þriðjudagur, 29. desember 2009

Tungumál


"Þeir sem eru góðir tungumálamenn hafa yfirleitt ekkert að segja."

(Stanislas Mihic, við afhjúpun minnismerkis um Dimitar Jankovic)

sunnudagur, 27. desember 2009

Pabbar


Biðin var löng og ströng. Bátarnir þó löngu hættir að liggja við kæjann, en then something went wrong for Fay Wray and King Kong, og ég fékk brjóstsviða en átti ekki Nexium.

Geta pabbar lesið bækur?

1987


Sá oft fyrir mér að ýmislegt myndi koma upp í hendurnar á mér, og oft eitthvað annað sem ég reiknaði ekki með að kæmi upp í hendurnar á mér.

Svo fékk ég rakspíra í jólagjöf árið 1987 og þá breyttist allt.

Verbúðardraumar


Þegar ég hugsa til baka sé ég alltaf eftir því að hafa aldrei verið á verbúð.

Við stýri sá ég


Ekki vildi ég hafa staðið í þessum fótsporum; að bíða í draumi eftir strætó sem alltaf sást koma en skilaði sér aldrei við stoppistöðina.

Vildi miklu fremur hafa verið við stýrið á strætónum.

Fann mig aldrei í myndlist vegna skorts á hæfileikum.

laugardagur, 26. desember 2009

Útópía


Þegar ég gekk út úr tandurhreinu eldhúsinu fékk ég það á tilfinninguna að ég hefði misst af þætti um útópískar bókmenntir.

Næst þegar ég skyldi þrífa eldhúsið ætlaði ég ekki að missa af þeim þætti.

Það er alveg á hreinu.

Á botninn hvolft


Þegar ekkert annað var eftir, sá ég mér ekki annað fært en að festa upp hilluna og mála stigaganginn.

Það var einhvernveginn við hæfi þá stundina, frekar en að setja í þvottavél, en það er þó öllu skemmtilegra og meira gefandi .

Það er ekki á allt kosið.

sunnudagur, 20. desember 2009

Á móti samkynhneigðum


Hvernig er hægt að vera á móti samkynhneigðu fólki? Það er bara eins og að vera á móti fólki sem er með stórt nef, eða stór eyru. Nú eða fólki sem er með skollitað hár. Hverjum finnst mannvonska skemmtileg? Hver hefur áhuga á mannvonsku? Af hverju er sumt fólk að hugsa mikið um kynhneigð annars fólks? Ekki geri ég það. Ég styð réttindabaráttu samkynhneigðra, heilshugar. Finnst hræðilegt að hlusta á fólk tala illa um samkynhneigða, en vorkenni því um leið. Held reyndar að þeir sem tala hvað mest um samkynhneigða, og hvað verst, hafi eitthvað að fela, og séu líklega samkynhneigðir eða tvíkynhneigðir, en geti ekki gengist við því. Sumir fela sig á bakvið biblíuna, aðrir á bakvið eitthvað annað, en það hlýtur að vera óþægilegt að lifa í felum. Forstöðumaður trúarsafnaðar í Reykjavík sagði við mig að það væri í raun allt í lagi að vera samkynhneigður á meðan viðkomandi myndi bæla niður hvatir sínar.

fimmtudagur, 10. desember 2009

sunnudagur, 6. desember 2009

Þórhallur darling


RE: Séð og Heyrt og Kastljós kvöldsins
Svanur Már Snorrason
Sent:
Thursday, November 26, 2009 10:57 PM
To:Þórhallur Gunnarsson ‎[thorhallur.gunnarsson@ruv.is]‎
Categories:

Þakka þér fyrir heiðarlegt svar, Þórhallur. Það geta öllum orðið á mistök.

Kær kveðja, Svanur

________________________________________
From: Þórhallur Gunnarsson [thorhallur.gunnarsson@ruv.is]
Sent: Thursday, November 26, 2009 10:47 PM
To: Svanur Már Snorrason
Subject: SV: Séð og Heyrt og Kastljós kvöldsins

Sæll Svanur og þakka þér fyrir póstinn.

Það eru mikil mistök af okkar hálfu að geta ekki heimilda enda var þetta ykkar skúbb!
Ég biðst innilegrar afsökunar.

Með kveðju,
Þórhallur
________________________________
Frá: Svanur Már Snorrason [svanur@BIRTINGUR.IS]
Sent: 26. nóvember 2009 22:39
Viðtakandi: Þórhallur Gunnarsson
Efni: Séð og Heyrt og Kastljós kvöldsins

Sæll vertu Þórhallur. Spyr þig eftir að hafa horft á frétt í Kastljósinu um Fíladelfíu og Friðrik Ómar í kvöld: Hefði ekki verið eðlilegt að geta heimilda, nefna að Séð og Heyrt er með þetta mál sem stærsta efni á forsíðu nýjasta blaðsins sem einmitt kom í verslanir í morgun?

Með kveðju,

Svanur Már Snorrason, blaðamaður Séð og Heyrt

mánudagur, 23. nóvember 2009

Mynd af húsi


Og ég kafa ofan í sandinn og renn á lyktina. Þessa lykt af flaueli sem grafið hefur verið ofan í risastóran sandkassa og það er hvergi köttur nálægt. Það breytir öllu og færir mig nær takmarki mínu, sem er að eignast nægilegt flauel til að sauma buxur úr því á sjálfan mig.

Kalt úti


En lítið hægt að væla yfir því. Skilar engu. Breytist ekkert við það. Nema að þá ertu búinn að henda út úr þér einhverjum tilgangslausum setningum, sem er kannski ágætt. Gott að losna við þær. En það er samt kalt úti.

fimmtudagur, 12. nóvember 2009

EIRÍKUR JÓNSSON ER SKÁLD



Samtal við Matthías Johannessen (79):

Matthías er frægur fyrir samtalsbækur sínar. Út er komin bókin Samtöl Matthíasar Johannessen og sá Þröstur Helgason um að velja samtöl og skrifa inngang. Séð og Heyrt átti samtal við Matthías.

MATTI/EIR (Myndatexti):

Hún var hugguleg og kurteis stúlkan sem kom að mynda; ég hleyp nú undan myndum yfirleitt en hún var svo geðfelld að ég varpaði bara akkerum. Matthías um Rakel Ósk ljósmyndara.

Blaðamaður: Það var að koma út bók eftir þig.

Matthías: Þetta eru samtöl eftir mig sem Þröstur Helgason hefur safnað saman. Einnig var ég að gefa út ljóðabók sem ég hef verið að vinna að undanfarin ár, Vegur minn til þín.

Það er vont að vera settur á lífeyri á besta aldri, en það eru forréttindi fyrir rithöfunda, því þeirra starfsvettvangur er heima. Blaðamennska hefur verið mitt starf en það hefur verið mín gleði og lúxus að skrifa minn skáldskap. Ég held áfram að skrifa bækur og yrkja ljóð þegar þau koma í heimsókn. Það er að segja, ég lofa þessum fuglum að fljúga inn um gluggann þegar þeir eru búnir að syngja í trjánum í garðinum. Þá opna ég.

Blaðamaður: Ég tók eftir klæðaburði þínum.

Matthías: Lopapeysan og sixpensarinn. Ég reikna með því að þetta sé nýjasta tíska. Ef þetta er ekki nýjasta tíska þá verður hún það þegar ég er búinn að vera í þessu. Mér líður vel svona klæddur, þá er ég frjáls og get stigið ölduna eins og mér sýnist.

Talandi um lopapeysu. Þú veist að íslenska þjóðin hefur lifað af vegna þess að rollan hefur skaffað henni allt sem hún þarf, og svo þegar við héldum að við værum orðnir útlendingar og gleymdum torfkofanum þá hrundi hann yfir okkur. Er Eiríkur Jónsson, vinur minn, þarna?

Blaðamaður: Hann er að borða.

Matthías: Ég bið að heilsa honum. Það fer alltaf vel á með okkur Eiríki af því að ég er líklega einn af örfáum mönnum sem hef skynjað skáldskapinn í honum. Ég held að hann sé á rangri hillu meðan hann er ekki að skrifa skáldskap. Hann á að skrifa skáldskap.

TEXTI: SVANUR MÁR SNORRASON
MYNDIR: RAKEL ÓSK/ÚR SAFNI

laugardagur, 7. nóvember 2009

Séð og Heyrt Móment 10


ALLT EÐA EKKERT

„Ég vil allt eða ekkert."

Samband þeirra hafði gengið vel fram að þessari setningu hennar og hann gat ekki annað en hugsað með sér út í hvaða vitleysu hann væri kominn, eina ferðina enn. En svo rann það upp fyrir honum að flestar konur sem hann hafði kynnst koma með þessa setningu þegar aðeins er liðið á nýtt samband.

„Svona bull er konum eðlislægt, þetta er prófraun á styrk og vald. Þetta allt eða ekkert er bara kjaftæði. Öskraðu þetta út í óhamda náttúruna og hún gefur þér sama svar og ég: Lífið er fullt af öllu og engu en ef þú heldur að þú getir bara valið annað hvort áttu mikið ólært um lífið ... og mig."

Hún horfði á hann og í svip hennar var sambland af reiði, vonbrigðum og skilningsleysi. „Heldurðu að allar konur séu eins og þú eitthvað fullkominn með svar við öllu?"

Reiðin í spurningunni knúði hann til að særa: „Nei, þetta er bara þú. Það er allt í lagi með hinar."

Hún brást í grát, öskraði móðursýkislega: „Þú ert harðbrjósta og kaldur. Laus við rómantík og nú laus við mig."

Hann hugsaði með sér að nú yrði hann að leysa málið.
„Rómantík er eins og bleika og flotta kakan í veislunni; lítur vel út og allir fá sér sneið, en enginn tekur meira en einn bita. Sættu þig við að lífið er staðreynd og fólk lygið og vont. Í þeim sannleika finnurðu hamingjuna."

Hún þerraði tárin, starði opinmynnt á hann og sagði einfaldlega: „Ég elska þig."

Séð og Heyrt (44. tbl. 2009)

þriðjudagur, 29. september 2009

Séð og Heyrt Móment 8


SAGA ÚR SAMBANDI!

„Þú ert ekki neitt ef þú hugsar bara um sjálfan þig.“

Honum rann kalt vatn milli skinns og hörunds við þessi orð. Hún vissi hvernig best væri að komast að honum – hafði á honum tak, en nýtti það sjaldan. Það fannst honum best.

„Ég veit, ég veit,“ sagði hann um leið og hann reimaði á sig skóna. Var á leið út í sjoppu að kaupa sígarettur, Camel, filterslausar.

„Er til gos?,“ spurði hún en beið ekki eftir svari: „Kauptu líka nóakropp, lakkrísrör, og bland í poka – hlaup og salt, ekki brjóstsykur.“

„Eitthvað fleira sem frúin vill?“ spurði hann og hæðnistónninn leyndi sér ekki í röddinni.

„Heilsu, hamingju og nýtt líf,“ svaraði hún að bragði, beiskjan og grimmdin ekki langt undan.

„Get ekki boðið svo vel,“ hreytti hann út úr sér og til að bæta á þunga andrúmsloftsins kveikti hann sér í síðustu sígarettunni og gekk þungum skrefum inn í stofuna á skítugum strigaskónum og spurði: „Ertu með pening?“

Það fauk í hana, hann vissi hvernig ætti að pirra hana; hún reyndi að láta það ekki sjást, lítið fyrir að bera tilfinningar sínar á torg og enn minna fyrir að láta koma sér úr jafnvægi. Lét nægja að horfa á hann með ísköldu augnaráði og sagði: „Nei, þú eyddir öllu sem ég átti í hóruna þarna í vinnunni, eða varstu búinn að gleyma því?“

Svellkaldur blés hann reyknum í átt að henni og nuddaði skítugum skónum í teppið og svaraði: „Nei, en þú veist að þú ert ekki neitt ef þú hugsar bara um sjálfa þig.“

Séð og Heyrt (38. tbl. - 2009)


föstudagur, 18. september 2009

fimmtudagur, 17. september 2009

miðvikudagur, 2. september 2009

Séð og Heyrt Móment 7


ÖSKRUM OKKUR Á EM!

Veit hvernig karlalandslið Íslands kemst á EM og HM í fótbolta. Stelpurnar eru komnar á EM og því skömm fyrir strákana að búa við það.

Hef reynslu í þessum efnum; verið leikmaður, þjálfari, dómari, línuvörður og íþróttafréttamaður; allt með glans.

Málið er einfalt - burt með flækjur og gerum okkur grein fyrir því að við getum ekkert í fótbolta.
Það þýðir ekkert að reyna að spila flottan fótbolta. Eigum að vera fyrirsjáanlegir. Nota leikkerfið 9-1. Allir í vörn nema einn; fara óhræddir í tæklingar og gefa ekkert eftir. Horfa hýru auga til skyndisókna. Munum fá eitt og eitt færi.

Síðan eigum við að öskra hvor á annan og andstæðinginn - allan tímann - líka fyrir og eftir leiki; berjast eins og annað Tyrkjarán væri í uppsiglingu.
Þjálfarinn á líka að öskra allan tímann og hann á alls ekki að vera fínt klæddur eða kurteis. Og hann verður að vera órakaður.
Til að þetta gangi þurfum við að hætta að spila á Laugardalsvelli en þar er stemningin svipuð og í líkhúsi, jafnvel þótt uppselt sé. Kaplakrikinn er málið - völlur með mikilli nálægð áhorfenda.
Við eigum þrjá þjálfara sem uppfylla þessi skilyrði - Ólaf Þórðarson, Willum Þór Þórsson og Þorvald Örlygsson. Fúllyndir menn sem þola ekki gagnrýni og kunna að spila úr aðstæðum.

Ólafur hefur kennt Fylkismönnum að berjast, Þorvaldur gert Fram að þokkalegu liði og Willum kom Haukum upp um tvær deildir á tveimur árum!
Þessir menn geta allt í fótbolta, þótt þeir hafi í raun aldrei getað neitt. Nema að átta sig á aðstæðum og gera sér grein fyrir eigin takmörkunum. Og það er málið.
Séð og Heyrt (35. tbl. - 2009)

mánudagur, 10. ágúst 2009

Viðtal við skáld/listamann 2


"Hvar eigum við að byrja," spyr ég frekar feimnislega. En bæti strax við áður en skáldið nær að svara. "Eigum við að tala um Túnþökur kjallarans? Þitt fyrsta útgefna verk, eða leitar hugur annað?"
"Alveg eins gott að byrja þar, einhversstaðar verðum við að byrja, en ég tala nú yfirleitt ekki mikið um það verk - finnst það bæði ófullkomið og yndislegt, viðkvæmt en þó þar svo margt að finna; þarna byrjaði ég - með úkomu bókarinnar gat ég kallað sjálfan mig rithöfund, og það var mér mikilvægt. En bókin er skrifuð á skömmum tíma, ég datt í stuð, svo ég noti nú ungæðislegt tungutak. Skrifin tóku ekki nema sex daga. Hvíldi mig þann sjöunda, og á þeim áttunda hringdi ég í vin minn sem var að vinna hjá bókaforlagi og hafði lengi hvatt mig til skrifta. Bað hann að líta við um kvöldið, ég skyldi gefa honum í glas, gegn því að hann liti á smotterí sem ég hafði sett niður á blað!" Þarna skellir skáldið upp úr, teygir sig svo í viskíflöskuna og fyllir glös okkar beggja, sem nokkrum andartökum áður höfðu tæmst.

Viðtal við skáld/listamann 1


Hann er skáld, listamaður. Þið þekkið hann. Nafnið, andlitið, verkin. Sjáið myndirnar, lesið myndatextann. Hegbart Ólíver var hann skírður, kallar sig Hólí. "Kallaðu mig bara það sem þú vilt í þessu viðtali, ég sker á hégómann," segir hann sinni fallegu, mjúku og skáldlegu röddu, og um leið er eins og öllum höftum sé aflétt og ég get rólegur sest niður í djúpbláan leðursófann. Og þigg með þökkum glas af viskí, Jameson.
"Viltu ekki bara byrja?"

sunnudagur, 9. ágúst 2009

Samtal. Er Beggi heima?


Síminn hringir. Ég (eða einhver annar, sá ræður sem setur þetta upp) er á öðrum enda línunnar. Það er svarað á hinum enda línunnar.

"Halló."

"Halló," segi ég og spyr kurteisislega hver þetta sé. "Þetta er Pacas."

"Sæll Pacas," segi ég kurteisislega og bæti við: "Er ég að trufla þig?"

"Nei, nei," segir lífsglöð rödd þessa litríka Brasilíumanns sem fann ástina hér á landi. En hann spyr: "Hver ert þú?"

Mér er nokkuð brugðið - átti ekki von á þessari spurningu, en svo átta ég mig á því mér til mikillar skelfingar að ég gleymdi að kynna mig með nafni.

Pacas, þessi kurteisi maður, átti það ekki skilið, hvorki frá mér, sem manneskju og blaðamanni, né nokkrum öðrum. Hann á allt gott skilið.

En samt sagði ég bara eina setningu í viðbót í okkar samtali, og ég veit ekki af hverju ég var svona grimmur - ég bara fraus og sagði: "Er Beggi heima?"

Lifandi flutningur


Það er svo margt í þessum orðum.

Hvað er blaðamennska?


Svar óskast ekki.

þriðjudagur, 4. ágúst 2009

Hélt alltaf með Karpov




gegn Kasparov. En tel þó án nokkurs vafa að Bobby Fischer og Garry Kasparov séu bestu skákmenn sögunnar. Anatoly Karpov þar skammt undan. En hvað veit ég. Þarna er í það minnsta Fischer grafinn

laugardagur, 1. ágúst 2009

Don´t worry beibí (lag)


Fáránleikinn - lögbann - bankaleynd - og þetta er ekkert djók - það er það versta - hvað er til ráða? Við verðum að gera aðra byltingu, fljótlega. Undirbúningur fer væntanlega að hefjast. Hvað er að þessu liði í bönkunum, hvað er að þessu fjármálasukksliði, í alvöru, hvað er að því? Það hlýtur að vera með einhvern sjúkdóm, hættulegri en siðleysi og græðgi. Almenningur læknar þetta, stjórnvöld geta það ekki. Byltingin verður fljótlega. Verður mun harðari en Búsáhaldabyltingin...

föstudagur, 24. júlí 2009

Séð og Heyrt Móment 5


AF ÞVÍ AÐ ÞÚ VILT ÞAÐ

„Calm down, Miss San Francisco," sagði djúpraddaði maðurinn og teygði sig í pilluglasið.
Var lengi að bjástra við lokið, blótaði nokkuð og svitadroparnir á enninu runnu niður andlitið. Að lokum tókst honum að opna glasið. Renndi niður tveimur pillum með viskíi, Jameson.

„Þetta er allt að koma," sagði hann við stúlkuna sem bar með sér yfirbragð vonleysis.

En það var samt von að finna í rödd hennar, og líf. „Þú ert bara lygari, dópisti og aumingi, líka helvítis fyllibytta. Nenni ekki að hanga með þér lengur, ég veit ekki hvað ég hef verið að hugsa, hvað ég er að hugsa."

Hún stóð upp, ræskti sig og hrækti svo á djúpraddaða manninn, sem sýndi engin viðbrögð. Beið bara eftir að pillurnar næðu fullri virkun. Þá ætlaði hann að gera eitthvað.

Ískaldur sagði hann þó lágri röddu: „Þú getur ekkert. Ekki án mín. Þú ert ekkert án mín. Ég held þér uppi því þú nennir ekki að vinna og þú nennir ekki að vinna af því að ég held þér uppi."

Stúlkan, sem í þessum töluðum orðum var á leið út af hótelherbergi þeirra, staldraði við.

„Af hverju þarftu að segja svona? Af hverju ertu svona vondur við mig? Hvað hef ég gert þér?"

Djúpraddaði maðurinn leit í átt til hennar, óræður á svip, og sagði: „Af því að þú vilt það."

Stúlkan lokaði hurðinni. Dró andann djúpt og gekk svo að djúpraddaða manninum og sagði lágum rómi: „Fyrirgefðu."

Séð og Heyrt (26. tbl. - 2009)

föstudagur, 17. júlí 2009

Gullkorn Vals Áka 2

"Mig dreymdi að það væri rjómakanína. Svo breyttist hún aftur í venjulegan strák. Svo breyttist hún aftur í rjómakanínu. Hún var í blárri peysu."

(Höf. Valur Áki Svansson, 26.2. 2008)
Ps: Með Val Áka á myndinni er Sísí frænka

Sjálfsmynd I/Texti

Taka mynd af rúðu. Taka mynd af sjálfum sér um leið. Lít betur út en venjulega á myndum á þessari mynd. Ánægður með þessa mynd - sjálfsmynd. Tók mynd af ferðalaginu og sjálfum mér að taka mynd af ferðalaginu. Allt með einum litlum smelli. Rammaði inn.

mánudagur, 6. júlí 2009

Klipping


"Búinn að fara í frí?" Klipparinn spurði. Ég svaraði. "Þetta er fyrsti dagurinn. Tek núna tvær vikur, sé svo til hvenær ég tek rest."

"Ég keyrði á Höfn um síðustu helgi," sagði hann.

"Er það ekki svipað langt að fara og til Akureyrar," spurði ég um leið og slatti af hárinu fauk af.

"Jú, þetta er svipuð keyrsla. En landslagið er mjög ólíkt."

Lána Mána

Tunglið hóaði í mig þegar ég var rétt við það að sofna. Bað mig um að lána sér brauðhleif og nokkra bjóra. Það sagði að það þyrfti í raun ekkert annað, en því væri reyndar illa við að fá lánað, en nú væru blankheitin algjör. Ég sagði að það væri ekkert mál, ég ætti bæði brauðhleif og nokkra bjóra. Og svo sagði ég tunglinu að þetta væri gjöf frá mér, því við yrðum öll stundum blönk.
(Mynd: Ásdís Erla)

sunnudagur, 5. júlí 2009

Horfið til mín

Í fjörunni hlupu þau og ærsluðust en gáfu sér líka tíma til að líta til ljósmyndarans sem elskar þau út af lífinu.

Í borginni Dómínó


Þarna var spilaður góður djass, loftið skemmtilega lævi blandið og fólkið athyglisvert. Svo margir með augun í einhverju furðulegu ástandi, eða útliti. Sljótt en samt gat augnaráðið stungið.
Mikið um litalinsur og greinilegt að fólki hafði ekki verið sagt frá því að slæmt sé að hafa þær í dögum eða vikum saman. Augun verða eitthvað svo þrútin og flott - furðuleg. Og er það ekki bara allt í lagi, allavega ef mið er tekið af verðhækkunum?

Teygði

Þegar ég teygði mig í plastpokann tók ég eftir rykinu í horninu og mundi þá eftir að ryksugupokinn var fullur.

Poppið var ekki gott


Fór í bíó.

laugardagur, 27. júní 2009

Séð og Heyrt Móment 4


GULL OG METORÐ GAGNA EKKI,

GANGIR ÞÚ MEÐ SÁLARHLEKKI

Hlustaði nýlega á hið fallega lag Bergþóru Árnadóttur, Lífsbókin, en þar er textabrotið í fyrirsögn að finna. Texti lagsins er eftir Laufeyju Jakobsdóttur, oftlega kennd við Grjótaþorpið.

Fannst lagið passa við umræðuna í íslensku samfélagi í dag, um fyrirgefninguna.

Biskup biður nokkrar konur að fyrirgefa fyrrum biskup misgjörðir sínar sem áttu sér stað fyrir meira en áratug.

Þjóðin vill að útrásarvíkingarnir biðjist fyrirgefningar á nýlegum gjörðum sínum sem hafa komið samfélaginu á heljarþröm.

Það reynist mörgum erfitt að biðjast fyrirgefningar. Og sumum reynist enn erfiðar að fyrirgefa.
Samt er hvoru tveggja lausn. Það losnar um sálarhlekki fyrir tilstuðlan fyrirgefningarinnar.

En það er ekki hægt að kaupa fyrirgefningu og þú heldur ekki endalaust niðri tilfinningum fólks í nafni kristinnar trúar.

Þetta vita útrásarvíkingarnir og þetta veit biskupinn. Mætavel.
Samt halda þeir áfram að stanga vegginn.

Í dag eru uppgjörstímar. Uppgjör kalla á fyrirgefningu eða stríð. Of oft hefur stríðið orðið fyrir valinu. Það sannar sagan. En vonin lifir. Og biðjist kirkjunnar menn afsökunar og gera upp mál fyrrum biskups, og biðjist útrásarvíkingarnir opinberlega afsökunar og skila ránsfengnum, mun þeim líða betur. Ég segi það satt.

Lýk pistlinum á sömu slóðum og hann hófst. Í lífsbókinni:

Ljúktu nú upp lífsbókinni, lokaðu ekki sálina inni. Leyfðu henni í ljóði og myndum, leika ofar hæstu tindum. Svipta burtu svikahulu, syngja aftur gamla þulu. Líta bæði ljós og skugga, langa til að bæta og hugga.


Séð og Heyrt (22. tbl. - 2009)

mánudagur, 1. júní 2009

Séð og Heyrt Móment 3


Með typpi um hálsinn


Ég vil ekki vera með typpi um hálsinn.

Ekki hrifinn af því að vera með bindi. Finnst þá að mér þrengt – líður illa. Hef því afar sjaldan sett upp bindi. Kann ekki að binda hnút - ætla ekki að læra það.

Þá finnst mér ekkert flott við það að vera með bindi; eitthvað sem hangir framan á þér sem búið er að herða um hálsinn. Gerir að mínu mati lítið fyrir flott jakkaföt og skyrtu – skemmir stílinn og þrengir að öndunarfærunum.

Það er ekki nóg að mér finnist að mér þrengt með bindi um hálsinn heldur líður mér á einhvern óútskýranlegan hátt eins og ég sé þá með typpi um hálsinn.

Finnst því undarlegt þegar til þess er ætlast, jafnvel krafist, að menn séu með bindi við ákveðin tækifæri – það sé hátíðlegt og beri vott um virðingu fyrir tilefninu, tækifærinu.

Hvernig getur það verið virðingarvottur að hnýta bindi um hálsinn á sér? Eða slaufu? Sem er nú efni í aðra grein. En það er reyndar allt í lagi að skylda alþingismenn að hafa typpi, ég meina bindi, um hálsinn, svona til aðgreiningar.

Þessi tilfinning að vera með typpi um hálsinn er ekki þægileg, þótt ég sé ekki á neinn hátt að gera lítið úr fólki sem vill hafa typpi um hálsinn. Vil ekki þessi tilfinningu aftur, ætla ekki að finna hana aftur.

Og þá vitið þið það: Ég vil ekki vera með typpi um hálsinn.


Séð og Heyrt (18. tbl. - 2009, 7. - 13. maí)

þriðjudagur, 12. maí 2009

Séð og Heyrt Móment 2


Fegurðardrottningin sem fitnaði


Einu sinni var lítil stúlka sem dreymdi um að verða fegurðardrottning. Draumur hennar rættist næstum því. Tvítug tók hún þátt í fegurðarsamkeppni þjóðarinnar. Var valin sokkabuxnastúlkan og var býsna sátt.

Fegurðarkeppendurnir héldu hópinn og hittust einu sinni á ári. Þar var glatt á hjalla og fegurðin blómstraði; alveg æðislegt.

En svo dundi ógæfan yfir hjá litlu stúlkunni sem dreymdi um að verða fegurðardrottning – hún fór að fitna. Réð ekki neitt við neitt og þegar hún mætti í hinn árlega fagnað, fimm kílóum þyngri en árinu áður, uppskar hún augnagotahýðingu og kuldinn í samræðunum var á við færeyska frystikistu.

Henni leið illa en skildi þá hvað lífið gengur út á; ytra útlit og yfirborðskennda framkomu sem virðist vera sjálfstraust, háa hæla og sundbol. Áttaði sig á þeim sannindum að það er ekki nóg að vera góð manneskja.

Hún lagði því mikið á sig til að ná af sér kílóunum fimm, og meira til. Ætlaði ekki að lenda í slíkri uppákomu aftur, að verða niðurlægð af bestu vinkonum sínum – enda vissi hún vel að allt þetta var henni sjálfri að kenna – að fitna er jú ein af höfuðsyndunum sjö. Eða voru þær átta?

Með strangri megrun og líkamsrækt fór allt að ganga upp, og niður. Hún var aftur meðtekin sem fullgild fyrrum fegurðardrottning – enda hafði hún iðrast og gert yfirbót.

Það er hægt að læra af þessari sögu. Draumar rætast, iðrun færir frið, sannir vinir eru gulls ígildi og fegurð lífsins er mikil. Ef þú fitnar ekki.


Séð og Heyrt (14. tbl. - 2009, 9. - 15. apríl)