fimmtudagur, 31. mars 2011

VINUR Í RAUN


Að vera vinur í raun er ekki klisja, heldur er vinátta eitt það dýrmætasta sem einstaklingur getur öðlast; sönn vinátta annars eða annarra fylgir manni í gegnum allt lífið og gæðir það meiri dýpt og tilgangi.

Það er ekki hægt að kaupa sanna vináttu, sama hversu mikið fé er í boði – það vita allir sem hafa kynnst sannri vináttu.

Og vináttan er dýrmætust þegar erfiðleikar steðja að, hvort sem um ræðir á barnsaldri, unglingsaldri eða á fullorðinsárum. Og þá skiptir ekki máli hver vandinn er; sannur vinur yfirgefur ekki vin sinn í raun – svoleiðis gera sannir vinir bara alls ekki.

Erfiðleikarnir sem ég minntist á eru prófsteinn sannrar, raunverulegrar vináttu. Þegar eitthvað bjátar á kemur í ljós hver er sannur vinur í raun og hver ekki – það hef ég í það minnsta reynt og margir aðrir sem ég þekki vel. Sumir átta sig nefnilega ekki á því að það er mikill munur á sannri vináttu og kunningsskap, sem er alls ekkert slæmur, en einfaldlega langt frá því að vera alvöruvinátta. Hins vegar getur kunningsskapur snúist upp í sanna vináttu, sem betur fer. Og vinátta getur líka, því miður, eyðilagst af ýmsum völdum.

En ég segi hiklaust: Aldrei að afskrifa vin þinn. Vinir rífast og slást, talast ekki við í langan tíma og hugsa oft hvor öðrum þegjandi þörfina. Svo líður tíminn og þoka gleymskunnar færist yfir og afmáir deilumálin sem voru í raun aldrei neitt neitt. Svo næst þegar vinirnir sem voru að rífast hittast eftir langan tíma er eins og ekkert hafi ískorist og tíminn staðið kyrr; andartakið verður nútíð, framtíð og fortíð í einni svipan.

Vinátta er djúp og kemst aldrei í tísku og fer heldur aldrei úr tísku. Vinátta er.

Vinir hvorki velja hvor annan né yfirgefa hvor annan; djúp vinátta er tengsl sem verða ekki rofin, og gera lífið skemmtilegra, eins og við hér á Séð og Heyrt kappkostum að gera nú sem aldrei fyrr.

Svanur Már Snorrason

(Leiðari Séð og Heyrt, 44. tbl., 28. október 2010)

Engin ummæli: