laugardagur, 27. júní 2009

Séð og Heyrt Móment 4


GULL OG METORÐ GAGNA EKKI,

GANGIR ÞÚ MEÐ SÁLARHLEKKI

Hlustaði nýlega á hið fallega lag Bergþóru Árnadóttur, Lífsbókin, en þar er textabrotið í fyrirsögn að finna. Texti lagsins er eftir Laufeyju Jakobsdóttur, oftlega kennd við Grjótaþorpið.

Fannst lagið passa við umræðuna í íslensku samfélagi í dag, um fyrirgefninguna.

Biskup biður nokkrar konur að fyrirgefa fyrrum biskup misgjörðir sínar sem áttu sér stað fyrir meira en áratug.

Þjóðin vill að útrásarvíkingarnir biðjist fyrirgefningar á nýlegum gjörðum sínum sem hafa komið samfélaginu á heljarþröm.

Það reynist mörgum erfitt að biðjast fyrirgefningar. Og sumum reynist enn erfiðar að fyrirgefa.
Samt er hvoru tveggja lausn. Það losnar um sálarhlekki fyrir tilstuðlan fyrirgefningarinnar.

En það er ekki hægt að kaupa fyrirgefningu og þú heldur ekki endalaust niðri tilfinningum fólks í nafni kristinnar trúar.

Þetta vita útrásarvíkingarnir og þetta veit biskupinn. Mætavel.
Samt halda þeir áfram að stanga vegginn.

Í dag eru uppgjörstímar. Uppgjör kalla á fyrirgefningu eða stríð. Of oft hefur stríðið orðið fyrir valinu. Það sannar sagan. En vonin lifir. Og biðjist kirkjunnar menn afsökunar og gera upp mál fyrrum biskups, og biðjist útrásarvíkingarnir opinberlega afsökunar og skila ránsfengnum, mun þeim líða betur. Ég segi það satt.

Lýk pistlinum á sömu slóðum og hann hófst. Í lífsbókinni:

Ljúktu nú upp lífsbókinni, lokaðu ekki sálina inni. Leyfðu henni í ljóði og myndum, leika ofar hæstu tindum. Svipta burtu svikahulu, syngja aftur gamla þulu. Líta bæði ljós og skugga, langa til að bæta og hugga.


Séð og Heyrt (22. tbl. - 2009)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

flottur pistill!

kv. Kalas

Nafnlaus sagði...

Takk frænka góð, gott og gaman að fá hrós frá þér :)