föstudagur, 11. júní 2010
OFMETNASTA FÓTBOLTALANDSLIÐ HEIMS
Hollendingar spila fallegan fótbolta en þeir vinna aldrei neitt. Er það ekki?
Því hefur lengi verið haldið fram að Hollendingar spili skemmtilegan fótbolta, og
fáir hafa um það deilt. Landslið þeirra er yfirleitt á lista alþjóða
knattspyrnusambandsins yfir tíu bestu landslið heims. Þrátt fyrir það geta
Hollendingar aðeins státað af einum Evrópumeistaratitli og þá hafa þeir orðið
heimsmeistarar í fótbolta jafnoft og við Íslendingar.
"Það er okkur jafnmikilvægt að spila fallegan fótbolta og að bera sigur úr
býtum í leikjum," hafa margir hollenskir knattspyrnumenn og þjálfarar sagt í gegnum
tíðina, og þá sérstaklega þegar nýbúið er að slá hollenska landsliðið út úr
keppni á HM eða EM.
Harðir stuðningsmenn landsliðsins hafa einnig tekið undir slík
orð og það hefur komið fyrir oftar en einu sinni í leikjum í undakeppnum HM og EM
að púað hefur verið á hollenska landsliðið þrátt fyrir sigur. Þá hafa þeir
þjálfarar sem reynt hafa að breyta léttleikandi stíl liðsins átt undir högg að
sækja þótt árangurinn hafi verið góður. Hollendingar vilja láta líta á sig sem
stórþjóð í fótbolta og sé árangur stærstu liða landsins í gegnum tíðina
skoðaður, þá sérstaklega félögin Ajax og PSV Eindhooven, jafnvel Feyenoord, má segja að Hollendingar séu stórþjóð. Þeir hafa framleitt nánast á
færibandi mjög góða leikmenn sem gert hafa það gott í öllum helstu toppdeildum
Evrópu, en hvorki sú staðreynd né frábær árangur hollensku félagsliðanna í
Evrópukeppnunum hefur dugað til hjá hollenska landsliðinu; nema árið 1988 þegar
liðið bar sigur úr býtum á EM í Vestur-Þýskalndi.
Í því liði voru reyndar stórbrotnir leikmenn sem kölluðu ekki allt ömmu sína - til dæmis Marco Van Basten, Ruud Gullit og Frank Rijkard. Þó ber að hafa í huga að á þessum tíma var EM í fótbolta mun minni keppni en hún er í dag. Árangur Hollands á HM er í raun sorglega lélegur: Aðeins tvisvar hefur liðinu tekist að komast í úrslitaleikinn - 1974 gegn Vestur-Þjóðverjum og fjórum árum síðar gegn Argentínu. Báðir leikir töpuðust.
Samt er það svo að gargað er á torgum úti fyrir hverja einustu heimsmeistarakeppni
sem Hollendingar ná inná að nú sé loks komið að þeim að sigra. En yfirleitt er
árangurinn afar svipaður - í HM og EM. Holland spilar voða flottan fótbolta og
rúllar upp undanriðlinum og eru taldir ægilega sigurstranglegir og er hrósað fyrir
skemmtilegan fótbolta.
Svo eru þeir yfirleitt slegnir strax eða fljótlega út af einhverri alvöru fótboltaþjóð sem vill fyrst og fremst hampa sigri en einblína ekki á að líta vel út.
Allt tal Hollendinga um "Total Fotball" (hugtak skapað af hollenska þjálfaranum Rinus Michels) er algert kjaftæði því það lið sem getur státað af því að spila "Total Football" hampar heimsmeistaratitlinum.
Það hafa Hollendingar aldrei gert og vandséð að þeir nái því markmiði í sumar nema þeir komi niður á jörðina og spili eins og alvöru menn út heila keppni.
Þeir ættu að horfa meira til Þjóðverja og Ítala.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli