mánudagur, 30. apríl 2007

Minningar & músík III

Laugardaginn 22. október, 2005 - Menningarblað/Lesbók


Ískrossinn sjaldséði
Poppklassík Eftir Svan Má Snorrason sms@utopia.is


Fyrir mörgum árum, þegar ég var ungur drengur með mikla tónlistardellu (sem er ekkert í rénum), fékk ég að hirða nokkrar gamlar íslenskar plötur sem henda átti. Geisladiskarnir voru þá komnir langt með að útrýma hljómplötunum þótt það hafi sem betur fer aldrei alveg gerst. Tvær af þessum plötum vöktu mestan áhuga minn, Speglun með hljómsveitinni Eik og svo platan Icecross, samnefnd hljómsveitinni. Umslögin á þessum plötum fannst mér ferlega flott og þá sérstaklega Icecross og dæmi nú hver fyrir sig á myndinni af plötuumslaginu við þessa grein.

En skoðum aðeins uppruna og endi Icecross en um hljómsveitina segir í bókinni Rokksaga Íslands eftir Gest Guðmundsson sem kom út árið 1990:

"Þessi fyrri útgáfa [hljómsveitarinnar] Rifsberja leystist upp um áramótin 1971 til 1972 þegar þeir Axel Einarsson úr Tilveru og Ómar Óskarsson úr Pops tældu Ásgeir Óskarsson til að stofna með sér hljómsveitina Icecross. Icecross spilaði einungis frumsamda tónlist þeirra Axels og Ómars og var umvafin drungalegri dulspeki, en engu að síður eftirsótt á dansleikjum. Metnaður þeirra þremenninga var mikill og þeir héldu til Danmerkur í leit að heimsfrægð. Þeir fengu að vísu að spila á hinum virta stað Revolution en það varð bið á heimsfrægðinni og á meðan höfðu þeir vart í sig og á. Við þetta mótlæti leystist hópurinn upp, en náði þó áður að hljóðrita stóra plötu samnefnda hljómsveitinni og er hún athyglisverður vitnisburður um þá þyngslalegu blindgötu sem framsækin tónlist var að hafna í um þær mundir." (133-4).

Þessi eina plata Icecross hefur fengið á sig goðsagnakenndan blæ þótt fæstir hafi heyrt mikið af sjálfri tónlistinni. Staðreyndin er sú að fá eintök komust í umferð og hefur platan lengi verið ófáanleg og plötusafnarar sitja um upprunalegt eintak og fæst víst ágætt verð fyrir.

Það er hins vegar gaman að hlusta á þessa plötu og heyra hvað menn voru að pæla á þessum tíma. Hljómsveitir eins og Icecross, Eik og Náttúra voru í þungum pælingum og á stundum sýrukenndum og hér er ekki á ferð eitthvert íslenskt sveitaballaléttmeti. Drungi er einkennandi fyrir plötu Icecross og umslagið eitt og sér gefur það greinilega til kynna. Nafn sumra laga á plötunni gefa einnig til kynna drunga og myrkur, nöfn eins og Scared, Nightmare og A Sad Mans Story. Textarnir eru torræðir en alveg þess virði að fara í gegnum.

Hljóðfæraleikurinn er pottþéttur og það var gott að þessi plata leit dagsins ljós en á þessum tíma var það ekki einfalt mál fyrir hljómsveitir, hversu góðar sem þær voru, að fá og ná að taka upp plötu, eins og raunin er í dag. Það kostaði óhemjupening ef vel átti að vera enda þurfti að fara til útlanda og ég held að flestir ungir tónlistarmenn í dag átti sig ekki á því hvað þeir hafa það gott miðað við þessa karla í gamla daga sem lögðu allt sitt í þetta og sultu jafnvel heilu hungri í útlöndum við upptökur sem síðan skiluðu litlu í kassann. En sem betur fer þraukuðu nokkrir og þar á meðal liðsmenn Icecross og þeirra eina plata er góður minnisvarði um þunga íslenska rokktónlist í byrjun áttunda áratugarins.

laugardagur, 28. apríl 2007

Pælingar 5


Sumardagurinn fyrsti

Í dag er sumardagurinn fyrsti um land allt. En það er ekki komið sumar. Í það minnsta ekki hjá mér og ég held að mörgum mörlandanum finnist sumarið ekki vera komið þótt haldið sé uppá komu þess í dag.


Hvað mig sjálfan varðar þá er langt um liðið síðan ég merkti upphaf og endi árstíðanna; sumarið byrjar 1. júní og haustið tekur við af því þann 1. september. 1. nóvember er kominn vetur og svo er það vorið þann 1. apríl; einfalt mál. En þetta er bara mitt innbyggða almanak.

Þegar ég hugsa til baka um sumardaginn fyrsta þá er kuldi fyrsta minningin. Maður fór í skrúðgöngu, skjálfandi á beinunum, með eldrautt nef og horið niðrá höku; alveg krókloppinn og gat varla beðið eftir því að komast heim aftur, inn í hlýjuna. Fór heldur ekki í margar slíkar göngur í æsku; til þess var kuldaminningin fyrsta alltof sterk. Kannski er þetta eitthvað skárra í dag á tímum kuldagallana en þó er það eitthvað sem segir mér, án þess að ég ætli að fullyrða nokkuð, að fáir fari í skrúðgöngu á þessum degi. Flestir líta á þennan dag sem kærkomið frí frá vinnu en annars er þetta bara ósköp venjulegur dagur að vori.

En fyrst ég var á annað borð að minnast á kulda þá finnst mér við hæfi að segja frá því að eftir því sem ég verð eldri á ég æ auðveldara með að sætta mig við íslenska veturinn. Í æsku og langt framyfir hin misjöfnu unglingsár var mér í raun meinilla við veturinn. Fannst hann bæði of langur og kaldur og blótaði honum oft í sand og ösku. Gat ekki beðið eftir vorinu og hvað þá hinu langþráða en afar stutta sumri.


Í dag hef ég náð sáttum við veturinn en veit þó ekki af hverju. Kannski hefur hann mildast og náð betra jafnvægi - Vetur konungur. Kannski á þetta með mildina og jafnvægið frekar við mig. Nú eða okkur báða. Allavega er það þannig í dag að ég og Vetur konungur erum ekki lengur fjandmenn heldur göngum sáttir til móts við sumarið. Já nú er gaman, Vetur konungur og ég saman, göngum um bæinn hönd í hönd, um draumalönd, nú er gaman. Gleðilegt sumar!


Víkurfréttir, 20. apríl 2006

Valur Áki (sem bar á góma í síðustu færslu) biður að heilsa ykkur öllum


föstudagur, 27. apríl 2007

Pælingar 4

Tónlist er frábært fóður

Tónlist er í mínum huga eitt það besta sem frá mönnunum hefur komið. Ég gæti illa án tónlistar verið og hef grun um að á mig myndu sækja hinir ýmsu kvillar ef raunin yrði sú. Þrátt fyrir gríðarlegan tónlistaráhuga minn eru hæfileikarnir engir. Ég held svo sem lagi en kann ekki að semja tónlist og hef ekki getað lært svo mikið sem eitt helvítis gítargrip.

Samt sem áður hefur tónlist alltaf skipað stóran sess í lífi mínu og ófáar góðar stundirnar átti ég í æsku, einn heima með græjurnar í botni, hlustandi á góða plötu með David Bowie eða Bítlunum, nágrönnunum til mikils ama. En hvað með það? Fólkið fékk í það minnsta að heyra góða tónlist!

Tónlist hefur mikil áhrif á mig og fer létt með að gjörbreyta skapinu á einu andartaki. Sálin getur verið súr, líkaminn lygilega latur og trúin á gangverkinu lítil. Síðan heyrist lag sem manni líkar og allt í einu er sem ekkert sé ómögulegt. Oft hefur það gerst að maður hefur breyst úr blúsuðum og hundleiðilegum Hafnarfjarðardurgi í eldfimt partýdýr – bara við það að heyra gott lag.

Tónlist er Guðs gjöf og fyrir hana eigum við að vera þakklát og njóta hennar í botn hvar og hvenær sem. Hún er frábært fóður fyrir sálina.

Tónlist á ekki að flokka í æðri og lægri tónlist; hún er hafin yfir skilgreiningar sérfræðinga því hún hefur mismunandi áhrif á hvern og einn.

Ég læt fylgja með eina sögu af syni mínum, Val Áka, sem er rúmlega 2ja ára. Eitt sinn sat ég fyrir framan tölvuna og hlustaði á hina frábæru íslensku (hafnfirsku!) hljómsveit Mínus. Valur Áki var þá nokkurra mánaða gamall og var í fangi mínu sofandi. Hlustað var á tvær fyrstu plötur Mínus, Hey Johnny og Jesus Christ Bobby, MJÖG harða rokktónlist. Um leið og ég hætti að hlusta vaknaði guttinn og hágrét. Þá prófaði ég að setja Mínus aftur á og viti menn, hann sofnaði strax aftur. Þetta reyndi ég nokkrum sinnum og alltaf með sama árangri. Ég veit ekki hvaða lærdóm má draga af þessari sögu, en mikið rosalega er ég stoltur af því að eiga svona rokkóðan son!

Víkurfréttir, 30. mars, 2006

miðvikudagur, 25. apríl 2007

Í tækinu (verður ekki að vera með svoleiðis? Mæla svona með einhverju)

Kings Of Leon: Because Of The Times

(fyrsta lagið á þessum disk er ótrúlega gott (djöfull notarðu mikið af svigum) (já, finnst þér það?) (lagið heitir Knocked Up)).

Ps: Röddin í söngvaranum er mjög sérstök, hljómar frábærlega í mínum eyrum, svo var einhver að segja mér að hann væri mjög eða frekar myndarlegur (spurning um að setja inn mynd af honum (enn einn sviginn maður, farðu að hætta þessu) og kannski verður það gert í kvöld (kannski ekki)) en hvað um það, spes hljómsveit sem verðskuldar athygli. Tveir fyrstu diskar þeirra voru góðir en ég er ekki frá því að þessi toppi þá.

þriðjudagur, 24. apríl 2007

mánudagur, 23. apríl 2007

James Earl Ray




Fólkinu var safnað saman í skilyrta herbergið og þar var ýmis heilaþvottur í gangi, gegn hommum og lebbum, silfurskottum, hamrað á hlutum, dópneysla fordæmd en boðið upp á vínsmökkun (Spánn/Argentína), kannski öfugsnúið, allar eða flestallar persónur leikritsins viðstaddar (lífleikrit)

Hringt í Hitler þegar ákveða á örlög sögupersóna, alltaf á tali hjá honum, er að tala við Evu, þótt þau séu þarna saman, Stalín er hins vegar alltaf við og fús í ráðgjöf sem oftast er aftaka, Stalín var pólsk hreingerningarkona í fyrra lífi

Persóna les upp úr skáldsögu og inni í skáldsögunni er önnur skáldsaga og kannski bréf frá því í gamla daga

Svo hverfa þessir gömlu af sviðinu, nýjir taka við og þeir eru ekki miklu betri séu þeir á annað borð betri, en þeir verða að taka við, þeir finna hjá sér þörf til þess

Þessa þörf

föstudagur, 20. apríl 2007

Old Habits Die Hard


Búinn að vera með þetta lag á heilanum í allan dag. Gat þó ekki hlustað á það fyrr en að afloknum vinnudegi því ég var ekkert á tónlistardeildinni í dag. Fyrir þá sem ekki vita er þetta lag að finna í kvikmyndinni Alfie, með Jude Law í aðalhlutverki. Myndin er endurgerð, upprunalega útgáfan er frá 1966, með Michael Caine í aðalhlutverki, en ég held að honum bregði fyrir í aukahlutverki í endurgerðinni (hef hvoruga myndina séð). Lagið er eftir Mick Jagger og Dave Stewart (ex Eurythmichs) og auðvitað syngur Jaggerinn þetta af stakri prýði. En það er auðvitað mikið til í því að menn hætti ekki svo snöggt að gera það sem þeir eru vanir - og er það bara ekki eðlilegt? Í innsta eðli flestra er að finna mótþróa gegn stjórn (að einhver reyni að stjórna þér eða stjórni þér) og breytingum (ég er bara eins og ég er - sættu þig við það eða láttu mig vera!). En ótrúlega margir vilja einmitt stjórna öðrum og breyta þeim um leið. Ekki fyrir mig, takk. En þó maður vilji ekki láta stjórna sér eða breyta þýðir það ekkert endilega að maður vilji sjálfur stjórna öðrum og/eða breyta. Hvernig væri bara að sætta sig við hvernig aðrir eru, láta þá, með öðrum orðum, í friði án þess þó eitthvað að útiloka þá eða fara í burtu. Fólk er fífl og fólk er frábært og fólk er allt og ekki neitt. Turn on/turn off - þú veist ekkert um það. Ekki ég heldur. En það má komast að því. Með góðu - ekki illu. Hvernig líður afskiptasömu fólki? Nei, ég vil ekki vita það. Vil ekki vita hvernig alvöru vanlíðan er. Stundum þarf að bíta í vörina, steinhalda kjafti og láta hugann reika eitthvað allt annað - langt í burtu frá þeim stað sem líkami þinn er þá stundina. Búa til heim eða heima í huganum og láta hann eða þá takast á við það sem þú vilt ekki sjálfur takast á við þá stundina. Alls ekki svo vitlaust. Nema þú sért algjörlega ósammála og þá hefurðu alveg rétt fyrir þér. Best að láta Keith Richards eiga lokaorðin að þessu sinni: "Þegar pabbi lá fyrir dauðanum sagði hann við mig: "Við hættum aldrei að þroskast..." Þetta var það síðasta sem hann sagði og svo veitti ég honum nábjargirnar. Hann talaði alltaf um það að unga fólkið héldi að þeir gömlu væru með þetta allt á hreinu, en eldra fólkið veit sem er að það veit ekki neitt. Enginn hættir að þroskast, enda væri þá ekkert vit í að taka sér þessa ferð á hendur." (Úr bókinni Steinarnir tala, útgefandi Sögur útgáfa, 2005).

Pælingar 1

Ætla smám saman að henda inn þessum svokölluðu pælingarpistlum sem ég skrifa mánaðalega í bæjarblaðið Víkurfréttir. Hér er sá fyrsti.

Hugarafl

Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur aftur. Og allt það.

Allt fer í hringi og enginn veit hvar og hvernig þetta byrjaði allt og hvenær og hvernig þetta muni enda; það er að segja lífið.

Mjög margir nota tækifærið og líta um öxl um áramót og velta því fyrir sér hvað betur hefði mátt fara á árinu sem nú er liðið og hvers vegna hlutirnir æxluðust á þennan veg en ekki hinn. Oft eru á þessum tímamótum grátin glötuð tækifæri og þetta verður því oft einhverskonar uppgjörstími. Að honum afloknum (þetta uppgjör tekur yfirleitt ekki langan tíma) er síðan horft björtum og tárvotum augum fram á veginn og sjálfum sér og öðrum lofuð bót og betrun.

Það er misjafnt hvað efst er á bætingarlista hins nýja árs; sumir ætla að hætta að drekka, aðrir að hætta að reykja, einhverjir setja stefnuna á að gera betur í vinnu eða námi og svo tel ég líklegt að flestir vilji bæta sig sem manneskjur, enda er það alltaf hægt.

Þrátt fyrir allt ofantalið er þó líkamsþyngdin það sem virðist vera efst í huga fólks á þessum tíma. Flestir búnir að troða óhóflegu magni af rauðu og reyktu kjöti í belginn á sér og skola því niður með allskyns dásamlegum óþverra eða óþverralegum dásamleika. Svo er vaknað á vigtinni með vindverki, brjóstsviða, þynnku og mikla þörf fyrir endurbætur á líkama og sál.

Sá er þetta ritar er hvorki lífsreyndur né gáfaður og yfirleitt svo tví- eða þríklofin í afstöðu sinni, áhugamálum og atvinnu, að það er álíka líklegt að hollráð frá mér myndu nýtast til árangurs og það að Framsóknarflokkurinn næði hreinum meirihluta í bæjarstjórnarkosningunum í Hafnarfirði í vor.

Eitt veit ég þó af fenginni reynslu úr ýmsum áttum að það er alveg sama hvaða aðferðum þú beitir í þeirri viðleitni þinni að ná þeim árangri sem þú sækist eftir – ekkert virkar fylgi hugur ekki máli. Hugurinn er sterkasta afl sem til er og því er erfitt að stjórna honum. Takist það er hins vegar ekkert ómögulegt. Og sé ekkert ómögulegt, því ættir þú ekki að geta stjórnað þínum eigin huga? Gleðilegt nýtt ár.

Víkurfréttir, 5. janúar 2006

fimmtudagur, 19. apríl 2007

Þjóðargjöf my ass!


Glitnir kallar 1000 króna afslátt af kaupum á einni skruddu þjóðargjöf. Stórt upp í sig tekið þarna. Þjóðargjöf. Lækkun vaxta og afnám þjónustugjalda gæti nálgast það að vera einhverskonar þjóðargjöf. En svona kjaftæði fær mann bara til að fyrirlíta stjórnendur bankanna enn meira. Hvað er að þessu liði?

Í Tilefni af Sumardeginum Fyrsta: Gary Bailey











miðvikudagur, 18. apríl 2007

Man einhver eftir þessu?

I hear it every night,
Another gunfight,
The tension mounts,
On with the body count.

þriðjudagur, 17. apríl 2007

Side B


Wandering From Station To Station


From Ashes To Ashes


With Only Dust In My Pockets


KR og aftur KR í kvöld og titillinn er þeirra

Enn að jafna mig eftir rosalegan leik KR og Njarðvík í lokaúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta. KR vann eftir framlengdan leik, jöfnuðu metin þegar þrír fjórðu úr sekúndu voru eftir af venjulegum leiktíma eftir að Njarðvík hafði haft yfirhöndina nánast allan leikinn.

Framlengingin var síðan nánast eign KR þótt þeir gerðu sér reyndar alltof erfitt fyrir í allt að því unninni stöðu. Njarðvíkingar fengu tækifæri á að jafna en neyddust til að taka erfitt skot í blálokin sem misfórst og allt varð vitlaust í DHL-Höllinni. Verðskuldaður sigur KR staðreynd (segi ég því ég hélt með þeim!) en tæpur var hann. Íslandsmeistaratitillinn því í herbúðum KR næsta árið og er þetta í fyrsta sinn sem félagið hampar honum síðan árið 2000.

Þessi úrslitakeppni öll í körfunni þetta tímabilið er búin að vera frábær - bæði hjá strákunum og stelpunum og greinilegt að körfuboltinn er með vindinn í seglin þessi misserin og vonandi heldur þessi uppsveifla áfram á næsta tímabili.

Ég og KR!


En af hverju ég og KR? Gaflari (Hafnfirðingur fyrir þá sem ekki vita hvað Gaflari er!) í húð og hár, stuðningsmaður FH, eina félagsins sem ég hef æft með og keppt fyrir.
Jú, fyrrum mágur minn er einn besti körfuboltamður okkar Íslendinga fyrr og síðar, Jón Sigurðsson, og hann lék lengstum með KR á sínum ferli. Hóf ferilinn vissulega hjá Ármenningum og varð með þeim Íslands- og bikarmeistari árið 1976 og bikarmeistari árið áður. Ég leit upp til Jóns (og geri það enn) og fékk sem smá polli að fara á leiki, fyrst með Ármann en síðan KR en Jón skipti yfir í KR eftir tímabilið 1977 - en þá hvarf nánast allt Ármannsliðið á braut og hefur körfuboltadeild þess félags aldrei borið sitt barr eftir það.

Á næstu árum unnust glæstir sigrar hjá KR, Íslandsmeistarar 1978, Íslands- og bikarmeistarar 1979, og Jón var klárlega besti körfuboltamaður landsins og var reyndar búinn að vera það um alllangt skeið. Ég var á einhverjum þessa leikja, mjög líklega öðrum hvorum úrslitaleiknum árin 1978, gegn Njarðvík, og 1979, gegn Val. Kannski báðum. Þannig var það nú þegar maður er fimm, sex, sjö eða átta ára og fór á körfubolta- eða handboltaleik, að þá var margt annað í íþróttahúsinu en sjálfur leikurinn sem í gangi var sem heillaði, jafnvel þótt titill væri undir. Börnum finnst yfirleitt ekki gaman að sitja kyrr nema í stuttan tíma.

Hins vegar man ég vel eftir bikarúrslitaleiknum árið 1984, en þá vann KR mjög öruggan og sanngjarnan sigur á sterkum Valsmönnum, sem voru fyrirfram álitnir sigurstranglegri. Annað kom á daginn.

Árið eftir sá ég Hauka taka sinn fyrsta stóra titil með naumun sigri á KR í hreint frábærum leik. Jón hætti og við tóku ungu strákarnir hans, en kappinn tók við þjálfun KR og skilaði það sér í leikmönnum eins og Páli Kolbeinssyni, Birgi Mikaelssyni, Guðna Guðnasyni, Matthíasi Einarssyni og fleirum. Birgir og Páll voru í bikarliði KR árið 1984.

Uppbyggingin tók smá tíma en þessir strákar skiluðu einum Íslandsmeistaratitli, árið 1990 og það sama ár varð liðið líka deildarmeistari. Árið eftir kom bikarinn í hús. Ég man vel eftir lokaeinvíginu á móti Keflavík árið 1990: KR - Keflavík 3:0. Ekki leiðinlegt og virkilega sanngjarnt enda KR-liðið frábært.

Bikarúslitaleikurinn árið 1991 var einnig frábær þar sem KR-ingar keyrðu hreinlega yfir Keflvíkinga í byrjun og voru nú Keflvíkingar ekki beint með hæga leikmenn innanborðs á þessum tíma.

Á þessum tímapunkti hélt maður að KR yrði aftur stórveldi í körfunni hérna heima - tæki titla reglulega og færi í þennan pakka sem svo einkennandi hefur verið fyrir Njarðvíkinga. En það tókst ekki og framundan voru nokkur frekar mögur ár, oft var KR með fínan mannskap, vissulega, en neistann vantaði.

Það var svo á miðju tímabilinu 1997-8 að Jón nokkur Sigurðsson var fenginn til að leysa Hrannar Hólm af sem þjálfara KR, sem sat þá í fallsæti, og hafði ekkert gengið. Jón reif mannskapinn upp á rassgatinu og hver sigurinn á fætur öðrum leit dagsins ljós. Að lokum endaði liðið mjög nálægt toppi deildarinnar og gerði sér svo lítið fyrir og fór alla leið í lokaúrslitin og mætti þar Njarðvík. En þar endaði ævintýrið, í bili. Njarðvík vann alla þrjá leikina og voru þeir með innanborðs einn þann svaðalegasta erlenda leikmann sem hér hefur spilað - Petey Sessoms.

En tveimur árum síðar varð KR meistari, eftir sigur á Grindavík, 3:1. Þá hélt maður aftur að gullöld væri komin til að vera í einhvern tíma en svo reyndist ekki. Ágætur árangur náðist á tveimur næstu tímabilum en enginn titill. Síðan hafa verið frekar mikil vonbrigði með KR í körfunni.

Þangað til núna að allt gekk upp, allir sprungu út, ekkert var ómögulegt, allt var hægt, baráttan varð áhugamál, stemning trúarbrögð og góður andi og sigurvilji það sem þetta allt gekk út á. Þannig verða menn Íslandsmeistarar og þannig urðu KR-ingar Íslandsmeistarar í kvöld. Til hamingju KR - þetta var verðskuldað. Svo er bara að fylgja þessu eftir og bæta þeim ellefta við næsta vor.

Að lokum er ekki annað hægt en að minnast á stemninguna í DHL-Höllinni - hún var rosaleg, einu orði sagt. Ungir strákar hafa myndað gífurlega öfluga stuðningsmannasveit sem söng og trallaði allan leikinn, hvort sem illa eða vel gekk; það lagði enginn árar í bát og þessi stuðningur skilaði leikmönnum KR án alls vafa mjög miklu þegar í sjálfan leikinn var komið. Hitasvækjan var mikil og ég hef aðeins fundið fyrir slíkum hita og stemningu í gamla íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði í þá gömlu góðu. Þá var húsið svo troðfullt að það hálfa hefði verið miklu meira en nóg. Hitinn svo mikill að gufusjóða hefði mátt ýsu með kartöflum og grænmeti - en svitafýlan kom hins vegar í veg fyrir að matarlystin væri mikil. Þetta var á þeim árum þegar handboltalið FH var að rúlla upp ein hverjum liðum, landa titlum og fara langt í Evrópukeppnum - en það er önnur saga.

mánudagur, 16. apríl 2007

Á förnum vegi

Hermann: Vitið þér hvar Sósíalistavegur 34 er?

Hesse: Nei. Og vil ekki vita það.

Hermann: Nú, hvað er þetta maður minn. Mér er sagt að þar búi ákaflega gáfað fólk, fólk sem mælt er með að annað fólk kynnist, svo það sé nú menn með mönnum, sé hægt að segja svo.

Hesse: Það er hægt. En af fenginni persónulegri reynslu af gáfuðu fólki þá finnst mér flest gáfað fólk vera fífl og hálfvitar. Hins vegar veit ég að margir úr kennarastétt búa á Sósíalistavegi. Í þeirri stétt er nú misjafn sauður í mörgu fé.

Hermann: Í öllum stéttum er misjafn sauður í mörgu fé. En ég held að það eigi kannski þó ágætlega, eða öllu heldur, ef þannig mætti að orði komast, sérstaklega við um kennarastéttina. En ég finn þennan helvítis veg án yðar hjálpar maður minn.

Hesse: Mér gæti ekki verið meira saman. Þér megið mín vegna fara í rassgat.

Hermann: Og þér til andskotans. Vertu blessaður.

Hesse: Blessaður.

sunnudagur, 15. apríl 2007

Spurning


Hvað gefur maður þeim sem á allt?


Ekki neitt.

laugardagur, 14. apríl 2007

við rjúfum hér dagskrána (en síðuskrifari vill athuga hvort einhver kannast við orðin hér að neðan og hvar þau gætu mögulega hafa birst - verðlaun)


sem laumast út seint um kvöld með loft
netið til að veiða upp lýsingar um ver
öld sína en þegar rífur hvasst í er sj
álfur dreginn í allar áttir af ljósvök
rum fingrum rotaður snyrtilega skráður
flokkaður og frystur í spjaldskrána og
tilbúinn frekari nauðgunar

föstudagur, 13. apríl 2007

The Piano Has Been Drinking


Það liggur í augum úti

Að Sjálfstæðisflokkurinn sé svo örvæntingarfullur að hann líti á það sem sigur að stjórnin haldi velli. Þessi flokkur ætlar enn eitt kjörtímabilið að láta Framsóknarflokkinn nauðga sér í þeim einum tilgangi að fá að vera við völd. Sætta sig við nauðgunina enn eina ferðina en kæra ekki. Og Framsóknarflokkurinn nauðgar ekki bara Sjálfstæðisflokknum heldur allri íslensku þjóðinni eins og hún leggur sig. Ég vil ekki láta nauðga mér! Það verður að koma núverandi ríkisstjórn frá. Ef Sjálfstæðisflokkurinn myndi lofa að semja ekki við Framsóknarflokkinn að kosningum afloknum gæti ég hugsað að gefa þeim atkvæði mitt. Að öðru leyti ekki. Ísland má ekki við því að Framsóknarflokkurinn, þessi agnarlitli flokkur sem er í raun bara vinnumiðlun fyrir spillta og óhæfa stjórnmálamenn, verði áfram í ríkisstjórn - það verður okkar banabiti - okkar Íslendinga.

Purkurr Pillnikk hefði aldrei kosið Framsóknarflokkinn!

fimmtudagur, 12. apríl 2007

Minningar & músík II

Ultravox-aðdáendur sameinist!

Laugardaginn 17. september, 2005 - Menningarblað/Lesbók

Hljómsveit sem ekki má gleymast

Poppklassík eftir Svan Má Snorrason svanur@mbl.is (æi bara)

Árið 1982 gaf breska hljómsveitin Ultravox út breiðskífuna Quartet og það var ekki ófrægari maður en George Martin sem var við stjórnvölinn í stúdíóinu. Það þarf ekki að kynna George Martin, upptökustjóra hinna einu sönnu Bítla, en Ultravox þarfnast ef til vill einhverrar kynningar áður en haldið er í umfjöllun um Quartet.

Ultravox var stofnuð árið 1973, hét reyndar Tiger Lily fyrstu þrjú árin, en svo var nafninu breytt. Upphaflegir meðlimir hljómsveitarinnar voru þeir Dennis Leigh söngvari, sem stuttu seinna breytti nafni sínu í John Foxx, Steve Shears gítarleikari, Billy Currie hljómsborðs- og fiðluleikari, Chris Cross bassaleikari og trommuleikarinn Warren Cann. Árið 1977 fékk hljómsveitin plötusamning og fram til ársins 1979 gaf hún út þrjár breiðskífur. Sú fyrsta var samnefnd hljómsveitinni og kom út í ársbyrjun 1977, Ha!-Ha!-Ha! kom út síðar á árinu og Systems of Romance kom út árið 1978. Þær fengu ekki ýkja mikla athygli og John Foxx yfirgaf sveitina árið 1979. Á þessum þremur breiðskífum var hljómsveitin mest undir áhrifum frá David Bowie og Roxy Music. Stuttu eftir brotthvarf Foxx gekk söngvarinn, lagasmiðurinn og gítarleikarinn Midge Ure í hljómsveitina og þá fóru hlutirnir að gerast fyrir alvöru - nýrómantíkin tók við en þó í bland við það sem áður var.

Árið 1980 kom breiðskífan Vienna út og hlaut hún mikla athygli og góða dóma gagnrýnenda. Ári eftir kom út breiðskífan Rage In Eden og naut þónokkurra vinsælda. 1982 kom svo Quartet út, 1984 Lament og 1986 U-Vox, en eftir það má segja að hljómsveitin hafi ekki borið sitt barr. Midge Ure yfirgaf sveitina stuttu seinna og hugði að eigin sólóferli. Ultravox var reyndar ekki lögð niður því Billy Currie hélt úti hljómsveit með þessu nafni eftir miklar deilur um það sem enduðu fyrir dómstólum. Árið 1993 kom breiðskífan Revelation út og þremur árum síðar Ingenuity, sem var svanasöngurinn.

Þá að plötunni sem hér er til umfjöllunar - Quartet. Hún var vinsælasta plata Ultravox og sú eina sem seldist eitthvað að ráði í Bandaríkjunum. Quartet er stútfull af frábærum lögum og í raun er hér um að ræða hálfgerða "best of"-plötu, því þarna er að finna mörg af vinsælustu lögum sveitarinnar. Ef skilgreina á þessa plötu þá er hægt að segja að hér sé á ferð afar grípandi elektrónískt popp með frábærum gítar-, bassa- og trommuleik. Allt fellur saman og með aðstoð George Martin er hljómurinn frábær og útsetningarnar sömuleiðis. Allt ber að sama brunni; frábær lagasmíði, ágætir textar, hljóðfæraleikur sem er síður en svo dauðhreinsaður því mikill kraftur er einkennandi og ekkert niðursuðuhljóð sem svo oft einkenndi hljómsveitir á þessum tíma sem notuðust mikið við hljóðgervla. Þarna var líka toppnum náð og það sem á eftir fylgdi stóðst engan veginn samanburð við Quartet, þótt vissulega sé góða spretti að finna á Lament.

Eftir komu Midge Ure var Ultravox mjög meðvituð um vægi tónlistarmyndbanda og yfirleitt voru þau góð og vel gerð. Sérstaklega ber að nefna myndbandið við lagið Vienna, sem á sínum tíma var brautryðjendaverk - ótrúlega vandað og vel sviðsett, leikmynd og búningar eins og í dýrustu kvikmynd, leikstjórn og myndræn framsetning í hæsta gæðaflokki og svo var það tekið á 35 mm filmu.

Ultravox er hljómsveit sem ekki má gleymast því hún hafði svo margt til brunns að bera og hafði mikil áhrif, bæði á samtímann og svo þá sem fylgdu á eftir; poppklassík eins og hún gerist best.

Ég hefði gert það sama


þriðjudagur, 10. apríl 2007

Minningar & músík I


Er að "veiða" gamlar greinar sem ég hef skrifað fyrir Morgunblaðið og hér fyrir neðan er ein. Fyrir utan íþróttirnar voru það nokkrar greinar sem ég skrifaði fyrir Lesbók blaðsins; mest Poppklassík. En líka pistlar sem birtust mjög aftarlega í blaðinu (ekki í Lesbók) undir heitinu Ljósvaki - stuttir og gaman að skrifa þá sem og Poppklassíkina. En hér er sem sagt ein Poppklassík.


Laugardaginn 20. ágúst, 2005 - Menningarblað/Lesbók
Poppklassík Svanur Már Snorrason svanur@mbl.is (löngu hætt að vera virkt netfang!). En flott.

Ástarsaga flutt af Lloyd Cole

Ljúf og falleg lög, lipurlega samin og melódísk, sem fjalla um ástina - þetta er ekkert nýtt. Eða hvað? Jú, ef textarnir eru eitthvað meira en væmin vella sem allir hafa heyrt ótal sinnum. Ef þeir eru ekki endurtekning á frösum sem fólk hefur heyrt aftur og aftur og eru löngu búnir að tapa upprunalegri merkingu sinni. Og sú er raunin á Love Story, sem Lloyd Cole gaf út árið 1995.

Þeir sem þekkja til Lloyd Cole og ferils hans, bæði með hljómsveitinni the Commotions og svo á sólóferli sínum, vita að textagerð hans er ekki einföld eða yfirborðskennd. Nema þá þegar hann gerir það vísvitandi eins og raunin er um suma texta hans og þá sérstaklega á plötum the Commotions. Þegar hann snýr út úr frösunum og notar þá meðvitað til að gefa textunum aukið vægi.

Með the Commotions komu út plöturnar Rattlesnakes, 1984, Easy Pieces, ári seinna og svo Mainstream, árið 1988. Hljómsveitin lagði upp laupana árið 1989 og Lloyd Cole hóf sólóferil. Hann hefur aldrei náð viðlíka vinsældum á eigin vegum eins og með the Commotions en á miðjum níunda áratugnum voru þeir oft nefndir í sömu andrá og The Smiths, þótt ekki sé tónlist sveitanna neitt sérlega lík. Báðar hljómsveitir töldust þó til "gáfumannapopps", hugtaks sem var nokkuð í umræðunni á þeim tíma sem hljómsveitir eins og Wham, Culture Club og fleiri froður vermdu efstu sæti vinsældarlistanna. Það er þó nokkuð erfitt að setja The Smiths í einhvern ákveðinn flokk, kannski bara í flokk frábærra hljómsveita, það ætti að nægja! The Smiths voru reyndar nokkuð hressari en Lloyd Cole and the Commotions.

En til hljómsveita annarra sem töldust leika "gáfumannapopp", voru til dæmis Deacon Blue og Prefab Sprout og að mínu mati er plata þeirra síðarnefndu, Steve McQueen, höfuðsmíði "gáfumannatónlistarinnar" - hreinræktað meistaraverk, sem þeir reyndar náðu svo aldrei að fylgja eftir eins og svo algengt er með hljómsveitir og tónlistarmenn sem ná því að senda frá sér meistaraverk.
Það sem helst var einkennandi fyrir þessa tónlist var það að tónsmíðar voru frekar ljúfar og vel samdar og textarnir oft torræðnir og margræðnir - hlaðnir gáfum!

Á Love Story með Lloyd Cole er að finna ótrúlega vel samdar og oft mjög fallegar tónsmíðar sem afar þægilegt og hreinlega ljúft er að hlusta á. Rómantíkin í lagsmíðunum svífur yfir vötnum og ef maður kynni ekki ensku myndi maður halda að hér væri á ferð plata uppfull af innilegri og fallegri ást sem ekkert gæti eyðilagt.

En annað kemur á daginn þegar rýnt er í texta þessara fallegu laga. Lloyd Cole er ekkert væminn gaur - hann er miklu frekar maður andstæðna sem finnst gaman að gera hefðbundna hluti og óhefðbundna í sama laginu - hefðbundið lag og óhefðbundinn texti. Love Story - Ástarsaga - en í þessari sögu er ekki að finna góða og hamingjuríka byrjun né miðju - hvað þá endi! Drykkja og örvænting er oftar en ekki hlutskipti Cole og annarra þeirra sem sungið er um í lögunum og sjálfskaparvíti auðvitað nátengt þessum þáttum. Á einum stað á plötunni, í laginu "Happy for You", syngur Cole, "If you love him, you should leave me". Svo er þarna að finna lag sem heitir "Trigger Happy" - kannski ekki beint það sem búist er við að finna á plötu sem heitir Love Story.

Þessi plata hlaut ekki mikla almenna athygli og lög hennar tröllriðu ekki vinsældarlistum, sem er synd og skömm. Hér er á ferð róandi og falleg tónlist með stuðandi ástartextum - flutt af frábærum tónlistarmanni. Það er alveg hægt að hlusta á plötuna kúrandi uppí sófa með kærustunni í afslappandi andrúmslofti hversdagsleikans, ef textunum er ekki gefinn of mikill gaumur. Það er líka hægt að gefa textunum gaum, breyta andrúmsloftinu og sökkva sér ofan í grimma ástarsögu sagða af Lloyd Cole.

7:1

mánudagur, 9. apríl 2007

Það verður að henda öllu gömlu og elska allt nýtt


Ji, ég bara kolféll fyrir þessari innréttingu, varð bara að fá hana. Hentum bara gamla draslinu út, ég meina, við erum búin að eiga íbúðina í 9 mánuði, allt orðið doldið þreytt og gamalt eitthvað. Kostar ekkert svo mikið að fá nýtt, ég meina, maður verður að leyfa sér eitthvað.

sunnudagur, 8. apríl 2007

Hann flaug inn úr nóttinni


Vaknaði um miðja nótt við að fugl var í svefnherberginu, á gluggasyllunni og gardínurnar virkuðu á hann sem fangelsisrimlar. Hann var hræddur og það þurfti að þrífa upp eftir hann tvo oggulitla sperði. Ég skynjaði í hræðslu fuglsins, sem kallast Starri, mína eigin hræðslu því hræðsla blossaði upp hjá mér í nokkur andartök eftir að ég vaknaði og þangað til ég skynjaði hversu miklu meira fuglinn var hræddur. Og ekki ætlaði ég að gera honum mein og hann mér örugglega ekki. Við höfðum hvorugir ástæðu til að óttast, hann hins vegar vissi það ekki. Ég vildi þó ekki að fuglinn færi að flögra um svefnherbergið, hvað þá íbúðina alla. Ég vil ekki að fuglar flögri um íbúðina mína. Ekki um miðja nótt. Ég vil geta flögrað um á næturnar en samfélagið og fjölskyldunormið meina mér það. Vinn vel á næturnar, finn vakandi fyrir meiri sálarkyrrð en á morgnana og um daginn. Kvöldin eru ágæt en þó styttist í svefninn og ónýtingu næturinnar. Svefn. Stundum lélegur, stundum ágætur, nánast aldrei góður. Ekkert að því að vinna á næturnar - skapa á næturnar - ekkert að því. Fæstir þó sammála mér í þeim efnum. Kannski þessi fugl. Kannski vildi hann segja mér eitthvað um þessa tilteknu nótt. Kannski var hann búinn að fylgjast með mér í einhvern tíma og fannst ég áhugaverður náungi. Því gæti ég trúað. En ég gat ekki flogið á eftir honum loksins þegar hann áttaði sig á því hvar hann komst inn, það var jú líka leiðin út. En ég lokaði á eftir honum og bað hann vel að lifa - hugsaði hlýlega til hans þegar ég vafraði í nokkrar mínútur um íbúðina með óljósar hugsanir í kollinum og langanir sem tengdust nóttinni og því frelsi sem hún hefur upp á að bjóða. Lagðist svo á koddana mína þrjá, breiddi yfir mig sængina og fór að sofa. Man ekki hvað mig dreymdi. Nóttina líklega.

Gleðilega páska!


I do believe that we are practicing the same religion (höf: George Michael)

laugardagur, 7. apríl 2007

Viltu byggja sundlaug? Já, það vil ég.


(Glad I´m) Not A Kennedy

Hægt er að mæla með þessu lagi - (Glad I´m) Not A Kennedy - sem vinsælt var hér á Íslandi árið 1988 (var þó útgefið fyrst tveimur árum áður). Söngkonan, sem heitir Shona Laing, er frá Nýja-Sjálandi. Svo líka lagi um annan Bandaríkjaforseta - Richard Nixon - en hann og JFK tókust nú aðeins á hér í eina tíð. Lagið sem um ræðir kallast The Love Of Richard Nixon, flutt og samið af þeim félögum í velsku hljómsveitinni Manic Street Preachers. Gefið út fyrir um þremur árum síðan. Forsetalög.

Litaskemmtilegheit og svo margt annað framundan og vonandi verða KR-ingar Íslandsmeistarar í körfubolta og HK í handbolta og FH í fótbolta


föstudagur, 6. apríl 2007

fimmtudagur, 5. apríl 2007

Ljósmyndabókin

Á þeim tíma er ég bjó í Húsableikjufirði, á seinna tímabili dökkbláu setlaganna, kynntist ég Ólafi Örverpi, kallaður þetta vegna þess hversu ört hann verpti. Hann var hagyrðingur mikill, góður reiðmaður, snjall skrúfumeistari en þótti sínkur á fé. Hann var kvæntur Gerðþrúði Mygludóttur, en Adam Sverrisson var fyrrum eiginmaður hennar, en um það má víst ekki tala. Gerðþrúður var röggsöm og ekki er beinlínis hægt að segja að hún hafi hatað sopann. Undir áhrifum var hún býsna blíðlynd, bæði til karla og kvenna. Ólafur skeytti lítt um drykkju og daður kvinnu sinnar, fannst hún öllu skárri full. Honum þótti ákaflega gaman að þeyta rjóma og gaf hann kindum sínum ávallt þrjá fjórðu hluta af rjómanum er hann þeytti. Rjómaþeytingin var eini munaðurinn sem Ólafur veitti sér. Þótti þetta áhugamál hans heldur sérkennilegt og höfðu sveitungar hans á orði að... ja, ég veit ekki alveg hvað þeir höfðu á orði. Er ég flutti í burtu, fimm þúsund árum eftir að Gerðþrúður var selbitin, kvaddi ég alla með vísu um afburðagáfað fiðurfé. Var þessari kveðju minni af flestum vel tekið, en þó var Jónmundur í Garði ekki alls kostar ánægður, tók kveðjunni fálega en sleppti því þó að kalla mig fífl.

Rómaveldi I


Löngun og þörf er ekki það sama. Skyldmenni þó. Þrjóska og heimska líka.


Betri er smá skítur í hornum en hreint helvíti. Einhver sagði þetta á einhverjum tímapunkti. Nennti líklega ekki að ryksuga íbúðina lengur og vantaði afsökun til þess að skella sér út á svalirnar eða út í sjoppu.


Það verður líklega að hlusta á Bach um páskana - Jóhann (með tveimur ennum og ói) Sebastian. Tilheyrir.
3ja stiga skot...


miðvikudagur, 4. apríl 2007

Nefertiti

Hraðinn í umferðinni eykst og eykst. Það er föstudagur þótt það sé miðvikudagur. Þörfin fyrir páskaegg og áfengi eykst í takt við hraðaaukningu umferðarinnar. Framundan átta metra röð í Bónus, nú eða þá fimm metra röð í Krónunni. Ófáir að flýta sér í hvíldina og friðinn í sumarbústaðnum en fáir sem komast þangað á réttum tíma og enn færri munu njóta hvíldar og kyrrðar. Hringrásin blæs til sóknar, alvörugefnir menn velta sér upp úr forinni og sala á trúlofunarhringjum hefur sjaldan eða aldrei verið meiri. Allt ber þetta að þeim brunni þar sem hreint og tært lindarvatnið er nánast uppurið og fæst hvergi keypt. Muna að taka bensín.

Depeche Mode


Depeche Mode og aftur Depeche Mode. Alveg dásamlegt að þessi hljómsveit sé til. Guðsblessun að hún hafi verið stofnuð og vonandi á hljómsveitin eftir að gefa mikið út í framtíðinni.

Sá þá á tónleikum í sumar, í fyrsta sinn en vonandi ekki það síðasta. Eftirminnilegast var þegar þeir félagar, Gahan, Gore og Fletcher (ásamt mörgum frábærum hjálparkokkum) fluttu rólega og afar mínímalíska útgáfu af Shake The Disease, og svo mjög hlaðna og kröftuga útgáfu af Photographic. Hvað Þeir eiga mikið af góðum lögum!

Hvenær kemur Depeche Mode til Íslands?

þriðjudagur, 3. apríl 2007

Hver er háttvirtur?


Rökræðan

Nei!

Víst!

Nei!

Víst!

Nei!

Víst!

Ókei - en þú böggar mig þá ekki næst.

mánudagur, 2. apríl 2007


Gangur leiksins

O:1, 1:1, 1:2, 2:2, 2:3, 3:3, 4:3, 4:4, 4:5, 4:6, 4:7, 5:7, 6:7, 6:8, 7:8, 8:8, 9:8, 10:8, 10:9, 11:9, 12:9, 13:9, 14:9, 15:9, 15:10, 16:10, 16:11, 17:11, 18:11, 19:11, 19:12, 19:13, 19:14, 20:14, 20:15, 20:16, 21:16, 22:16, 23:16, 23:17, 23:18, 23:19, 23:20, 24:20, 24:21, 25:21, 25:22, 25:23.

sunnudagur, 1. apríl 2007

Svikamylla álstækkunarandstæðinga

Leyniþjónusta álstækkunarandstæðinga hefur verið afhjúpuð. Andstæðingar stækkunarinnar höfðu komið upp víðtæku neti, nokkurskonar leyniþjónustu og sú er miklu öflugri en sú sem steingervingurinn Björn Bjarnason hefur verið að prédika fyrir að komið verði á fót á vegum íslenska ríkisins. Hátt í þúsund manns hafa á skipulegan hátt, undanfarnar vikur og mánuði, smyglað sér inn í bæjarfélagið Hafnarfjörð í þeim tilgangi einum að geta kosið gegn stækkun álversins. Og þetta tókst allt. Stækkunin var felld með 88 atkvæðamun og því má segja að stofnun leyniþjónustu álstækkunarandstæðinga hafi borgað sig. Já, það má ýmislegt gera á Íslandi - stofna heila leyniþjónustu og koma í veg fyrir viðbjóðslega aukningu á mengun og innrömmun samfélagsins í stóriðjukokkteilinn sem bjóða á uppá þangað til......

......allt er orðið að engu og kynslóðin sem erfa mun landið mun einfaldlega neita að erfa það og flytur í burtu til einhvers lífvænlegs lands.

Hvað ætli komi næst upp úr dúrnum hjá tapsárum áldýrkendum? Ekki raunveruleiki umhverfismála - það er ljóst. Frekar tálsýn sem byggist á álsýn og er dýrt spaug fyrir landið og jörðina þegar til ekki svo langs tíma er litið.

Backspace

Lundur. Hvítvín haft við hönd. Sómasamlokur einnig - önnur með hangikjöti og salati en hin hollustuloka. Milt veður, skýjað, hiti um 12 stig, lítill vindur. Tvær manneskjur ræða saman.

Hallmar: Þetta er gott hvítvín - bláa nunnan klikkar aldrei.

Freyhallfreður: Satt segirðu. Manstu þegar við smökkuðum á þessu víni í fyrsta sinn?

Hallmar: Hvort ég man. Það var rétt áður en tónleikarnir með Fine Young Cannibals hófust, í Laugardalshöllinni, hérna um árið.

Freyhallfreður: Já, rétt er það. Madness átti að vera aðalbandið á þessum tónleikum en svo fór nú að þeir sáu aðallega um það að kæla fólk niður eftir allan hitann og stuðið sem Fine Young Cannibals framkallaði.

Hallmar: Þeir voru í raun niðurkælingarband. Það voru allir búnir að ná toppinum áður en þeir komust á svið - samt vildu allir meira stuð en fengu ekki.

Freyhallfreður: Besta lag Madness er Michael Caine.

Hallmar: Það segirðu nú satt.

Freyhallfreður: Nú skulum við fara. Nunnan hefur tæmst, kaupum aðra, jafnvel fleiri en eina.

Hallmar: Já, gerum það - kaupum fjórar. Hlustum svo á lagið Blue með Fine Young Cannibals.

Freyhallfreður: Fyrirtak.

Skynsemin hafði betur - það gerist ekki oft á Íslandi

Davíð sigraði Golíat - skynsemin heimskuna og framtíðarsýnin er öllu gæfulegri á að líta eftir að ljóst var að tillagan um stækkun álversins var naumlega felld.

Trúin á fólk hefur aukist í kjölfar þessa, allavega hjá mér. Álgyðjan og hennar fólk dældi út vafasömum áróðri með nánast ótæmandi sjóði. Hótanir voru viðhafðar og það fór ekki vel í fólk og ég er á því að þessar hótanir um að leggja niður álverið hafi verið stærstu mistökin sem ÍSAL-fólkið gerði í þessari baráttu þeirra fyrir stærra álveri - meiri mengun og minni almennri hugsun og skynsemi.

En þeim í Straumsvík tókst ekki ætlunarverk sitt og ég gleðst yfir því. Gleðst yfir möguleikanum á að nú sé komið að því að draga saman seglin í stóriðju og beina sjónum eitthvert annað. Hvert skiptir ekki öllu máli. En það er nóg þarna úti að býta og brenna fyrir okkur - möguleikarnir eru margir. Nýtum okkur þá og verndum um leið okkar fallega land. Með gleðikveðjum, Sveppi.