fimmtudagur, 1. apríl 2010

Séð og Heyrt Móment 18


LÍTIL TYPPI?

„Hver ætli hafi verið mesti kappinn í Íslendingasögunum,“ spurði ungi umbrotsmaðurinn í vinnunni hjá mér og ekki stóð á svörum vinnufélaganna.

„Það hlýtur að hafa verið Egill Skallagrímsson, það hafa fáir komist með tærnar þar sem hann hafði hælana,“ sagði fjölfróða konan á næsta borði.

„Hygg ég að það hafi verið Sturla Sighvatsson. Hann var rosalegur kappi, fáir flottari,“ sagði elsti umbrotsmaðurinn á svæðinu með sinni djúpu og heimspekilegu rödd.

Einhver nefndi Gunnar á Hlíðarenda og Gísli Súrsson barst í tal.

Mér varð á að blanda mér í slaginn. Hélt að innlegg mitt myndi auka, jafnvel dýpka umræðuna.

„Þórður kakali var nú líklega meiri hetja en Sturla, bróðir hans, Sighvatsson,“ sagði ég en bætti svo snögglega við.

„Held samt að Grettir sterki hafi verið mestur allra fornkappa. Það gat enginn mannlegur máttur unnið á honum, það varð að beita svindli til að fella hann.“

Þá gall allt í einu í ungu umbrotsstúlkunni sem hafði fram að þessu ekkert látið á sér kræla.

„Nei, ekki Grettir, hann var með lítið typpi.“

Í kjölfarið ríkti einkennileg þögn, fullyrðingunni mótmælti enginn og umræðan dó.

Ég fór svo að hugsa hvort þetta sé sá mælikvarði sem mest er marktækur, og fræðimenn ættu jafnvel að fara að nota, og í kjölfarið mögulega endurmeta sögur af íslenskum fornköppum?

Sko, hefði Gunnar á Hlíðarenda nokkuð getað stokkið hæð sína í fullum herklæðum ef slátur hans hefði verið stórt eða í stærri kantinum? Hefði það ekki bara þvælst fyrir og bardagafærni hans því minnkað í samræmi við stærðina?

Var hann því með lítið typpi? Og þarafleiðandi ekki hetja?

Þegar stórt er spurt ...

(Séð og Heyrt, 12. tbl. 2010)

Engin ummæli: