Ætla smám saman að henda inn þessum svokölluðu pælingarpistlum sem ég skrifa mánaðalega í bæjarblaðið Víkurfréttir. Hér er sá fyrsti.
Hugarafl
Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur aftur. Og allt það.
Allt fer í hringi og enginn veit hvar og hvernig þetta byrjaði allt og hvenær og hvernig þetta muni enda; það er að segja lífið.
Mjög margir nota tækifærið og líta um öxl um áramót og velta því fyrir sér hvað betur hefði mátt fara á árinu sem nú er liðið og hvers vegna hlutirnir æxluðust á þennan veg en ekki hinn. Oft eru á þessum tímamótum grátin glötuð tækifæri og þetta verður því oft einhverskonar uppgjörstími. Að honum afloknum (þetta uppgjör tekur yfirleitt ekki langan tíma) er síðan horft björtum og tárvotum augum fram á veginn og sjálfum sér og öðrum lofuð bót og betrun.
Það er misjafnt hvað efst er á bætingarlista hins nýja árs; sumir ætla að hætta að drekka, aðrir að hætta að reykja, einhverjir setja stefnuna á að gera betur í vinnu eða námi og svo tel ég líklegt að flestir vilji bæta sig sem manneskjur, enda er það alltaf hægt.
Þrátt fyrir allt ofantalið er þó líkamsþyngdin það sem virðist vera efst í huga fólks á þessum tíma. Flestir búnir að troða óhóflegu magni af rauðu og reyktu kjöti í belginn á sér og skola því niður með allskyns dásamlegum óþverra eða óþverralegum dásamleika. Svo er vaknað á vigtinni með vindverki, brjóstsviða, þynnku og mikla þörf fyrir endurbætur á líkama og sál.
Sá er þetta ritar er hvorki lífsreyndur né gáfaður og yfirleitt svo tví- eða þríklofin í afstöðu sinni, áhugamálum og atvinnu, að það er álíka líklegt að hollráð frá mér myndu nýtast til árangurs og það að Framsóknarflokkurinn næði hreinum meirihluta í bæjarstjórnarkosningunum í Hafnarfirði í vor.
Eitt veit ég þó af fenginni reynslu úr ýmsum áttum að það er alveg sama hvaða aðferðum þú beitir í þeirri viðleitni þinni að ná þeim árangri sem þú sækist eftir – ekkert virkar fylgi hugur ekki máli. Hugurinn er sterkasta afl sem til er og því er erfitt að stjórna honum. Takist það er hins vegar ekkert ómögulegt. Og sé ekkert ómögulegt, því ættir þú ekki að geta stjórnað þínum eigin huga? Gleðilegt nýtt ár.
Víkurfréttir, 5. janúar 2006
1 ummæli:
Já, fyndið að spikið verður alltaf að bitbeini á áramótum. Spikið sem skiptir kannski ekkert svo miklu.
Gott að lesa, fín blogg alltaf hjá þér.
Núna hlusta ég á GCD, sumarið er tíminn, og það er satt.
Skrifa ummæli