sunnudagur, 23. febrúar 2014

fimmtudagur, 6. febrúar 2014

Elsti viðskiptavinur Bókasafns Hafnarfjarðar 100 ára

Þann 9. ágúst síðast liðinn fagnaði Guðrún Jónsdóttir, sem lengstum bjó á Skúlaskeiði 28 hér í bæ, 100 ára afmæli sínu. Vægt er til orða tekið þegar sagt er að Guðrún beri aldurinn vel. Hún er mjög ern og lítur nánast út eins og unglamb. Hún segist reyndar vera orðin frekar slæm í fótum og að heyrnin sé aðeins farin að bila, en að öðru leyti heilsist henni mjög vel, enda býr hún ein í íbúð á Álfaskeiði 64, og segir það, út af fyrir sig, nokkuð til um hversu hraust hún er og viljasterk.

Guðrún er ættuð úr Arnafirði, nánar tiltekið bænum Auðkúlu í Auðkúluhreppi í Vestur-Ísafjarðarsýslu. “Ég flutti til Hafnarfjarðar árið 1931 og alla tíð síðan hef ég búið hér og ávallt líkað vel við lífið og tilveruna hér í bænum,” segir Guðrún og bætir við: “Fyrst um sinn leigðum við, maðurinn minn heitinn og ég, hjá Ólafi Böðvarssyni þangað til við keyptum okkur íbúð á Skúlaskeiði 28. Maðurinn minn, Gunnar E. Sigurðsson, var Vestfirðingur eins og ég; hann var frá Þingeyri við Dýrafjörð.

Á þrjú barnabarnabarnabörn!

Guðrún segir tímana hafa breyst mikið á hennar ævi – má muna tímana tvenna eins og stundum er sagt. “Hún var óneitanlega harðari lífsbaráttan þegar ég var að vaxa úr grasi. Lífið var fábrotnara, möguleikarnir færri og fólk gerði allt hvað það gat til þess að nýta það sem til féll. Það var ekki mikið um skólagöngu á mínum æskuárum, þó var barnaskóli, en hann var nú öllu minni að umfangi en grunnskólinn er í dag. Ég fékk þó að fara í undirbúningsnám fyrir menntaskóla í einn vetur og það var mjög skemmtilegt og eftirminnilegt. En tímarnir hafa sannarlega breyst svo að um munar; já, ég hugsa stundum með sjálfri mér: mikið hlýtur fólkið í dag að vera lært – það er meira en hálfa ævina í skólum að læra!

Guðrún eignaðist fimm börn með sínum manni og öll eru þau á lífi og þeim heilsast vel. Afkomendur Guðrúnar eru líka orðnir býsna margir. Þar er nú sannarlega um auðugan garð að gresja. 
“Ég á sextán barnabörn og þrjátíu barnabarnabörn og svo á ég þrjá afkomendur í fimmta ættlið – þrjú barnabarnabarnabörn! Það liggur við að maður sé orðinn þreyttur á að telja,” segir Guðrún og hlær sínum glaðværa hlátri.

Eins og áður segir er ekki að sjá á Guðrúnu að hún sé orðin tíræð; hún segir sig líka hafa verið heppna með heilsufarið, hún hafi ávallt verið góð til heilsunnar. “Mér verður sjaldan misdægurt og það skiptir miklu að heilsan sé góð og þeirrar gæfu hef ég orðið aðnjótandi. Þá er ekki síður gott að hafa allt þetta góða fólk í kringum sig, það er alveg ómetanlegt.”

Bækur eru lífsnauðsyn.

Við snúum okkur nú að umræðuefni sem er Guðrúnu mjög hugleikið: - bókum. Hún segir hiklaust að án bókanna myndi hún ekki hafa náð svo háum aldri sem raun ber vitni.
“Bókalestrinum á ég mikið að þakka, lestur bóka hefur gefið mér mikið, hefur haldið mér félagsskap og gert mér í raun og veru kleift að búa ein; bækurnar eru mér lífsnauðsyn. Já, bókin er alveg dásamlegur félagi, enda var það svo að ég skráði mig strax í Bókasafnið þegar ég fluttist suður. Safnið nota ég enn mjög mikið, fæ þar um það bil tuttugu bækur mánaðarlega, og er þakklát því góða og hjálpsama fólki sem vinnur þar.
Ég hef alltaf lesið mikið, reyndar allt frá því að ég lærði að lesa og ég held ég gæti ekki búið ein ef ég hefði ekki nóg að lesa; væri líklega komin á Sólvang fyrir löngu,” segir Guðrún og skellihlær.
Guðrún segist vilja lesa sem fjölbreyttastar bækur og segist lesa nánast allar sortir bóka.
Áttu þér einhvern eftirlætis höfund?
“Það er auðvitað hægt að nefna marga höfunda – það er til svo mikið af góðum bókum. Ég get þó nefnt að í kvæðabókunum er Davíð Stefánsson frá Fagraskógi í miklu uppáhaldi hjá mér. Að honum nefndum nefni ég þá Snorra Hjartarson og Einar Ben. Þetta voru mikil skáld. Ég fullyrði að lesturinn á – án efa – stóran þátt í því að ég hefi náð svona háum aldri. Ég er orðinn nokkuð slæm í höndunum, þannig að ég er alveg hætt að geta heklað, en ég gerði talsvert af því hér áður fyrr – heklaði mikið og þá sérstaklega barnakjóla. En núna, núna les ég bara,” sagði heiðurskonan Guðrún Jónsdóttir.

Texti og myndir: Svanur Már Snorrason.

Viðtalið birtist í Víkurfréttum í ágúst árið 2006, en þess má geta að Guðrún er enn í fullu fjöri og verður 108 ára á þessu ári.