miðvikudagur, 30. maí 2007

Sýning í Gúttó


Sælt verið fólkið, til sjávar og sveita. Ég og systurnar Bryndís og Edda Svavarsdætur ætlum að halda sýningu í Gúttó dagana 31. maí til 10 júní. Er þetta í tengslum við Bjarta daga sem hefjast einmitt á morgun. Byrjar sem sagt á morgun, opnar klukkan 18. Ég verð með mínar ljósmyndir sem hafa hangið uppi á bókasafninu undanfarið en þær systur með olíumálverk. Ég er svo lélegur í að kynna sjálfan mig (vantar allt pr í strákinn!) að engin hafa boðskortin verið gerð og öll almenn kynning hef ég látið síga á herðar þeirra sem sjá um Bjarta daga. En ég vonast til að sjá sem flesta sem ég þekki á morgun, en annars þá kíkiði bara á sýninguna einhverja hina dagana. Það er opið um helgar frá 13 til 18 og á virkum dögum frá 15 til 20. Boðið verður uppá léttar veitingar, en okkur var hins vegar bannað að bjóða uppá áfengi, þetta er jú Gúttó!
Bestu kveðjur, Svanur

þriðjudagur, 29. maí 2007

Ljósvakinn II

Morgunblaðið. Laugardaginn 30. júlí, 2005 - Fjölmiðlar
Ljósvakinn


Púú á Seinfeld!


Sjónvarpsstöðinni Sirkus var nýlega hleypt af stokkunum en hún kemur í stað PoppTíví. Sitt sýnist hverjum um stöðina og það verður auðvitað að gefa henni tíma til að koma sér vel fyrir í allri fjölmiðlaflórunni hér á landi.

Endursýningar á gömlum gamanþáttum eru á dagskránni og ber þar að nefna þættina um hina ótrúlega vinsælu Vini, Friends. Það er alltaf hægt að setjast niður og horfa á þá þætti þótt maður hafi séð þá margoft áður. Þetta eru þægilegir og vinalegir þættir sem engan trufla og eru í raun hin besta afþreying.

Það sama get ég þó ekki sagt um Seinfeld-þættina, sem Sirkus hefur einnig tekið til sýninga. Hér eru á ferð, að mínu mati, þeir allra lélegustu og leiðinlegustu gamanþættir sem framleiddir hafa verið og hafa þeir margir lélegir og leiðinlegir komist í loftið í gegnum tíðina.

Það er alveg sama hversu mörg tækifæri ég hef gefið Seinfeld og félögum - aldrei hefur mér svo lítið sem stokkið bros á vör þegar ég hef horft á þessa þætti.

Aukapersónurnar eru vissulega nokkuð skrautlegar og yfirskyggja sjálfan Seinfeld auðveldlega en eru þó hreint út sagt hundleiðinlegar! Sjálfur er Seinfeld ömurlegur leikari sem hefur nákvæmlega engan sjarma né útgeislun og brandararnir, ef brandara skyldi kalla, sem hann lætur út úr sér í þáttunum eru alveg einstaklega ófyndnir.

Mér er gjörsamlega fyrirmunað að skilja að nokkur sála hafi borgað sig inn á skemmtun hans hér á landi um árið, sem að ég held að hafi verið haldin í Háskólabíói. Ég hefði heldur viljað horfa á fjögurra klukkustunda langan þátt um fornleifauppgröft á Kirkjubæjarklaustri heldur en að sitja undir sýningu með Seinfeld. Og ekki hefði ég borgað mig inn á þá sýningu þótt spænski rannsóknarrétturinn hefði risið upp frá dauðum og pyntað mig með tólum sínum og tækjum samfleytt í margar klukkustundir!

En kannski er ég bara með svona lélegan og óþroskaðan húmor að ég skil einfaldlega ekki Seinfeld - að hann sé í raun snillingur með afar sérstakan og djúpan húmor sem meðalmaður eins og ég einfaldlega nái ekki að skilja?

Glætan!

Svanur Már Snorrason

sunnudagur, 27. maí 2007

Var langt í þennan texta? Hvar beygðirðu fyrst?

Dr. Sýngmann, alheimsgrósséri, sem nánar verður vikið að á eftir, hefur haft með sér til Íslands þrjá menn, er Umbi nefnir beitarhúsamenn. Þeir eru lærisveinar Dr. Sýngmanns og eru einnig svokallaðir lífmagnarar. Þeirra málpípa er Saknússemm II og virðist sem hann sé þeirrar skoðunar að maðurinn hati sjálfan sig svo mikið að hann verði ávallt að vera í einhverju stríði, en um leið sé þetta mikla hatur tákn um mjög djúpa ást mannsins á sjálfum sér:

Umbi: Hversvegna viljið þér drepa þessa fugla?
Saknússemm 2.: Af því við elskum þá Sir. (147)

Æðislega falleg og góð systkini


föstudagur, 25. maí 2007

Alveg satt


Prestur: Hvað á barnið að heita?


Móðir: Hróbjartur.


Prestur: Nei.


Móðir: Ha, viltu ekki að hann verði skírður Hróbjartur?


Prestur: Nei.


Móðir: Hvað nafn þá?


Prestur: Róbert.


Móðir: Jæja þá, ég get fallist á það. Róbert skal hann heita.


Og Róbert var hann skírður. Þessi atburður átti sér stað árið 1968. Mögulega í Hafnarfirði. Alveg satt. En ég var auðvitað ekki fæddur þegar þetta átti sér stað svo samtalið á milli prests og móður er máske ekki alveg nákvæmt en í grundvallaratriðum var það svona samkvæmt áreiðanlegum heimildum mínum. Og ég gef ekki upp minn heimildarmann. Ég bið ykkur öll vel að lifa. Þykir vænt um ykkur öll. Á morgun verður gott veður. Skýin munu mynda skrýtin form sem munu halda ykkur við efnið. Ekki missa sjónar á þeim.

fimmtudagur, 24. maí 2007

miðvikudagur, 23. maí 2007

þriðjudagur, 22. maí 2007

Pælingar 7

Dauði yfir Framsókn!

Halldór Ásgrímsson tók ábyrgð á hrakförum Framsóknarflokksins í sveitastjórnarkosningunum í síðasta mánuði og ákvað í framhaldi af því að hætta í pólitík og er því maður að meiri.

Þvílíkt helvítis kjaftæði!

Þegar Halldór knúði fram að hann tæki við sem forsætisráðherra af Davíð Oddssyni á miðju kjörtímabili eftir alþingiskosningarnar árið 2003 var hans æðsta markmiði í pólitík náð.

Eftir að Halldór tók við var strax ljóst að hann var enginn Davíð og þótt segja megi margt misjafnt um Davíð þá var hann þó ávallt líflegur (skrautlegur). Það lak hins vegar fýlan af Halldóri. Ég held að fljótlega eftir að Halldór settist í forsætisráðherrastólinn hafi hann gert sér grein fyrir hversu erfitt þetta starf er; erfiðasta ráðuneytið ásamt heilbirgðisráðuneytinu. Þegar svo alda afhroðs skall á Framsóknarflokknum í sveitastjórnarkosningunum sá Halldór þar útgönguleið sem myndi kannski færa honum virðingu. Nú skyldi kallinn axla ábyrgðina - en slíkt þekkist lítt í íslenskri stjórnmálasögu - og ganga uppréttur út.

Staðreyndin er hins vegar sú að Halldór er einfaldlega orðinn gamall og fótafúinn maður í pólitíkinni - andsetinn af spillingu; rúinn trausti þjóðarinnar sem ekkert vildi með hann hafa, og hann gat bara ekki meir. Hann tók enga ábyrgð heldur nýtti sér ódýra útgönguleið og nú getur hann rólegur baðað sig upp úr kvótasilfrinu. Sest kannski í helgan stein í Seðlabankanum með Davíð. Og þar geta þeir félagar rifjað upp góða tíma - sannfært hvorn annan um hversu góðir landsfeður þeir voru - á meðan almenningur heldur áfram að borga undir rassgatið á þeim.

En pælið í einu: síðasta verk Halldórs var að reyna að koma Finni Ingólfssyni að sem formanni flokksins. Hugsa sér! Að vilja koma að manni sem oftlega hefur verið talin táknmynd og holdgervingur græðgi, spillingar og sérhagsmuna. Nei, bíðið nú við, þetta er auðvitað rökrétt hjá Halldóri. Ofantaldar táknmyndir eru auðvitað það sem Framsóknarflokkurinn stendur fyrir.

Þessi agnarsmái flokkur er búinn að vaða alltof lengi uppi og nauðga lýðræðinu, landinu og hinum almenna borgara þess.

Dauði yfir Framsókn!

Víkurfréttir, 22. júní 2006

mánudagur, 21. maí 2007

Ljósrituð hegðun

Þurftir ekki að taka ljósrit af hegðun þinni

Fór ekki framhjá neinum

Þegar önnur vatnskannan splundraðist greip um sig myrkfælni

Taktu ljósrit, nei, ljósmynd, og málaðu eftir henni

Mundu eftir að láta ramma hana inn

föstudagur, 18. maí 2007

STYX

Þegar píslarsögu síra Jóns Magnússonar ber á góma er ekki óalgengt að mönnum verði á að tala um veröld myrkurs og hindurvitna, galdrafár, ofsóknir og ofstæki. Margir sjá tímabilið, sem frásögn síra Jóns spannar, eins og einn risastóran bálköst í myrkri aldarinnar þar sem konum og körlum er varpað á bálið í refsingarskyni fyrir afbrot sem okkur, er nú lifum, finnast léttvæg og lítilfjörleg.

I Just Can´t Get Enough

Þessir menn sem mæta aldrei saman í viðtöl og eiga í verulegum erfiðleikum með tjáskipti innan hljómsveitarinnar. Halda áfram á einhvern hátt að galdra fram frábæra tónlist ár eftir ár, plötu eftir plötu. Ég mæri þá og mælist með að lesendur þessarar síðu, þeir fjölmörgu, kynni sér þetta band út í hörgul. Þeir eru betri en Justin Timberlake og þeir eru betri (finnst mér) en Björk. Hins vegar er Sigurrós uppáhalds hljómsveit Dave Gahan, söngvara Depeche Mode og hann segir Sigurrós hafi með sinni tónlist hjálpað honum að ná betri tökum á andlegri líðan sinni. Til hamingju Ísland. Hlustið. Þið verðið ekki fyrir vonbrigðum ef þið gefið hljómsveitinni tækifæri. Engin vonbrigði.









miðvikudagur, 16. maí 2007

Hvergi nærri - - - - - - - -


Tólf hundruð þúsund sekúndum fyrir síðasta andartakið hélt ég á kerti merktu kvenfélagi
Á því stóð eitthvað um neikvæða mismunun og það að baráttunni væri hvergi nærri lokið
En kertið var hins vegar fallegt og ég tímdi aldrei að bera eld að því
Kerti sem hafa engar áletranir eiga miklu fremur skilið að brenna
Kertavaxið má ekki borða því þá hættir maður að stækka
En hvaða máli skiptir það?
Richard Pryor er dáinn

þriðjudagur, 15. maí 2007

Títus á Torginu - trogið fullt af von

Lena: Hæ, Rauða Torgið, hvernig get ég hjálpað þér?

Óbó: Hæ, hvaða hjálp er á boðstólum?

Lena: Fer allt eftir vandamálinu, eða vandamálunum.

Óbó: Já, auðvitað. Mitt vandamál, eða öllu heldur mín vandamál snúast að miklu leyti um tilvistarkreppu sem ég á til í að lenda, ja, svona af og til. Veit þá ekki alveg hvert þetta allt stefnir og hvaða tilgang þetta hefur allt.

Lena: Þetta líf?

Óbó: Já, ætli það ekki, að það sé einmitt þetta líf.

Lena: Þú veist að þetta er Rauða Torgið, þú veist væntanlega hvað við gerum?

Óbó: Já, ja, já, en maður getur alltaf vonast til að fá svör á stöðum sem maður gerir kannski ekki í fyrstu ráð fyrir að fá svör á.

Lena: Það er hægt að fá margt á stöðum þar sem þú býst einmitt ekki við að fá margt, eins og til dæmis svör við erfiðum, flóknum og opnum spurningum. Ég er alveg að fatta hvað þú ert að meina. Ég hef leikið í leikriti.

Óbó: Ég líka. Það var gaman. Reyndar klikkaði allt sem klikkað gat en þá fórum við bara í spunann og gerðum svona líka stormandi lukku. Vorum kölluð sjö sinnum fram að aflokinni sýningu.

Lena: Mín reynsla er mjög svipuð og þín. Allt að því eins. Nema að mig minnir að leikhópurinn hafi verið kallaður fram átta eða sex sinnum að aflokinni sýningu.

Óbó: Það er gott að tala við þig. Mér finnst eins og ég þekki þig og hafi þekkt þig lengi.

Lena: Þetta er nú orðið býsna langt símtal. Og mér finnst ég hafa kynnst þér nokkuð vel.

Óbó: Sko, ég er frekar óframfærinn einstaklingur, nema þegar ég stíg á svið og fer með texta af fingrum fram, en ég á bæði miða í leikhús fyrir tvo og einnig á ég miða fyrir tvo á leiklistarnámskeið. Ég keypti aðgang fyrir tvo því í dag þekki ég engan sem væri til í að fara á svoleiðis námskeið með mér.

Lena: Var það þess vegna sem þú keyptir fyrir tvo einstaklinga á leiklistarnámskeiðið?

Óbó: Af því að ég þekkti engan.

Lena: Mig langar að koma með þér bæði í leikhús og á leiklistarnámskeiðið þótt ég viti ekkert um þig og viti ekki hvernig þú lítur út. Það er eitthvað við þetta símtal sem hefur virkað vel á mig.

Óbó: Ég segi það sama. Við förum saman. Ætlarðu þá að hætta í þessari vinnu?

Lena: Fjandakornið nei, hér er vel borgað og starfið er auðvelt. Þú þarft bara að þykjast. En hvað gerir þú?

Óbó: Mig hlakkar til að hitta þig. Ég er þjóðskjalavörður en í frístundum hef ég gaman að setja saman eða líma saman flugvélamódel.

Lena: Það hefur mér alltaf fundist rosalega skemmtilegt.

Óbó: Að setja saman flugvélamódel eða vera þjóðskjalavörður?

Lena: Bæði. Láttu mig fá númerið þitt.

Óbó: Gemsinn minn er bilaður og heimasíminn er lokaður. Má ég bara ekki ná í því eftir vinnu í kvöld?

Lena: Jú, ef þú kemur labbandi, ég verð nefnilega þá búin að vera í símanum í allan dag. Og þú verður líka að vera búinn að borða kvöldmat. Þú þarft ekkert að fara í sturtu. Þetta er eiginlega alveg við hliðina á Ljósmyndavörum ehf.

Óbó: Ég rata þangað. Frábært! Oh, hvað ég hlakka til að hitta þig.

Lena: Þetta gæti orðið eitthvað annað.

Símtali slitið en sambandi ekki.

I know, it´s only rock´n roll, but I like it


Snorri Jónsson 79 ára

Þetta sungum við bræður þegar faðir okkar varð sjötugur:

Vorvindar glaðir

Vorvindar glaðir,glettnir og hraðir, geysast um lundinn rétt eins og börn.
Lækirnir skoppa,hjala og hoppa, hvíld er þeim nóg í sæ eða tjörn.
Hjartað mitt litla, hlustaðu á; hóar nú smalinn brúninni frá.
Fossbúinn kveður, kætir og gleður, frjálst er í fjallasal.

(Helgi Valtýsson/Sænskt þjóðlag).

Til hamingju með afmælið pabbi

mánudagur, 14. maí 2007

Ljósvakinn I

Morgunblaðið. Mánudaginn 22. ágúst, 2005 - Fjölmiðlar
Ljósvakinn


Næst á dagskrá er klám


Mamma mín er með áskrift að fullt af stöðvum úti í heimi í gegnum breiðband Símans og kostar það svipað á mánuði og það sem maður er neyddur til að borga fyrir RÚV.

Mamma er með áskriftarpakka þar sem á annan tug stöðva er í boði en hægt er að kaupa dýrari pakka með mun fleiri stöðvum og í þeim pakka er boðið upp á klám. Ég veit ekki hvernig sú stöð er, hvort þar sé boðið upp á ljósbláar myndir eða grófari.

Það er ekki erfitt að nálgast klám - það flæðir um netið, búðir ýmiss konar bjóða upp á klámblöð og svo getur fólk alltaf laumupúkast á leigunum þótt mér sé sagt að sá bissness sé að deyja drottni sínum vegna þess hversu auðvelt er að niðurhala klámi á tölvuna. Þeir sem hafa áhuga eiga því í litlum vandræðum með að nálgast klám. Mér finnst samt einhvern veginn fáránlegt að boðin sé áskrift að klámstöð í gegnum breiðband Símans - finnst það hálf súrrealískt að geta keypt í einum og sama pakkanum barnaefni, fræðsluefni, kvikmyndir, fréttastöðvar og klám.

Hins vegar er það staðreynd að flest sem lýtur að nekt og kynlífi í kvikmyndum hefur gjörbreyst á síðustu árum og gerðar hafa verið kvikmyndir þar sem landamærin á milli klámmynda og svokallaðra venjulegra kvikmynda hafa verið þurrkuð út. Hvort allt klámefnið hafi haft svo mikil áhrif á fólk að það sé í dag ónæmt fyrir því sem áður hneykslaði er ekki auðvelt að segja til um.

Þegar ég var 11 ára gamall var sýndi RÚV kvikmyndina Everything You Always Wanted to Know About Sex* But Were Afraid to Ask, eftir Woody Allen. Sýning myndarinnar þótti þá hreinræktað hneyksli. Nú, rúmum tuttugu árum síðar, myndi sýning þessarar myndar litla athygli vekja og fáa hneyksla.

Hins vegar myndi kvikmynd á borð við 9 Songs eftir Michael Winterbottom væntanlega hneyksla einhverja enda er "allt sýnt" í þeirri mynd, þótt erfitt sé að finna tilganginn með því. Ekki styður það söguna, sem er ekki neitt neitt, og þetta hefur maður allt séð áður í klámmyndum hvort sem er. Ég á erfitt með að skilja tilganginn með slíkum myndum en kannski er þetta póstmódernisminn í sinni tærustu mynd?

Svanur Már Snorrason

föstudagur, 11. maí 2007

Einn af mínum uppáhalds


að KJÓSA

Þeir blaðra. Þeir lofa. Þeir rífast. Allir kunna þeir tungumál sannleikans og réttsýninnar. Og njóta hverrar stundar sem sviðsljósið baðar þá í. Þeir eru líka konur. Ekkert skárri fyrir það. Stjórnmálamenn. Vitleysingar og athyglissjúklingar upp til hópa og þeir eiga að stjórna apparatinu. Tilhugsunin er ekki góð. En nú þurfa breytingar að eiga sér stað - það er fyrir lifandis löngu kominn tími á þær - breytingarnar. Það er svo skrýtið að halda því fram að það verði að breyta eingöngu breytinganna vegna, en þannig er ástandið nú. Stóra málið í huga þess er þetta skrifar er að koma Framsóknarflokknum frá völdum. Pakka þeim saman og fara síðan í járnbræðsluna og ganga frá málinu í eitt skipti fyrir öll. Við verðum að taka króatísku leiðina á þetta: Engir fangar teknir. Ég held að hinir séu skárri. Bláa gengið reyndar búið að vera alltof lengi en það er ekki raunsætt að halda að þeir verði ekki áfram við völd. Ég vil að Ísland geti talist í sama gæðaflokki og (hin?) löndin í Skandinavíu hvað varðar svo margt. Ég vil ekki Ameríku þótt margt gott sé í henni. Ég vil Skandinavíu. Eitthvað samfélagslegt. Hugsað um heildina en ekki endalaust um fáa ríka, sem vilja verða miklu ríkari og er alveg sama um okkur hin sem strögglum um hver einustu helvítis mánaðarmót við það eitt að láta enda ná saman. Ég vil eitthvað annað en það sem boðið hefur verið uppá í mjög langan tíma. Vonandi eru nógu margir sem vilja það sama þannig að hægt sé að fella ríkisstjórnina.

miðvikudagur, 9. maí 2007

Bakþankar að mínu skapi

Las þessa Bakþanka um daginn. Góðir. Sérstakt að það sé kona sem skrifar þetta. Og gaman.

http://www.visir.is/article/20070501/SKODANIR06/105010084

þriðjudagur, 8. maí 2007

Pælingar 6

Nú er kortér í kosningar

Man einhver eftir kortér í þrjú gæjanum?

Eftir að opnunartími skemmtistaða var gefinn frjáls um síðustu aldamót hefur eiginlega ekkert spurst til kortérs í þrjú gæjans. Nú getur liðið áhyggjulaust haldið áfram að skemmta sér fram á morgun án þess að eiga það á hættu á að vera hent út. Tíminn til þess að að ná sér í maka er því talsvert rýmri en áður.

Aðstæður kortérs í þrjú gæjans voru á hinn bóginn ekki spennandi þegar honum var vísað út af skemmtistaðnum og útlitið nokkuð dökkt, að ná sér í píu. Þeir sem voru ölvaðastir og örvæntingafyllstir drógust eins og mý að mykjuskán að þeim dömum sem ekki voru búnar að krækja sér í gæja. Allt skyldi reynt til að ná sér í bólfélaga og eftir því sem örvæntingin varð meiri lækkuðu kröfurnar. Oft endaði kortér í þrjú gæjinn því með einhverri sem hann vildi lítið kannast við daginn eftir. Stundum þurfti hann að sætta sig við pulsu og beint heim að sofa, en frá því sagði hann sjaldnast.

Orðsporið sem fór af kortér í þrjú gæjanum taldist ekki merkilegt og hann þótti yfirleitt standa sig langt undir væntingum þegar á hólminn var komið. En skyldi þessi umtalaði gæji hafa runnið sitt skeið? Ég held ekki, því viðlíka hegðun má núna sjá víða í samfélaginu þótt undir öðrum formerkjum sé.

Hvað mig snertir finnt mér kortér í þrjú gæjinn hafa endurholdgast í stjórnmálamönnum sem standa í kosningabaráttu. Enda er nú stutt í kosningar og naumur tími til stefnu að krækja sér í atkvæði. Allt um kring og með stuttum fyrirvara sprettur fram fólk sem hefur haft sig lítið í frammi á liðnu kjörtímabili í þeim sama tilgangi og áður, að ná sér í atkvæði. Það lýsir eigin kostum, fullyrðir að það muni standa sig betur en hinir og loforðin eru í senn ölvuð og örvæntingafull. En það er eitthvað sem segir mér að efndirnar verði minni – jafnvel engar!

Nú er kortér í kosningar og allir kosningastjórnmálamennirnir á útopnu. Hvað svo sem við veljum skulum við vona að við sitjum ekki uppi með kortér í þrjú gæjann næstu fjögur árin.

Víkurfréttir, 25. maí 2006

sunnudagur, 6. maí 2007

And you've been so busy lately that you haven't found the time to open up your mind


Ætli ástæðan fyrir því að maður er svona lokaður geti verið sú að það er ekkert mikið þarna á bakvið?


Kannski - kannski ekki.


Breytist varla úr þessu.


Rífið alla leið.

laugardagur, 5. maí 2007

Ibiza 1996


W: Djöfull varstu fullur í gær. Hentir einhverju drasli af svölunum beint oní laugina. Hvað var málið?

C: Kjaftæði, vertu ekki með þetta bull. Þú varst sjálfur blindmígandifullur og gerðir ekki annað en að stara bæði á ensku stelpuna og danska strákinn sem var á fullu að reyna við hana.

W: Er ekki í lagi með þig. Ég var rólegur í gær. Þessi danski fékk ekki neitt nema smá munnvatn frá þessari ensku. Hún var svona all show no go plús tíser dauðans. Grey danskurinn.

C: Grey þú segi ég nú bara. Biðjandi hana um sígó og þú reykir aldrei. Ekki nema hass. En þú baðst um sígó. Djöfull varstu paþetikk.

W: Þú ert nú bara öfugur. Fórst pottþétt öfugt framúr í morgun, drullusvekktur yfir að vakna enn einu sinni einn. Farðu og skelltu í þig einum afréttara. Þér veitir ekki af.

C: Þú ert bara sjálfur fúll. Vaknaðir líka einn. Meiri kötturinn. Hvort leist þér betur á þá ensku eða þann danska?

W: Heyrðu, varst þú semsagt að horfa á mig horfa á þá ensku horfa á þann danska?

C: Bein sjónlína.

W: Hann var nú sætur Daninn, en hún var auðvitað kvenkyns.

C: Já, það var nú það eina sem hún hafði framyfir hann.

fimmtudagur, 3. maí 2007

Hressandi


Ískaldir regndroparnir falla á höfuðföt syngjandi leikskólabarna. Tært loftið kallast á við regndropana og úr verða hinar skemmtilegustu samræður og söngurinn setur punktinn fyrir aftan hverja setningu.

miðvikudagur, 2. maí 2007

Lítill gimsteinn frá David Bowie (sorglegt að þetta fallega lag sé aldrei spilað í útvarpi)


Letter To Hermoine

"The hand that wrote this letter
Sweeps the pillow clean
So rest your head and read a treasured dream
I care for no one else but you
I tear my soul to cease the pain
I think maybe you feel the same
What can we do?
I'm not quite sure what we're supposed to do
So I've been writing just for you
They say your life is going very well
They say you sparkle like a different girl
But something tells me that you hide
When all the world is warm and tired
You cry a little in the dark
Well so do I
I'm not quite sure what you're supposed to say
But I can see it's not okay
He makes you laugh
He brings you out in style
He treats you well
And makes you up real fine
And when he's strong
He's strong for you
And when you kiss
It's something new
But did you ever call my name
Just by mistake?
I'm not quite sure what I'm supposed to do
So I'll just write some love to you

þriðjudagur, 1. maí 2007

Bikar fuglsins


Þórmögur: Kaldlyndur ertu frændi. Kæmi mér ekki á óvart að þú værir gerður úr málmi einhverjum.


Tréspíritus: Úr málmi. Hvert sem ég lít sé ég ekkert annað en frosna jörð og fagurbláan himin.


Þórmögur: Brýna skaltu sverð þitt, styrkja skaltu skjöldinn, hertu ólina líka.


Tréspíritus: Frændi, það er ekki tími kominn á uppgjör, sá er drekkur úr mínum bikar skal blindur verða.


Þórmögur: Fuglinn er ekki floginn, hann er kominn til að sækja. Mig eða þig, það er spurningin. Hefur þú svar?


Tréspíritus: Ég drakk úr þínum bikar, ég sé vel en heyri fremur vel, tala bjagað mál. Skiptir það einhvern máli?


Þórmögur: Hann sækir þig, hann Valur, hann Örn, hann þessi fallegi og vængsterki. Hann vill augunum halda, sjón hans er það mikilvægasta sem hann á. Hann sækir þig.


Tréspíritus: Já, hann gerir það og skilur bikarinn eftir í þinni vörslu. Veit að þú freistast. Þú munt falla í freistni. Þú getur ekki annað.


Þórmögur: Ég get ekki annað.