fimmtudagur, 22. júlí 2010

Séð og Heyrt Móment 25


FEITIR RASSAR!

„Hvað er að þér, vertu ekki að spila þetta lag núna,“ sagði einn starfsmaðurinn í íþróttahúsinu þegar kvennalið Hauka var nýbúið að tryggja sér enn einn titilinn í handbolta fyrir nokkrum árum síðan.

Ég var þá að skrifa um íþróttir í DV og lagið sem kynnir Haukastelpna hafði sett á fóninn með það að markmiði að auka stemninguna á þessari gleðistundu var Fat Bottomed Girls með Queen.

Spilun lagsins fór ekki vel í áðurnefndan starfsmann sem túlkaði ekki bara fyrir sjálfan sig heldur alla aðra í húsinu að með spilun lagsins á þessum tímapunkti væri verið að gera grín að feitum rössum Haukastelpna.

En rassar þeirra voru hins vegar ekki feitir, heldur stinnir, mjúkir, mjóir, þéttir, sveittir og flottir. Þó líklega fáir að pæla í því á stundu sem þessari.

Kynnirinn sem hafði ekki ætlað að styggja neinn skipti um lag áður en Queen-slagarinn hafði klárast en ég man ekkert hvað hann setti á í staðinn; grunar að það hafi verið We Are the Champions með sömu hljómsveit – eða jafnvel eitthvað klisjukenndara.

Ég var búinn að gleyma þessu sérkennilega atviki en það rifjaðist upp fyrir mér þegar einhverjir fóru að kvarta yfir áfengisauglýsingum í HM-þætti hjá Þorsteini Joð og gera því skóna að börnin færu nú að sturta í sig af miklum móð. Börnin mín sáu þetta en báðu pabba gamla ekki um einn kaldan.

Alda forræðishyggju skellur nú á okkur sem aldrei fyrr – enginn má hafa skoðanir og öll umræða um jafnrétti er fyrir löngu orðin að draumórum um misrétti og yfirráð.

Má ég þá frekar biðja um feita rassa.

(Séð og Heyrt, 30. tbl. 2010)

Engin ummæli: