þriðjudagur, 12. maí 2009

Séð og Heyrt Móment 2


Fegurðardrottningin sem fitnaði


Einu sinni var lítil stúlka sem dreymdi um að verða fegurðardrottning. Draumur hennar rættist næstum því. Tvítug tók hún þátt í fegurðarsamkeppni þjóðarinnar. Var valin sokkabuxnastúlkan og var býsna sátt.

Fegurðarkeppendurnir héldu hópinn og hittust einu sinni á ári. Þar var glatt á hjalla og fegurðin blómstraði; alveg æðislegt.

En svo dundi ógæfan yfir hjá litlu stúlkunni sem dreymdi um að verða fegurðardrottning – hún fór að fitna. Réð ekki neitt við neitt og þegar hún mætti í hinn árlega fagnað, fimm kílóum þyngri en árinu áður, uppskar hún augnagotahýðingu og kuldinn í samræðunum var á við færeyska frystikistu.

Henni leið illa en skildi þá hvað lífið gengur út á; ytra útlit og yfirborðskennda framkomu sem virðist vera sjálfstraust, háa hæla og sundbol. Áttaði sig á þeim sannindum að það er ekki nóg að vera góð manneskja.

Hún lagði því mikið á sig til að ná af sér kílóunum fimm, og meira til. Ætlaði ekki að lenda í slíkri uppákomu aftur, að verða niðurlægð af bestu vinkonum sínum – enda vissi hún vel að allt þetta var henni sjálfri að kenna – að fitna er jú ein af höfuðsyndunum sjö. Eða voru þær átta?

Með strangri megrun og líkamsrækt fór allt að ganga upp, og niður. Hún var aftur meðtekin sem fullgild fyrrum fegurðardrottning – enda hafði hún iðrast og gert yfirbót.

Það er hægt að læra af þessari sögu. Draumar rætast, iðrun færir frið, sannir vinir eru gulls ígildi og fegurð lífsins er mikil. Ef þú fitnar ekki.


Séð og Heyrt (14. tbl. - 2009, 9. - 15. apríl)

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hahaha :)

Nafnlaus sagði...

Þetta er æði! Besta sem ég hef lesið lengi. Knús að eilífu. KÓ

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir það :)

Kv, Svanur