Með typpi um hálsinn
Ég vil ekki vera með typpi um hálsinn.
Ekki hrifinn af því að vera með bindi. Finnst þá að mér þrengt – líður illa. Hef því afar sjaldan sett upp bindi. Kann ekki að binda hnút - ætla ekki að læra það.
Þá finnst mér ekkert flott við það að vera með bindi; eitthvað sem hangir framan á þér sem búið er að herða um hálsinn. Gerir að mínu mati lítið fyrir flott jakkaföt og skyrtu – skemmir stílinn og þrengir að öndunarfærunum.
Það er ekki nóg að mér finnist að mér þrengt með bindi um hálsinn heldur líður mér á einhvern óútskýranlegan hátt eins og ég sé þá með typpi um hálsinn.
Finnst því undarlegt þegar til þess er ætlast, jafnvel krafist, að menn séu með bindi við ákveðin tækifæri – það sé hátíðlegt og beri vott um virðingu fyrir tilefninu, tækifærinu.
Hvernig getur það verið virðingarvottur að hnýta bindi um hálsinn á sér? Eða slaufu? Sem er nú efni í aðra grein. En það er reyndar allt í lagi að skylda alþingismenn að hafa typpi, ég meina bindi, um hálsinn, svona til aðgreiningar.
Þessi tilfinning að vera með typpi um hálsinn er ekki þægileg, þótt ég sé ekki á neinn hátt að gera lítið úr fólki sem vill hafa typpi um hálsinn. Vil ekki þessi tilfinningu aftur, ætla ekki að finna hana aftur.
Og þá vitið þið það: Ég vil ekki vera með typpi um hálsinn.
Séð og Heyrt (18. tbl. - 2009, 7. - 13. maí)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli