mánudagur, 14. maí 2007

Ljósvakinn I

Morgunblaðið. Mánudaginn 22. ágúst, 2005 - Fjölmiðlar
Ljósvakinn


Næst á dagskrá er klám


Mamma mín er með áskrift að fullt af stöðvum úti í heimi í gegnum breiðband Símans og kostar það svipað á mánuði og það sem maður er neyddur til að borga fyrir RÚV.

Mamma er með áskriftarpakka þar sem á annan tug stöðva er í boði en hægt er að kaupa dýrari pakka með mun fleiri stöðvum og í þeim pakka er boðið upp á klám. Ég veit ekki hvernig sú stöð er, hvort þar sé boðið upp á ljósbláar myndir eða grófari.

Það er ekki erfitt að nálgast klám - það flæðir um netið, búðir ýmiss konar bjóða upp á klámblöð og svo getur fólk alltaf laumupúkast á leigunum þótt mér sé sagt að sá bissness sé að deyja drottni sínum vegna þess hversu auðvelt er að niðurhala klámi á tölvuna. Þeir sem hafa áhuga eiga því í litlum vandræðum með að nálgast klám. Mér finnst samt einhvern veginn fáránlegt að boðin sé áskrift að klámstöð í gegnum breiðband Símans - finnst það hálf súrrealískt að geta keypt í einum og sama pakkanum barnaefni, fræðsluefni, kvikmyndir, fréttastöðvar og klám.

Hins vegar er það staðreynd að flest sem lýtur að nekt og kynlífi í kvikmyndum hefur gjörbreyst á síðustu árum og gerðar hafa verið kvikmyndir þar sem landamærin á milli klámmynda og svokallaðra venjulegra kvikmynda hafa verið þurrkuð út. Hvort allt klámefnið hafi haft svo mikil áhrif á fólk að það sé í dag ónæmt fyrir því sem áður hneykslaði er ekki auðvelt að segja til um.

Þegar ég var 11 ára gamall var sýndi RÚV kvikmyndina Everything You Always Wanted to Know About Sex* But Were Afraid to Ask, eftir Woody Allen. Sýning myndarinnar þótti þá hreinræktað hneyksli. Nú, rúmum tuttugu árum síðar, myndi sýning þessarar myndar litla athygli vekja og fáa hneyksla.

Hins vegar myndi kvikmynd á borð við 9 Songs eftir Michael Winterbottom væntanlega hneyksla einhverja enda er "allt sýnt" í þeirri mynd, þótt erfitt sé að finna tilganginn með því. Ekki styður það söguna, sem er ekki neitt neitt, og þetta hefur maður allt séð áður í klámmyndum hvort sem er. Ég á erfitt með að skilja tilganginn með slíkum myndum en kannski er þetta póstmódernisminn í sinni tærustu mynd?

Svanur Már Snorrason

1 ummæli:

Unknown sagði...

Sjónvarpsstöðin Sirkus sýndi myndina 9 songs einmitt fyrir réttum tveimur mánuðum minnir mig. Ég heyrði í fólki sem varð svolítið hneikslað, en um leið og það fékk að heyra að sýning myndarinnar hefði verið í tengslum við sýningar á öðrum "svipuðum" myndum, þá virtist málið snúa öðruvísi við.

- ég og Lena Vald gerðum einusinni könnun í Félagsfræðiáfanga þar sem við gerðum símakönnun. Í henni fólst meðal annars að fletta uppá orði í símaskránni, og að gefa álit sitt á því að RÚV ætlaði sýna ljósbláar myndir eftir dagskrárlok.

Almennt tók fólk mjög vel í símaskrárstuntið, og var sátt ef það var minna en mínútu að finna númerið sem um var beðið, en klámið vildi ekki nokkur maður.