föstudagur, 1. júní 2007

Ljósvakinn III

Morgunblaðið. Þriðjudaginn 20. september, 2005 - Fjölmiðlar
Ljósvakinn

Áfram X-FM

Það var vont þegar hinir miklu markaðssnillingar 365 ákváðu fyrr á árinu að leggja niður tvær bestu útvarpsstöðvar þess fjölmiðlafélags, Skonrokk og X-ið. Þær þóttu ekki skila nægilega miklu fé. Áfram skyldi haldið að útvarpa froðunni frá FM 957 og meðalmennskunni á Bylgjunni, þar sem markmiðið er að allir finni tónlist við sitt hæfi. Bylgjan spilar steingelda tónlist sem engan truflar og engum hreyfir við og það virðist vera markmiðið og því hafa Bylgjumenn svo sannarlega náð.

En aftur að dauða Skonrokks og X-ins. Engin svipuð stöð og Skonrokk hefur á ný verið sett á laggirnar en djarfir, ungir og skemmtilega ruglaðir menn, settu á stofn útvarpsstöðina X-FM. Og viti menn, þeir fengu þrælmikla hlustun, og hvað skyldi hafa gerst þá? Nú, auðvitað endurreisti 365 X-ið. Forráðamenn 365 vildu þó ekki kannast við að þeir hefðu endurreist X-ið í kjölfar vinsælda X-FM en því rugli trúir ekki nokkur kjaftur. Hins vegar er nýja X-ið ekki nema daufur skuggi af X-FM, hálfgerður uppvakningur.

X-FM er hins vegar, ásamt Rás 2, langbesta og ferskasta tónlistarútvarpið hér á landi - þar ráða menn ríkjum sem kunna að rífa kjaft og hafa vit á tónlist. Í það minnsta kann Freysi að rífa kjaft og Smári Tarfur veit ýmislegt um tónlist. Með svona menn innanborðs er gaman að hlusta á þessa stöð og sjá hversu kraftmiklir menn fá áorkað fái þeir á annað borð frið fyrir einhverjum markaðsfíflum sem allt þykjast vita um rekstur.

Það sem menn á borð við Freysa og Smára Tarf vita er að unga fólkið í dag, og margir fleiri, vilja hlusta á kraftmikið, ferskt og ögrandi útvarp og ekkert kjaftæði. Þar sem engir "playlistar" eru í gangi og menn geta óhræddir mætt í vinnuna og gert það sem þeir vilja án þess að einhverjar mannvitsbrekkur í teinóttum jakkafötum séu eitthvað að krefja menn um ákveðna hegðun og það að spila ákveðna tónlist vegna þess að þeir haldi að það sé það sem geri gott útvarp.
Staðreyndin er allt önnur og ég hvet þá á X-FM til dáða, þið eruð að gera frábæra hluti.

Svanur Már Snorrason

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nú er mér nóg boðið. Að ætla fólki að hlusta á þvílíkt garg, öskur, sarg, hróp, þvælu, öfuguggahátt, heimsku, dóprugl og þrífst á þessum stöðvum. Mér er öldungis sama hvað þessar stöðvar heita, Flash eða Krash eða FSJ eða FM eitthvað og ekki bæta nöfn þáttastjórnendaheimskinganna úr skák, Gömmi, Hnakkinn, Tvíhöfði og Gúndi, hvað þetta allt nú heitir. Væri ekki nær að skrifa umfjöllun um þætti á gömlu gufunni sem ríkisstjórnin ætlar núna að drepa endanlega. Væri ekki ráð að fara að berjast fyrir raunverulegum menningarverðmætum. Hvers konar þvæla fyrirfinnst á þessari bloggsíðu. Abraham.

Nafnlaus sagði...

Er fleiri en einn Abraham í gangi?

:) Kv, Svanur