laugardagur, 25. desember 2010
Fálkinn Valur
Inngangur
Valur Gunnarsson er kvikmyndagagnrýnandi sem er mér að skapi. Ég er ekki alltaf sammála honum en engu að síður er hann mér að skapi. Hann hefur skrifað í DV svona nokkurn veginn frá því að það blað gekk í endurnýjun lífdaga eftir gjaldþrot Frjálsrar fjölmiðlunar, haustið 2003. Valur sagði svo upp störfum í mars á þessu ári. Skrif hans vöktu iðulega athygli enda Valur beinskeyttur penni mjög og heimspekilega þenkjandi. Skrif hans voru oft óhefðbundin og pælingar hans settu gjarnan svip sinn á kvikmyndagagnrýnina. Skoðum hér dæmi um óhefðbundin skrif Vals um kvikmynd Mel Gibsons, Passion of Christ, sem birtust í DV, 20 mars í fyrra:
Er þá málið að hann var sonur Guðs? En erum við ekki öll börn Guðs? Hvernig getur skapari alls átt einkason? Var hann kannski Guð sjálfur? Hvers virði er þá að pínast í nokkra tíma vitandi að ekki bara maður sjálfur, heldur einnig allt mannkyn, á eilíft líf í vændum? Einn af veikustu punktum kristinnar trúar hefur ávallt verið hinn þrískipti en samt eilífi og ódeilanlegi Guð...
Í lok myndarinnar, þegar Jesús gefur upp öndina, sést Satan öskra af angist. Jesús þurfti jú að drepast til að allt skyldi vera fullkomnað. En hvað ef Jesús, Rómverjarnir og æðstuprestarnir hefðu klappað hvorum öðrum á bakið og ákveðið bara að vera vinir? Hefði Satan þá unnið? Allar þessar spurningar veltust um í höfði mér eftir að ég horfði á myndina, og komst svo að þeirri niðurstöðu að það er ekki heil brú í kristinni trú.
Þá er Valur flinkur með pennann og á auðvelt með að fá menn til að brosa út í annað, jafnvel bæði munnvikin, og reyndar fá lesendur til að skellihlæja með hárbeittri kaldhæðninni eða bara hreinlega grimmdinni einni að vopni. Honum tekst oft að taka myndir “af lífi” með þeim hætti að þú rekur upp skellihlátur. Auðvitað eru síðan margir sem hneykslast á slíkum skrifum og finnst kvikmyndagagnrýni ekki vera rétti vettvangurinn fyrir gagnrýnanda að láta ljós sitt skína – hann eigi fyrst og síðast að segja frá myndinni og hvernig honum fannst hún og færa fyrir því rök. Gott og vel – við eigum slíka gagnrýnendur – góða kvikmyndagagnrýnendur sem starfa til að mynda á Morgunblaðinu og reyndar fleiri miðlum. En að mínu mati er pláss fyrir að minnsta kosti einn gagnrýnanda eins og Val Gunnarsson í okkar fjölmiðlaflóru.
Kvikmyndaleikstjórinn Friðrik Þór Friðriksson er ekki hrifinn af skrifum Vals Gunnarssonar um kvikmyndir og var ekkert að fara í launkofa með það í viðtali við tímaritið Mannlíf í janúar á þessu ári. Skoðum hvað Friðrik hafði þar að segja um kvikmyndagagnrýni:
Friðrik Þór gefur lítið fyrir íslenska kvikmyndagagnrýnendur sem hann segir að hafi oftar en ekki gefið myndum hans slæma dóma. Hann segir gagnrýni hér iðulega vera reista á vanþekkingu og þörf til að gera neikvæða hluti að aðalatriði í stað þess að horfa til þess sem vel er gert.
“Eins og ég hef stundum sagt áður þá eru flestir fífl sem fást við gagnrýni hér heima. Undantekningin er einna helst Heiða Jóhannsdóttir, gagnrýnandi Moggans og Ólafur Torfason en andstæða við hann er fálki eins og Valur Gunnarsson, gagnrýnandi DV. Á greinum hans má glöggt sjá hve ofboðsleg vanþekking hans er. Hann hefur stundum verið að vitna til kvikmyndasögunnar og þá kemur þekkingarleysið glöggt fram. Hann hélt því til dæmis fram að mynd Viktors Sjöström um Fjalla-Eyvind hefði verið tekin á Íslandi. Þetta er fyrsta kvikmyndin sem tekin var utandyra. Þeir sem kunna einhver skil á sögunni vita að hún var gerð í Svíþjóð. Þetta er dæmi um bullið og maður hættir að lesa dóma svona manna. Það er svo ólíkt því sem hann er að gera í ritstjórn Grapevine sem er einhvern veginn miklu gáfulegra og aðdáunarvert. Ábyrgð á svona skrifum hlýtur að vera ritstjórnarleg. Ég skrifaði hér á árum áður kvikmyndagagnrýni í DV og er sannfærður um að ég hefði verið rekinn ef slíkt þekkingarleysi hefði komið í ljós. Ég skrifaði reyndar bara um myndir sem mér líkaði vel og reyndi að hjálpa áhorfendum við að fara inn í erfiðar myndir og lagði áherslu á að vera jákvæður og opna fólki nýjar víddir eins og reyndar er tilgangurinn með alþjóðlegri kvikmyndagerð.”
Þessi orð Friðriks gerðu mig um leið enn forvitnari en áður um Val Gunnarsson og kvikmyndagagnrýni hans. Mér lék forvitni á að ræða málin við Val og hafði því samband við hann og fékk hann til að svara nokkrum spurningum um kvikmyndagagnrýni.
Þar sem hann dvaldi í Finnlandi þegar ég loks náði í hann var tölvupósturinn fyrir valinu sem samræðugrundvöllur – ódýr en spurningarnar og svörin vonandi ekki. Hér er því ekki um ræða svokallað mannlífsviðtal, hugtak sem skaut upp kollinum með glanstímaritunum; það er að segja að færa viðtal í ákveðinn búning sem að mínu mati snýst fyrst og fremst um höfund textans en ekki viðmælandann og hvað hann hefur að segja miðað við hvaða spurningar þú hefur sjálfur fram að færa. Mín skoðun.
Samræðan
Svanur: Til að byrja með, segðu mér aðeins af sjálfum þér, menntun og slíkt, og hvernig það kom til að þú fórst að skrifa gagnrýni um bíómyndir fyrir DV?
Valur: “Ég lærði sagnfræði við Háskóla Íslands og var tvisvar skiptinemi í Finnlandi. Þar voru ýmsir skemmtilegir kúrsar svo sem um írskar bíómyndir og kvikmyndir voru notaðar sem dæmi í Rússlandssögu. Ég skrifaði svo B.A. ritgerð um bandarískar kvikmyndir og stjórnmál í Víetnamstríðinu. Að því loknu fór ég í nám í ritlist til Belfast. Bíómyndir voru mikið notaðar þar sem dæmi, og skyldunámsbækurnar voru tvær, Um skáldskaparlistina eftir Aristóteles og A Whore's Profession eftir handritshöfundinn og leikstjórann David Mamet. Þess má einnig geta að ég vann um stund á videóleigunni á Sólvallagötu. Ég var að vinna á DV eftir að það byrjaði aftur, og var að skrifa um menningarmál. Það var enginn þar að sinna kvikmyndum sérstaklega, þannig að ég tók það að mér. Ég var svo útnefndur kvikmyndagagnrýnandi eftir að ég fór að sjá Kaldaljós og gaf henni tvær stjörnur, en það virtist vera nýmæli að íslenskur gagnrýnandi gæfi íslenskri stórmynd ekki meira en í meðallagi góða dóma.”
Svanur: Hverjir eru þínir uppáhaldskvikmyndagerðarmenn og leikarar og af hverju?
Valur: “Það er merkilegt að ég hef mjög ákveðna uppáhalds tónlistarmenn sem ég dýrka og dái og hlusta kannski oft á fátt annað en er ekki jafn upptekinn af neinum einum kvikmyndagerðarmanni. Kannski er það vegna þess að svo gríðarlega margir koma að gerð kvikmynda og því sjaldnar að leikstjórinn einn, hvað þá stakur leikari, skipti sköpum. En ég hef sérstakt dálæti á bandarískri kvikmyndagerð á 8. áratugnum, og þar er Martin Scorsese fremstur í flokki jafningja með myndir eins og Taxi Driver og Mean Streets. Einnig gerði hann Last Temptation of Christ, sem hefur líklega haft talsverð áhrif á trúmál mín. Mér fannst Robert De Niro vera besti leikarinn, en hann hefur verið statt og stöðugt að vinna gegn þeirri skoðun minni undanfarinn áratug. Á hinn bóginn sýnir Al Pacino í hinni nýlegu Merchant of Venice að hann getur enn ýmislegt. En það má ekki gleyma því að sá sem hefur hvað mest með gæði mynda að gera er handritshöfundurinn. Paul Schrader hefur skrifað handritið að sumum af bestu myndum Scorsese. Og Charlie Kaufman er ábyrgur fyrir sumum af bestu myndum undanfarinna ára.”
Svanur: En segðu mér, hvað þarf góður gagnrýnandi að hafa til brunns að bera?
Valur: “Hann þarf að vera afar einstrengingslegur. Og helst ekki lesa dóma annarra. Það getur verið erfitt að hrósa mynd sem allir aðrir hata, eða gagnýna mynd harkalega sem að aðrir gagnrýnendur lofa. Stundum læðist að manni sá grunur að maður sé í slíkum tilfellum einfaldlega ekki að skilja eitthvað. En maður er jú þrátt fyrir allt alltaf að fjalla um myndir út frá eigin sjónarhól, ekki út frá því hvað öðrum finnst.
Hitt er einnig mikilvægt að skrifa skiljanlegan og helst skemmtilegan texta. Það er afar slæmt þegar gagnrýnendur halda að þeir séu fyrst og fremst að skrifa fyrir aðra gagnrýnendur. Enda eru fæstar bíómyndir gerðar fyrst og fremst fyrir gagnrýnendur. Kvikmyndin er á heildina litið frekar aðgengilegt listform, og gagnrýnin þarf að vera það líka.”
Svanur: Að þínu mati, hvað einkennir íslenska kvikmyndagagnrýnendur og eru þeir að einhverju leyti ólíkir bókmenntagagnrýnendum, tónlistargagnrýnendum o.sv.frv.?
Valur: “Það sem háir öllum íslenskum gagnrýnendum er smæðin. Það er næstum því öruggt að maður hitti þann sem verið er að fjalla um fyrr eða síðar, og jafnvel geti þurft að starfa með honum. Þannig er erfiðara að vera gagnrýnandi í litlu samfélagi en stóru. Það sem er svo verst fyrir kvikmyndagagnrýnendur er hversu fáar íslenskar kvikmyndir eru gerðar miðað við til dæmis plötur og bækur, og hversu margir koma að hverri mynd. Því er talsverður þrýstingur á að "vera góður".”
Svanur: Gagnrýni í íslenskum fjölmiðlum á erlendar myndir – er hún markaðstengd, má ekki styggja þá sem reka bíóin, verður þetta helst að vera í jákvæðum kynningarstíl a la Séð & heyrt?
Valur: “Vafalaust myndu kvikmyndahúsin helst kjósa að hafa alla umfjöllun í Séð & heyrt stíl. En það er erfitt fyrir þau að ráða því. Sérstaklega þar sem íslenskir kvikmyndagagnrýnendur reyna oft að bæta upp þá silkihanskameðferð sem íslenskar myndir fá með því að vera harðir við erlendar myndir. Það er mjög erfitt fyrir kvikmyndahúsaeigendur að hafa áhrif á gagnrýnendur hjá stóru blöðunum þremur þar sem þeir geta varla lokað neinn úti og lokað á gagnrýni og orðið þannig af umfjöllun. En kvikmyndahúsaeigendur afhenda bíópassa til gagnrýnanda og ráða þannig hvaða miðla þau viðurkenna. Til dæmis neituðu þau að láta Grapevine fá passa og höfðu áður sagt að þau vildu "umfjöllun, ekki gagnrýni." Hvort að nærvera mín, sem hef jú talsvert orð á mér fyrir neikvæðni, kom að sök, veit ég ekki. “
Svanur: Gagnrýni á íslenskar kvikmyndir – afar viðkvæmt efni – er það ekki? Er ekki oft talað um að íslenskar bíómyndir fái yfirleitt alltaf 3 stjörnur – sama hvernig þær eru? Þetta er lítill heimur hér á Íslandi – allir þekkja alla – er reynt að hafa áhrif á fjölmiðla til þess að gefa ekki slæma umsögn svo aðsóknin verði mögulega ekki slæm?
Valur: “Það hefur jú viðgengist lengi að gefa íslenskum myndum forgjöf. Friðrik Þór Friðriksson viðurkennir þetta í viðtali sínu í Mannlíf þar sem hann segir að þegar hann var gagnrýnandi hafi hann ávallt haft það í huga að menn hafi verið að veðsetja húsin sín.
En íslensk kvikmyndagerð er löngu búin að slíta barnsskónum og ef hún fær alltaf forgjöf er í raun búið að gengisfella alla gagnrýni. Þannig tekur fólk lítið mark á gagnrýni á íslenskar bíómyndir og vonlaust er fyrir gagnrýnendur að hampa þeim myndum sem í raun eiga það skilið þegar öllum er hampað jafnt. Gagnrýnendur eru þannig búnir að afsala sér þeim áhrifamætti að hvetja fólk til að sjá góðar bíómyndir.”
Svanur: Í kjölfar ummæla Friðriks Þórs Friðrikssonar um sjálfan þig í tímaritinu Mannlíf sagðir þú upp störfum á DV. Hvers vegna gerðirðu það, tókstu ummælin svona nærri þér? Ekki ætlarðu að segja mér að þú sért svona hörundssár maður – maður myndi halda annað sé mið tekið að kraftmiklum og oft óvægnum skrifum þínum?
Valur: “Ég er ekki svona hörundssár. Ástæðan er önnur. Ég hafði þá þegar staðið í deilum við aðra íslenska kvikmyndagerðarmenn, þar sem sumir tóku mjög illa í að ég hafi verið að gagnrýna Friðrik Þór. En í raun var ég ekki að gagnrýna hann heldur mynd hans Niceland. Þetta virtist fara framhjá mörgum. En ástæðan var fyrst og fremst sú að ég var og er að reyna að koma mér á framfæri sem rithöfundur. Gagnrýnin var aukabúgrein og áhugamál. Hinn fullkomni gagnrýnandi ætti ekki að hafa ætlanir um að sjálfur hasla sér völl á listasviðinu, sérstaklega ekki á litlu landi eins og Íslandi, því slíkt gæti alltaf litað skoðanir hans. Eftir þau viðbrögð sem ég fékk við dómnum um Niceland var ég hræddur um að verða varkárari í framtíðinni, sem hefði gert mig vanhæfan sem gagnrýnanda. Ég var þá að fara að vinna að bók og fannst hvorki rétt né viturt að halda áfram að skrifa gagnrýni þangað til hún kæmi út. Það væri pínu eins og þegar saksóknari lendir í fangelsi.”
Svanur: Stíll þinn sem gagnrýnandi er að mínu mati afar sérstakur. Þú kemst skemmtilega að orði, vekur upp undrun og oft hlátur eða hneykslan. Ertu meðvitaður um stíl þinn, gerir þú viljandi í því að reyna að vekja athygli, stuða fólk jafnvel. Ég tek sem dæmi að þú gafst óskarsverðlaunamyndinni Lost in Translation, í leikstjórn Sofiu Coppola, hauskúpu á meðan flestir aðrir fjölmiðlar lofuðu myndina í hástert. Hvað viltu segja lesendum fyrst og fremst þegar þú skrifar kvikmyndagagnrýni?
Valur: “Hvort það eigi eða eigi ekki að sjá mynd og þá hvers vegna/hvers vegna ekki. Bestu dómarnir eru þannig skrifaðir að það geti verið gaman að lesa þá án þess að hafa séð myndina eða ætlað sér að sjá hana, og það hafði ég að leiðarljósi. Lost in Translation fannst mér leiðinleg mynd. En allt sem ég segi reyni ég að segja eins skýrt og ég get, annað meikar ekki sens.
Svanur: Hvað er næst á döfinni hjá Val Gunnarssyni?
Valur: “Akkúrat núna er ég að fara á fyllerí, enda kvöldið fyrir Vappú, mestu fylleríshátíð Finnlands. Á þriðjudag (3. maí) held ég áleiðis frá Helsinki til Lapplands og svo til Múrmansk. Allt er þetta gert í þágu listarinnar þar sem ég er að skrifa bók. Tja, nema kannski fylleríið.”
Svanur Már Snorrason
Háskóli Íslands - almenn bókmenntafræði
05.00.65 - Gagnrýni og ritdómar
Kennarar: Ástráður Eysteinsson og Auður Aðalsteinsdóttir
Vor 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli