tíma í söfnunina, fannst hann vanrækja heimanámið og píanóæfingarnar.

Móðir hans skipti sér ekkert af þessu hjá drengnum, sagði alltaf að það ætti að leyfa börnum að finna sinn tón sjálf. Faðirinn sagði þá gjarnan eitthvað á þá leið að börn á hans aldri þyrftu aðhlynningu og að þau þyrfti að passa. Væru ekki alveg hæf til að skera úr um hvað væri þeim fyrir bestu. En faðirinn gat sjaldan þrætt lengi við móðurina, sem brosti blíðlega til hans þegar hann reyndi að malda í móinn. Þá brosti hann alltaf blíðlega á móti, eftir að hafa streist á móti brosinu í um hálfa mínútu, eða svo.

Tombóla drengsins þeirra var aldrei haldinn því unglingspiltur braust inn í hjólageymsluna þar sem drengurinn bjó, með því að mölva rúðu, og braut allt og bramlaði sem fyrir honum varð án nokkurrar sýnilegrar ástæðu. Og þar hafði drengurinn einmitt geymt munina sem hann hafði safnað, en hann hafði ætlað að halda tombóluna daginn eftir innbrotið.

Þessi unglingspiltur varð nokkrum árum síðar einn þekktasti ofbeldismaður landsins - síbrotamaður sem dvaldi meira en helming sinnar stuttu ævi á bak við lás og slá.

Þegar drengurinn heyrði rúðuna brotna þar sem hann var á göngu ekki svo langt frá æskuheimili sínu, rifjaðist upp fyrir honum tombólan sem aldrei var haldin. Hann fór að hugsa um hver hefði eyðilagt alla hlutina sem hann hafði safnað.

Hugsanirnar gerðu hann reiðan og hann hljóp í áttina þaðan sem brothljóðið hafði borist, en komst ekki að glugganum því hann hrasaði og meiddi sig á vinstri fæti.

Hann leit upp og sá brotna rúðuna og bað Guð afsökunar á reiði sinni. Tók síðan upp stein af jörðinni og kastaði honum í átt að brotnu rúðunni en var langt frá því að hitta. Haltraði svo til baka og lofaði sjálfum sér að fara strax daginn eftir og safna á tombólu.

sunnudagur, 18. apríl 2010

laugardagur, 10. apríl 2010

Þetta eru ekki íslenskir repúblikanar




Séð og Heyrt Móment 19


SÖNN ÁST

„Ég elska hana. Þetta var ást við fyrstu sýn,“ sagði ungi háskólaneminn um leið og hann settist niður á uppáhaldsbarnum sínum.

„Hvað ertu að rugla,“ sagði atvinnulaus vinur hans sem var nokkrum árum eldri. „Það vita það allir sem þekkja eitthvað til lífsins að ást við fyrstu sýn er bull og rómantík er sölutrix sem byggir á óraunhæfum væntingum sem enginn getur staðið undir.“

Ungi háskólaneminn varð pirraður. „Af hverju þarftu að segja svona? Ertu að reyna að eyðileggja fyrir mér gleðina? Ertu öfundsjúkur af því að þú færð aldrei neitt?“

Atvinnulausi vinurinn lét sér hvergi bregða. „Heldurðu að sambönd snúist um sanna ást og rómantík? Djöfull geturðu verið vitlaus,“ sagði hann, stóð upp, fór á barinn og pantaði sér gin og tónik. Sneri síðan aftur í sætið með glott á vör. „Heldurðu í alvörunni að ást við fyrstu sýn sé til?“

„Ég veit það í hjarta mínu – mér er búið að líða þannig í viku,“ sagði ungi háskólaneminn. „Ég trúi á sanna og hreina ást án skilyrða – eilífa ást.“

Vinurinn sem var nokkrum árum eldri tæmdi úr glasinu í einum sopa. Ropaði svo duglega og sagði: „Það ætti að skjóta þig fyrir þessi orð. Beint í hjartastað. Lífið er spurning um völd, veraldleg og andleg; raunveruleikinn er oftast kaldur og grimmur en lífið er samt þess virði.“

Á sama andartaki og þessi orð féllu fékk ungi háskólaneminn SMS og hvítnaði í kjölfarið í framan. Í skilaboðunum stóð: „Held við séum ekki á sömu leið, bæ.“

Ungi háskólaneminn leit upp og sagði: „Ég hata það þegar þú hefur rétt fyrir þér.“

(Séð og Heyrt, 14. tbl. 2010)

fimmtudagur, 1. apríl 2010

E & L


Embó: Viltu labba með mér yfir götuna?

Labandó: Já, ef græni kallinn er í stuði.

Embó: Það er eins og það séu óvenju margar holur í malbikinu.

Labandó: Nei, og svo er líka búið að hækka verðið á bökunarpappír.

Embó: Tvisvar í þessari viku varð ég vitni að því að bíldekk sprakk.

Labandó: Uppáhaldsleikarinn minn heitir Hilmir Snær, svo finnst mér Pétur Einarsson mjög góður.

Embó: Jæja, þá erum við komnir yfir götuna.

Labandó: Hvenær er maður kominn yfir götu?

Embó: Heyrirðu í bjöllunni? Frímínúturnar eru búnar. Allir inn að læra.

Labandó: Mér fannst alltaf skemmtilegast að borða hálft fransbrauð og drekka kók í gleri og fara svo í tíma.

Embó: Einu sinn sá ég mann hjóla inn í jarðgöng.

Labandó: Manstu?, það var ég.

Embó: Hjólaðir þú inn í jarðgöng.

Labandó: Nei. Aldrei.

Embó: Það hefur þá verið einhver annar.

Labandó: Já.

Embó: Þetta er ágætt, á meðan kuldinn er ekki minni.

Séð og Heyrt Móment 18


LÍTIL TYPPI?

„Hver ætli hafi verið mesti kappinn í Íslendingasögunum,“ spurði ungi umbrotsmaðurinn í vinnunni hjá mér og ekki stóð á svörum vinnufélaganna.

„Það hlýtur að hafa verið Egill Skallagrímsson, það hafa fáir komist með tærnar þar sem hann hafði hælana,“ sagði fjölfróða konan á næsta borði.

„Hygg ég að það hafi verið Sturla Sighvatsson. Hann var rosalegur kappi, fáir flottari,“ sagði elsti umbrotsmaðurinn á svæðinu með sinni djúpu og heimspekilegu rödd.

Einhver nefndi Gunnar á Hlíðarenda og Gísli Súrsson barst í tal.

Mér varð á að blanda mér í slaginn. Hélt að innlegg mitt myndi auka, jafnvel dýpka umræðuna.

„Þórður kakali var nú líklega meiri hetja en Sturla, bróðir hans, Sighvatsson,“ sagði ég en bætti svo snögglega við.

„Held samt að Grettir sterki hafi verið mestur allra fornkappa. Það gat enginn mannlegur máttur unnið á honum, það varð að beita svindli til að fella hann.“

Þá gall allt í einu í ungu umbrotsstúlkunni sem hafði fram að þessu ekkert látið á sér kræla.

„Nei, ekki Grettir, hann var með lítið typpi.“

Í kjölfarið ríkti einkennileg þögn, fullyrðingunni mótmælti enginn og umræðan dó.

Ég fór svo að hugsa hvort þetta sé sá mælikvarði sem mest er marktækur, og fræðimenn ættu jafnvel að fara að nota, og í kjölfarið mögulega endurmeta sögur af íslenskum fornköppum?

Sko, hefði Gunnar á Hlíðarenda nokkuð getað stokkið hæð sína í fullum herklæðum ef slátur hans hefði verið stórt eða í stærri kantinum? Hefði það ekki bara þvælst fyrir og bardagafærni hans því minnkað í samræmi við stærðina?

Var hann því með lítið typpi? Og þarafleiðandi ekki hetja?

Þegar stórt er spurt ...

(Séð og Heyrt, 12. tbl. 2010)

Hellisgerði - sjáið myndirnar