fimmtudagur, 9. maí 2013

Þýskir höfundar - umfjöllun (bæklingur) sem ég skrifaði að mestu, en þó með hjálp Brigitte. Gert fyrir Bókasafn Hafnarfjarðar



Þýskir rithöfundar




Fróðleikur og fræðsla

stutt æviágrip
helstu verk
þýðingar





Johann Wolfgang von Goethe
(1749-1832)

Það er til marks um hversu gríðarstórt nafn Goethe er í þýskri bókmenntasögu að tíminn frá því að hann gaf út sína fyrstu skáldsögu, Raunir Werthers unga, árið 1774, og þangað til hann lést, tæpum sextíu árum síðar, er gjarnan nefndur Goethe-tíminn.
Raunir Werthers unga og leikritið Der Götz von Berlichingen mörkuðu upphafið að glæstum ferli Goethes og áhrif hans bárust víða, sem og auðvitað hróður. Þessi verk færðu honum skjótfengna frægð og voru fá ef nokkur dæmi um að slíkt hafi gerst með þeim hætti áður. Höfðu þau bæði mikil áhrif á rómantísku stefnuna, en sér í lagi var það söguhetjan Werther sem vakti mikla athygli og þá sérstaklega hjá yngri kynslóðinni sem hóf af miklum móð að stæla klæðaburð hans sem og skaplyndi og tilfinningar. Hinn dapri Werther hafði ekki einungis áhrif um gervalla Evrópu heldur barst hróður hans einnig til Austurlanda; Kína og Japans - þar sem myndir af söguhetjunum Werther og Lottu voru látnar prýða handmálaða vasa.
Á efri árum lauk síðan Goethe við viðamesta verk sitt, harmleikinn Faust; 1. hluti kom út árið 1808 en 2. hluti 1832. Goethe fékkst ekki aðeins við ritstörf. Hann bjó um tíma í Weimar, sem var óumdeilanlega háborg mennta- og menningar þess tíma, og sinnti meðal annars ráðherrastörfum auk þess að hafa mikinn áhuga á náttúrufræði.
Íslenskar þýðingar: Faust, fyrri hluti (1920), Raunir Werthers unga (1987), Ævintýrið um grænu slönguna og liljuna (2001). Ýmsar ljóðaþýðingar eftir Matthías Jochumsson, Jón Helgason, Benedikt Gröndal, Yngva Jóhannesson o.fl.
Á þýsku: Die Leiden des jungen Werther (hljóðbók), Clavigo (hljóðbók),
Traue keinem, mit dem Du schläfst! (leikrit, myndefni), Werke in zwei Bänden (1981), Goethe für alle Beschreibung eines Menschenleben (hljóðbók 1991), Goethe für Kinder: ich bin so guter Dinge (1999)

Friedrich von Schiller
(1759-1805)

Schiller er eitt af höfuðskáldum þýskra bókmennta. Það mótaði hann mikið að vera þvingaður til náms í herskólanum í Württemburg. Olli það óbeit hans á harðstjórn og kynti undir áhuga á frelsishugsjónum síns tíma. Frelsishugsjónirnar túlkaði Schiller í leikritum sínum, Ræningjunum (Die Räuber, 1781), Leyndardómum og ástum (Kabale und Liebe, 1784) og harmleiknum Don Carlos (1787), sem var fyrsta leikverk hans í bundnu máli. Leikrit þessi voru skrifuð í anda Sturm und Drang stefnunnar, stefnu sem dró nafn sitt af leikriti eftir F.M. Klinger og var undanfari rómantíkurinnar. Þar var boðuð uppreisn gegn eldri bókmenntahefðum og lögð áhersla á frelsi höfunda til að lúta hugarflugi sínu og andagift. Voru Schiller og Goethe þar fremstir í flokki.
Schiller hafði auk þess mikinn áhuga á fagurfræði og heimspeki og samdi hann talsvert af sögulegum og heimspekilegum kvæðum, dramatískum ballöðum og ástarkvæðum. Auk þess skrifaði hann greinar fræðilegs efnis.
Þess má geta að Schiller og Goethe bundust miklum vináttuböndum árið 1794 sem héldust allt til dauðadags.
Íslenskar þýðingar: Mærin frá Orleans (1917), María Stúart (1955), Um fagurfræðilegt uppeldi mannsins (2006). Ýmsar ljóðaþýðingar eftir Kristján fjallaskáld, Jónas Hallgrímsson, Matthías Jochumsson og Bjarna Thorarensen.
Á þýsku: Kabale & Liebe 2003 (kvikmynd), An die Freunde (1993 ljóð, hljóðbók), Porträt Friedrich Schiller (myndband)

Grimms-bræður

Þýsku bræðurnir Jakob Ludwig Carl Grimm (1785-1863) og Wilhelm Carl Grimm (1786-1859) voru frumkvöðlar við söfnun þjóðsagna og ævintýra og
lögðu grunninn að fræðilegum rannsóknum á því sviði. Bræðranna helsta verk er safnritið
Kinder- und Hausmärchen sem út kom á árunum 1812-1822. Gefið út á íslensku undir nafninu Grimms ævintýri úrval, á árunum 1922-1937.
Þess er vert að geta að Jakob Grimm var einn af helstu frumkvöðlum samanburðarmálfræði. Setti hann fram lögmál um germönsku hljóðfærsluna sem oftlega er nefnd grimmslögmál og byggði hann þar á uppgötvunum Rasmus Rask. Meðal helstu rita Jakobs í þessum efnum er Deutsche Grammatik, sem kom út á árunum 1819-1837.
Íslenskar þýðingar: Grimms ævintýri (1998)
Á þýsku: Märchen der Brüder Grimm (1973)

Heinrich Heine
(1797-1856)

Heine er eitt allra stærsta þýska nafnið í rómantískri ljóðagerð. Hann á þó skilið að öðrum skrifum hans séu ekki síður veitt athygli því hann var mjög fjölhæfur rithöfundur sem fékkst jöfnum höndum við bundið og óbundið mál. Ritsafn Heine er stórt að vöxtum og fjölskrúðugt, en auk skáldverka skrifaði hann mikið í þýsk og frönsk blöð og tímarit en Heine bjó í París frá 1831 til dauðadags. Í þeim skrifum sínum fjallaði Heine meðal annars um bókmenntir, stjórnmál, myndlist, leiksýningar og tónlist. Hann þótti beittur og óvæginn þjóðfélagsgagnrýnandi, afar andsnúinn þjóðernishyggju, og vildi gjarnan rjúfa skilin á milli stjórnmála og lista sem mest hann mátti. Heine var einn af forystumönnum „Junges Deutschland“ en það var hópur ungra og róttækra rithöfunda í Þýskalandi sem eftir júlíbyltinguna í Frakklandi árið 1830 börðust gegn íhaldssemi síðrómantíkur.
Heine samdi mikinn fjölda kvæða sem tónskáld veittu fljótt athygli og hófu að semja lög við. Má þar nefna Robert Schumann og fleiri. Jónas Hallgrímsson þýddi mörg þeirra yfir á íslensku og þekktast af þeim er án efa Álfareiðin (Stóð ég út í tunglsljósi).
Íslenskar þýðingar: Ýmsar ljóðaþýðingar eftir Jónas Hallgrímsson, Steingrím Thorsteinsson, Grím Thomsen, Magnús Ásgeirsson o.fl.Á þýsku: Deutschland, ein Wintermärchen, (1987,ljóð, hljóðbók)

Hedwig Courths-Mahler
(1867-1950)

Hedwig Courths-Mahler hætti snemma í skóla og vann eftir það meðal annars fyrir sér sem þjónustustúlka og afgreiðsludama. Hún uppgötvaði fljótlega þá ánægju sem hún hafði af því að skrifa og óhætt er að segja að hún hafi ekki slegið slöku við í þeim efnum. Þegar hún dó, árið 1950, höfðu verið gefnar út eftir hana meira en 200 skáldsögur (afþreyingarbókmenntir) og stuttar skáldsögur (nóvellur). Aðalefnistök hennar og einkenni sagnanna voru á þá lund að fátækir verða ríkir og öðlast virðingu í samfélaginu, og hefðbundin ástarþemu. Enn í dag eru bækur Hedwig Courths-Mahlers víðlesnar og þá er vert að geta þess að nokkrar sögur hennar hafa verið kvikmyndaðar.

Thomas Mann
(1875-1955)

Thomas Mann hlaut Bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1929 og hefur bókin Búddenbrooks, sem kom út 1901, oftlega verið nefnd sem eitt hans besta verk. Búddenbrooks er mikil saga sem nær yfir þrjár kynslóðir og segir af andlegri og efnahagslegri hnignun kaupmannsfjölskyldu, en verkið byggir á fjölskyldusögu Manns sjálfs. Í Búddenbrooks kemur fram höfuðviðfangsefni Manns – togstreitan milli listrænna gilda og borgaralegs lífs. Þessi togstreita er rauði þráðurinn í mörgum af þekktustu verkum hans.
Mann var fjölhæfur rithöfundur, sterkur þjóðfélagsrýnir og skrifaði frábærar ritgerðir.
Hann var talinn einkar lunkinn að greina og gagnrýna í nýju ljósi hina evrópsku og ekki síst hina þýsku sál í upphafi 20. aldarinnar; til þess notaði hann Þýskaland nútímans og biblíusögur sem og hugmyndir þeirra Goethe, Nietsche og Schopenhauer.
Íslenskar þýðingar: Maríó og töframaðurinn (1970), Felix Krull (1982), Búddenbrooks, (1999), Doktor Fástus (2000), Dauðinn í Feneyjum (2005).
Á þýsku: Doktor Faustus (1967), Buddenbrooks (1968),
Thomas Mann ein Leben (myndband)

Hermann Hesse
(1877-1962)

Hesse var Þjóðverji en gerðist svissneskur ríksborgari árið 1923. Hann hóf rithöfundarferil sinn sem ljóðskáld með ljóðasafninu Romantische Lieder, sem út kom árið 1899. Fyrstu skáldsögur Hesse eru að hluta til sjálfsævisögulegar og yfir þeim hvílir angurvær blær. Í seinni verkum Hesse kemur fram áhugi hans á sálgreiningu og austrænum trúarbrögðum sem og dulspeki. Óhætt er að segja að þekktasta verk Hesse sé skáldsagan Sléttuúlfurinn (Der Steppenwolf), sem kom út árið 1927. Í því verki er fjallað um einsemd nútímalistamannsins og dýrslegar hliðar manneðlisins. Þess má geta að andstæður andlegs og líkamlegs lífs eru iðulega umfjöllunarefni Hesse. Árið 1946 hlaut Hesse bókmenntaverðlaun Nóbels.
Íslenskar þýðingar: Sléttuúlfurinn (1998).
Anna Seghers
(1900-1983)

Anna Seghers var komin af gyðingaættum. Eftir stúdentspróf, árið 1920, lærði hún í Köln og Heidelberg, lagði stund á sögu, listasögu og kínversk fræði. Eitt af fyrstu verkum hennar, sagan Grubetsch, var birt árið 1927 undir nafninu Seghers (án fornafns) og gagnrýnendur héldu að höfundurinn væri karlkyns. Ári síðar kom svo fyrsta bókin hennar út undir nafninu Anna Seghers (Aufstand der Fischer von St.Barbara). Það sama ár gerðist hún meðlimur í kommúnistaflokknum og árið 1930 ferðast hún í fyrsta skipti til Sovétríkjanna. Á nasistatímanum var hún handtekin og höfð í haldi í stuttan tíma, bækur hennar bannaðar og brenndar. Stuttu seinna flytur hún til Sviss og þaðan til Frakklands en árið 1941 tekst fjölskyldu hennar að flýja til Mexíkó. Árið 1942 kom síðan út hennar þekktasta skáldsaga, Das siebte Kreuz, á ensku í Bandaríkjunum en á þýsku í Mexíkó. Ári síðar var svo gerð kvikmynd eftir sögunni sem varð til þess að Seghers hlaut heimsfrægð. Árið 1947 flytur hún aftur til Berlinar og fimm árum síðar verður Seghers forseti rithöfundasambands Austur-Þýskalands og gegndi hún því embætti frá 1952-78. Allt til æviloka bjó hún í Berlin og í dag er íbúð hennar safn til minningar um líf hennar og störf.
Á þýsku: Das siebte Kreuz (1993), Transit (1993)



Klaus Mann
(1906-1949)

Faðir Klaus var rithöfundurinn Thomas Mann en samband þeirra var alltaf stirt. Klaus var samkynhneigður og þurfti af þeim sökum að þola mikið mótlæti og fordóma. Hann var sviptur þýskum ríkisborgararétti árið 1933 og yfirgaf Þýskaland í kjölfarið enda yfirlýstur andstæðingur nasista. Hann flutti til Amsterdam en fékk tékkneskt ríkisfang. Árið 1936 settist hann að í Bandaríkjunum og fékk ríkisborgararétt þar í landi sjö árum síðar.
Klaus hóf ungur að skrifa og hans fyrstu verk voru útgefin áður en hann varð tvítugur. Mefístó er án efa hans þekktasta verk, skrifuð árið 1936. Bókin olli miklu fjaðrafoki enda var aðalsöguhetjan byggð á frægum þýskum leikara og fyrrum mági Klaus, Gustaf Gründgren. Ættleiddur sonur Gründgrens höfðaði mál á hendur Klaus Mann og var bókin bönnuð í Þýskalandi. Það ótrúlega er að bókin fékkst ekki útgefin þar í landi fyrr en árið 1981 og náði fljótt metsölu. Það sama ár gerði ungverski kvikmyndaleikstjórinn István Szabó kvikmynd eftir bókinni sem hlaut einróma lof og Óskarsverðlaunin sem besta erlenda myndin. Þótt Mefistó sé þekktasta skáldsaga Klaus Mann er vert að gefa öðrum verkum hans gaum og þá sérstaklega Der Vulkan sem kom út árið 1939.
Klaus Mann lést af eigin völdum árið 1949 í Cannes í Frakklandi eftir að hafa tekið inn of stóran skammt af svefntöflum.
Íslenskar þýðingar: Mefistó. Saga af listamannsferli (1995).
Á þýsku: Bitter ist die Verbannung, bitterer noch die Heimkehr (myndband 1999), Flucht in den Norden (1990), Symphonie pathétique : ein Tschaikowsky-Roman (1979)
Treffpunkt im Unendlichen die Lebensreise des Klaus Mann (myndband)

Heinrich Böll
(1917-1985)

Uppvaxtarár Heinrichs Böll voru ófriðartímar; hann fæddist inn í fyrri heimsstyrjöldina og barðist í þeirri síðari sem ungur maður. Fyrir vikið eru stríðshörmungar honum hugleiknar í fyrstu skáldsögum hans – þar má nefna sögurnar Lestin kom tímanlega (Der Zug war pünktlich) og Hvar ertu Adam? (Wo warst du, Adam?). Smám saman víkkaði sjónarhornið og sögur Böll fóru í meira mæli að snúast um þá breyttu heimsmynd sem blasti við eftir stríðið. Skáldsagan Og sagði ekki eitt einasta orð (Und sagte kein einziges Wort) er könnun á fátækt og hjónabandsörðugleikum. Árið 1963 kom út skáldsagan Trúðurinn (Ansichten eines Clowns) þar sem rakin er saga látbragðslistamannsins Hans Schneir. Sagan er könnun á firringu nútímans og gjaldþroti kristins siðferðis í evrópsku samfélagi eftirstríðsáranna. Verk Bölls þróuðust með árunum út í aukna ádeilu á lögmál kapítalísmans og þau vandkvæði sem honum fylgja. Dæmi um slíka sögu er Mannorðsmissir Katrínar Blum (Die verlorene Ehre der Katharina Blum) frá 1974 sem er harkaleg ádeila á sorpblaðamennsku. Heinrich Böll fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1972.
Íslenskar þýðingar: Og sagði ekki eitt einasta orð (1983), Trúðurinn (2000), Mannorðsmissir Katrínar Blum (2003).
Á þýsku: Unberechenbare Gäste (1964), Wo warst du Adam? (1984), Frauen vor Flusslandschaft (1985), Frühe Erzählungen (hljóðbók 1987), Mein Lesebuch (1989), Die verlorene Ehre der Katharina Blum: oder Wie Gewalt entstehen und wohin sie führen kann (1992), Dr. Murkes gesammeltes Schweigen (hljóðbók 1995), Heinrich Böll (myndband),

Utta Danella
(f.1924)

Utta Danella er ein af vinsælustu og þekktustu kvenrithöfundum 20. aldar. Selst hafa rúmlega 70 milljónir eintaka af bókum hennar og nokkrar kvikmyndir hafa verið gerðar eftir skáldsögum hennar. Hún sló í gegn með fjórðu skáldsögu sinni, Stella Termogen - Die Versuchungen der Jahre, árið 1960, en sú bók seldist á skömmum tíma í meira en eitt hundrað þúsund eintökum. Utta Danella er afar fjölhæfur rithöfundur; hún hefur skrifað auk skáldsagna, fræðibækur, smásögur og unglingabækur. Þá hefur hún einnig fengist við þýðingar og hefur þýtt bækur úr ensku yfir á þýsku.
Á þýsku: Der dunkle Strom (1977), Die Unbesiegte (1989), Der blaue Vogel (2001), Alles Töchter aus guter Familie (2005)




Günter Grass
(f. 1927)

Blikktromman (Die Blechtrommel) er frægasta verk Grass, oft nefnt lykilverk í evrópskum töfraraunsæisbókmenntum en alveg óhætt líka að segja að verkið sé eitt af höfuðverkum heimsbókmennta 20. aldarinnar.
Í Blikktrommunni er að finna uppgjör við lífið í Þýskalandi á tímum nasismans og óvægna spegilmynd af vestur-þýskri samtíð. Leikstjórinn Völker Schlöndorf gerði eftirminnilega kvikmynd eftir Blikktrommunni árið 1979 sem hlaut fjölda verðlauna, m.a. Gullpálmann í Cannes.
Grass hefur einnig ort ljóð og samið leikrit auk fjölda ritgerða um menningarmál og stjórnmál en hann hefur leitast við að ýta undir pólitíska virkni annarra rithöfunda. Verk Grass hafa oftar en ekki sterkar pólitískar skírskotanir og sjálfur hefur höfundurinn lengi verið virkur stuðningsmaður Jafnaðarmannaflokks Þýskalands. Þá hefur hann einnig verið virkur stuðningsmaður hinna ýmsu friðarsamtaka. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1999.
Íslenskar þýðingar: Köttur og mús (1978), Blikktromman (1998-2000), Krabbagangur (2007)
Á þýsku: Der Butt (1977), Die Blechtrommel (1984), Die Rättin (1986), Mein Jahrhundert (1999), Im Krebsgang:eine Novelle (2002)
Die Blechtrommel (myndband), Katz und Maus (myndband), Porträt Günter Grass (myndband + bók)


Christa Wolf
(f. 1929)

Christa Wolf er fædd og uppalin í Austur-Þýskalandi og var einn helsti samtímahöfundur þess ríkis á meðan það var og hét. Var hún oft í ónáð hjá yfirvöldum fyrir viðhorf og efnistök í verkum sínum. Hún nam þýsku í háskólanum í Jena og Leipzig og giftist árið 1951 rithöfundinum Gerhard Wolf.
Christa Wolf telst ein af mikilvægustu kvenrithöfundum Þýskalands í dag. Verk hennar hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál og hefur hún hlotið fjölda verðlauna fyrir þau. Auk fjölda skáldsagna hefur hún meðal annars samið smásögur, útvarpsleikrit, ritgerðir um bókmenntir og umhverfismál og svo kvikmyndahandrit. Þekktustu verk hennar eru Der geteilte Himmel, 1963, Nachdenken über Christa T, 1969, Kindheitsmuster, 1976, og Kassandra, 1983, sem kom út í íslenskri þýðingu fjórum árum síðar. Í verki sínu sínu, Kassandra, leitast Christa Wolf við að endurskapa sagnir úr grískri bókmenntahefð og skoða þær út frá femínísku sjónarhorni, og vakti það verðskuldaða athygli.
Íslenskar þýðingar: Kassandra (1987).
Á þýsku: Der geteilte Himmel (1978), Kindheitsmuster(1994), Medea: Stimmen (1998),) Leibhaftig (2002), Leibhaftig (hljóðbók 2002)





Sandra Paretti
(1935-1994)

Eftir að Sandra Paretti lauk stúdentsprófi árið 1953 lagði hún stund á tónlistarnám og síðar þýsku. Um skeið vann hún sem blaðamaður fyrir Münchener Abendzeitung. Fyrsta skáldsaga hennar, Rose und Schwert, sem út kom árið 1967, varð strax mjög vinsæl.
Bækur Söndru Paretti eru aðallegar félagslegar skáldsögur með sögulegum bakgrunni. Þær hafa verið þýddar á 28 tungumál og heildarupplag þeirra er yfir 30 milljónir eintaka, og þar með tilheyrir hún víðlesnustu höfundum þýskrar tungu.
Sandra Paretti framdi sjálfsvíg eftir að hafa greinst með ólæknandi sjúkdóm. Þann 14. mars 1994 birtist dánartilkynning sem hún hafði sjálf skrifað og greindi frá ákvörðun hennar og vakti hún að vonum mikla athygli.
Á þýsku: Tara Calese (1988)

Bernhard Schlink
(f. 1944)

Sekt og réttlæti eru meðal helstu viðfangsefna skáldsagnahöfundarins Bernhards Schlink, enda er hann menntaður lögfræðingur. Flestar sagna hans falla í flokk glæpasagna, þ.á.m. tvær þær fyrstu: Refsing Selbs (Selbs Justiz) og Gordíonshnúturinn (Die gordische Schleife).

Nú er álitið að Schlink hafi blásið nýju lífi í þýsku sakamálasöguhefðina, en saman við spennandi söguþráðinn tókst honum oft að tvinna greiningu á samfélagsvandamálum. Vatnaskil urðu á ferli Schlinks 1995 þegar bók hans Der Vorleser (Lesarinn) kom út. Þar segir frá táningsdreng sem á í ástarsambandi við konu um þrítugt, en samband þeirra fær snöggan endi þegar konan hverfur fyrirvaralaust. Nokkrum árum síðar hittast þau aftur, þá er drengurinn í laganámi og fylgist með því þegar fyrrverandi ástkona hans situr fyrir svörum sem sakborningur í dómssal. Uppgjör elskendanna tekur þannig óvænta stefnu – það reynist aðeins hluti af enn stærra uppgjöri sem snertir alla þýsku þjóðina.
Um Bernhard Schlink hefur það verið sagt að hann sé sérstaklega beittur í því að kryfja sögupersónur sínar og lýsa og greina breytni þeirra án þess þó að setjast í dómarasæti.
Íslenskar þýðingar: Lesarinn (2000), Ástarflótti (2004).
Á þýsku: Der Vorleser (1995), Liebesfluchten (hljóðbók 2000), Selbs Mord (2003)

Patrick Süskind
(f. 1949)

Patrick Süskind varð fyrst þekktur árið 1981 fyrir einleikinn Kontrabassann (Der Kontrabass) en vinsældir hans náðu nýjum hæðum fjórum árum síðar með skáldsögunni Ilmurinn. Saga af morðingja (Das Parfüm. Die Geschichte eines Mörders). Sú saga gerist í Frakklandi á átjándu öld og greinir frá dularfullum manni sem myrðir ungmeyjar til þess að geta endurskapað ilminn af þeim.
Sú mikla frægð sem Süskind hefur hlotnast með verkum sínum hefur aldrei verið honum að skapi enda leggur hann sig í líma við að forðast sviðsljós fjölmiðla, hann veitir aldrei viðtöl og tekur ekki við verðlaunum. Skáldsagnapersónur Süskinds eru um margt líkar honum sjálfum, sögur hans fjalla gjarnan um einfara sem hafna samneyti við annað fólk en eru þó haldnir þrá eftir viðurkenningu og hlýju. Bækur Süskinds eru jafnan margslungnar: Þær eru í senn skrifaðar fyrir þá sem unna snjöllum söguþræði og þá sem vilja kafa undir yfirborðið.
Íslenskar þýðingar: Ilmurinn (1987), Dúfan (1989).
Á þýsku: Der Kontrabass (1984), Das Parfüm : die Geschichte eines Mörders (1985), Die Taube (1987), Die Geschichte von Herrn Sommer (1991)

Annað: Autorenlesungen 1-6. (nokkrir þýskir höfundar, Heinrich Böll Günter Grass o.fl.) (hljóðbók)

Bókasafn Hafnarfjarðar
Strandgötu 1






Texti: Svanur Már Snorrason og Brigitte Bjarnason

þriðjudagur, 7. maí 2013

frosin brosin



bursta tennur með bensíni
baka brauð með hugarafli
og hlusta á rykrauðann jazz
daginn eftir reima ég á mig ökklahlíf
tek íbúfen og nokkur skot á körfu með slitnu neti
hugsa til tíma þegar stjórnmálamenn mættu ekki í spurningaþætti
og á þeirri stundu átta ég mig á að frosin brosin elska að vera til
en að það er ekki hægt að bjóða þeim upp í dans frekar en mér