föstudagur, 8. apríl 2011

GLEÐILEGT STJÓRNLAGAÞING



Kosningarnar til stjórnlagaþings voru um margt merkilegar – og þá ekki síst hin dræma þátttaka almennings – en rétt um fjörutíu prósent kosningabærra Íslendinga sáu sér fært að mæta á kjörstað; sem eru vonbrigði, sér í lagi ef miðað er við tölur í Alþingis- og sveitarstjórnarkosningum, þótt vissulega hafi kosningaþátttaka okkar Íslendinga minnkað nokkuð á undanförnum árum.

En af hverju ætli svo margir hafi ákveðið að sitja heima – kosið að kjósa ekki?

Ástæðurnar eru eflaust margar og persónulegar; sumum fannst hreinlega erfitt að ætla að kjósa allt upp í tuttugu og fimm manneskjur af lista sem innihélt á sjötta hundrað manns. Öðrum fannst kostnaðurinn við þetta of mikill og þá skildu ekki allir, eða kynntu sér ekki nægilega vel, hvað var einfaldlega í gangi og hver nákvæmlega tilgangurinn með þessum kosningum væri.

Það sem sló mig þó einna mest, og ég upplifði bæði í beinum samræðum við fólk og með því að lesa greinar í blöðum og á Netinu, var hræðsluáróður. Hræðsla.

En við hvað?

Eins og að væntanlegt stjórnlagaþing myndi hrófla við fastmótuðu kerfi og stjórnarskrá og þá myndu sko slæmir hlutir og algjörlega óþarfir gerast. Já, einmitt! Hræðsla við breytingar í samfélagi sem fór nýverið á hliðina vegna vanhæfra stjórnmálamanna og spilltra fjármálamanna. Það skil ég ekki. Eða kannski geri ég það?

Þeir sem höfðu sig nefnilega mest í frammi með hræðsluáróðurinn og töluðu gjarnan niður til væntanlegs stjórnlagaþings eru flestir flokksbundnir og hræddir við breytingar; óttast kannski að missa spón úr aski sínum ef staðnað og spillt íslenskt stjórnmálalíf fær langþráða andlitslyftingu og löngu tímabæra ristilskolun.

Við sem þjóð eigum að fagna breytingum – þær geta varla stuðlað að verri hlutum en allri spillingunni og hruninu. Breytingar gera oftast lífið skemmtilegra, eins og Séð og Heyrt gerir í viku hverri.

Svanur Már Snorrason

(Leiðari Séð og Heyrt, 49. tbl., 2. desember 2010)

Engin ummæli: