föstudagur, 31. desember 2010

Frá árinu 1998


Kápan stóð mér alltaf til boða. En ég vildi ekki þessa kápu, ég fyrirleit hana. Í mínum huga stóð hún fyrir allt það slæma í ættinni, hræsni, hroka, snobb og fyrirlitningu á litla manninum.

Það hverfur mér seint úr minni þegar Sævar frændi sagði við föður minn að nú væri kominn tími til að njóta ávaxtanna, nú væru mögru dagarnir að baki, allt hefði breyst til batnaðar og þeirra skynsömu áætlanir varðandi verksmiðjuna hefðu allar gengið upp. Mér varð á að spyrja um hvað þeir væru að tala en fékk þau svör ein að ég kæmist að því með tíð og tíma, þolinmæðin yrði um sinn að vera minn fylgifiskur.
Á mínum mörgu siglingum með skemmtiferðaskipum um Karíbahafið kynntist ég mörgu athyglisverðu fólki. Flestum er ég fyrir löngu búinn að gleyma, en einum hjónum sem komu alla leið frá Nýja-Sjálandi gleymi ég aldrei á meðan ég lifi. Það var eitthvað við þessi hjón sem ég get ekki almennilega áttað mig á sem dró mig að þeim eins og býflugu að hunangi. Ég kynntist þeim ágætlega og þau virtust frekar hissa og jafnvel upp með sér að ungur piltur alla leið ofan af Íslandi hefði áhuga á að kynnast þeim. Við nánari kynni komst ég að því að þau voru á flótta undan leyniþjónustu nasista vegna tengsla þeirra við Wallenberg og félaga. Ég reyndi að umgangast þau sem mest og hafði mikinn áhuga á að heyra álit þeirra og skoðanir á þeirri hörmung sem styrjöldin var orðin að og mér lék hugur á að vita hvort þau vissu eitthvað um þátt Íslands í henni. Þau brostu góðlátlega að þessum spurningum mínum og svöruðu sem svo að Ísland væri nú engin miðja alheimsins þótt lambakjötið þaðan væri gott.

“Þennan hníf verður þú að passa eins og sjáaldur augna þinna” sagði Alexander gamli þegar hann var að gefa upp öndina í fangaklefanum í Kaíró sem ég hafði mátt hírast í í þrjú löng ár. Ég var að því kominn að gefast upp þegar hann léði mér hnífinn, ég fann það strax að það var eitthvað magnað við þennan hníf, eitthvað óútskýranlegt.

Brot úr bókinni: “Eyjólfur Adam – með storminn í bakið”, sem kemur út um jólin.

Engin ummæli: