Lena: Hæ, Rauða Torgið, hvernig get ég hjálpað þér?
Óbó: Hæ, hvaða hjálp er á boðstólum?
Lena: Fer allt eftir vandamálinu, eða vandamálunum.
Óbó: Já, auðvitað. Mitt vandamál, eða öllu heldur mín vandamál snúast að miklu leyti um tilvistarkreppu sem ég á til í að lenda, ja, svona af og til. Veit þá ekki alveg hvert þetta allt stefnir og hvaða tilgang þetta hefur allt.
Lena: Þetta líf?
Óbó: Já, ætli það ekki, að það sé einmitt þetta líf.
Lena: Þú veist að þetta er Rauða Torgið, þú veist væntanlega hvað við gerum?
Óbó: Já, ja, já, en maður getur alltaf vonast til að fá svör á stöðum sem maður gerir kannski ekki í fyrstu ráð fyrir að fá svör á.
Lena: Það er hægt að fá margt á stöðum þar sem þú býst einmitt ekki við að fá margt, eins og til dæmis svör við erfiðum, flóknum og opnum spurningum. Ég er alveg að fatta hvað þú ert að meina. Ég hef leikið í leikriti.
Óbó: Ég líka. Það var gaman. Reyndar klikkaði allt sem klikkað gat en þá fórum við bara í spunann og gerðum svona líka stormandi lukku. Vorum kölluð sjö sinnum fram að aflokinni sýningu.
Lena: Mín reynsla er mjög svipuð og þín. Allt að því eins. Nema að mig minnir að leikhópurinn hafi verið kallaður fram átta eða sex sinnum að aflokinni sýningu.
Óbó: Það er gott að tala við þig. Mér finnst eins og ég þekki þig og hafi þekkt þig lengi.
Lena: Þetta er nú orðið býsna langt símtal. Og mér finnst ég hafa kynnst þér nokkuð vel.
Óbó: Sko, ég er frekar óframfærinn einstaklingur, nema þegar ég stíg á svið og fer með texta af fingrum fram, en ég á bæði miða í leikhús fyrir tvo og einnig á ég miða fyrir tvo á leiklistarnámskeið. Ég keypti aðgang fyrir tvo því í dag þekki ég engan sem væri til í að fara á svoleiðis námskeið með mér.
Lena: Var það þess vegna sem þú keyptir fyrir tvo einstaklinga á leiklistarnámskeiðið?
Óbó: Af því að ég þekkti engan.
Lena: Mig langar að koma með þér bæði í leikhús og á leiklistarnámskeiðið þótt ég viti ekkert um þig og viti ekki hvernig þú lítur út. Það er eitthvað við þetta símtal sem hefur virkað vel á mig.
Óbó: Ég segi það sama. Við förum saman. Ætlarðu þá að hætta í þessari vinnu?
Lena: Fjandakornið nei, hér er vel borgað og starfið er auðvelt. Þú þarft bara að þykjast. En hvað gerir þú?
Óbó: Mig hlakkar til að hitta þig. Ég er þjóðskjalavörður en í frístundum hef ég gaman að setja saman eða líma saman flugvélamódel.
Lena: Það hefur mér alltaf fundist rosalega skemmtilegt.
Óbó: Að setja saman flugvélamódel eða vera þjóðskjalavörður?
Lena: Bæði. Láttu mig fá númerið þitt.
Óbó: Gemsinn minn er bilaður og heimasíminn er lokaður. Má ég bara ekki ná í því eftir vinnu í kvöld?
Lena: Jú, ef þú kemur labbandi, ég verð nefnilega þá búin að vera í símanum í allan dag. Og þú verður líka að vera búinn að borða kvöldmat. Þú þarft ekkert að fara í sturtu. Þetta er eiginlega alveg við hliðina á Ljósmyndavörum ehf.
Óbó: Ég rata þangað. Frábært! Oh, hvað ég hlakka til að hitta þig.
Lena: Þetta gæti orðið eitthvað annað.
Símtali slitið en sambandi ekki.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli