Sumardagurinn fyrsti
Í dag er sumardagurinn fyrsti um land allt. En það er ekki komið sumar. Í það minnsta ekki hjá mér og ég held að mörgum mörlandanum finnist sumarið ekki vera komið þótt haldið sé uppá komu þess í dag.
Í dag er sumardagurinn fyrsti um land allt. En það er ekki komið sumar. Í það minnsta ekki hjá mér og ég held að mörgum mörlandanum finnist sumarið ekki vera komið þótt haldið sé uppá komu þess í dag.
Hvað mig sjálfan varðar þá er langt um liðið síðan ég merkti upphaf og endi árstíðanna; sumarið byrjar 1. júní og haustið tekur við af því þann 1. september. 1. nóvember er kominn vetur og svo er það vorið þann 1. apríl; einfalt mál. En þetta er bara mitt innbyggða almanak.
Þegar ég hugsa til baka um sumardaginn fyrsta þá er kuldi fyrsta minningin. Maður fór í skrúðgöngu, skjálfandi á beinunum, með eldrautt nef og horið niðrá höku; alveg krókloppinn og gat varla beðið eftir því að komast heim aftur, inn í hlýjuna. Fór heldur ekki í margar slíkar göngur í æsku; til þess var kuldaminningin fyrsta alltof sterk. Kannski er þetta eitthvað skárra í dag á tímum kuldagallana en þó er það eitthvað sem segir mér, án þess að ég ætli að fullyrða nokkuð, að fáir fari í skrúðgöngu á þessum degi. Flestir líta á þennan dag sem kærkomið frí frá vinnu en annars er þetta bara ósköp venjulegur dagur að vori.
En fyrst ég var á annað borð að minnast á kulda þá finnst mér við hæfi að segja frá því að eftir því sem ég verð eldri á ég æ auðveldara með að sætta mig við íslenska veturinn. Í æsku og langt framyfir hin misjöfnu unglingsár var mér í raun meinilla við veturinn. Fannst hann bæði of langur og kaldur og blótaði honum oft í sand og ösku. Gat ekki beðið eftir vorinu og hvað þá hinu langþráða en afar stutta sumri.
Í dag hef ég náð sáttum við veturinn en veit þó ekki af hverju. Kannski hefur hann mildast og náð betra jafnvægi - Vetur konungur. Kannski á þetta með mildina og jafnvægið frekar við mig. Nú eða okkur báða. Allavega er það þannig í dag að ég og Vetur konungur erum ekki lengur fjandmenn heldur göngum sáttir til móts við sumarið. Já nú er gaman, Vetur konungur og ég saman, göngum um bæinn hönd í hönd, um draumalönd, nú er gaman. Gleðilegt sumar!
Víkurfréttir, 20. apríl 2006
Engin ummæli:
Skrifa ummæli