fimmtudagur, 25. desember 2008

08


Ryksugan étur börnin sín



(Höf. óþekk(t)ur).

miðvikudagur, 17. desember 2008

Ég sé bláan himin

Ég sé bláan himin

Gráa gangstétt

Grænt gras

Grænt og hvítt hús

Inni í græna og hvíta húsinu er blá sæng

Undir bláu sænginni er ég

(Elísa Rún Svansdóttir)

þriðjudagur, 16. desember 2008

Fjaðrafok?


Hvað er málið með þetta dæmi á DV? Er þetta kannski fjaðrafok? Hlakkar í mörgum að níða skóinn af DV. Líka þeim sem stunda "þögla" blaðamennsku - sem telja sig vita hvað almenningur þarf að vita og hvað ekki. Það þarf margskonar blaðamennsku, alltaf. Ekki bara uppdregna mynd af samfélagi þar sem allt á að vera með kyrrum kjörum, en ekkert endilega mynd sem æpir á mann. Báðar myndir.


Ps: Hvernig ætli samfélagið væri ef fólk upp til hópa myndi bera á sér upptökutæki og taka upp hvert einasta samtal sem það ætti við annað fólk? Örugglega öðruvísi, kannski betra, kannski ekki.

laugardagur, 13. desember 2008

Með póstinum kemur pakki

Ég bíð á bjargbrúninni

Þú talar í símann en heyrir ekki neitt

Ég er illa klæddur en í góðum skóm

Þú heldur fast um símtólið, enda hrædd um að það fari frá þér

Ég vil að bjargbrúnin bíði eftir mér en veit ekki hvort hún gerir það því við vorum bara rétt að kynnast og hún veit auðvitað ekki hvaða mann ég hef að geyma

Þú vilt fá stóra afmælisköku, skreytta með Playmobil og sígarettustubbum

Ég vil bara bjór og horfa á myndbönd með Depeche Mode og David Bowie, heldurðu að það sé hægt að koma því við?

Ef þú reddar Playmobil og sígarettustubbum skal ég redda bjór, Bowie og Depeche Mode

Samkomulagið innsiglað með kossi

Æ hvað það var sætt

(Höf. Rúnar Albert Sigþórsson)

miðvikudagur, 10. desember 2008

Búum til eitthvað allt annað en vandamál




Það er vont að vera með hausverk, komast ekki í vinnu, liggja eins og hrúgald, og fá yfir sig skammir, allt um leið. Það er betra að borða grjónagraut og lifrarpylsu og hlusta á Alvin og Íkornana syngja. Enn betra er þegar hlutirnir ganga upp; verkefni leysast án mikilla vandkvæða en þó þannig að sköpun og örvun komi þar við sögu. Spili rullu. Best af öllu er þó að eiga góðar stundir með konu og börnum, þegar enginn er að tuða og væla eða búa til vandamál. Vandamál okkar sem lifum í dag felast einmitt í því að við erum snillingar og Heimsmeistarar í að búa til vandamál. Sjáum þau víða og grípum þau gjarnan. Til hvers? Það þarf engar lausnir ef við búum okkur ekki til vandamál. Verkefni viljum við hins vegar flest kljást við og þar á sanngirni að ríkja sem og rétturinn til skoðana. Það er alveg hægt að hafa lífið þannig. Bara ef við hættum að búa til vandamál. Búum til eitthvað annað - eitthvað nothæft, eitthvað fallegt, eitthvað sem gefur af sér, eitthvað sem hljómar vel, eitthvað sem við sjáum aldrei eftir, eitthvað fyrir þig, mig, konuna og börnin, vini og vandamenn, og auðvitað mömmu og pabba. Gerum það.

mánudagur, 1. desember 2008

Spur(t)




Ég gúggla Spur. Fæ upp mynd og spyr (eins og bjáni?): Af hverju er staða RÚV svona slæm? Er RÚV útrásarvíkingur? Ég skil þetta ekki. En víst þeir þurfa að segja upp fólki væri auðvitað nærtækast að segja upp þeim sem hafa mestu launin. Get lofað því að það er til jafnhæft, örugglega hæfara fólk, sem væri til í að taka að sér störf toppanna fyrir einn þriðja, jafnvel einn fjórða af launum þeirra. Myndi skila starfinu betur en þeir sem núna hafa völdin og telja sig ómissandi, alveg að drepast úr hroka. Hversu ógeðslegt er það að fullt af góðu fólki sé sagt upp á meðan bossinn er á lúxusjeppa (partur af launasamningi!) og þrumulaunum. Og ýmsir aðrir á topplaunum án þess að skara eitthvað fram úr. Burt með þetta lið, það þarf að hreinsa til á fleiri stöðum en í bönkunum og á Alþingi.