miðvikudagur, 2. september 2009

Séð og Heyrt Móment 7


ÖSKRUM OKKUR Á EM!

Veit hvernig karlalandslið Íslands kemst á EM og HM í fótbolta. Stelpurnar eru komnar á EM og því skömm fyrir strákana að búa við það.

Hef reynslu í þessum efnum; verið leikmaður, þjálfari, dómari, línuvörður og íþróttafréttamaður; allt með glans.

Málið er einfalt - burt með flækjur og gerum okkur grein fyrir því að við getum ekkert í fótbolta.
Það þýðir ekkert að reyna að spila flottan fótbolta. Eigum að vera fyrirsjáanlegir. Nota leikkerfið 9-1. Allir í vörn nema einn; fara óhræddir í tæklingar og gefa ekkert eftir. Horfa hýru auga til skyndisókna. Munum fá eitt og eitt færi.

Síðan eigum við að öskra hvor á annan og andstæðinginn - allan tímann - líka fyrir og eftir leiki; berjast eins og annað Tyrkjarán væri í uppsiglingu.
Þjálfarinn á líka að öskra allan tímann og hann á alls ekki að vera fínt klæddur eða kurteis. Og hann verður að vera órakaður.
Til að þetta gangi þurfum við að hætta að spila á Laugardalsvelli en þar er stemningin svipuð og í líkhúsi, jafnvel þótt uppselt sé. Kaplakrikinn er málið - völlur með mikilli nálægð áhorfenda.
Við eigum þrjá þjálfara sem uppfylla þessi skilyrði - Ólaf Þórðarson, Willum Þór Þórsson og Þorvald Örlygsson. Fúllyndir menn sem þola ekki gagnrýni og kunna að spila úr aðstæðum.

Ólafur hefur kennt Fylkismönnum að berjast, Þorvaldur gert Fram að þokkalegu liði og Willum kom Haukum upp um tvær deildir á tveimur árum!
Þessir menn geta allt í fótbolta, þótt þeir hafi í raun aldrei getað neitt. Nema að átta sig á aðstæðum og gera sér grein fyrir eigin takmörkunum. Og það er málið.
Séð og Heyrt (35. tbl. - 2009)

Engin ummæli: