sunnudagur, 8. apríl 2007

Hann flaug inn úr nóttinni


Vaknaði um miðja nótt við að fugl var í svefnherberginu, á gluggasyllunni og gardínurnar virkuðu á hann sem fangelsisrimlar. Hann var hræddur og það þurfti að þrífa upp eftir hann tvo oggulitla sperði. Ég skynjaði í hræðslu fuglsins, sem kallast Starri, mína eigin hræðslu því hræðsla blossaði upp hjá mér í nokkur andartök eftir að ég vaknaði og þangað til ég skynjaði hversu miklu meira fuglinn var hræddur. Og ekki ætlaði ég að gera honum mein og hann mér örugglega ekki. Við höfðum hvorugir ástæðu til að óttast, hann hins vegar vissi það ekki. Ég vildi þó ekki að fuglinn færi að flögra um svefnherbergið, hvað þá íbúðina alla. Ég vil ekki að fuglar flögri um íbúðina mína. Ekki um miðja nótt. Ég vil geta flögrað um á næturnar en samfélagið og fjölskyldunormið meina mér það. Vinn vel á næturnar, finn vakandi fyrir meiri sálarkyrrð en á morgnana og um daginn. Kvöldin eru ágæt en þó styttist í svefninn og ónýtingu næturinnar. Svefn. Stundum lélegur, stundum ágætur, nánast aldrei góður. Ekkert að því að vinna á næturnar - skapa á næturnar - ekkert að því. Fæstir þó sammála mér í þeim efnum. Kannski þessi fugl. Kannski vildi hann segja mér eitthvað um þessa tilteknu nótt. Kannski var hann búinn að fylgjast með mér í einhvern tíma og fannst ég áhugaverður náungi. Því gæti ég trúað. En ég gat ekki flogið á eftir honum loksins þegar hann áttaði sig á því hvar hann komst inn, það var jú líka leiðin út. En ég lokaði á eftir honum og bað hann vel að lifa - hugsaði hlýlega til hans þegar ég vafraði í nokkrar mínútur um íbúðina með óljósar hugsanir í kollinum og langanir sem tengdust nóttinni og því frelsi sem hún hefur upp á að bjóða. Lagðist svo á koddana mína þrjá, breiddi yfir mig sængina og fór að sofa. Man ekki hvað mig dreymdi. Nóttina líklega.

Engin ummæli: