sunnudagur, 15. apríl 2012

HEILABLÓÐFALLIÐ LÆKNAÐI MIG AF FÍKNINNI!






Níu líf gítargoðsagnarinnar Þorsteins Stanya Magnússonar

Þorsteinn er einn besti gítarleikari Íslands fyrr og síðar og hefur komið víða við á löngum ferli. Hann hefur háð harða baráttu við áfengi og önnur fíkniefni áratugum saman en segir að heilablóðfall sem hann fékk fyrir tveimur árum hafi læknað sig af fíkninni. Saga Þorsteins er saga áfalla og upprisu.

Hæfileikar! „Ég er heppinn að vera á lífi, það er deginum ljósara og ég er þakklátur fyrir það,“ segir Þorsteinn, oft kenndur við hljómsveitirnar goðsagnakenndu Eik og Þey, en hann hefur spilað með öllu besta tónlistarfólki landsins og væri of langt mál að telja upp öll hans afrek á því sviði. Hans persónulega líf hefur hins vegar verið markað af mikilli fíkn og veikindum, sem og upprisu.

„Það hefur gengið á ýmsu. Ég gekk í gegnum talsverð veikindi fyrir tveimur árum; fékk heilablóðfall og var með kransæðastíflu. En það komu góðir hlutir út úr því, þótt ótrúlegt megi virðast. Heilablóðfallið losaði mig við ákveðin óþægindi – kvíða, ótta og stress, þetta skolaðist í burtu með heilablóðfallinu. Það er mjög sérstakt því ég bjóst nú við að drepast vegna þessa, eins og margir, eða verða lamaður. Reyndar missti ég vitið í tvo eða þrjá mánuði, en svo kom það aftur og ég kom betri maður en áður til baka. Heilablóðfallið varð í vinstra heilahveli, en það hefði verið verra fyrir mig að fá högg á hægra heilahvelið, því það hefur með tónlistina að gera; sem betur fer slapp ég við það. Þetta gerðist haustið 2007 og ég fór í hjartaþræðingu og ýmislegt fleira.“

Dauði og fíkn

Og þetta sem Þorsteinn kallar ýmislegt varð þess valdandi að hans erfiðasta glíma, glíman við áfengi og önnur fíkniefni, gekk mun betur – hann bar sigur úr býtum.

„Síðan ég fékk heilablóðfallið hef ég haldið mér frá áfengi og fíkniefnum; sú glíma hefur gengið miklu betur eftir heilablóðfallið. Ég talaði við heilasérfræðinginn og hann sagði bara við mig: „Þorsteinn, fíknistöðin hefur verið slegin úr þér.“ Ég svaraði bara: „þakka þér fyrir,“ segir Þorsteinn og hlær dátt.

Eins og það sé ekki nóg að fá heilablóðfall, vera með kransæðastíflu og fara í hjartaþræðingu, þá hefur Þorsteinn komist oftar í hann krappan. „Ég er nú búinn að drepast tvisvar, fyrst 2002, fékk þá hjartastopp, en hafði það af. Svo var það öndunarstopp um fimm árum áður, en þá voru komnir sjúkrabílar og strákarnir á bílnum sem kom störtuðu mér bara í gang.“

Edrú um stund

Þótt Þorsteinn hafi óumdeilanlega verið einn besti, ef ekki besti, gítarleikari landsins, veigraði fólk sér við að ráða hann í verkefni. „Það var bara vaninn hjá mér, eftir mikla neyslu var það meðferð, svo var ég edrú í smátíma, byrjaði aftur í neyslu og fór að detta út úr verkefnum, aftur og aftur og aftur. Menn voru orðnir vanir þessu hjá mér, en eru þó farnir að sjá nú að þetta gengur miklu betur hjá mér í dag og eru ekki eins hræddir að fá mig í verk. Fólk skynjar breytinguna á mér og sér hana.“

Og Þorsteinn er þakklátur, segir miklar breytingar hafa orðið á lífi sínu, breytingar til batnaðar. „Það er svo margt að gerast hjá mér, ég vinn líka að ljóðagerð og teiknimyndum með fram tónlistinni og hef mikinn áhuga á ljósmyndun og öll mín sköpun er að verða betri.“

Gítarinn of sterkur

Eftir allt sem á hefur gengið horfir Þorsteinn bjartsýnn til framtíðar, enda líka margt ógert. „Já, það er málið. Mín bíður gítarveisla með Birni Thoroddsen og Blúshátíð á Akranesi, þetta verður fyrstu helgina í nóvember. Svo var Birgir Baldursson að tala um að stofna hljómsveit með mér og Jakobi bróður. Það er heilmikið í gangi hjá mér: Ég er að fara að endurútgefa eina af gömlu plötunum mínum og er langt kominn með að vinna nýja.“

Og hvernig skyldi sú tónlist vera? „Hún er djössuð og fönkuð, ég hef alltaf verið fönkari, alveg síðan á hippaárunum.“

Þorsteinn segir samskiptasíðuna Facebook hafa hjálpað sér mikið. „Meira en nokkurn grunar; þar er svo margt tónlistarfólk sem komið er í samband við mig með samstarf og vinnu í huga. Til dæmis erum ég og Pálmi Gunnarsson komnir í samband, einnig ég og Kjartan Valdimarsson og svo erum við Haraldur Þorsteinsson, úr Eik, að vinna að verkefni.“

Þorsteinn er því með réttu kallaður goðsögn í lifanda lífi, gítargoðsögn. „Bubbi sagði á afmælistónleikunum sínum að ég væri lifandi goðsögn og það er að miklu leyti rétt hjá honum, Árni Matt sagði að ég væri á heimsmælikvarða eftir þá tónleika.

Foreldrar mínir ætluðu mér að verða prestur en það varð nú aldeilis ekki. Ég varð bara ástfanginn af gítarnum; maður getur ekkert að þessu gert - ég hef reynt að vinna venjulega vinnu en það gekk aldrei - gítarinn var of sterkur.“


TÓNLISTARGÚRÚINN ÁRNI MATT UM ÞORSTEIN:

„Ég hef þekkt Steina síðan um það leyti sem Eikin varð til og við kíktum stundum í glas eða eitthvað annað, oft fullmikið skrall reyndar. Síðan hefur sambandi verið slitrótt.

Sem gítarleikari standa fáir Steina á sporði í frumleika og tónhugsun þó að eflaust séu einhverjir til sem spili skalana hraðar en hann. Mér er það til að mynda minnisstætt þegar Bubbi Morthens hélt afmælistónleika sína í Laugardalshöllinni 2006. Þar var mikið í gangi og margir fremstu tónlistarmenn þjóðarinnar fóru á kostum, afbragðsspilamenn og sjóaðir. Einn bar þó af, einn var á heimsmælikvarða, eins og heyrðist á fyrstu tónunum úr hljóðfæri hans - Þorsteinn Magnússon, Steini Stanya, í Eik.

Sem ég stóð og horfði á hann spila rifjaðist upp fyrir mér sagan af því er Fats Waller var að spila á búllu og Art Tatum gekk í salinn. Þá stóð Waller upp til að víkja fyrir Tatum og sagði: „Ég er píanóleikari, en guð er á staðnum.““


LJÓÐ EFTIR ÞORSTEIN:


Þorsteinn er hæfileikaríkur listamaður og ljóð hans má finna á vefsíðunni ljod.is.

Leit

Með lokuð augu ég löngum stari
og leita að hinu eina svari.
Úr luktum munni spurninga spyr.

Með lokuð eyru ég ligg og hlera,
langar að vita hvað ber að gera
við lífið handanvið dauðans dyr.

Er þetta kannski alltsaman blekking?
Ekkert í lífinu nýtanleg þekking?
Á engu gerandi endanleg skil?

Með lokuðum huga ég læsi mig inni
í lífinu sjálfu, skelinni minni
sem hvort eð er hvergi er til ...


TEXTI: SVANUR MÁR SNORRASON
MYNDIR: HEIÐA HELGADÓTTIR

Séð & Heyrt, október 2009

föstudagur, 6. apríl 2012