sunnudagur, 20. júní 2010

Séð og Heyrt Móment 22


NÝVÖKNUÐ OG ÓMÁLUÐ

„Ég geri ráð fyrir að þú viljir það sama?,” spurði hún sinni silkimjúku röddu og saup síðan á rándýru kampavíninu sem hann pantaði upp á hótelherbergið.

„Ég vil það sama og í fyrra og það sama og fyrir fjórum árum. Vil það sem ég fæ ekki.”

Hún horfði á hann, falleg, vel tilhöfð og lyktin af henni dásamleg: „Þú ert skrýtinn án þess að vera skrýtinn.“

Hann með sitt þriggja daga skegg, í bol og gallabuxum, hefði eins getað verið körfuboltaþjálfari frekar en auðugur framkvæmdastjóri úr
nikótíngeiranum.

„Og ég er giftur en verð að hitta þig einu sinni á ári – finnst þér það óeðlilegt, ógeðslegt?“

Hún horfði á hann með blöndu af hrifningu, aðdáun og glettni. „Það er ekkert ógeðfellt eða óeðlilegt við þig. Eigum við að byrja?“

Hann tæmdi úr viskíglasinu, var kominn ofan í hálfa Jameson, drap í franskri sígarettunni, þeirri sautjándu þann daginn. „Já, byrjum,“ sagði hann og eftirvæntingin í þægilegri en pínu rámri flauelsröddu hans leyndi sér ekki.

Hún settist við spegilinn á stóru baðherberginu og tók við að hreinsa framan úr sér alla málningu.

„Þú verður fallegri og fallegri með hverri mínútu.”

Að verkinu afloknu bað hún hann að yfirgefa baðherbergið og fór svo í heita sturtu. Kom síðan fram með blautt hárið íklædd silkislopp.

Hann starði á hana, frá sér numinn af fegurð hennar. „Með því að taka af þér málninguna og skola af þér ilmvatnið hefurðu endurfæðst sem fullkomin vera. Konur eru fallegastar ómálaðar og nývaknaðar. Ég hlakka til að sofna og vakna við hlið þér.“

„Þú ert skrýtinn án þess að vera skrýtinn. Og þú borgar.“

(Séð og Heyrt, 22. tbl. 2010)

Engin ummæli: