sunnudagur, 1. apríl 2007

Svikamylla álstækkunarandstæðinga

Leyniþjónusta álstækkunarandstæðinga hefur verið afhjúpuð. Andstæðingar stækkunarinnar höfðu komið upp víðtæku neti, nokkurskonar leyniþjónustu og sú er miklu öflugri en sú sem steingervingurinn Björn Bjarnason hefur verið að prédika fyrir að komið verði á fót á vegum íslenska ríkisins. Hátt í þúsund manns hafa á skipulegan hátt, undanfarnar vikur og mánuði, smyglað sér inn í bæjarfélagið Hafnarfjörð í þeim tilgangi einum að geta kosið gegn stækkun álversins. Og þetta tókst allt. Stækkunin var felld með 88 atkvæðamun og því má segja að stofnun leyniþjónustu álstækkunarandstæðinga hafi borgað sig. Já, það má ýmislegt gera á Íslandi - stofna heila leyniþjónustu og koma í veg fyrir viðbjóðslega aukningu á mengun og innrömmun samfélagsins í stóriðjukokkteilinn sem bjóða á uppá þangað til......

......allt er orðið að engu og kynslóðin sem erfa mun landið mun einfaldlega neita að erfa það og flytur í burtu til einhvers lífvænlegs lands.

Hvað ætli komi næst upp úr dúrnum hjá tapsárum áldýrkendum? Ekki raunveruleiki umhverfismála - það er ljóst. Frekar tálsýn sem byggist á álsýn og er dýrt spaug fyrir landið og jörðina þegar til ekki svo langs tíma er litið.

Engin ummæli: