Morgunblaðið. Laugardaginn 30. júlí, 2005 - Fjölmiðlar
Ljósvakinn
Púú á Seinfeld!
Sjónvarpsstöðinni Sirkus var nýlega hleypt af stokkunum en hún kemur í stað PoppTíví. Sitt sýnist hverjum um stöðina og það verður auðvitað að gefa henni tíma til að koma sér vel fyrir í allri fjölmiðlaflórunni hér á landi.
Endursýningar á gömlum gamanþáttum eru á dagskránni og ber þar að nefna þættina um hina ótrúlega vinsælu Vini, Friends. Það er alltaf hægt að setjast niður og horfa á þá þætti þótt maður hafi séð þá margoft áður. Þetta eru þægilegir og vinalegir þættir sem engan trufla og eru í raun hin besta afþreying.
Það sama get ég þó ekki sagt um Seinfeld-þættina, sem Sirkus hefur einnig tekið til sýninga. Hér eru á ferð, að mínu mati, þeir allra lélegustu og leiðinlegustu gamanþættir sem framleiddir hafa verið og hafa þeir margir lélegir og leiðinlegir komist í loftið í gegnum tíðina.
Það er alveg sama hversu mörg tækifæri ég hef gefið Seinfeld og félögum - aldrei hefur mér svo lítið sem stokkið bros á vör þegar ég hef horft á þessa þætti.
Aukapersónurnar eru vissulega nokkuð skrautlegar og yfirskyggja sjálfan Seinfeld auðveldlega en eru þó hreint út sagt hundleiðinlegar! Sjálfur er Seinfeld ömurlegur leikari sem hefur nákvæmlega engan sjarma né útgeislun og brandararnir, ef brandara skyldi kalla, sem hann lætur út úr sér í þáttunum eru alveg einstaklega ófyndnir.
Mér er gjörsamlega fyrirmunað að skilja að nokkur sála hafi borgað sig inn á skemmtun hans hér á landi um árið, sem að ég held að hafi verið haldin í Háskólabíói. Ég hefði heldur viljað horfa á fjögurra klukkustunda langan þátt um fornleifauppgröft á Kirkjubæjarklaustri heldur en að sitja undir sýningu með Seinfeld. Og ekki hefði ég borgað mig inn á þá sýningu þótt spænski rannsóknarrétturinn hefði risið upp frá dauðum og pyntað mig með tólum sínum og tækjum samfleytt í margar klukkustundir!
En kannski er ég bara með svona lélegan og óþroskaðan húmor að ég skil einfaldlega ekki Seinfeld - að hann sé í raun snillingur með afar sérstakan og djúpan húmor sem meðalmaður eins og ég einfaldlega nái ekki að skilja?
Glætan!
Svanur Már Snorrason
4 ummæli:
Vá hvað ég er sammála þér með seinfeld- drulluleiðinlegir þættir, næstum jafn leiðinlegir og deep purple!!
Manni er alveg sama um karakterana... nákvæmlega sama!
Jæja nú fer að styttast í ættarmót!!
Hva, hvað segirðu Kanileðlufrænka, var leiðinlegt á Deep Purple? En hin hljómsveitin sem hitaði upp? Líka leiðinleg? Kv, Svanur
Nei hún var góð, hinir voru leiðinlegir... Er glæpur að segja þetta??
Neibb, skoðanir þínar teljast varla sem glæpur eða glæpir. Kv, Svanur
Skrifa ummæli