sunnudagur, 27. júlí 2008

Þrír töffarar við Seljalandsfoss

Valur Áki, Ólöf Ragnheiður og Elísa Rún

laugardagur, 26. júlí 2008

Af hverju er Jakob Bjarnar ekki með bloggsíðu?


Ég myndi vilja lesa blogg hjá þeim mikla meistara, Jakobi Bjarnari Grétarssyni, stjörnublaðamanni og tónlistarmanni. Vil líka fara að heyra eitthvað í Kátum Piltum (á að skrifa piltum með stóru eða litlu pjéi?), en þeir hafa ekki sent frá sér efni í ein 16 ár, ef mér skjöplast ekki. Bobbi, farðu að blogga, þú átt dyggan lesanda í mér (og örugglega mörgum öðrum), og svo að koma út efni með bestu hafnfirsku hljómsveit allra tíma.


Ps: Ætli sagan um Kate Pilts muni einhvern tíma koma út? Vona það.


Cremonese: Nappaði myndinni af Bobba á bloggi Hrafns Jökulssonar. Vona að það sé í lagi. Hrafn mætti alveg fara að blogga á nýjan leik. Og Hjalti Snær Ægisson líka. Jæja, nú er þessari færslu loksins lokið.

sunnudagur, 13. júlí 2008

égerekkiskarparienskólakrakki

Þremur vikum áður hafði verið sagt að stormur væri í aðsigi

Grámygluleg augun vilja ekki opnast upp á gátt og spurningin snýst mikið um það þessa stundina hvort fréttatímanum fari ekki bráðum að ljúka

Miklu oftar en fimmtán sinnum á dag hugsa ég um það hvort það gæti verið satt að hagkvæmt sé að reka raforkuver í litlum smábæ sem hefur hingað til haft mestar tekjur sínar af sölu póstkorta af gríðarlega fallegri og sjaldgæfri tegund hunda sem kenndir eru við afar sérkennilegt fjall sem í þoku tekur á sig hinar ýmsu myndir en sú sem flestir eru sammála um að sé einna algengust og þá sérstaklega í morgunsárið er samkvæmismyndin

Eftir storminn og þrjá bolla af kaffi var gæfuríkt um að lítast og það sem blasti við í gær var í dag með öllu horfið og þess ekki saknað

Töffaralegur skjárinn var ekki í sambandi því fréttirnar voru byrjaðar

föstudagur, 11. júlí 2008

Heysanna Hosanna


"Júdas, ég þekkti nú hann. Góður maður, misskilinn. Fólk á eftir að kunna að meta hann betur síðar og sjá hann í öðru samhengi en hann er oftast sýndur í. Þori að fullyrða það."

(Höf. Ozmond P. Douglas)

laugardagur, 5. júlí 2008

Síðuhaldara hefur borist bréf


Kæri blaðamaður. Ég vona að dagurinn í dag hafi verið þér ánægjulegur, líkt og hjá sjálfum mér. Ég byrjaði að sjálfsögðu á kaffisopa en hóf síðan að blaða í bókinni Trúðurinn eftir Heinrich Böll. Eftir um það bil sautján mínútna lestur lagði ég frá mér bók þessa og stakk kexi upp í köttinn. Hann var sáttur - lét mig aðeins strjúka á sér kviðinn - malaði þessi ósköp. Mikið held ég að það geti verið gott að vera köttur. Komið var að bloggrúnti mínum, sem oftast samanstendur af 25 til 37 síðum. Þegar ég var um það bil hálfnaður rambaði ég inn á síðu þína og leist illa á að blaðamaður slúðurtímarits, boðberi sorpblaðamennsku ásamt DV, væri að opinbera persónuleg skrif sín. En fannst samt eitthvað spunnið í skrif þín og þá taldi ég það þér til tekna að vera starfsmaður bókasafns Hafnarfjarðar, enda er það afbragðsgott bókasafn sem eingöngu ræður til sín gott starfsfólk. Og vegna þess ákvað ég að hella mér í lestur á Séð og Heyrt með opnum huga og athuga hvort skoðanir mínar á tímaritinu væru fordómafullar. Fór að sjálfsögðu í heimsókn á bókasafn Hafnarfjarðar og leigði ein 30 eintök af tímaritinu. Reyndar voru þau 29, en ég bara stóðst ekki mátið og greip einnig með mér Njálu. Það má nefnilega ekki hafa í láni meira en 30 safngögn í einu. Og ætti að vera nægilegt flestu fólki. Staldraði við í Samkaup þar sem ég keypti flösku af lýsi og ávaxtadrykk, einnig hálft rúgbrauð. Þegar heim var komið dembdi ég mér í lesturinn - las Séð og Heyrt spjaldanna á milli og rýndi einnig rækilega í ljósmyndirnar, sem eru nú ekki fáar. Undirrituðum til mikillar furðu, undrunar, og, verð ég að segja, ánægju, var lesturinn bráðskemmtilegur og lifandi. Textar flestir ágætlega og þaðan af betur skrifaðir, myndatextar frískir og fullir af orðaleikjum, og notkun ljósmynda eiginlega punkturinn yfir i-ið. Já, nú er ég farinn að skilja hvers vegna öll þjóðin leggst í lestur þessa tímarits og hvers vegna það mælist svo hátt í könnunum. Svo hef ég heyrt því fleygt að það seljist betur en heitar lummur, betur en vöfflur með rjóma og sultu og heitu kakaói á 17. júní í den. Þetta er sú blanda, sem í blaðinu er að finna, sem flestir vilja. Þarna er að finna skandala, tísku, skúbb (afsakið málfarið), stuttar og óvenjulegar fréttir, lengri viðtöl, ljósmyndasíður, heilar opnur um kynþokkafullar leikkonur í Hollywood og flottustu folana á EM (þetta var í blaðinu). Og ég sem hafði alltaf haldið að í Séð og Heyrt væri bara að finna neikvæðni og lygar, bull og vitleysu, þvælu og rökleysu og tilgangsleysi á hæsta stigi. Nei, svo aldeilis ekki. Þarna fann ég endurspeglun hins íslenska raunveruleika - eða öllu heldur það sem hinn venjulegi Íslendingur vill að endurspegli veruleika sinn. Og hann er kóngur og drottning þá stund sem það tekur að lesa blaðið upp til agna. Tímaritið færir fólki það sem það vill, þótt margir vilji ekki viðurkenna það í votta viðurvist að svo sé. Afneitar jafnvel tímaritinu - segist aldrei leggjast svo lágt að lesa það. En nú veit ég betur og vildi því senda þér þessar línur og um leið bið ég þig og allt það ágæta starfsfólk sem við tímaritið starfar innilega afsökunar á fordómum mínum og fráfræði og fullyrðingum í garð Séð og Heyrt. Þetta er stórkostlegt blað, lætur mér líða álíka vel og kettinum þegar ég strýk honum um kviðinn. Ég mala þegar ég Les Séð og Heyrt. Bestu kveðjur og gangi þér og þínum allt í haginn í framtíðinni, þinn

Moribund the Burgermeister