miðvikudagur, 27. júlí 2011

Sjálfshjálp listamanns



Vanlíðan Ólafs Elíassonar


Það helltist yfir mig vanlíðan þegar ég heyrði þær fréttir að listamanninum Ólafi Elíassyni liði illa vegna frágangs við tónlistarhúsið Hörpu, sem nýverið var opnað, og var þá lítið annað en vinnusvæði.

Grátklökkur hugsaði ég: Hvernig er hægt að koma svona fram við ástsælasta son Íslands sem hefur fórnað sér fyrir þjóðina og tekið næstum ekkert fyrir?

Mér brá þegar ég staðnæmdist við orð Ólafs í viðtali vegna opnunarinnar að hann þyrfti líklega að veita sjálfum sér meðferð! Ég hugsaði með mér að nú væri þjóðin komin á botninn. Sjálfur Ólafur Elíasson kominn að því að bugast vegna plebbaskapar Íslendinga, sem er landlægur.

Auðvitað lá ekkert á að opna Hörpu - hana átti að opna þegar hún var tilbúin að utan sem innan; að innan þjónar húsið tilgangi sínum - en að utan er hún listaverk á heimsmælikvarða, þegar hún er tilbúin! Útlit slíkra húsa skiptir höfuðmáli og að sá sem á mestan þátt í útlitinu fái viðurkenningu og athygli. Húsið er ekki tilbúið fyrr en búið er að láta mikilvægt fólk í útlöndum vita og listamaðurinn leggi blessun sína yfir verklokin - klippi á borða með íslensku þjóðinni.

En var hlustað á Ólaf? Ónei - húsið var opnað hálfklárað og ég vorkenndi Ólafi að þurfa að pína sig á opnunina og líta draslið augum. Kampavínið hefur líklega smakkast skringilega.

En það var ljós í myrkrinu: Ólafur hefur líklega glaðst yfir því að hitta manninn á bakvið húsið, Björgólf eldri, og ekki hefur það skemmt fyrir að þiggja þétt handtak frá Árna Johnsen - þetta hefur líklega bjargað því sem hægt var að bjarga þetta súra opnunarkvöld.

Áfall Ólafs Elíassonar er mikið og framundan er sjálfshjálpin og langar mig til að gefa honum ráð: Ólafur, ekki bugast - þú munt getað haldið áfram að búa til ódauðleg listaverk á borð við glerhjúpinn í Hörpu - svona ferðu að:

Þú færð lánaðan glæsilegan vinnugalla (ég á kunningja sem á fataverslun, og við köllum þetta bara vinnugalla) og stórkostleg gleraugu eftir heimsfrægan hönnuð að eigin vali (ég á vin sem á gleraugnaverslun) og að sjálfsögðu þarftu ekkert að greiða fyrir. Síðan flyturðu inn nokkra Kínverja (þeir hafa nú gott af því að komast af hrísgrjónaökrunum) og verkstýrir þeim og klárar verkið eins og þér sæmir. Hver og einn Kínverjinn fær svo að launum þakklæti þitt og eitthvað gómsætt úr Kolaportinu áður en gámurinn verður innsiglaður að nýju.

Þegar verkinu er lokið verður að nýju blásið til opnunar þar sem þú og þitt verk verður í aðalhlutverki - þá sér fólk loksins hversu mikilvægt verkið er fyrir sárþjáð íslenskt samfélag og hversu mikill listamaður þú ert - loksins, loksins.

Að lokum segi ég við þig Ólafur: Ekki eyða orðum á ómerkilega götublaðamenn sem vilja vita hvað þú fékkst greitt fyrir verkið. Haltu áfram að vísa í klásúluna í samningi þínum og horfðu björtum augum fram á veginn. Þú munt jafna þig. Þitt framlag til samfélagsins er ómetanlegt - svo miklu meira en skitnar nokkurhundruðmilljónir.

Svanur Már Snorrason, fyrrverandi ritstjóri menningartímaritsins Séð & Heyrt

(Grein birt í Fréttatímanum 20. maí 2011)

sunnudagur, 3. júlí 2011