föstudagur, 1. apríl 2011

ÉG OG DAVID BOWIE


Þegar ég varð níu eða tíu ára gamall reiddist ég Jóni bróður mínum fyrir að gefa mér ekki safnplötu með bresku hljómsveitinni Queen í afmælisgjöf. Reiddist er kannski ekki rétta orðið – mér sárnaði. Vildi ekki plötuna sem hann gaf mér – var búinn að segja honum með skýrum hætti að ég vildi plötuna með Queen.

Vá, þvílíkur frekjukrakki, gætu lesendur nú hugsað, og kannski var ég frekur og tilætlunarsamur. En Jóni bróður gat ekki verið meira sama. Hann vildi gefa litla bróður sínum gott tónlistarlegt uppeldi – og í gegnum hann hafði ég, smápattinn, hlustað mikið á Bítlana og John Lennon, Genesis og fleiri góða. Á þessum tímapunkti fannst honum að ég þyrfti að auka fjölbreytnina í tónlistarvali og í afmælisgjöf gaf hann mér safnplötu með David Bowie, tónlistarmanni sem ég hafði varla heyrt minnst á og aldrei hlustað á.

Eftir að afmælinu lauk og ég hafði jafnað mig á vonbrigðunum ákvað ég nú að prófa að hlusta á þennan David Bowie, og síðan þá hefur hann verið mitt tónlistarlega leiðarljós í lífinu – þarna í þessum granna manni fann ég allt sem ég var að leita að. Hef síðan þá hlustað á ótal tónlistarmenn og hljómsveitir í flestum geirum en enginn hefur staðið David Bowie snúning, þótt ýmsir hafi komist þar nærri, enda er Bowie einn áhrifamesti og fjölhæfasti tónlistarmaður sögunnar.

Gjöfin sem Jón bróðir gaf mér olli mér miklum vonbrigðum en snerist upp í gleði sem sér ekki enn fyrir endann á. Lífið getur nefnilega stundum orðið áhugaverðara við að fá ekki það sem maður vill, heldur eitthvað allt annað. Og jafni maður sig á frekjukastinu er allt eins víst að við manni blasi nýr og skemmtilegri heimur, svona eins og Séð og Heyrt kappkostar að skapa í hverri viku.

Svanur Már Snorrason

(Leiðari Séð og Heyrt, 45. tbl., 4. nóvember 2010)

Engin ummæli: