föstudagur, 27. apríl 2007

Pælingar 4

Tónlist er frábært fóður

Tónlist er í mínum huga eitt það besta sem frá mönnunum hefur komið. Ég gæti illa án tónlistar verið og hef grun um að á mig myndu sækja hinir ýmsu kvillar ef raunin yrði sú. Þrátt fyrir gríðarlegan tónlistaráhuga minn eru hæfileikarnir engir. Ég held svo sem lagi en kann ekki að semja tónlist og hef ekki getað lært svo mikið sem eitt helvítis gítargrip.

Samt sem áður hefur tónlist alltaf skipað stóran sess í lífi mínu og ófáar góðar stundirnar átti ég í æsku, einn heima með græjurnar í botni, hlustandi á góða plötu með David Bowie eða Bítlunum, nágrönnunum til mikils ama. En hvað með það? Fólkið fékk í það minnsta að heyra góða tónlist!

Tónlist hefur mikil áhrif á mig og fer létt með að gjörbreyta skapinu á einu andartaki. Sálin getur verið súr, líkaminn lygilega latur og trúin á gangverkinu lítil. Síðan heyrist lag sem manni líkar og allt í einu er sem ekkert sé ómögulegt. Oft hefur það gerst að maður hefur breyst úr blúsuðum og hundleiðilegum Hafnarfjarðardurgi í eldfimt partýdýr – bara við það að heyra gott lag.

Tónlist er Guðs gjöf og fyrir hana eigum við að vera þakklát og njóta hennar í botn hvar og hvenær sem. Hún er frábært fóður fyrir sálina.

Tónlist á ekki að flokka í æðri og lægri tónlist; hún er hafin yfir skilgreiningar sérfræðinga því hún hefur mismunandi áhrif á hvern og einn.

Ég læt fylgja með eina sögu af syni mínum, Val Áka, sem er rúmlega 2ja ára. Eitt sinn sat ég fyrir framan tölvuna og hlustaði á hina frábæru íslensku (hafnfirsku!) hljómsveit Mínus. Valur Áki var þá nokkurra mánaða gamall og var í fangi mínu sofandi. Hlustað var á tvær fyrstu plötur Mínus, Hey Johnny og Jesus Christ Bobby, MJÖG harða rokktónlist. Um leið og ég hætti að hlusta vaknaði guttinn og hágrét. Þá prófaði ég að setja Mínus aftur á og viti menn, hann sofnaði strax aftur. Þetta reyndi ég nokkrum sinnum og alltaf með sama árangri. Ég veit ekki hvaða lærdóm má draga af þessari sögu, en mikið rosalega er ég stoltur af því að eiga svona rokkóðan son!

Víkurfréttir, 30. mars, 2006

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Harður rokkara sonur! Þú mátt vera stoltur.

Svanur Már Snorrason sagði...

Jebb, gerist ekki harðara rokkið. Ég er stoltur.