miðvikudagur, 30. apríl 2008

Girl From The North Country

Trén eru alltaf að færast nær. Ég færist fjær. En ekki alltaf. Hef alltaf gaman af samræðum við skemmtilegt fólk. Vil ekki af þeim missa. Missi þó oft af þeim því ég er svo oft heima og mér leiðist yfirhöfuð að tala í síma. Undantekningar á því. Stundum er allt að gerast - allt í virkni - stundum er allt stopp og maður getur ekkert að því gert - allt í óvirkni. Sumir dagar eru dagar virkni og óvirkni en eru í raun allir dagar þegar þú hugsar til baka. Rennur oft saman í einn grjónagraut með fullt af kanilsykri og rúsínum. Stundum lifrarpylsu. Ekki slæmt. En ég og þú, tortímendurnir sjálfir, veigrum okkur ekki við að líta framhjá fullt af hlutum. Og sjáum það sem við viljum sjá. Höldum að við séum á réttri leið og ekki allir eins vissir og við. Sumir vita betur en vita samt ekki neitt. Eru fangar eigin fávisku en var ekki gefið að sjá sig sjálfa með augum annarra. Fátt er fólki hollara en að sjá sig sjálft með augum annarra. Ef þið getið það - látið vaða - þið græðið mjög mikið - andlega og líkamlega - á því að sjá ykkur með augum annarra. Og ekki taka of mikið mark á fólki þótt það meini vel. En taktu mark á fólki sem segir þér eitthvað af viti, hvort sem það meinar vel eða ekki. Það er til fólk sem elskar sjálft sig svo mikið að jafnvel eigin afkvæmi þess eru bara númer tvö eða jafnvel enn neðar. Það er til fólk sem gerir sér enga grein fyrir því hversu gott það hefur; getur ekki borið líf sitt við líf annars fólks hér á þessari jörð sem er að svelta heilu hungri og lifir varla af þessa setningu. Góðmennska er ekki bara tengd við eigin afkvæmi, stundum, og því miður alltof oft, er það ÉG sem allt snýst um. Og ég er ekki að tala um mig. ÉG er fólk sem á erfitt með að sætta sig við að það sé ekki í raun sólin sem snúist um það - ekki jörðina - hún er bara aukatriði. ÉG er að tala um að sólin snúist í kringum MIG. Hvernig er hægt að elska nokkurn meira en eigin afkvæmi? Það er ekkert til í þessu ágæta og skapandi jarðlífi sem er þess virði að elska meira en eigin afkvæmi. Sú ást er ekki til sem er dýpri og meira gefandi en sú sem þú berð til eigin afkvæma. Hún er sú sem drífur þig áfram og gefur þér fyllingu. Ást makans er mikil og ég er ekki að gera lítið úr henni en hún er ekki með þessum hætti sem afkvæmin gefa af sér. Lífið er svo mikið. Lífið er allt draslið og ég held að sjálft lífið fyrirlíti væmni og tilgerð og fals um að það sé æðislegt. Lífið er allur skalinn en það að eignast börn er fyllingin og skilningurinn á því að það verði að halda áfram. Love Of My Live með Queen er ágætur endir á þessum pistli. Kíkið á það lag á youtube.com. Það fjallar um ástir samkynhneigðs karls og gagnkynhneigðrar konu. Fjallar um lífið. Fyllingu lífsins.

mánudagur, 28. apríl 2008

Blaðsíða

Veit ekki hvað ég á að skrifa. Hef ekki látið það eftir mér að skrifa þegar ég hef ekki vitað hvað ég ætti að skrifa. Þangað til nú. Núna skrifa ég þrátt fyrir að vita ekki hvað ég á að skrifa. Skrifa og skrifa einhver orð sem mynda setningar. Til hvers veit ég ekki. En örugglega ekkert að því að skrifa eitthvað þó maður hafi ekkert að segja. Láta bara vaða jafnóðum og detta samt ekkert í hug. Setja bara punkt fyrir aftan setninguna og passa að stafsetning sé í lagi og málfar. Held að hvorutveggja sé nokkurn veginn í lagi. En þið leiðréttið mig bara, gerist þess þörf. Ekki vera feimin við það. Ég móðgast ekki og hugsa nú um ómalbikaða vestfirska vegi. Bændur og girðingarstaura - búfénað og fjós. Hey, áburð og hund að skíta við ljósastaur. Annar hundur sem er með honum leggur þó ekki í að þefa af rassinum á honum alveg strax. Eigandi hundsins er vandræðalegur og þykir mér líklegt að hann sé við nám í Kvikmyndaskóla Íslands. Sá skóli er í sama húsnæði og fyrirtækið sem ég vinn hjá. Er að lesa Óvinafagnað eftir Einar Kárason og er þessa stundina að hugsa um persónur bókarinnar og bardagann við Örlygsstaði. Slátrun. Ætla að halda áfram að lesa í bókinni þegar ég hef lokið við að skrifa þennan pistil sem byrjaði á einhverju en endaði á Einari Kárasyni og Norðurlandi. Yfir og út, Svanur...

mánudagur, 21. apríl 2008

Ella gella sæta

Ps: Nappaði þessari mynd af síðunni hennar Rúnu Lindar frænku minnar. Vona að hún fyrirgefi mér þjófnaðinn. Myndin er tekin, að ég held, árið 2005, í afmæli Ólafar og Kristjóns Turoa.

þriðjudagur, 15. apríl 2008

Crimson & Clover - over and over

Svanur: Telur þú það líklegt að Hnakkamellur leggi sér kjötbollur til munns?

Hjalti: Ekki útilokað. Drekka venjulega diet-kók í gleri með.

Svanur: Ég drekk coke-light og coke-zero í gleri. Hvað segir það um mig.

Hjalti: Ég var alls ekki að meina að þú værir Hnakkamella.

Svanur: Ég er heldur ekki Hnakkamella.

Hjalti: Merkilegt, fyrir sirka viku skrifaði ég þér póst sem endaði á hugleiðingu um að heimsækja Gísla Styff Steiner, Reykjavíkurvegi 1.

Svanur: Þetta er oftast háð vilja. Held því miður að hann hafi viljað þetta þó hann segi annað. Undirliggjandi vandamál sem hann ræður ekki við.

Hjalti: Ég er óttalega lummó og gamaldags í kvöld. Sem ég skrifa þessi orð er ég að borða spagettí bolognese, drekka rauðvín og hlusta á Grieg.

Svanur: Það er bara ekkert að því.

Hjalti: Mig grunaði það.

Svanur: Þakka gott tilboð kæri vinur. En ég sótti kerruna í gær. En gleymdi ég kannski lyklakippu hjá þér?

Hjalti: Á borðinu: Malandi Sony Walkman D-EJ020 beintengdur við hlustirnar á mér (Arturo Benedetti Michelangeli glamrar Debussy á slaghörpuna), eyrnatappar, æpod, kort af Bologna, kort af Feneyjum, útprentaður flugmiði síðan einhvern tímann, tóm vatnsflaska, langt komið Nóasiríus-rjómasúkkulaði, penni, lyklar.

Svanur: Lyklakippa, er það ekki?

Hjalti: Hún er á vísum stað.

laugardagur, 12. apríl 2008

Minningar & músík VI

Laugardaginn 5. apríl, 2008 - Menningarblað/Lesbók Mbl.
Poppklassík: Eftir Svan Má Snorrason
sms@utopia.is

Algleymi án aukaverkana

Íslenska hljómsveitin Soma gaf út sína fyrstu og einu plötu árið 1997 og bar hún nafnið Föl. Nokkur lög af henni fengu spilun í útvarpi og þá sérstaklega Grandi Vogar 2 sem heyrðist ótt og títt sumarið þetta sama ár og var alveg þrælgott og grípandi. En það var miklu meira spunnið í þessa hljómsveit en þetta eina vinsæla lag.

Föl með hljómsveitinni Soma er verk sem undirituðum finnst hafa týnst eftir að það kom út fyrir ellefu árum sé mið tekið af þeirri músík sem heyrðist hvað mest á þessum tíma. Og kannski fannst verkið aldrei. Föl er meira en prýðileg áheyrnar og hefði átt skilið að fara víðar og heyrast meira en hún gerði. Fékk gripurinn til að mynda góða dóma í Morgunblaðinu hjá Árna Matthíassyni tónlistargúrú.

Nafn hljómsveitarinnar er fengið úr hinu útópíska skáldverki Aldous Huxley Veröld ný og góð (Brave New World) en þar er Soma heiti á algleymislyfi sem er dreift til almennings með samþykki yfirvalda. Hver tafla framkallar þægilegt algleymi án sérstakra aukaverkana – nema þeim að halda skoðunum og viðhorfum almennings niðri. Hvort það sé aukaverkun eða ekki verður hver að gera upp við sjálfan sig.

En aftur að hljómsveitinni Soma. Hana skipuðu Guðmundur Annas Árnason söngvari, Snorri Gunnarsson gítarleikari, Halldór Sölvi Hrafnsson gítarleikari, Þorlákur Lúðvíksson hljómboðsleikari, Kristinn Jón Arnarson bassaleikari og trommuleikarinn Jónas Vilhelmsson.

Tónlist Soma er á stundum nokkuð þunglyndisleg en án þess þó að vera niðurdrepandi. Það er stutt í rokkið og áttu þeir félagar auðvelt með að keyra upp alvöru rokk og fara þaðan niður í dökkbláan dapurleikann. Hygg ég að meðlimir hafi tekið sig og tónlist sína nokkuð alvarlega, enda kunnu þeir meira en vel til verka. Voru aldrei leiðinlegir eða tilgerðarlegir, metnaðurinn mjög mikill og þeir Somadrengir sýna á Föl að þeir gátu margt.

Þótt undiraldan sé þung er spilamennskan til fyrirmyndar. Söngurinn er mjög góður og ég er hissa, jafnvel svekktur að söngvarinn sé ekki þekktari en raun ber vitni. Guðmundur Annas er miklu betri söngvari en flestir þeir sem tröllriðu tónlistarsenunni árið 1997 og reyndar má segja að í heildina sé hann ekkert annað en fantagóður söngvari. Hann er með breitt raddsvið, er ófeiminn í tjáningu án þess að örli á stælum eða getuleysi földu í hljóðversgöldrum.

Það er líkt og hljómsveitin Soma hafi stokkið fram alsköpuð árið 1997 – algjörlega tilbúin í slaginn eins og glöggt má heyra á Föl. Í heildina eru lagasmíðar sterkar og fjölbreyttar, textarnir hins vegar misjafnir að gæðum og hefði hljómsveitin haft yfir að ráða góðum textahöfundi hefði Föl orðið frábært verk. Lög eins og Bram Stoker, titillagið og nokkur önnur geta ekki talist neitt annað en góðar tónsmíðar sem flestar hafa borið aldurinn vel. Útsetningar eru smekklegar og lausar við alla tilgerð.

Þeir sem myndu heyra tónlistina í dag og ekkert vita útgáfuár hennar myndu kannski segja að söngvarinn væri á vissum stöðum að herma eftir Magna Ásgeirssyni, söngvara Á móti sól. En þetta er nokkru áður en Magni slær í gegn og hins vegar ekki ólíklegt að Magni hafi hlustað á Soma og lært eitt og annað af Guðmundi Annasi.

Platan Föl með Soma er poppklassík þar sem finna má tónlist sem hefur staðist tímans tönn og hún er klárlega eitt af bestu byrjendaverkum íslenskrar rokkhljómsveitar.

miðvikudagur, 9. apríl 2008

kaffi er ekki ljúft - það er beiskt og góður djass er oft gallsúr - gallsúr mjólk er hins vegar viðbjóðsleg


Ég er ekki einn af þeim sem finnst gott að vakna á morgnana við rólega tónlist. Ég vil ekki heyra þægilega rödd á morgnana hljóma í útvarpinu. Oft finnst mér ekkert gott að vakna á morgnana. En ekki alltaf. Eftir kaffi, sem er nauðsynlegt, finnst mér betra að hlusta á gallsúran djass en einhverja ljúfa tóna. Að hlusta á ljúfa tóna í morgunsárið finnst mér svona álíka viturlegt og að ætla að koma sér í gang á morgnana með því að taka inn melatonin. Í morgun í bílnum hljómaði (eftir tvo sterka kaffibolla) Weather Report, diskur sem heitir The Jaco Years. Aaahhh, það var hressandi fyrir hálflamaðan heila minn. Kom gangverkinu (ekki hans Ólafs þó) í sæmilegt stand og ég gat afkastað einhverju í dag. En við erum öll svo ólík þegar á heildina er litið. Góðar stundir.

föstudagur, 4. apríl 2008

Háskólahöll


Wayne Shorter: Hvað eigum við að gera varðandi þetta lið sem er alltaf að reyna að fá okkur til Íslands?

Bob Dylan: Dissum þetta pakk bara. Iss, piss og pelariss.

Wayne Shorter: Ég er svo lélegur í svoleiðis. Ég er enginn Miles Davis.

Bob Dylan: Nei, það segirðu satt, þú ert sko enginn fjandans Miles Davis. Þú ert betri.

Wayne Shorter: Nei, er það ekki of mikið sagt, of vel í lagt?

Bob Dylan: Nei, þú ert algjör toppgæi.

Wayne Shorter: Þú líka.

Bob Dylan: Ekkert svona þú líka við mig. Búinn að fá nóg af svoleiðis í gegnum tíðina.

Wayne Shorter: Ætlaði bara að vera næs.

Bob Dylan: Næs, við mig? Bob Dylan! Það er enginn næs við Bob Dylan. Bob Dylan vill ekki að fólk sé næs við sig.

Wayne Shorter: Ég ætla til Íslands.

Bob Dylan: Má ég koma með?

Wayne Shorter: Auðvitað máttu það. Komdu kallinn.

þriðjudagur, 1. apríl 2008

Ársgömul síða

Það er um það bil ár síðan ég hóf skrif á þessa bloggsíðu. Ætla að halda áfram með þetta. Kemur og fer andinn. Þakka þeim sem nennt hafa að lesa efni síðunnar og skoða myndirnar kærlega fyrir. Bless í bili. Svanur

Ps: Svo verða allir að muna að hafa samband við mig á svanur@birtingur.is lumi þeir á frétt eða fréttum, nú eða þá góðu viðtalsefni, eða bara einhverjum spennandi, skemmtilegum og sérstökum uppákomum. Allar ábendingar eru vel þegnar. Þetta er eilíf barátta :)