Galdrar Bókasöfn eru læviblandnir staðir sem gaman er að heimsækja. Hvað ætli komi í ljós ef grúskað er í hillunum? Saga um sjóræningja í suðurhöfum? Reykjavíkurkrimmi?
Galdrar Bókasöfn eru læviblandnir staðir sem gaman er að heimsækja. Hvað ætli komi í ljós ef grúskað er í hillunum? Saga um sjóræningja í suðurhöfum? Reykjavíkurkrimmi? — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Athvarf „Mörg börn koma hingað til að dunda sér og lesa á meðan þeir fullorðnu líta hér inn til að rýna í nýja bók, fletta dagblöðum og tímaritum eða rabba við kunningja sína yfir kaffibolla,“ segir Svanur Már Snorrason.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Almenningsbókasöfnin eru sérlega aðgengileg og notaleg heim að sækja. Bæði börn og fullorðnir taka sér frí frá rökkrinu og kuldanum í hlýju bókasafninu.
Er eitthvað til betra á köldum vetrardegi en að hjúfra sig undir hlýju teppi, í uppáhaldshægindastólnum eða uppi í rúmi, með góða bók í höndunum? Að gleyma sér yfir spennusögu, ævisögu eða fræðilegum texta, kannski með vandlega lagaðan kaffibolla innan seilingar og máski nokkra bita af konfekti.
Veturinn er svo sannarlega tími til að njóta góðra bóka.
Svanur Már Snorrason er bókavörður hjá Bókasafni Hafnarfjarðar. Hann segir sumarið rólegasta tíma ársins en með lækkandi sól taki bókasafnsgestum að fjölga á ný. „Í sumarfríunum og góða veðrinu hefur fólk kannski aðrar áherslur en að lesa bækur, en það breytist þegar vetur gengur í garð. Aðsóknin í bókasafnið hefur verið nokkuð stöðug undanfarin ár og margir hafa það fyrir venju að koma hingað reglulega til að fá lánaðar bækur.“

Setið um rit sem fá góða dóma

Forvitnilegt er að skoða samsetningu bókasafnsgesta. Svanur segir konur í meirihluta og munur sé líka á hvaða bækur og önnur bókasafnsgögn kynin velja að fá að láni. „Konurnar sækja mjög í nýjustu bækurnar og þau verk sem hafa fengið góða dóma í fjölmiðlum eru umsetin. Tímaritin eru líka mjög vinsæl og eldri kynslóðin greinilega spenntust fyrir ævisögum og spennusögum.“
Börnin í Hafnarfirði eiga líka sitt athvarf á bókasafninu og mörg þeirra eru dugleg að leggja leið sína í barnadeildina. „Við erum með stóra og öfluga barnadeild þar sem er úrval af bókum, tímaritum, myndefni og tónlist fyrir yngri aldurshópana. Líflegt starf er við deildina og algengt að hingað komi hópar skólabarna úr nágrenninu og hlýði á sögustund.“
Segir Svanur ánægjulegt að sjá þá breytingu sem orðið hefur á þjónustu við börn í bókasöfnum hér á landi. „Fyrir um 30 árum man ég að börn máttu varla sjást á bókasöfnum og viðmótið hjá bókavörðunm var oft þannig að börnunum fannst þau alls ekki velkomin, og eins og það væri starf bókavarðarins að verja einhvern heilagan gral í hillum safnsins fyrir litlum fingrum. Allt hefur þetta breyst og leggja bókasöfnin sig í dag fram við að taka börnum opnum örmum.“

Heimilislegur staður

Svanur segir suma ekki aðeins koma í bókasafnið til að fá þar verk að láni, heldur til að njóta andrúmsloftsins í húsinu og taka sér hlé frá dagsins amstri. Þegar vetrarmyrkrið ræður ríkjum úti er bjart og hlýtt í bókasafninu og mjúkir stólarnir og lesborðin bíða eftir gestunum. „Mörg börn koma hingað til að dunda sér og lesa á meðan þeir fullorðnu líta hér inn til að rýna í nýja bók, fletta dagblöðum og tímaritum eða rabba við kunningja sína yfir kaffibolla. Setustofan okkar er heimilisleg og boðið þar upp á kaffi til hádegis. Hér inni er hægt að finna gott skjól frá stressi og dægurþrasi.“
ai@mbl.is

Sáraeinfalt að fá lánaða bók

Þeir sem ekki hafa heimsótt bókasafnið sitt í langan tíma eru eflaust margir búnir að gleyma hvað bókasöfn eru ódýr og aðgengileg. Fullorðnir greiða 1.700 kr. árgald hjá Bókasafni Hafnarfjarðar en safnið á í samstarfi við bókasöfn Kópavogs, Garðabæjar og Álftaness og eru skírteinin gild í öllum söfnunum. „Það tekur örstutta stund að útbúa bókasafnsskírteinið og veitir það aðgang að öllum safnkostinum. Útlánstíminn á bókum er þrjátíu dagar en allra nýjustu titlarnir eru lánaðir í tvær vikur og leyfir tölvukerfið hverjum notanda að vera með allt að 30 gögn í láni á hverjum tíma. Ef 30 dagar nægja ekki til að klára lesturinn er hægt að framlengja lánið á netinu eða með símtali svo fremi að enginn annar hafi pantað eintakið.“
Hægt er að taka út og skila safngögnum í sjálfvirkum útlánavélum eða fá aðstoð afgreiðslufólks sem er boðið og búið og getur m.a.s veitt ráðleggingar um áhugaverða titla. Ef gleymist að skila á réttum tíma er ekki von á svo háum sektum, nema þeim mun fleiri bækur hafi verið teknar að láni. „Dagsekt vegna bókar minnir mig að sé komin í 20 kr. á dag fyrir fullorðna og 10 kr. fyrir börn en síðan leigjum við líka út kvikmyndir og heimildarmyndir sem bera ögn hærri sektir.“ 18. október 2013