Nú er kortér í kosningar
Man einhver eftir kortér í þrjú gæjanum?
Eftir að opnunartími skemmtistaða var gefinn frjáls um síðustu aldamót hefur eiginlega ekkert spurst til kortérs í þrjú gæjans. Nú getur liðið áhyggjulaust haldið áfram að skemmta sér fram á morgun án þess að eiga það á hættu á að vera hent út. Tíminn til þess að að ná sér í maka er því talsvert rýmri en áður.
Aðstæður kortérs í þrjú gæjans voru á hinn bóginn ekki spennandi þegar honum var vísað út af skemmtistaðnum og útlitið nokkuð dökkt, að ná sér í píu. Þeir sem voru ölvaðastir og örvæntingafyllstir drógust eins og mý að mykjuskán að þeim dömum sem ekki voru búnar að krækja sér í gæja. Allt skyldi reynt til að ná sér í bólfélaga og eftir því sem örvæntingin varð meiri lækkuðu kröfurnar. Oft endaði kortér í þrjú gæjinn því með einhverri sem hann vildi lítið kannast við daginn eftir. Stundum þurfti hann að sætta sig við pulsu og beint heim að sofa, en frá því sagði hann sjaldnast.
Orðsporið sem fór af kortér í þrjú gæjanum taldist ekki merkilegt og hann þótti yfirleitt standa sig langt undir væntingum þegar á hólminn var komið. En skyldi þessi umtalaði gæji hafa runnið sitt skeið? Ég held ekki, því viðlíka hegðun má núna sjá víða í samfélaginu þótt undir öðrum formerkjum sé.
Hvað mig snertir finnt mér kortér í þrjú gæjinn hafa endurholdgast í stjórnmálamönnum sem standa í kosningabaráttu. Enda er nú stutt í kosningar og naumur tími til stefnu að krækja sér í atkvæði. Allt um kring og með stuttum fyrirvara sprettur fram fólk sem hefur haft sig lítið í frammi á liðnu kjörtímabili í þeim sama tilgangi og áður, að ná sér í atkvæði. Það lýsir eigin kostum, fullyrðir að það muni standa sig betur en hinir og loforðin eru í senn ölvuð og örvæntingafull. En það er eitthvað sem segir mér að efndirnar verði minni – jafnvel engar!
Nú er kortér í kosningar og allir kosningastjórnmálamennirnir á útopnu. Hvað svo sem við veljum skulum við vona að við sitjum ekki uppi með kortér í þrjú gæjann næstu fjögur árin.
Víkurfréttir, 25. maí 2006
3 ummæli:
Korter í 3 gæjanum lifir enn góðu lífi, líka korter í 3 píur- nema hvað að núna er það kannski korter í 7...
En ég held að ég gæti verið svona korter í 3 kjósandi þar sem ég veit ekkert hvað ég á að kjósa og það er minna en korter í kosningar-... Er orðin ansi þreytt á þessum auglysingum og loforðum sem ég hef litla trú á að verði efnd..
það eru engar korter í þrjú leðurblökur. Kjósið leðurblökuflokkinn og við munum byggja nýja örykja og elli hella fyrir leðurblökur. Við munum ekki skattleggja blóð sem er ellilífeyrir. Við munum lengja svefntímann og minnka ljósið í heiminum. X-L
Nafnlaus, þetta eru frábærar tillögur og ég styð Leðurblökuflokkinn heilshugar. Áfram leðurblökur!
Kv, Svanur
Skrifa ummæli