föstudagur, 3. september 2010

Séð og Heyrt Móment 26


SO NICE!


Á sjóðheitum sumardegi sit ég úti á svölum og baða mig í sólinni og les viðtal eftir sjálfan mig.

Innan úr stofunni berast fallegir og tregafullir tónar. Tomasz Stanko Quintet spilar So
Nice og um mig fer sæluhrollur.

Stuttu síðar sé ég mig tilneyddan vegna þorsta að standa upp og fá mér að drekka.
Þamba vatnið en hugsa hversu betur það færi stemningunni að fá sér gin og tónik.

Sest niður aftur, en þá er lagið á enda. Fer því aftur inn í stofu og spila það á ný.

Framkalla minningar sem ég kannast ekkert við og sakna þeirra sem ég man ekki eftir.

Það breytist ýmislegt.

Tregafullur blásturinn í laginu og heitri golunni fær mig til að halla höfðinu
skáhallt upp að hvítum veggnum á svölunum, loka augunum og leyfa hitanum að gera upp
gamlar sakir.

Fáir skýjahnoðrar sjáanlegir en ég veifa þeim glaðlega og velti því fyrir mér
hvernig það væri að fljúga um á skýi. Pæli í því hversu mörg hestöfl skýin
eru og hvort þau séu beinskipt eða sjálfskipt.

Hugsanirnar eru rofnar af háværu mótorhjóli sem geysist alltof hratt út götuna og
tekst síðan á loft við enda hennar og þá hlær ökumaðurinn hátt og glaðlega
líkt og hann hafi verið að losna úr fjötrum.

Ég hristi hausinn, læt braka í hálsinum og spyr sjálfan mig hvort eitthvað geti
verið áþreifanlegra en þessi stund.

So Nice.

Séð og Heyrt, 34 tbl. 2010

Engin ummæli: