Friðrik Ragnarsson
Heimir Guðjónsson
Guðmundur Karlsson
Er einhver tími öðrum fremur á ferli íþróttamanna sem hentar þeim betur en annar til að draga sig í hlé frá íþrótt sinni? Er hægt að alhæfa eitthvað um að menn séu á toppnum í íþróttum sínum á einhverjum aldursskeiðum? Sumir tala um að það sé virðingarvert að hætta á ,,toppnum.” En hvað þá með ánægjuna og félagsskapinn og jafnvel að einhverju leyti efnahaginn, sér í lagi ef menn eru enn virkilega samkeppnishæfir? Er ekki ákveðið miskunnarleysi í því viðhorfi gagnvart mönnum sem eru komnir á ,,aldur”; að þeir eigi að víkja fyrir þeim sem yngri eru svo að þeir fái notið sín og sæki sér reynslu. Er ekki eðlileg samkeppni einfaldlega alltaf besti kosturinn hvort sem um ræðir atvinnulíf eða íþróttir? Þessar vangaveltur voru lagðar fyrir þá Guðmund Karlsson, þjálfara frjálsíþróttalandsliðsins og fyrrverandi handboltaþjálfara, Heimi Guðjónsson, knattspyrnumann úr FH og Friðrik Ragnarsson þjálfara Njarðvíkur í körfubolta.
Guðmundur Karlsson:
,,Ég er þeirrar skoðunar að aldur beri að skoða út frá annarsvegar dagatali og hinsvegar líkamsástandi. Með þessu á ég við að það getur staðið á dagatali að viðkomandi íþróttamaður sé 37 ára gamall en líkamsástand hans er hugsanlega á við 25 ára gamlan mann. Að sjálfsögðu er munur á milli íþróttagreina varðandi ,,toppaldur" en ef ég nefni handbolta og frjálsar íþróttir þá tel ég þennan aldur liggja á bilinu 28-35 ára. Hins vegar er auðvitað er erfitt að meta hvenær toppnum er náð, en ef íþróttamaðurinn sjálfur er árangurslega saddur er best fyrir hann að hætta, annars ekki, en ákvörðunin á að vera íþróttamannsins fyrst og fremst og ekki annarra."
Guðmundur telur umræðu um aldur oft vera fyrst og fremst fjölmiðlavandamál. ,,Það er strax farið að tala um íþróttamenn sem gamla um og eftir 28 ára aldur sem er auðvitað bara bull og mín þjálfaraskoðun er á öndverðum meiði við fjölmiðlaumfjöllunina í dag. Með aldrinum kemur aukin keppnisreynsla og hún gerir á úrslitastundu meira en vega upp á móti hugsanlegum snerpumissi.
Það er getan ein sem telur og hún er nokkuð auðmælanleg, til dæmis í frjálsum íþróttum. Í boltagreinunum er reynslan gríðarlega mikilvæg og stór hluti afkastagetunnar. Það er ekkert mál að skora í stöðunni 3-3, en það reynir á í stöðunni 19-19, þakið að fara af húsinu og allt að verða vitlaust." Guðmundur segir að auðvitað sé keppnisharka og reynsla mjög mikilvæg í öllum greinum íþrótta og að þetta séu atriði sem þurfi að þroska. ,,Íþróttamaðurinn "lærir" að gera ákveðna hluti á ákveðnum tíma og vissan um að geta afkastað eykur sjálfstraust hans og um leið getu. Þetta ferli tekur tíma og það er eilítið misjafnt hvenær íþróttamaður nær sínum toppi. Þjálfarinn þarf hér að hafa yfirsýnina og ekki láta utanaðkomandi pressu fjölmiðla eða misvitra stjórnarmenn hafa áhrif á ákvarðanatöku.
Varðandi efnahagsþáttinn segir Guðmundur að hann hafi breyst á undanförnum árum en auðvitað verði hér hver íþróttamaður að svara fyrir sig. ,,Hér á Íslandi eru þetta óverulegir fjármunir eins og staðan er í dag og tel ég að peningahvatinn hljóti að vera aftarlega á merinni."
Heimir Guðjónsson:
,,Í dag er það einfaldlega svo að menn hætta ekki nema ungir og frískir strákar rúlli þeim upp á æfingum. Á meðan það gerist ekki er engin ástæða til að hætta, nema að áhuginn sé ekki lengur fyrir hendi,” segir Heimir. Öll umræða um ,,toppaldur” hefur breyst að hans mati: ,,Auðvitað er ekki hægt að alhæfa að menn séu á toppnum á vissum aldri eins og oft áður var talað um. Helsta ástæðan fyrir því er líklega sú að allar aðstæður til þjálfunar hafa batnað og einnig hefur þjálfunaraðferðum fleytt mikið fram eins og sést í flestum íþróttagreinum. Íþróttafólk er að ná góðum árangri þrátt fyrir að vera komið yfir þrítugt og vel það.”
Heimir segir að umræðan um að hætta á toppnum haldist yfirleitt í hendur við markmið. ,,Auðvitað er virðingarvert að hætta á toppnum ef maður hefur náð einhverju marki sem maður hefur sett sér. Hins vegar skiptir félagsskapurinn einnig miklu máli og spilar stóra rullu; eftir því sem mórallinn er betri því skemmtilegra er þetta. Bullið sem hefur átt sér stað í búningsklefum leikmanna í gegnum tíðina gæti verið gott efni í skáldsögu! Eina miskunnarleysið sem er í gangi gangvart mönnum sem eru komnir á ,,aldur“ er þegar yngri leikmenn tala um að hafa átt stefnumót við miklu eldri konur en svo kemur í ljós að gamla konan er aðeins 26 ára!
,,Aldur tengist reynslu,” segir Heimir og heldur áfram: ,,það er staðreynd að góð blanda gerir gott lið og yngri leikmenn geta lært af þeim eldri. Það myndi því aldrei ganga að skipta út heilu liði eldri leikmanna fyrir þá yngri því þeir þurfa að fá reynslu og aðlögun og þar geta þeir eldri hjálpað til. Að sjálfsögðu er gott að hafa ,,survival of the fittest” í öllum íþróttum, sérstaklega vegna þess að ég er ennþá fljótastur í FH!
Um efnahagshliðina á boltanum hafði Heimir einfaldlega þetta að segja: ,,Pening!? Um hvað ertu að tala?
Friðrik Ragnarsson:
,,Hvenær menn eru á toppnum á sínum íþróttaferli ferli er mjög einstaklingsbundið,” segir Friðrik og bætir við. ,,Mér finnst sjálfum að frá 27-28 ára aldri til 32-33 hafi menn öðlast mikla þekkingu á leiknum sem nýtist þeim og þeirra liði inná vellinum, jafnvel þó að hraði og stökkkraftur séu ekki í hámarki á þessum árum. Slíkt bæta eldri leikmenn upp með reynslu og klókindum.” Friðrik segir að ýmsar ástæður séu fyrir því að menn endist lengur í sportinu en áður. Markvissari æfingar, lyftingar og betri skóbúnaðar eru þættir sem spila stóra rullu. Þá hafi læknavísindunum fleygt fram svo auðveldara er að meðhöndla meiðsli sem áður var ekki hægt. ,,Mér finnst sjálfum ekkert að því þó að menn séu að langt fram eftir aldri haldi þeir viðunandi getu. Þó finnst mér sorglegt að sjá stjörnuleikmenn klára síðustu árin sem meðaljónar og synd að minningin um góða leikmenn fölni. Hins vegar, ef eldri leikmenn eru klárlega betri en þeir yngri eiga þeir að sjálfsögðu að ganga fyrir. Þó má ekki gleyma því að koma efnilegu leikmönnunum að, gefa þeim tækifæri, ellegar er hætt við að þú missir þá til annarra liða, og þá myndast ekki eðlilegt bil þegar þeir eldri stíga til hliðar. Annars virðist mér eins og leikmenn í dag geti haldið sér lengur á toppnum. Það gæti spilað inní að það er liðin tíð að menn stoppi í einhverja mánuði þegar keppnistímabili lýkur og komi í lélegu atgervi til næsta undirbúningstímabils. Topp leikmenn halda sér alltaf við og það er mjög greinilegt á þeim sem endast lengst að þeir hugsa æ betur um líkama sinn eftir því sem þeir eldast.” Friðrik nefnir að lokum að varðandi allt tal um pressu á "eldri leikmenn" að hætta , þá finnist honum það ansi þreytt þegar íþróttafréttamenn spyrji leikmenn ár eftir ár hvort þeir séu nú ekki að fara að hætta. ,,Þessa ákvörðun verður íþróttamaðurinn að fá að taka án utanaðkomandi pressu þegar honum finnst nóg komið.”
-SMS
(Greinin birtist í DV, mánudaginn 5. maí árið 2003)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli